25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 1. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Frv. á þskj. 64 um launajöfnuð kvenna og karla var allmjög rætt hér í þessari hv. d. við 1. umr. í gærkvöld og fram á nótt. Í Ed. hafa sömuleiðis orðið um þetta mál miklar umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þau atriði þessa frv., sem þegar hafa verið rædd af mörgum, og mun því reyna að komast hjá því að endurtaka mikið af því, sem áður hefur verið sagt.

Mér finnst, að aðalatriðið, sem hv. þm. verða að gera upp við sig, þegar þeir taka afstöðu til þessa frv., sé það, hvort það sé réttlætismál, að konur og karlmenn hafi sömu laun fyrir sömu vinnu. Og nú skilst mér, að um það ríki enginn ágreiningur á hv. Alþ., að eðlilegt sé, að konur og karlar njóti sömu launa fyrir sömu vinnu. Rökin fyrir þessari niðurstöðu eru mörg, en ég hygg, að ég rökstyðji þetta kannske bezt með því að lesa — með leyfi hæstv. forseta — örstuttan kafla úr grg. frv. Þar segir svo:

„Ástæðurnar fyrir mismun á launum karla og kvenna eru oftast taldar þær, að karlmenn búi yfir meira líkamlegu atgervi en konur og séu hæfari og afkastameiri til flestra starfa heldur en þær og þeim beri því hærra kaup. Þetta eru þó ekki sterk rök, þegar málið er athugað nánar. Í fyrsta lagi er þess að gæta, að sérlega erfið störf, sem karlmenn einir vinna, eru yfirleitt greidd með hærra kaupi en almennu karlmannskaupi í viðkomandi starfsgrein. Á því síður að vera því nokkuð til fyrirstöðu, að konur fái sama kaup og karlar í almennri vinnu. Í öðru lagi er vitað, að ýmis störf henta konum ýmist jafnvel eða betur en karlmönnum, en samt fá þær lægra kaup fyrir þau. Í þriðja lagi er launamismunurinn meiri en svo, að hann verði réttlættur með mismun á afköstum og hæfni. Í heild mun afkastamismunur karla og kvenna við sömu störf vera minni en innbyrðis afkastamismunur milli einstaklinga af sama kyni, sem hafa þó allir sömu laun, nema í þeim undantekningartilfellum, þegar um ákvæðisvinnu er að ræða. Rökin fyrir launamismun hafa því ekki við mikið að styðjast. Sterkustu rökin fyrir launajafnrétti eru þau, að það er jafnkostnaðarsamt fyrir konur sem karla að lifa í þessu landi. Konur geta ekki búið við sömu lífskjör og karlar nema hafa sömu laun. Þær njóta engra lögbundinna forréttinda um útgjöld eða framfærslu.“

Þeir hv. þm., sem fallast á þessi rök og fallast á þá skoðun, að eðlilegt sé, að kvenmenn fái sömu laun fyrir sömu vinnu og karlmenn, þeir hljóta líka í rökréttu framhaldi af því að komast að þeirri niðurstöðu, að nú sé rétt að bæta úr því óréttlæti, sem verið hefur um skipan þessara mála mörg undanfarandi ár, og láta þetta langþráða jafnrétti nú loksins koma til framkvæmda og það í einum áfanga. Þeir, sem telja eðlilegt að taka þetta spor í mörgum áföngum, verða, ef þeir eru á annað borð sannfærðir um, að réttmætt sé að greiða konum sömu laun fyrir sömu vinnu og karlmönnum, að færa sterk rök fyrir sínu máli, ef á að vera hægt að fallast á þá skoðun þeirra, að réttlætanlegt sé að láta konur bíða enn þá í sex ár til þess að ná því launajafnrétti, sem allir eru sammála um að eðlilegt sé að þær fái.

