25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg nú, að þessari síðari ræðu hv. 1. flm. sé eiginlega fullsvarað með einni spurningu: Hvernig stendur á því, að engin ákvæði eru um það í frv., að launamismuninn skuli minnka nú á næsta ári, á árinu 1961? Hvers vegna þarf það að bíða í eitt ár og tvo eða þrjá mánuði, að nokkuð sé gert í þessu máli af hendi löggjafans? Hvaða ástæður liggja til þess?

Ég vil benda hv. flm. á það, að árið 1953 var a.m.k. 2. hv. flm. þessa frv. ekki svo svartsýnn á getu íslenzkra atvinnuvega sem hann virðist vera nú í þessu efni, þ.e.a.s. hv. varaforseti d., sem nú stýrir fundi. Þá var hann 2. flm. ásamt núv. forseta Alþýðusambands Íslands að frv., sem gerði ráð fyrir því, að fullu launajafnrétti yrði náð þá þegar. Nú hefur að vísu mikið vatn runnið til sjávar síðan 1953, það eru sjö ár síðan, en ég hygg þó, að það geti engra manna dómur verið, að við stöndum verr að vígi í þessu efni nú en þá. Það eru þess vegna einhverjar aðrar ástæður, sem liggja til hógværðar hv. flutningsmanna nú í þessu efni, heldur en þær, að þeir hafi alltaf talið, að atvinnuvegirnir þyldu ekki slíka breytingu.

Hitt er svo alveg misskilningur hjá flm., að ég hafi sérstaklega mótmælt því, að frv. gerði ekki ráð fyrir því, að fullt launajafnrétti næðist í einum áfanga. Ég sagði einmitt, að það kæmi til greina að ná þessu marki í áföngum, en hins vegar það, sem ég átaldi sérstaklega í frv. og geri enn, er, að einmitt á þeim tíma, þegar verkalýðsfélögin og verkakvennafélögin eru að búast til úrslitabaráttu í málinu, þá skuli ekki vera vikið að því einu orði í frv. sem þessu, og þetta veit ég að hv. flm. skilur eins vel og ég og aðrir.

Það er líka alveg úr lausu lofti gripið hjá hv. ræðumanni, að ég beri einhverja ábyrgð á störfum jafnlaunanefndar, Ég á hvorki sæti í henni né hef haft neitt með hennar störf að gera og tel mig ekki þess umkominn að lasta hennar störf, gagnrýna þau né hæla þeim. Það má vel vera, að hún hafi unnið verr en skyldi. En það afsakar á engan hátt, hvernig þetta frv. er úr garði gert, og afsannar ekkert um það, sem ég hef sagt í því efni.