24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Hæstv. fjmrh. vildi fara að leiðrétta, að mér skildist, það sem ég sagði, að 1954 hefði þáverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson, beitt sér fyrir jafnrétti kvenna og karla með setningu laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég held, að ég muni það alveg rétt, hvernig ég orðaði þetta: Hann beitti sér fyrir því, að sú löggjöf kæmist á. — Það var þetta, sem ég sagði. Nú hefur hæstv. ráðh. staðfest það. (Gripið fram í.) Ég sagði meira um ýmislegt annað, en ég sagði þetta um þetta atriði og nú hefur hæstv. ráðh. staðfest það, að frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var flutt af Eysteini Jónssyni fjmrh., sem þá var, og það kalla ég sannarlega að beita sér fyrir máli. Eða vill hæstv. núverandi fjmrh. ekki telja, að hann hafi beitt sér fyrir málunum, sem hann hefur flutt? Þó að hann hafi nefnt hér ýmsa menn, sem hafi komið við sögu þessa máls áður, allt fram til 1954, þá er ég ekki að rengja neitt af því. En af hverju flutti enginn ráðh. þetta mál, fyrr en Eysteinn Jónsson gerði það?

Hitt atriðið, sem ég ætla aðeins að drepa á, er það, sem hv. 2. þm. Reykv. (AuA) sagði, að ég hefði verið hér illur áðan. Ég vil nú segja það, að margur hefur orðið illur af minna en að horfa upp á það, að eina konan hér í hv. Ed. skuli vera á móti því, að konur í landinu fái jafnrétti strax, heldur ætlar hún að treina það í 6 ár. Og ég ætla, að ég þurfi ekki að afsaka það, sem ég sagði. Hún talar um, að ég hafi ekki hnippt í hæstv. félmrh. í vinstri stjórninni. Gerði hún það? En nú er ég að hnippa í hana að standa nú með konunum. Nú kemur í ljós, hvaða árangur það ber. (AuA: Það er það, sem ég geri.)