25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. 1. umr. um þetta frv. hér í þessari hv. deild lauk á þriðja tímanum í nótt, og fór ég þá fram á það, að nefndarfundur, sem boðaður hafði verið í nótt, eftir að næturfundur hófst á Alþingi, yrði ekki haldinn fyrr en um fótaferðartíma í dag. Mér fannst þetta ekki næsta ósanngjörn krafa eða ósk, en við henni gat hv. form. n. ekki orðið. Það lá svo mikið á að halda þennan nefndarfund, að hann skyldi haldinn síðari hluta nætur, hvað sem öllum sanngjörnum óskum leið um annað. Það er þó alveg augljóst mál, að það hefði ekki þurft að tefja minnstu vitund fyrir afgreiðslu málsins, þó að fundurinn hefði verið haldinn núna í morgun, stutt nál. gefin út og þau áreiðanlega getað verið komin hér undir afgreiðslu málsins á þingfundi í dag eða jafnvel fyrir þingfund. En það er háttur hv. meiri hluta nú á Albingi að auglýsa það sem allra bezt fyrir alþjóð, að þingræðið sé orðið að skrípaleik og að hér sé ofbeldi beitt á löggjafarsamkomu íslenzku þjóðarinnar, enda getur það í þessu máli og reyndar ýmsum fleiri ekki farið fram hjá þeim, sem fylgjast með því. Ég hefði vænzt annars af hv. formanni heilbr.- og félmn. en hann léti nota sig eins og verkfæri til þess að fremja ofbeldi á þingbræðrum sínum. Ég held, að það þurfi enginn að kveinka sér undan því, þegar maður segir, að maður hafi vænzt annars og betra af manninum, því að það er að vissu leyti traustsyfirlýsing og þó að vísu vantraust um leið, og það finnur hv. þingmaður. Hann hefði ekki átt að láta brúka sig á þennan hátt. Þessi vinnubrögð í sambandi við þetta mál á liðinni nóttu voru því furðulegri og vítaverðari, þegar litið er til þess, að í gærdag voru hér felldir niður fundir á hv. Alþingi á miðjum degi fyrir venjulegan þingfundartíma og þingmenn síðan kallaðir fyrst aftur til fundar, þegar komið var langt fram á kvöld. Þá voru m.a. tekin af dagskrá mál, sem ég get ekki séð að þingið, sóma síns vegna, geti annað en tekið til umræðu, geti skotið sér undan að ræða og afgreiða, en þessi voru vinnubrögðin í gærdag. Ég tel, að það beri að harma, að slíkum vinnubrögðum skuli vera beitt nú á seinustu dögum þingsins.

Það var svo kórónan á öllu þessu ofbeldistilræði við þingmenn, að þegar 1. umr. málsins lauk hér í nótt, var þingið ekki starfhæft. Þá kom það í ljós, kom átakanlega í ljós, að þingsamkoman var ekki fær um að afgreiða málið, ljúka umræðunni, koma málinu til nefndar. Þá varð uppi fótur og fit, fjaðrafok í stjórnarliðinu, menn þess sváfu úti um alla borg, og það var ekki hægt að ná þeim í þingsalinn, og allt þetta offors hafði þó verið til þess gert að geta lokið 1. umr. um málið og komið því til nefndar. Ég sé ekki, að það sé neitt á móti því, að það sé kunnugt gert, að þegar ég hafði hvað eftir annað beðið um það, að nefndarstörfum yrði frestað til fótaferðartíma í morgun, þá gekk einn af mætum mönnum úr liði stjórnarinnar, einn úr hæstv. ríkisstj., í það, að ég veitti stjórnarliðinu aðstoð til þess að koma málinu til nefndar, til þess að geta lokið umræðunni og framkvæmt hér atkvgr. og komið því til nefndar, hvað ég að hans ósk gerði. En svo mikið lá á, að áður en þessi atkvgr. hafði komizt í framkvæmd, var form. hv. heilbr.- og félmn. margsinnis búinn að kalla menn út úr þingsalnum til þessa næturfundar í nefndinni, áður en atkvgr. hófst eða umræðunni hafði þannig verið lokið, en það, að henni ýrði lokið, dróst langa lengi, vegna þess að þingið var augljóslega ekki starfhæft, svo að hann varð um sinn að bíða. En tilmæli til hans frá einum af ráðherrum ríkisstj. um að hætta við það ósæmilega athæfi að knýja fram nefndarfundinn gegn mótmælum í nótt voru að engu höfð.

Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðh., sem sváfu, mæli svona vinnubrögðum bót. Ég trúi því ekki, að hv. þm., sem nú eru komnir á fætur, telji þetta viðunandi vinnubrögð. Það var stundum að undirlagi dönsku einokunarverzlunarinnar hér á landi þannig, að faktorarnir þeirra frömdu meiri og verri fólskuverk en húsbændur þeirra heimtuðu af þeim, og þannig hefur það orðið hér, að verkfæri hæstv. stjórnar hafa framkvæmt þá hluti, sem ég er alveg viss um að ekki hafa verið heimtaðir af þeim og ekki verið ætlazt til að þeir gerðu. Það er sama sagan um litla karla, þegar þeir vilja í þrælsótta þjóna sínum herra og láta það svo bitna á öðrum.

Það er rétt, sem kemur fram í nál. hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. d., að Hannibal Valdimarsson var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið á nefndarfundi kl. að verða 3 í nótt, af því að ég vildi mótmæla þessum vinnubrögðum og ekki taka þátt í því nefndarstarfi að aflíðandi nóttu, en bauðst hins vegar til þess að gera það, um leið og virkur dagur byrjaði, hvað ekki var þegið. Ég sé, að það er líka tekið fram í þessu nál. í sambandi við frv. mitt og nokkurra annarra þm. Alþb. um sömu laun kvenna og karla, að meiri hl. hv. n. hafi nú gert það upp við sig, að hann sjái ekki ástæðu til að skila neinu nál. um það mál. Næturfundurinn varð til þess, að þeir tóku ákvörðun um það að skila engu nál. um það mál, sem raunverulega er um launajafnrétti kvenna og hefur legið fyrir þessu þingi frá því á haustnóttum.

Mér þykir það frekar til bóta, að þessi játning skuli koma fram í þingskjali, því að það eru líka óneitanlega leið og óþingleg vinnubrögð, að á því máli skuli hafa verið legið allan þingtímann. Bæði þessi mál hefði verið miklu sæmra að taka fyrir, fyrir löngu og afgreiða þau hér í þinginu með eðlilegum hætti, láta fara fram um þau bæði umr. undir eðlilegum kringumstæðum og að þm. hefðu sýnt kjark í því að greiða atkv. með og móti þessum málum, svo að afstaða þeirra til málanna væri ekki raunverulega samfelldur feluleikur, eins og þetta er nú augljóslega. Menn eru að fela afstöðu sína gagnvart því, hvort þeir vilji viðurkenna fullt launajafnrétti kvenna og karla sem réttlætismál eða ekki. Þess vegna eru þeir að komast hjá því með svona bolabrögðum, að fram fari lokaafgreiðsla í þinginu á frv. okkar Alþýðubandalagsmanna um sömu laun kvenna og karla, og sýnist mér það vera lítið karlmannlegt.

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., Birgir Finnsson, minntist nokkuð á efni þess frv„ sem hér liggur fyrir, frv. um launajöfnuð kvenna og karla, og skal ég ekki fara rækilega út í það, því að það gerði ég í ræðu minni í nótt við 1. umr. málsins, en það er rétt, sem frsm. segir, efni frv. er í fyrsta lagi það, að á árunum 1962–67 skuli kaup kvenna hækka, eins og þar stendur, til jafns við laun karla, sem væntanlega þýðir ekki, að það eigi að hækka jafnmikið og kaup karla, heldur hitt, að kaup kvenna að þessu tímabili liðnu sé orðið jafnhátt og karlmannskaupið í landinu, — fyrir störf í eftirfarandi starfsgreinum, og svo er bara nefnt þrennt: verkakvennavinna, verksmiðjuvinna og verzlunar- og skrifstofuvinna: Þetta launajafnrétti, sem koma á í áföngum að loknu árinu 1961 og síðan með nokkurra aura hækkun á tímakaupi kvenna frá 1962–67, á þá eingöngu að ná til þeirra kvenna, sem vinna samkvæmt samningum um verkakvennavinnu, samkvæmt samningum félagsins Iðju í Reykjavík og samkvæmt samningum Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Allir aðrir launþegar kvenna skildu ekki fá neinar launabætur og ekkert nálgast launajafnrétti á þessu 6 ára tímabili. Yfir þessu eru hv. stjórnarliðar, að því er virðist, mjög ánægðir og sigurglaðir, hafa við orð, að þetta sé stórsigur, líkt og þeir unnu stórsigur, þegar þeir voru að bregðast þjóðinni í landhelgismálinu. Þannig eru þeirra sigrar. En mér finnst heldur lítið til, og stjórnarandstöðunni hér á Alþingi finnst heldur lítið til koma svona sigurvinninga. Og ég hygg, að það verði dómur ekki aðeins kvenþjóðarinnar, heldur þjóðarinnar í heild, að þarna sé lítill sigur unninn í launajafnréttisbaráttu kvenna.

