24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls flutti 1. flm. frv. ýtarlega framsöguræðu um málið í heild, og aftur nú við upphaf þessarar umræðu hefur frsm. hv. heilbr.-og félmn. einnig gert mjög glögga grein fyrir frv. og tilgangi þess. Það er því að bera í bakkafullan lækinn að fara nánar út í einstök atriði frv., umfram það, sem tilefni hefur gefizt til af ræðum tveggja síðustu hv. þdm.

Ég sé ekki betur en þetta frv. hafi þegar unnið sinn fyrsta sigur með því að leiða af sér þskj. 638, frá Karli Kristjánssyni: Ýmsu hefði verið spáð um flokk hans í þessu máli, og ýmiss konar reynslu hafa verkalýðssamtökin af undirtektum hv. framsóknarmanna undir þeirra mál hér á Alþingi, en ég held, að enginn hefði þorað að spá því, að það ætti fyrir þessum hv. þm. að liggja að flytja þær brtt., sem hann hefur nú þegar gert á þskj. 638.

Ég læt þetta nægja um þetta atriði, en vísa að öðru leyti til þess, að búið er að rekja þá sögu málsins, sem átt hefur sér stað hér í þingsölunum frá 1948 til dagsins í dag, og ekki hefur heyrzt eitt einasta kvak úr þingflokki Framsfl. þessu máli til stuðnings fyrr eða síðar. Svo er nú hlaupið til, þegar í stjórnarandstöðu er komið, og tekið að sér það hlutverk, sem öðrum hefur verið ætlað hingað til, þ.e.a.s. yfirboðshlutverkið.

Mér fannst það vera í rökréttu framhaldi af þessu, þegar ræðumaður komst þannig að orði, að hann sagði, að það teldist býsna undarlegt, hvað við karlmennirnir værum oft seinir í réttindamálum kvenna. Ég held, að þetta sé alveg réttilega að orði komizt, sér í lagi hvað Framsfl. áhrærir. Það er allt of smátt, sagði ræðumaður, að bjóða upp á það, sem í þessu frv. er gert, og það er til niðurlægingar og karlmönnunum til háðungar að bjóða kvenfólkinu upp á slíkt frv., sem hér er flutt.

Ég verð nú að segja, að eftir þá reynslu, sem fengin er af undirtektum undir þessi mál hér á s.l. 10 eða 12 árum, þá er áreiðanlega enginn maður í verkalýðssamtökunum, hvað svo sem menn segja annars hér, í neinum vafa um, að hér er stórkostlegt skref fram á við, og ef einhver er í vafa um það, þá bið ég þann hinn sama að lesa yfir meðmælendalistann úr fulltrúahópi verkakvennanna sjálfra frá síðasta Alþýðusambandsþingi. Þær telja það áreiðanlega spor í rétta átt og væru annars ekki að mæla með því. Ég held, að sá meðmælendalisti, sem hér liggur fyrir, verði ekki heldur flokkaður í sérstaka pólitíska flokka, og ég held, að það væri rétt, að a.m.k. þeir fulltrúar Alþb., sem hér eiga eftir að tala, renndu augunum yfir þann lista, áður en þeir halda lengra í svigurmælum og andstöðu sinni við frv.

Báðir hv. síðustu ræðumenn lögðu á það megináherzlu, að frv. þetta gæti hindrað það, að frekari samningar næðust, þ.e.a.s. að launajafnréttinu yrði komið á á skemmri tíma en sex árum, sem frv. gerir ráð fyrir. Fyrir þetta er algerlega girt, eins og hv. síðasti ræðumaður var nauðbeygður til að lesa hér upp, í 5. gr. frv. Frv. er að meginefni um það, sem hefur áður verið margskýrt, að í síðasta lagi komi þetta launajafnrétti eftir sex ár, á sjötta ári, en hindri ekki á nokkurn hátt, að félög geti samið um launajafnrétti á skemmri tíma. Það er hálmstrá, sem gripið er til vegna þess eins, að þeir telja, að samþykkt þessa frv. gæti orðið fjöður.í hatti þeirrar ríkisstj., sem þeir annars hafa ekki neitt sérstakt álit á.

Það er ógreiði við konur að samþykkja þetta frv., sögðu þeir báðir, og bentu þá m.a. á það, að á Skagaströnd, — og síðan var bent á Tálknafjörð, — hefðu náðst samningar um launajafnrétti, sem er allvíðtækara en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég verð nú að segja það með fullri virðingu fyrir þessum tveimur stöðum, — og nota þá tækifærið til þess að lýsa ánægju minni yfir því, að þessi félög skuli vera komin svo langt, — að þá er þó allverulegur hluti verkakvenna, sem enn þá hefur ekki náð þessu marki, þrátt fyrir þær 10–12 ára tilraunir, sem búið er að gera hér á Alþingi þessu máli til stuðnings. Og þegar litið er til baka, 12 ár aftur í tímann, án þess að nokkuð hafi markað í áttina, þá verður erfitt að skilja það frá sama ræðumanni, að það sé allt að því glæpur að tala um, að þetta eigi að gerast á næstu sex árum.

