24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eitt af því, sem konurnar hafa haft út á okkur karlmennina að setja, er það, hvað við höfum verið seinir til að viðurkenna, að þær væru í öllum efnum jafnréttháar og við. Og þegar maður hugsar nú um þetta og gerir sér grein fyrir því, hvað maður metur konurnar mikils og mennirnir hafa alltaf metið konurnar mikils, þá má þetta teljast býsna undarlegt, og víst er nú svo komið skilningi nútímamannsins, að hann ætti að hætta því að láta konurnar þurfa að berjast til jafnréttis á móti sér. Konurnar hafa verið áhugasamar um þetta eins og fleira. Okkur hefur oft þótt vænt um áhuga þeirra, en mörgum hefur samt stundum mislíkað þessi áhugi. Enn eru þær áhugasamar, eins og hér getur að líta á pöllum Alþingis, og hafi þær heiður fyrir það.

Baráttan fyrir launajafnréttinu er nú að komast á lokastig, og það þýðir ekki fyrir neina karlmenn að tregðast við að viðurkenna það. Þetta er hagsmunamál kvenna, en það er líka mannréttindamál þeirra. Ísland hefur gerzt aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni og fullgilt jafnlaunasamþykkt hennar og þar með skuldbundið sig til að styðja að því, að launajafnrétti komist á. Lög hafa verið sett um launajafnrétti hjá starfsmannaliði ríkisins, eins og sagt var frá hér áðan. Bæjar- og sveitarfélög munu yfirleitt greiða konum sem körlum sömu laun fyrir sömu störf. Allvíða hafa konur gert samninga um sama kaup og karlmenn í sérstökum starfsgreinum, t.d. við suma fiskvinnu. Þá frétti ég nú í þingskjali, að konur á Skagaströnd hafi gert samning um sömu laun fyrir sig og karlmenn fá. Eftir er því aðeins fyrir Íslendinga að stíga sporið heilt, svo að allar konur, sem selja vinnu sína, njóti sama réttar.

Ég gat ekki orðið meiri hl. heilbr.- og félmn. samferða í þessu máli, eins og hv. frsm. meiri hl. n. gat um hér áðan. Ágreiningur minn byggðist á því, að ég taldi, að það ætti ekki með fram komnu frv. að stíga sporið heilt og hiklaust. Ég álít, eins og nú er komið, þá sé verið að skapa misrétti milli kvenna með því að draga það að leiða í lög launajafnrétti fyrir allar konur á móti karlmönnum.

1. gr. frv., sem inniheldur aðalefni þess, er um það, að á 6 árum skuli laun kvenna hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf í eftirfarandi starfsgreinum: „Almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu.“ Þessi grein gerir ráð fyrir því, að jafnréttið skuli skammtað í sex sneiðum, einni sneið á ári. Mér finnst enn þá vera sú undarlega, gamla tregða karlmannanna hjá þeim, sem flytja þetta frv., til að viðurkenna rétt konunnar, þó að ég efist hins vegar ekki um það, að í ýmsum efnum meta þessir menn þær mikils. Og annað finnst mér að þessari grein, og það er það, að hún er ekki yfirtæk um starfsgreinarnar: Eftir verða ýmsar konur, sem tilheyra ekki þeim starfsgreinum, sem þarna eru teknar upp. Það er gamla sjónarmiðið að skeyta ekki um einstæðinginn eða þann, sem er ekki þannig settur, að hann gangi eftir rétti sínum eða gengið verði eftir rétti hans með samtökum af annarra hálfu. Ég kann ekki við þetta. Mér finnst þetta frv. því vera allt of smámunalegt til þess að bjóða konum dagsins í dag upp á það.

Fleira í frv. er athugavert. Það er gert ráð fyrir því, að heilmikla vafninga þurfi til þess að fá launahækkunina, og það eru gerðar ráðstafanir til þess í frv., 3. gr. þess, að stofnuð sé ný nefnd ríkislaunuð. Út af fyrir sig er það snurða á þræði þeirra, sem fara nú með stjórn landsins, að ætla að fara að stofna nýja nefnd, því að þeir hafa lýst því yfir, að þeir ætli að fækka nefndum, en ekki fjölga, ekki stofna nýjar nefndir, heldur leggja niður gamlar nefndir og vera endurbótamenn í þeim efnum. En syndin virðist liggja við þeirra dyr eins og annarra. Til þessarar nefndar á að þurfa að sækja um leyfi til þess að fá hækkun þá, sem 1. og 2. gr. þó ákveða, fá sjöttunginn, eða a.m.k. þarf að fá staðfestingu á því, að sneiðin sé rétt skorin, ef fólkið hefur aflað sér hennar sjálft með samningi. Mér virðist þessi nefnd algerlega óþörf. Ég sé ekki betur en að ef þetta frv. verður að lögum, þá seinki það málefnum kvenna í þessum efnum.

Eins og hv. frsm. meiri hl. las upp eða gerði grein fyrir, hafa samtök vinnuveitenda mælt á móti þessu frv. af þeirri ástæðu, að þau eru mótfallin launajafnréttinu. Mundu þau samtök vera líkleg til þess að fara að semja um það að hækka laun kvennanna meira en lögboðið væri, ef þetta frv. yrði að lögum? Ég tel það alls ekki líklegt. Ég tel það einmitt gefinn hlut, að verði þetta frv. samþ., þá muni hækkunin falla í þann farveg, sem það markar, þá muni ekki koma frétt utan af landi um það, að stéttarsamtök kvennanna hafi fengið samninga upp á jöfn laun og karlmenn, eins og sú frétt, sem ég a.m.k. heyrði fyrst áðan frá Skagaströnd. Ég held þess vegna, að það sé algert víxlspor að samþykkja svona frv. Ég held, að það sé ógreiði, sem flm. eru að gera þessu málefni kvennanna, sem þær eru alveg að sigra í. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að láta þær hafa réttindin.

Ég tel skv. framansögðu, að þetta frv. eigi ekki að samþykkja, og ég hef lagt hér fram á þskj. 638 brtt. við frv., sem eru á þá leið, að ég hygg, að konur hljóti vel við að una og sé karlmönnunum sómi að samþykkja. Ég legg til, að 1. gr. verði breytt þannig: „Konur skulu hafa sömu laun og karlar fyrir sömu störf.“ Allar konur. Ég vil ekki, að til sé nein Sigurlína, sbr. sögu Kiljans, Sölku Völku. Ekkert olnbogabarn í þessum efnum, engin kona út undan, hvaða störf sem hún vinnur til móts við karlmenn og hvort sem hún er í stéttarsamtökum eða ekki.

Ég legg svo til, að öðru leyti, að 2., 3., 4. og 5. gr. frv. falli niður. Þær eru óþarfar. Þær mæla fyrir um vafninga og vafstur, sem ekkert gildi hefur. Og svo legg ég til, að 6. gr. verði breytt, — hún verður þá 2. gr., — á þá leið: „Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1961.“

Ég vil sem sé engin sex ár láta ganga í það að veita konunum þennan rétt, sem nú má telja orðinn sjálfsagðan. Ég vil, að þær fái þennan rétt á miðju þessu ári, og ég vænti þess, að karlmennirnir í þessari hv. d. telji sér skylt vegna kynna sinna af góðum konum að samþykkja þetta frv., og þá efast ég ekki heldur um, að fulltrúi þeirra, konan í hv. d., verður ekki mótfallin því.