Ég held, að hv. frsm. meiri hl. hafi líka minnzt á það, að þessa árlegu launahækkun skuli ákveða af þriggja manna nefnd, launajafnaðarnefnd, nefnd, sem á að úrskurða um þessar lögfestu kauphækkanir, rannsaka alla kauptaxta verkakvennafélaganna í landinu, og gerðum þeirrar nefndar má ekki áfrýja til neins dómstóls né heldur til neinna annarra aðila. Þessi nefnd er því dómstóll, og hann er þannig skipaður, að verkalýðssamtökin eiga einn af þremur dómendum hans. Menn geta ímyndað sér það og einkum þá menn, sem starfað hafa í verkalýðshreyfingunni, eins og hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., Birgir Finnsson, hefur gert, menn hljóta að gera sér það í hugarlund, hversu ánægð verkalýðshreyfingin sé með það, þar sem hún á þó að heita að hafa samningafrelsi um kaup og kjör í þessu landi, að úrskurður um launamál sé í höndum nefndar eða dóms, sem verkalýðshreyfingin eigi í einn fulltrúa af þremur. Ég er alveg sannfærður um það, að um þetta verður engin ánægja í verkalýðshreyfingunni. Út af þessu verður sár gremja í allri verkalýðshreyfingunni, ekki aðeins í verkakvennafélögunum, heldur engu síður í verkamanna- og sjómannafélögunum. Hér mun verða kveðinn upp sá dómur, sem verður ekki heldur áfrýjað, að hér sé skert samningafrelsið í landinu og það svo, að lítt viðunandi sé.

Í 4. gr. frv. segir enn fremur, að engir samningar, sem stéttarfélögin geri viðvíkjandi launum kvenna, hafi gildi, nema nefndin staðfesti slíka samninga. Þó að samningar milli verkakvennafélaga og vinnuveitenda hafi verið undirritaðir af báðum aðilum, eru þeir ógilt plagg, nema því aðeins að þessi virðulega og valdamikla nefnd hafi staðfest samningana. Þetta er líka slík lítilsvirðing, sem verður ekki við unað.

Þannig er þetta frv. frá upphafi til enda. Það er á allan hátt ófullnægjandi, og það fer í þá átt að lítilsvirða og smána verkalýðshreyfinguna í landinu. Af þeim sökum er ógerlegt fyrir okkur, sem stöndum að verkalýðshreyfingunni á einhvern hátt, að eiga hlut að því að samþykkja slíkt frv. sem þetta, og gerum við því ítrekaðar tilraunir til þess að fá því gerbreytt, þannig að í raun og veru komi út úr því allt annað frv. Að því hníga þær tillögur, sem við berum fram við frv.

Menn hafa nokkuð deilt um það á undanförnum árum, hvort væri réttara að leiða launajafnréttismál kvenna til lykta eftir samningaleiðinni eða með lagasetningarleiðinni. Mönnum hefur stundum fundizt, að það miðaði seint að markinu með samningum, atvinnurekendurnir stæðu fastir gegn þessu réttlætismáli, svo að bilið milli kaups kvenna og karla mjókkaði mjög seint. En ég sýndi fram á það í ræðu minni í nótt, að þegar litið er á nokkru lengra tímabil, er þó munurinn nú á launakjörum kvenna og karla allur annar en hann var, þegar verkakvennafélögin hófu hér á landi sína baráttu fyrir auknum launajöfnuði á móts við karlmenn. Ég skýrði frá því, að um það leyti sem verkakvennafélagið Framsókn í Reykjavík var stofnað, hafi karlmannskaupið verið 25 aurar á tímann, en kvennakaupið l2 aurar á tímann, þ.e.a.s. innan við helming. Það var ekki nema 48 eða 49% þá af kaupi karlmanna. Enn erum við óánægðir með útkomuna eftir hina löngu baráttu um áratugi. En sakirnar standa þó þannig, að í dagvinnu er kvenfólkið með 78.08% af kaupi karla, með nokkru hærra kaup, um og yfir 80%, í tveimur næstu kaupgjaldsliðum þeirra og 100% eða sama kaup og karlmenn hafa í mörgum tegundum vinnu, sem að magni til munu víða vera 20–25% af þeirri vinnu, sem konur inna af hendi í þjónustu framleiðsluatvinnuveganna. Það má því segja, að að meðaltali láti nærri, að kaup kvenna sé nú orðið 83–85% af kaupi karla, og þó verður þetta aldrei reiknað út nákvæmlega. En það er áætlun mín, að ef tekið væri meðaltal af þessum misháu töxtum kvenna, frá lægsta taxtanum í hinni almennu dagvinnu og töxtunum, sem gilda fyrir flökun á fiski og vinnu við skreið og saltfisk víðast hvar um landið, sem er sama og karlmannskaup, að þá yrði meðaltalið um þetta. Það, sem eftir er þá, er það að vinna síðasta áfangann, um 15–17%, upp, og það hefur verkalýðshreyfingin ætlað sér að gera í tveimur samningaáföngum, ef málið leysist að samningaleiðinni.

