24.03.1961
Neðri deild: 83. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er eitt af þeim málum, sem var fyrst flutt á þessu þingi. Samt hefur málsmeðferðin verið slík, að það hefur legið í salti í hv. Ed. allt þangað til í dag eða í gær, að það er rokið til og kallaður saman fundur í hv. heilbr.- og félmn. Ed. í þeim tilgangi að afgreiða málið nú á allra seinustu dögum þingsins. Það væri ekki nema gott um það að segja, ef þetta væri gert af raunverulegum velvilja og áhuga fyrir því að koma á launajöfnuði kvenna og karla. En ég hygg, að þegar betur er skoðað niður í kjölinn, þá komi í ljós, að það er raunverulega annað, sem býr hér á bak við.

Það, sem býr hér á bak við, og það, sem ýtir svo mjög á eftir hv. stjórnarflokkum að fá þetta mál afgreitt, er, að kvennasamtökin í landinu hafa sjálf hafizt handa um að koma þessu máli áleiðis á þeim grundvelli, sem eðlilegastur er í kaupgjaldsmálum, með frjálsum samningum milli launþega og atvinnurekenda. Kvennasamtökin eða launþegasamtökin hafa sett fram þá kröfu almennt. að nú þegar verði komið þeirri breytingu á í þessum efnum, að í stað þess að konur hafa nú víða ekki nema 78% af launum karla, þá verði því strax komið í það horf, að konur fái 90% af launum karla. Þetta skilst mér að sé sú krafa, sem kvennasamtökin hafa víða borið fram í sambandi við endurskoðun kaupsamninga, sem nú er í vændum, að strax fáist þessi hækkun fram og að sjálfsögðu með það fyrir augum, að fullur jöfnuður náist síðar. Á öðrum stöðum hafa verið settar fram kröfur um það, að launajöfnuðinum væri náð nú þegar, og a.m.k. á einum stað úti á landi, á Skagaströnd, hefur náðst samkomulag um fullt launajafnrétti á milli karla og kvenna. Og það er þegar atvinnurekendur sjá framan í þetta og þegar þeir sjá framan í það, að á einum stað úti á landi eru konur þegar búnar að ná slíkum samningum, sem þeir rísa upp og eiga meginþátt í því, að nú á seinustu dögum þingsins er farið í það að reyna að afgreiða þetta frv., sem hefur ekki neinn annan tilgang en að draga úr þeim hraða, sem kominn var á málið í þá átt, að konur fengju sem fyrst fullt launajafnrétti við karlmenn.

Tilgangurinn með því að vekja nú þetta mál upp seinustu þingdagana er að koma í veg fyrir, að sú eðlilega þróun gangi fram sem allra fyrst, að konur fái fullt launajafnrétti, ekki eftir 6 ár, heldur nú þegar á þessu ári eða jafnvel næsta árið þar á eftir. Þá er það, sem atvinnurekendur taka það upp að fá þessu máli framgengt. Tilgangur þeirra er vitanlega enginn annar en sá að reyna að stöðva það, að þetta launajafnréttismál nái sem fyrst fram að ganga, og það er þess vegna ekki neinn áhugi á málefnum kvenna, sem veldur því, að rokið er í það nú seinustu þingdagana að afgreiða þetta mál. Það er áhugamál atvinnurekenda til að reyna að draga úr eðlilegum hraða í framgangi þessa máls, enda er vitanlegt, að þetta mál er ekki upphaflega runnið undan rifjum launþega í þeim flokki, sem að því stendur. Mér væri nær að halda, að sá maður í Alþfl., sem hafi ekki átt hvað minnstan þátt í því, að þetta mál var flutt á sínum tíma með það fyrir augum að reyna að draga úr hraða þess, hafi verið fyrrv. varaformaður í Félagi ísl. iðnrekenda, sem hefur haft mikil áhrif innan Alþfl., eins og kunnugt er. Ég veit, að hv. þm. vita, hvaða maður það er, ég þarf ekki að nefna hann sérstaklega hér, en hann hefur verið mikill áhrifamaður í Alþfl., og mér skilst það eftir þeim heimildum, sem ég hef, að hann hafi verið mikill hvatamaður að því, að Alþfl. flutti þetta frv. í Ed., en ekki það, að það hafi verið launþegar eða konur í Alþfl., sem hafi sérstaklega gengizt fyrir því, því að ég hygg, að það sé áhugamál kvenna í Alþfl. eins og öðrum flokkum að fá þetta mál fram strax, en þurfa ekki að bíða í sex ár eftir því að fá fullar réttarbætur.

