24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) er nú farinn héðan af fundi, því miður, en ég vildi víkja aðeins að nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hans. En þar sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 9. landsk., hefur nú tekið undir sumt af því, sem hinn sagði, þá kemur þetta kannske ekki að sök.

Þeir hafa báðir lagt áherzlu á það, að framsóknarmönnum færist ekki að vera með yfirboð í þessu máli, því að þeir hefðu ekki verið svo hollir launastéttunum að undanförnu. Var hv. 10. þm. Reykv. mjög hávær um þetta atriði, er hann var að svara hv. 1. þm. Norðurl. e. Það er ekki gaman að lifa, ef allt er kallað yfirboð, hvað sem menn flytja, og ég veit ekki,, hvaða tillögur menn mega eiginlega voga sér að koma með á Alþingi til þess að vera öruggir um, að það verði ekki yfirboð. Ég held nefnilega, að hv. þm. Alþfl. hafi hagað sér þannig í launamálum nú á undanförnum missirum, að það geti ekki nokkur maður verið öruggur um það, að hann sé ekki með yfirboð yfir þá. En til þess að víkja frekar að þessu, ætla ég nú samt að minna þessa hv. þm. á það, að framsóknarmenn hafa ekki verið með öllu skeytingarlausir um þessi mál þrátt fyrir fullyrðingar hv. síðasta ræðumanns og hv. þm. Eggerts Þorsteinssonar. Ég ætla að minna þá á það, að 1954 voru sett lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lög nr. 38 frá 14. apríl það ár. Forgöngu um þessa lagasetningu hafði þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson. En með þessum lögum voru í fyrsta sinn sett þau ákvæði, að jafnrétti skyldi vera milli kvenna og karla, og hljóðar þessi grein þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.“ Var það Alþfl., sem beitti sér fyrir þessum lögum? Ónei, það voru framsóknarmenn. Og í skjóli þessara laga er svo sú venja komin á hjá öðrum opinberum stofnunum,, að þetta gildir þar líka. Ég held, að það hafi því verið alveg unnið fyrir gýg hjá þessum hv. þm. að saka framsóknarmenn um skeytingarleysi eða áhugaleysi í þessum málum.

Höfuðágreiningurinn virðist mér vera sá um þetta frv., hvort það jafnrétti, sem nú er talað um í þessu frv. hv. Alþfl.-manna, á að koma á sex árum eða hvort það á að koma strax. Og hv. 9. landsk. sagði hér áðan, að það væri ekkert um það sagt í skuldbindingum okkar um aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni, hvenær við ætluðum að ná þessu jafnrétti, sem við höfum þar skuldbundið okkur til að koma á. Ja, það er þokkaleg afsökun þetta. Við höfum skuldbundið okkur til að koma á jafnrétti í launum kvenna og karla með aðild okkar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, en af því að það er ekki nefndur neinn mánaðardagur þar, þá má þetta bíða áratugi, Ég held, að hann hafi nefnt eitthvað 30 ár sem dæmi, hvað það mætti bíða. Auðvitað er meiningin með því ákvæði engin önnur en sú að koma því á sem fyrst, og það er ótvíræð skuldbinding að gera það.

Ég vil segja, að þetta frv. er nánast frv. um það að seinka jafnrétti. (JÞ: Hvað hafa framsóknarmenn gert til að standa við þá skuldbindingu?) Við fylgjum henni t.d. í þeim till., sem nú eru lagðar fram í dag, að þetta skuli koma strax, en hv. 9. landsk. leggur til, að það skuli bíða í sex ár. Þetta er hans framlag. Hann kemst því ekki undan því, að ágreiningurinn um þetta frv. er um þetta, hvort það eigi að bíða í sex ár með að láta konurnar fá þennan rétt eða hvort þær eigi að fá hann strax. Hann finnur engan stuðning í aðild Íslendinga að Alþjóðavinnumálastofnuninni við það að láta það bíða svona lengi.