Ég gerði líka þá áætlun hér í nótt og játa þó, að hún styðst ekki við alveg óyggjandi útreikninga, þeir liggja ekki fyrir, svo að ég viti, neins staðar, að kvenfólkið taki þátt í framleiðsluatvinnuvegunum, í hraðfrystihúsum og við fiskvinnslustörf, bæði við skreið og saltfisk, og í hraðfrystihúsunum, þannig að þeirra vinnuafl sé um það bil þriðji partur af því vinnuafli, sem þarna er lagt fram, að karlmennirnir séu þar að meðaltali með um 2/3 vinnuaflsins. 15% hækkun til kvenna, sem mundi leiða til launajafnréttis þeirra við karlmenn, samsvarar því í raun og veru ekki meiri launaútgjöldum hjá atvinnulífinu en sem jafngilti um 5% hækkun til karlmanna. Og þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu hjá mér, að ég held, að það sé hugarburður einn og fjarstæða, þegar menn eru að gera því skóna, að þarna sé um svo gífurlega mikla útgjaldaaukningu að ræða, ef launajafnrétti kvenna væri samþykkt með löggjöf í einum áfanga, að atvinnulífið rísi ekki undir því, þjóðfélagið sporðreisist og þar fram eftir götunum og verði því að taka þennan mismun, sem eftir er, á löngu árabili, smátt og smátt. Ég held, að það sé algerlega ástæðulaust.

Það er önnur ástæða til þess, að menn eru að stimpast enn þá á móti þessu. Hún er sú, að þeir eru andvígir réttlætismálinu, launajafnrétti kvenna og karla, þótt þeir beri hitt fyrir sig, að þjóðfélagið hafi ekki efni á þessu, nema þá a.m.k. að það komi á löngum tíma, smátt og smátt. Það er aldrei hægt að gera þetta, ef ekki nú, þegar skýrslur liggja fyrir um það, að þjóðarframleiðslan hefur aukizt um 35.5% eða meira en um þriðjung á síðustu 5 árum. Einmitt þegar svo hefur árað hjá þjóðfélaginu, á að grípa tækifærið til þess að leiðrétta slíkt ranglæti sem hér er um að ræða. Að þessu vék hv. frsm. 1. minni hl. hér áðan, og ég er honum alveg sammála um, að það eru litlar líkur til þess, að í annan tíma ári betur til þess að leysa þetta mál til fulls heldur en einmitt nú, þegar opinberar skýrslur sýna slíka aukningu framleiðsluteknanna hjá þjóðinni, sem nú liggja örugglega fyrir.

Mér er það ljóst, að málið verður ekki leyst í einum áfanga nema með lagasetningarleiðinni. Ég tók eftir því í hv. Ed., að í umr. í gær lýsti frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. Ed., frú Auður Auðuns, því yfir sem sinni skoðun, að nú kæmi varla önnur leið en lagasetningarleiðin til greina. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þær komi báðar til greina fyllilega enn, og ef lagasetningarleiðin er hugsuð á þann veg að leysa þetta mál í smápörtum, sennilega sýnu smærri pörtum en samningaleiðin leiðir til, þá sé hún tvímælalaust lakari. En lagasetningarleiðin gæti haft þann kost einmitt umfram samningaleiðina að leysa málið í einum áfanga á þeirri stundu, sem þingheimur væri orðinn sannfærður um, að hér væri um réttlætismál að ræða, — og réttlætismálið, þegar þeir hafa viðurkennt það, eiga þeir að leysa auðvitað í einum áfanga, en ekki í smápörtum. Það er engin ástæða til þess að parta réttlætið niður.

Einustu rökin, sem frambærileg væru fyrir því, að menn vildu ekki leysa þetta mál til fulls að lagasetningarleiðinni, væru þau, að það stæði enn þá í meiri hl. þingheims að viðurkenna þessa lausn málsins sem réttlætismál. En hér liggur nú fyrir, að langsamlega yfirgnæfandi meiri hluti þings, stjórnarandstaðan öll og ýmsir menn úr stjórnarliðinu telja sig hafa viðurkennt það til fulls, vera sannfærðir um, að það eigi að leysa þetta sem réttlætismál, og þá eiga þeir ekki að vera með neitt hálfkák lengur, þá eiga þeir að ganga að því verki að leysa málið á þann veg.