Vil ég þá lítillega víkja að þeim rökum, sem er að finna fyrir því í grg. þessa frv., að eðlilegt sé, að konur nái þessu launajafnrétti ekki nema á sex ára tíma. Í grg. segir, að farsælast sé fyrir alla aðila, að launajöfnuðurinn nái fram að ganga smátt og smátt á nokkrum árum. Rökin fyrir þessu eru tvenn. Í fyrsta lagi, ef launajafnréttið eigi að nást í einu, þá geti það haft alvarlega röskun á atvinnulífinu í för með sér. Ef við stöldrum aðeins við og athugum þetta atriði lítið eitt, þá er sjálfsagt að viðurkenna, að ef á að færa laun kvenna í einu vetfangi upp í sömu laun og karlar hafa fyrir sömu vinnu, þá verður það að sjálfsögðu veruleg útgjaldaaukning fyrir atvinnuvegina í landinu. Það er sjálfsagt að viðurkenna það. En hver er hér inni þess umkominn að fullyrða, að þetta vandamál verði ekki nákvæmlega eins til staðar eftir sex ár, þegar launajafnréttinu á að hafa verið náð samkv. frv.? Ég fæ ekki betur séð en að það sé ómögulegt að halda því fram sem staðreynd, að atvinnulífið hljóti að sex árum liðnum að vera við því búið og þess umkomið að taka við þeim kauphækkunum, sem þetta frv. hefur í för með sér, frekar en það er fært um að taka við þeim í dag. Í öðru lagi er talað um það, að ef launajafnréttið komist á í einu stökki, hljóti það að leiða til atvinnuleysis hjá konum. Af þessu höfum við Íslendingar nokkra reynslu. Þegar er búið að koma á þessu launajafnrétti hjá nokkrum stórum vinnuveitendum í þjóðfélaginu, hjá ríki og bæjarfélögum, og á sumum stöðum á landinu mun launajafnrétti vera viðurkennt með samningum. Þess hefur ekki orðið vart, að reynsla sú, sem fengizt hefur á þessu sviði, bendi endilega til þess, að sérstakt atvinnuleysi skapist hjá konum fyrir það, að þær fái sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar, enda segja flm. sjálfir í grg. með frv., að rökin fyrir því, að vinna kvenna við flestöll störf sé lélegri en karla, séu mjög léttvæg. Ég held því, að hvorug þessara mótbára, sem sé sú í fyrra lagi, að launajafnrétti í einu vetfangi hljóti að valda röskun í atvinnulífinu, og í síðara lagi, að það hljóti að skapa atvinnuleysi hjá konum, hafi við mikil rök að styðjast.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar, að ég teldi það aðalatriði þessa máls, hver skoðun hv. alþm. væri á því, að launajafnrétti ríkti milli kvenna og karla. Ef menn eru þeirrar skoðunar, að svo eigi að vera, sem ég tek fyllilega undir, þá er alveg ástæðulaust að láta konurnar bíða enn þá í sex ár eftir að ná þessu jafnrétti, þær hafa þegar beðið nógu lengi. Í grg. með frv. er talað um, að það sé augljóst mál, að launajöfnuður verði ekki tryggður á annan hátt hér á landi en með löggjöf. Um þetta vil ég ekki fullyrða. Ég nefndi hér áðan. að á nokkrum stöðum hefur fyrir samninga tekizt að ná launajafnrétti karla og kvenna, og síðar í grg. með frv. þessu er á það bent, að í Svíþjóð hafi með samningi milli samtaka atvinnurekenda annars vegar og launþega hins vegar náðst samkomulag um, að kvenfólk skuli fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu á fimm árum, Ég er ekki það vel að mér í verkalýðsmálum, að ég sjái í fljótu bragði, hvernig það má vera ómögulegt að ná slíku launajafnrétti hér á landi með samningum, eins og var gert í Svíþjóð. Og á eitt vil ég benda. Ef líkur eru á því, sem sumir telja, að möguleikar séu á að ná launajafnrétti fyrir aðgerðir launþegasamtakanna í landinu, þá mega hv. alþm. mjög vara sig á því, að þeir séu ekki með þessu frv. að seinka þróun þessara mála, sem gæti fengizt fyrir frjálst samkomulag atvinnuveitenda og launþega. En ég tel mjög mikla hættu á, að svo geti verið.

Eins og ég hef reynt að benda á, tel ég, að á frv. þessu séu miklir ágallar. Ég hef því leyft mér að flytja á þskj. 660 nokkrar brtt. við frv. Sú helzta er 6. brtt. mín á þskj. 660, um það, að lög þessi skuli öðlast gildi 1. júlí 1961. Aðrar brtt. mínar leiðir af því ákvæði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. þetta á þessu stigi málsins. Ég hef skrifað undir nál. minni hl. heilbr.- og félmn. þessarar d., þar sem mælt er með því, að launajafnrétti kvenna og karla skuli komast á í einu vetfangi, og ég tel, að það frv. sé miklu hagstæðara kvenfólkinu, launþegum, verkakonum í þessu landi, sem hafa beðið í mörg ár eftir að ná launajafnrétti, sem allir hv. alþm. virðast vera sammála um að eðlilegt sé að þær fái.