24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem fram hafa komið í þessum umræðum frá tveim þm. Framsfl., hv. 4. þm. Vestf. og 1. þm. Norðurl. e., sem ég vildi aðeins leiðrétta.

Hið fyrra er í sambandi við aðdraganda og undirbúning að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Hv. 4. þm. Vestf. lét orð falla eitthvað á þá leið, að þau lög væru til komin og m.a. ákvæði þeirra um launajafnrétti kvenna og karla væru komin til fyrir baráttu og forgöngu Framsfl. Ég vildi aðeins drepa hér á aðdragandann að þessu máli. Hann er sá, að fyrir allmörgum árum flutti ég till. til þál. á Alþingi um það að fela ríkisstj. að undirbúa lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en slík allsherjarlög voru þá ekki til. Þáv. dómsmrh., sem var Finnur Jónsson, sneri sér síðan til mín, líklega vegna þess, að ég hafði þá á hendi kennslu við lagadeild háskólans, og fór þess á leit, að ég semdi þetta frv. Það varð að ráði, og eftir að ég hafði unnið að frv. um alllangt skeið og aflað gagna um málið og á síðasta stigi haft samráð um frv. við dr. Einar Arnórsson hæstaréttardómara, þá var frv. skilað í hendur þess dómsmrh., sem þá var, sem var Bjarni Benediktsson. Það voru sem sé dómsmrh., sem höfðu með þessi mál að gera þá. Í dómsmrn. var frv. síðan afgreitt og að sjálfsögðu í samráði við fjmrn. og fjmrh., sem þá var Eysteinn Jónsson, vegna þess, hve slík löggjöf snertir hag ríkissjóðs mikið. Þegar svo kom til flutnings frv., þótti formlega réttara, að fjmrh. flytti það f.h. ríkisstj., heldur en dómsmrh., þó að allur aðdragandi og undirbúningur og athugun málsins hefði fyrst og fremst verið í höndum dómsmrn. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi hér fram, til þess að saga málsins sé rétt skráð í þingtíðindum, en ekki ranglega.

Hitt atriðið er það, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., að 1948, þegar Hannibal Valdimarsson flutti frv. sitt um réttindi kvenna, þá hefði fulltrúi Framsfl. í þeirri nefnd, sem fékk málið til meðferðar, Páll Zóphóníasson, veitt honum og málinu stuðning. Hér er um mjög hrapallegt rangminni að ræða hjá hv. þm., því að málinu var á annan veg farið. Nefndin klofnaði um þetta frv., og meiri hl. hennar lagði til, að því yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en minni hl. vildi samþykkja frv. Frv. var samkvæmt tillögu meiri hl. heilbr.- og félmn. vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti rannsaka, að hve miklu leyti kvenfólk nýtur ekki sömu réttinda nú og karlmenn, og að þeirri rannsókn lokinni leggi fyrir Alþingi frv. til laga eða breytinga á eldri lögum, eftir því sem þurfa þykir, til þess að skapa sem fullkomnast lagalegt jafnrétti milli kvenna og karla í þjóðfélaginu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við athugun frv. virtist mönnum, að það væri ekki nægilega undirbúið, og sum ákvæði þess ollu töluverðum ágreiningi, hvernig ætti að skilja og túlka, eins og það ákvæði, að konur skyldu njóta algers jafnréttis við karla innan vébanda fjölskyldulífsins. Menn voru ekki alveg á einu máli um, hvernig ætti að túlka þetta í framkvæmd.

Í minni hl. n., sem vildi samþykkja frv., voru þeir Hannibal Valdimarsson og Brynjólfur Bjarnason, en í meiri hl., sem vildi vísa málinu frá, voru þeir Páll Zóphóníasson, Gísli Jónsson og Lárus Jóhannesson, og var Páll Zóphóníasson frsm. þeirra, sem vildu vísa því frá, svo að ég skil ekki, hvernig þessi misskilningur hefur komizt inn í höfuð hv. þm.