Í hv. Ed. var í gær mjög á því hamrað, að það væri undarlegur stuðningur, sem málinu hefði nú borizt, þegar hv. framsóknarmenn væru nú orðnir slíkir fylgjendur launajafnréttis kvenna, að þeir legðu til, að launajafnréttið yrði afgreitt með löggjöf frá einum og sama degi, eða nánar tiltekið frá 1. júlí þ. á. Í tillögum framsóknarmanna í Ed., sem einnig eru nú fluttar hér í þessari hv. d. óbreyttar, er líka lagt til, að launajafnréttið, sem taka skuli gildi frá 1. júlí þ. á., skuli ná til allra kvenna, hvar sem þær ganga að starfi í landinu, í hvaða stétt sem þær eru. Ef það væri svo, að hv. flm. þessa frv. væru sannir og einlægir áhugamenn fyrir því að leiða þetta. mál til lykta, þó svo aldrei nema þeir á s.l. hausti hafi talið, að ekki væri líklegt, að meiri hl. fengist á Alþingi fyrir stærra skrefi en því, að launajafnrétti fengist lögfest á sex ára tímabili, hvað áttu þeir þá að gera, þessir áhugamenn, þegar þeir urðu þess varir, að Framsfl. hér á Alþingi bauðst til að ganga lengra og samþykkja launajafnréttið þegar á þessu þingi? Var það eðlilegasta viðbragðið að hreyta í þá skætingi, láta illa við því, að þeir skyldu bera fram tillögur um fullkomið launajafnrétti, beita fyrir sig einu konu deildarinnar til þess að akneytast út af þessu? Nei, mér fannst það alveg óskiljanleg framkoma. Ég hefði haldið, að það eðlilegasta hefði verið, að það hefði komið fram yfirlýsing um það frá flutningsmönnum: Hér hefur skapazt nýtt viðhorf. Það er möguleiki í hv. d. til þess að komast lengra með málið en okkur óraði fyrir, og við gerum þessar brtt. að okkar tillögum.

Í stað þess var á því hamrað, að Framsfl. færist ekki að bera slíkar tillögur fram, því að framsóknarmenn hefðu alltaf verið á móti auknu launajafnrétti kvenna. En það var að því er snerti þingsögu þeirra afsannað með því að upplýsa, að í umr. á hv. Alþ. þegar á árinu 1948 um frv. til laga um réttindi kvenna hefði fulltrúi Framsfl. í Ed. lýst sig fylgjandi fullkomnu launajafnrétti. Það var einnig upplýst í þessum umr. undir þessum ásökunum, að í vinstri stjórninni skárust framsóknarmennirnir ekki úr leik, þegar vinstri stjórnin ákvað 5% kauphækkun, með þeirri viðbót, að konur skyldu fá í krónutölu sömu kauphækkun og karlmenn og þannig 7% hækkun, þegar hin almenna kauphækkun hjá körlum var 5%, og varð því þessi ráðstöfun vinstri stjórnarinnar til þess, að kaupgjaldsmismunur kvenna og karla minnkaði við þessa lagasetningu um 2%. Enn fremur varð ekki komizt hjá því að minna á það, að þegar ríkisstj. Emils Jónssonar skar niður kaup karla og kvenna og allra launþega í landinu um 10 vísitölustig í ársbyrjun 1959, þá varð útkoman, þegar fram kom till. um, að lægsta kaupi í landinu, kaupi kvenna, yrði hlíft við þessum niðurskurði og látið standa óbreytt, þá veittu framsóknarmenn á Alþ. þeirri till. stuðning, en fulltrúar verkalýðsflokksins, sem svo kallar sig enn, Alþfl., veittust gegn þeirri till. og beittu hnífnum á kvennakaupið engu síður en á annað kaup og skáru það niður, en drápu þessa till. En með samþykkt þessarar till. hefði kvennakaupið verið komið á einni svipstundu upp í 90% af kaupi karla, eða unninn sá sigur í einu vetfangi, sem verkakvennahreyfingin hyggst nú vinna við samningaborðið, jafnvel þó að það kosti verkfallsbaráttu og verkfallsfórnir.