Rétta stefnan í þessum málum er að sjálfsögðu sú og sú æskilegasta stefna, að samningar milli launþega og atvinnurekenda fari fram án afskipta löggjafarvaldsins, og Alþingi á ekki að grípa inn í, nema alveg sérstök ástæða sé til, og ég álít, að undir þessum kringumstæðum eigi Alþingi ekki að grípa inn í, nema því aðeins að það sé fullreynt með samningum milli atvinnurekenda og launþega, að launþegar fái ekki framgengt sínum eðlilegu kröfum. En ef Alþingi gripur inn í undir þeim kringumstæðum, á að sjálfsögðu að stefna að því að láta þá launþega, sem hafa staðið höllum fæti, ná fullum rétti, og eigi þess vegna Alþingi að hafa einhver afskipti af þessum málum, sem eðlileg eru, þá eru þau að sjálfsögðu þau að veita viðkomandi launþegum full réttindi. Og þar sem Alþingi hefur áður samþykkt aðild Íslands að jafnlaunasamningnum, getur það ekki haft önnur afskipti af þessum málum, ef það er að skipta sér af þeim á annað borð, heldur en að gera það, sem í jafnlaunasamningnum stendur, og það er að veita konum full réttindi á við karlmenn í þessum efnum. Þess vegna, ef Alþingi á að taka þetta mál úr höndum viðkomandi stéttasamtaka, þá er ekki aðeins eðlilegt, þá er ekki rétt, að það sé gert á neinn annan hátt en þann, að farið sé fullkomlega eftir ákvæðum jafnlaunasamningsins og konum tryggður strax sami réttur og réttindi í þessum efnum og karlmenn njóta nú, þ.e.a.s. komið sé á fullkomnu launajafnrétti. Þess vegna hljóta, eins og hefur líka komið fram í hv. Ed., að vera þau eðlilegu viðbrögð í þessum efnum að tryggja það, að jafnlaunarétturinn komist strax á. Hitt, að binda þetta við 6 ára tíma, eins og hér er gert, er vitanlega ekki gert í neinum öðrum tilgangi en þeim að hjálpa atvinnurekendum til þess að draga úr eðlilegri þróun þessara mála.

Konur hafa nú tekið upp baráttu fyrir því að fá nú þegar a.m.k. 90% af launum karla, í staðinn fyrir að þær hafa ekki nema 78%, og það verður ekki annað sagt en þetta sé mjög lítil eða lágmarkskrafa af þeirra hálfu. En ef þetta frv. kæmist fram og yrði reynt að framfylgja því, þá væri það miklu minna, sem konur fengju með því, heldur en þær hafa nú farið fram á sem lágmarkskröfu fyrir sig. Ef þetta frv. á þess vegna að koma til framkvæmda, verður það eingöngu til þess að koma í veg fyrir það, að konur fái þeim lágmarkskröfum fullnægt, sem þær hafa nú borið fram, og ég get ekki trúað því, eins og þær eru lengi búnar að búa við órétt í þessum efnum, að þær sætti sig við það, og þess vegna hljóta þær að halda áfram baráttunni fyrir þeirri lágmarkskröfu, sem þær hafa sett fram, og sætta sig ekki við það, sem þeim er hér boðið. En það kom alveg greinilega fram í þeirri ræðu, sem hæstv. félmrh. flutti hér áðan, að tilgangur stjórnarinnar með því að knýja þetta mál hér fram nú seinustu þingdagana er að fá þeim vilja atvinnurekenda framgengt, að konur fái ekki meiri uppbætur en gert er ráð fyrir í þessu frv., sem er miklu minna en það litla lágmark, sem þær hafa borið fram í sambandi við þá samninga, sem nú standa fyrir dyrum.

Ég verð að segja, að það kemur mér ekki á óvart, þó að Sjálfstfl. hafi tekið þessa afstöðu. Það kemur mér ekki á óvart, því að hans afstaða hefur alltaf verið þannig að reyna að draga úr eðlilegum umbótum hjá þeim launþegum, sem lakast hafa verið settir, eða langoftast hefur það verið hans afstaða. En ég verð að segja það, að mig furðar mjög á því, að Alþfl. skuli nú einnig vera kominn í þennan félagsskap. Og ég held, að það megi fullyrða, að á þeim tíma, sem þeir voru hér forsvarsmenn fyrir Alþfl., Jón Baldvinsson, Héðinn Valdimarsson og Sigurjón Á. Ólafsson, hefði afstaða Alþfl. ekki verið með þessum hætti. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. félmrh. og hans flokkur endurskoði nú afstöðu sína, og ef þeir vilja taka þetta mál úr höndum launþegasamtaka kvenna og atvinnurekenda, þar sem konur hljóta tvímælalaust að vinna sinn sigur mjög fljótlega, þá eiga þeir að koma til samstarfs við okkur stjórnarandstæðinga hér í þessu máli og sjá um, að það verði ekki önnur löggjöf sett um það hér á þessu þingi en sú, að konum verði strax tryggt fullt launajafnrétti á við karlmenn.