Ég vil spyrja þessa sömu menn: Hvað gerir verkalýðsfélag, sem nær ekki fyllilega fram sínum upphaflegu kröfum? Það semur einhvers staðar aðeins fyrir neðan, mismunandi mikið hverju sinni.

Það, sem hér hefur gerzt, er það, að við flm. þessa frv., þó að sumir okkar — eða a.m.k. ég — hafi staðið að frv. áður, sem gengið hefur lengra, þá viljum við kanna það, hvort ekki fæst nú samkomulag um að tiltaka ákveðinn tíma til þess að ná þessum lögum fram, vegna þeirrar 10 eða 12 ára reynslu, sem við höfum af því að koma engu áfram, að komast ekkert í áttina hér innan veggja Alþingis. Það hefur hingað til ekki verið talinn glæpur af verkalýðsfélögum, nema síður væri, að semja ekki ávallt upp á þær hámarkskröfur, sem fram hafa verið lagðar hverju sinni. A.m.k. hafa foringjar verkalýðssamtakanna iðulega státað af því að hafa náð svo og svo góðum samningum, sem þeir hafa vissulega gert, án þess að hafa fengið kröfur sínar að fullu fram. Það sama er að gerast hér.

Hv. þm. Alfreð Gíslason sagði, að þetta frv., ef að lögum yrði, yrði gott vopn í höndum atvinnurekenda, því að þeir gætu skýlt sér á bak við það um frekari launahækkanir. Ég hef að vísu átt nokkur samskipti við atvinnurekendur í gegnum samningaumleitanir í mínu stéttarfélagi, en ég hef aldrei kynnzt því í þeirra hópi og tel, að það sé ómaklega mælt, að þeir hafi ekki haft vit á því um dagana að taka þau vopn og nota þau, sem þeir hafa átt kost á. A.m.k. hefur mér fundizt það, að þeir kynnu vel að nota þau vopn, sem þeir hafa átt kost á, gegn okkur, sem í verkalýðssamtökunum höfum unnið, og þeir hafa sannarlega oft notað þessi vopn þannig, að ýmislegt væri hægt af þeim að læra í því efni. Það er þess vegna mjög einkennilegt, ef öllum atvinnurekendasamtökunum ber saman um það að hafna því og mæla eindregið gegn því að fá slíkt vopn í hendurnar sem þetta frv., eins og þau hafa gert í umsögnum sínum um það. Og það eru ekki bara þessir vondu íhaldsmenn í Vinnuveitendasambandinu, sem mæla eindregið gegn samþykkt frv., það eru okkar ágætu samvinnusamtök, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur verið talinn allmikill áhrifamaður í og eru einn af alstærstu vinnuveitendum þessa lands. Því yrði áreiðanlega fagnað jafnt innan Alþingis sem utan, ef samvinnusamtökin gengju á undan og semdu nú þegar, eins og brtt. hans hljóða um, við allt kvenfólk, sem hjá þeim vinnur, innan dyra og utan, um fullkomið launajafnrétti. Og ég vildi gjarnan næst heyra sögur af mínum ágæta vini, Karli Kristjánssyni, þegar hann fer að berjast fyrir því innan Vinnumálasambands SÍS að koma þessu launajafnrétti á. Þá skal ég trúa því, að hann hafi eitthvað meint með þeim brtt., sem hann hefur hér lagt fram.

Þær brtt., sem fram hafa komið við frv., markast einvörðungu af yfirboðskennd, ef þær eru þá ekki af öðrum verri toga spunnar, því að þeir telja, eins og ég áðan sagði, að samþykkt frv. gæti orðið fjöður í hatti núv. stjórnarliðs eða ríkisstj., og er hvorug kenndin góð og hvorug þessum mönnum til sóma. Ég hald, að það fari vel á því, að þessir aðilar eigi á sinn hátt samstöðu með vinnuveitendum í afstöðu gagnvart frv. En þeir geta ekki sannfært neinn um það, að atvinnurekendur vilji ekki slíkt vopn, eins og þeir telja að þetta frv. verði.

Ég held, að meðmæli verkakvennafulltrúanna á Alþýðusambandsþingi og þeirra verkakvennafélaga, sem hér hafa sagt álit sitt á frv., séu ljósasti votturinn um, að hér er stórum áfanga náð, ef frv. þetta verður að lögum, og ég met a.m.k. rök þessara kvenna, sem sjálfar vita, hvar skórinn kreppir að, meira en yfirboðshjal hér innan veggja Alþingis, sem er til þess eins fallið að taka undir andstöðuhróp vinnuveitenda.