Nei, það átti ekki að svara framsóknarmönnum, þegar þeir fluttu tillögur um fullkomið launajafnrétti til allra kvenna frá og með 1. júlí n. k., með skætingi. Til þess stóðu engin rök í þessu máli. Það var líka allsendis óviðunandi og óviðurkvæmilegt að hunza tillögur Alþb., sem fram voru lagðar í hv. Ed., því að þær voru orðrétt samhljóða tillögum, sem hv. 10. þm. Reykv. hafði áður átt hlut að því að flytja á Alþ., hæstv. núv. félmrh. hafði átt hlut að því að flytja á Alþ. og hæstv. menntmrh. hafði einnig verið meðflytjandi að á Alþ. Þegar sá möguleiki blasti líka við að endurbæta það frv. til launajafnaðar, sem fyrir lá í þinginu, á þann veg, að það yrði í samræmi við tillögur, sem þrír af aðalforustumönnum Alþfl. höfðu áður flutt á Alþ., þá er það alveg furðulegt, að við slíkum tillögum skuli vera snúizt með handjárnuðu stjórnarliði á þann hátt, að ekki einn einasti maður greiði þeim atkv., heldur felli þær sem snarast.

Ég verð því að segja það, þegar ég lít yfir þessa atburði gærdagsins, að það er mikil breyting orðin á tveimur stjórnmálaflokkum, ef marka má það, sem sagt var viðvíkjandi launamálum, sérstaklega launamálum kvenna, Framsfl. og Alþfl. Ef Framsfl. hefur illa fortíð í þessu máli, þá er hann nú orðinn býsna góður, og ef Alþfl. á glæsilega fortíð í þessu máli, þá er hann orðinn býsna illur og bölvaður í launamálum, og líklega er það, að nokkuð sé satt í því, að þróunin hefur gengið í þessa átt. Framsfl. hefur vaxið viðsýni í kaupgjaldsmálum á liðnum árum og áratugum, og Alþfl. hefur gengið hana móður sína ofan í gröfina á þessu sviði, gengið aftur á bak.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. 1. minni hl. í hv. Ed., Karl Kristjánsson alþm., sagði í gær í sinni ræðu: „Baráttan fyrir launajafnrétti kvenna er að komast á lokastig, og það þýðir engum að stimpast lengur við því, að þetta réttlætismál nái fram að ganga.“ Þetta er hárrétt mat, hárrétt mat manns með opin augu fyrir því, hvernig þróunin er og hefur verið. Og hann sagði einnig réttilega: „Nú er kominn dómsdagur í þessu máli, dómsdagur yfir Alþfl., og það vill svo vel til, að hann hefur nú dómsvaldið í sínum höndum, getur dæmt þessu réttlætismáli fullan sigur, ef hann vill“.

Það er ómögulegt að komast fram hjá því, að annaðhvort er það rétt ellegar það er ekki rétt, að konur hafi sömu laun og karlar, og afstöðu eiga menn að taka til málsins á þann veg út frá því meginsjónarmiði, en réttlætið í sjöttu pörtum eða sjöundu pörtum er háðung og svívirða og ekkert annað. Það er meira en lítið grunsamlegt, að meðan lítið gekk í kaupgjaldsbaráttu kvenna, lítið miðaði í áttina, kom ekkert slíkt frv. fram frá Alþfl. um að mjaka þessu nú áfram með lagasetningarleið á 6 eða 7 árum. En nú, þegar skriður var kominn á kaupgjaldsbaráttu kvenna og verkalýðshreyfingin hafði sett sér það mark að leysa þetta mál í tveimur stórum áföngum, þá kom frv. um að gera það ekki svo fljótt, við skulum fara hægar, við skulum gera það á 6 eða 7 árum, einu ári, sem engar ráðstafanir eru gerðar, og síðan á 6 árum. Við skulum gera það á þann veg, að konur fái 76 aura hækkun á klst. á ári hverju á næstu 6 árum: En það er það, sem nú er lagt til.

Enn þá er ekki genginn dómur um það hér í hv. Nd., hvort tillögur frá orði til orðs samhljóða þeim, sem forustumenn Alþfl. hafa áður flutt á Alþ., fá stuðning þeirra eða ekki. Ég á bágt með að trúa því, að þær verði ekki samþykktar. Ef þær yrðu samþykktar, þá væri frv. orðið allt annað en það var í upphafi, og það er í raun og veru það, sem á að gerast af löggjafarsamkomu, sem er frjáls og óbundin. Ef menn þreifa fyrir sér um, hverju sé hægt að koma fram til bóta í einhverju máli, og svo reynist þingmeirihluti vera fyrir því að þoka góðu máli lengra áleiðis, þá á sízt af öllu að standa á flm, sjálfum, áhugamönnunum, sem segjast vera baráttumennirnir fyrir hinu góða máli, að þiggja útrétta hönd og taka við þeim endurbótum, sem hægt er að fá á málinu.