En hvað er í veginum með þessa menn? Af hverju geta þeir ekki verið okkur sammála um, að konurnar fái þetta strax? Hvað veldur því? Ætli það sé ekki það, að þeir styðja ríkisstj., sem hefur það að stefnu sinni, að kaup skuli ekki hækka? Ætli það sé ekki sú skuldbinding? (JÞ: Hvað gerði vinstri stjórnin í í þessum launajafnaðarmálum?) Alþfl. var nú í henni, held ég. (JÞ: Já, Framsfl. réð miklu þar.) Nei, það verður erfitt fyrir þá að komast fram hjá þessari staðreynd, að þeir eru að reyna að hindra þetta jafnrétti eins lengi og þeir treysta sér til.

Ég man eftir því, þegar ég var lítill strákur og var smali, að þá voru stundum bakaðar flatkökur, og þegar við fórum að sækja kindurnar, þá fengum við fjórða part í nesti. Oft fékk ég það og þótti gott, því að þá var ekki um mikið ríkidæmi að ræða á þeim stað. En að rausnast til þess að láta af hendi sjötta part úr köku, það hefði ég ekki haldið að þekktist, en það er nú það, sem þeir eru að gera, verkalýðsforingjar Alþfl., með frv. sínu. Sjötta parti af réttlætinu ætla þeir að úthluta konunum á ári næstu sex ár.

Hv. síðasti ræðumaður var að verja ákvæði frv. um nefndina og allt það stúss í kringum hana um að meta og dæma um það, hvort konurnar mættu nú fá þetta og þetta, þennan sjötta part. Ég skil ekki annað en það sé hægt að hafa þetta eins einfalt og hv. 1. þm. Norðurl. e. leggur til og sleppa allri nefnd og öllu mati, því að ef það er ákveðið með lögum, að konur skuli hafa sömu laun og karlmenn, alls staðar á landinu og hvað sem þær gera, — sömu laun og karlmenn, sem vinna við sömu störf, hvað á þá að gera með allar þessar umbúðir? (Gripið fram í: Setja lög um Rauðasand. — Forseti: Ekki samtal.)

Ég held, að í framkvæmdinni yrði þetta þannig, að þegar verkalýðsfélög og atvinnurekendur fara að semja um kaupgjaldsmálin, þá verði einn launataxti og hvorki minnzt á karlmenn né konur. Það verður ákveðinn launataxti fyrir hvert verk, og hitt skiptir engu máli, hvort það er karl eða kona, sem vinnur það. Þannig hélt ég að það yrði framkvæmt. Og ég vil biðja hv. frestunarmennina að sýna mér fram á það, hvers vegna það geti ekki orðið þannig í framkvæmdinni. Um hvert einasta verk, sem á að vinna, verður bara einn launataxti, skiptir engu máli, hvort það eru konur eða karlar, sem vinna. Og þá þarf heldur enga nefnd, ekkert stúss, ekkert mat, ekkert af þessu tagi.

Ég veit ekki, hvort ég hef skilið alveg rétt hv. frsm. meiri hl. n., hv. 2. þm. Reykv., en ég skildi hann svo, að hann væri líka andvígur því, að konurnar fengju þetta jafnrétti strax, fengju þetta réttlæti strax, og ef þetta er ekki misskilningur hjá mér, þá óska ég eftir að fá leiðréttingu á því. En ég skildi frsm. þannig í ræðu sinni. (AuA: Það stendur ofur einfaldlega í nál., að við leggjum til, að það verði samþykkt óbreytt.) Já, það er nefnilega það, því er nú miður, Ég bjóst nefnilega ekki við því, af því að það er kona, sem er hv. 2. þm. Reykv. Þá vitum við það.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta, því að ég vil ekki tefja þetta mál. Ég vil, að það komist gegn á þessu þingi, þótt seint sé. En ef hv. ræðumenn Alþfl. kynnu að kveðja sér hljóðs aftur og halda áfram söng sínum um afstöðu framsóknarmanna til þessara mála, þá getur farið svo, að ég verði að kveðja mér hljóðs að nýju og sýna þeim fram á, hvernig þeir hafa nú á undanförnum missirum staðið að launamálum jafnt kvenna sem karla með öllum þeim kjaraskerðingum, sem nú hafa yfir þetta fólk dunið. Hverjir voru það, sem afnámu með lögum vísitölu á kaupgjald? Hverjir voru það, sem felldu niður 10 stig 1959? Hverjir voru það, sem bönnuðu verkfall með brbl. í fyrrasumar? Það var Alþfl., sem stóð að öllu saman, svo að ég held, að honum farist ekki að vera með harða dóma í garð annarra.