Eitt af því, sem sagt var viðvíkjandi hinum ágætu tillögum framsóknarmannanna í Ed. um að innleiða launajafnrétti kvenna og karla þegar á þessu ári, miðju þessu ári, var að skjóta því að framsóknarþingmönnunum, hvort þeir vildu ekki taka sig út úr og framkvæma fullt launajafnrétti kvenna hjá atvinnufyrirtækjum Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Þetta átti að vera sem hnífstunga, sem var beint að samvinnuhreyfingunni. Því var til svarað, og það er auðvitað það sanna í málinu: Samband ísl. samvinnufélaga, samvinnuhreyfingin, þarf að sækja til bankavaldsins um lán, og þar er nú enn þá högum háttað þannig að mestu leyti, að atvinnurekandi, sem tæki sig út úr og yrði við sanngjörnum kröfum verkalýðsins og verkalýðssamtakanna um að greiða hærra kaup en almennt væri goldið, — má ekki slíkur aðili búast við því, að við hann væri sagt: Nú, þú ert svo efnaður, að þú getur borgað hærra kaup en almennt er greitt. Hvað ert þú að koma hér og biðja um lán? Þú getur verið án þess. — Þannig veit maður, að er haldið á málum gagnvart einstaklingum, sem vildu sýna sanngirni og verða við óskum verkalýðssamtakanna um kauplagfæringar. En ef þetta væri nú ekki svona, mætti þá ekki hinn góði vilji til þess að framkvæma launajafnrétti koma einhvers staðar annars staðar fram líka? Væri nokkuð undarlegt, þó að menn spyrðu: Vill ekki Bæjarútgerð Hafnarfjarðar taka sig út úr og borga allt í einu kvenfólki sama kaup og körlum? Þar ráða Alþfl.-menn, áhugamennirnir, sem standa hér að frv. um launajafnrétti kvenna og karla. Mætti ekki ætlast til þess, að Bæjarútgerð Reykjavíkur gerði þetta? Ötull og þróttmikill Alþfl.-maður er þar við stýrið, og hann gæti gert þetta, þó að löggjafarvaldið skipaði honum ekki fyrir um það. Hafnarfjarðarbær undir aðalforustu hæstv. félmrh. ætti að gera þetta.

Hæstv. félmrh., Emil Jónsson, hafði framsögu fyrir þessu máli í hv. d. í gærkvöld, þegar næturfundurinn byrjaði, og uppistaðan í hans ræðu var það, þegar hann leit yfir farinn veg, að Íslendingar hefðu sýnt mikið víðsýni í réttindamálum kvenna og Íslendingar hefðu því góðu heilli verið langt á undan öðrum þjóðum í að veita konum réttindi. Og nú kom þetta stórkostlega réttarbótamál á döfina, svo að hann fullyrti, að hér væri, ef þetta frv. yrði að lögum, unninn stórkostlegur sigur. Ég trúi því ekki, að hæstv. félmrh. hafi sagt þessi orð að athuguðu máli, að Íslendingar hafi verið alveg sérstaklega víðsýnir gagnvart réttindamálum kvenna. Það þarf ekki að líta langt yfir sögu okkar til þess að ganga úr skugga um, að því fer víðs fjarri, að þessu sé svona farið. Fram yfir miðja 19. öld voru það lög á Íslandi, að dætur íslenzkra feðra skyldu aðeins hafa hálfan arf móts við bræðurna. Það var á árinu 1850, sem út var gefin konungleg tilskipun, hvar í stóð: „Eftir þennan dag (það var 25. september árið 1850) skal mismunur sá, sem eftir ákvæðum dönsku og norsku laga skyldi vera á arfahlutum karla og kvenna, vera af tekinn í landi voru, Íslandi.“ En allt fram að þessum tíma hafði réttur stúlkunnar móts við drenginn verið helmingurinn. Það var á seinustu árum 19. aldarinnar, sem þær konur, sem veittu búi forstöðu, voru enn fremur 24 ára, máttu öðlast kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna og safnaðarnefnda með sömu skilyrðum og það væru karlmenn. En fram að þessum tíma hafði engin kona mátt njóta þess réttar að taka þátt í sóknarnefnd eða hreppsnefnd. Um allar aldir fram að þessum tíma, fram í lok 19. aldar, hafði konan verið alveg réttlaus á þessu sviði. Dásamlegt víðsýni hafði ríkt hjá Íslendingum, að því er þetta snerti! Þetta skyldi veita þeim, ef þær voru svokallaðar sjálfstæðar konur, þ.e.a.s. voru í sporum bóndans, veittu búi forstöðu og voru eldri en 24 ára, þá máttu þær nú fá kosningarrétt í sveitarstjórnarmálum, sjálfstæðar konur. En þrátt fyrir þetta var þess enn þá langt að bíða, að konur fengju almennan kosningarrétt á Íslandi í þjóðmálum. Nokkrum árum eftir að hinar sjálfstæðu konur fengu kosningarrétt í sóknarnefnd, var gefin út konungleg tilskipun, til þess að konur mættu ganga undir próf í Lærða skólanum og njóta kennslu í Prestaskólanum og Læknaskólanum. Það eru nú 75 ár síðan þetta var svona. Aðeins á seinustu 75 árum Íslandssögunnar hafa konur haft réttindi til þess að mega ganga undir próf í íslenzkum skólum eða mega njóta kennslu án þess að fá próf eða nokkur starfsréttindi að námi loknu. Og svo eru menn að fjargviðrast yfir því, hvað íslenzka þjóðin hafi verið víðsýn í garð kvenna. Nei, það hefur verið litið á þær sem þræla allt fram að síðustu áratugum og er litið á þær sem þræla að sumu leyti enn. Þær skulu fá að þræla íslenzku þjóðarbúi fyrir smánarlaun, og leiðrétting á því fæst ekki enn þá á hv. Alþingi Íslendinga, menn spyrnast á móti því, að það sé gert, þó að þingmeirihluti blasi við fyrir því.

Þegar það var sem sé heimilað, að konur öðluðust rétt til að ganga undir próf í Lærða skólanum, 4. bekk hans, þá skyldu menn halda, að þær hefðu fengið óskoruð réttindi til þess að sækja nám í þessum skóla með fullum réttindum, en það var ekki. Orðrétt stóð í þessari löggjöf: „En að því er Prestaskólann snertir, mega þær þó aðeins að nokkru leyti njóta kennslunnar í honum, og setur ráðgjafinn fyrir Ísland nákvæmari reglur þar um. Eigi mega þær heldur ganga undir burtfararpróf þessa skóla, en geta lokið námi þar með því að ganga undir sérstakt próf í guðfræði. En ráðgjafinn fyrir Ísland tiltekur námsgreinarnar og kveður á um, hvernig því prófi skuli háttað. Próf þau í Prestaskólanum, sem fyrirskipuð eru í sálarfræði og hugsunarfræði, eiga námskonur rétt á að ganga undir.“

Hér er þó ekki gengið lengra en það að heimila konum að njóta æðri menntunar, en það að leyfa kennurum Lærða skólans að prófa stúlkurnar, ef þær hafa lært utan skóla, því að þær máttu ekki sitja í skólanum, og ef þær höfðu kostað sjálfar nám sitt. Þær mega ekki njóta kennslu, þegar þarna var komið, af almannafé. Þær máttu ekki nota þau menningartæki, sem þjóðin hafði kostað af sameiginlegum sjóði sínum. Þær máttu bara koma þangað einu sinni á ævinni til þess að ganga undir próf, sem svo veitti ekki nein réttindi til embætta. Og síðan þetta var, eru ekki nema nokkrir áratugir. Afskapleg víðsýni hjá Íslendingum! Að því er snertir Prestaskólann, máttu stúlkurnar að vísu njóta kennslunnar að nokkru leyti, en með engu móti máttu þær ganga undir próf, sömu próf og piltarnir, hvaða hæfni sem þær höfðu sýnt við námið sjálft, það skipti engu máli. Það var bannað. Það varð að búa út fyrir þær sérstök próf, sem veittu ekki réttindi. Í þessari löggjöf stóð einnig orðrétt þetta:

„Með því að ganga undir þau próf, sem um getur í þessari tilskipun, öðlast konan engan aðgang að embættum né heldur nokkurn rétt til að njóta góðs af því styrktarfé, sem hingað til hefur verið ákveðið námsmönnum við Presta- og Læknaskólann. Konur mega heldur ekki stíga í stólinn, þótt þær njóti kennslu í Prestaskólanum eða hafi gengið undir það próf í guðfræði, sem getið er um í 2. gr.

Réttindum kvenna voru þarna ákaflega skýr og ótvíræð takmörk sett, nefnilega þessi, að hversu glæsilegum prófum sem þær lykju, þá fengu þær þó engan aðgang að neinum embættum né heldur nokkra styrki til fræðslu og menntunar í æðstu skólum landsins. Afleiðingin af þessu varð auðvitað sú, meðan þessi ákvæði giltu, að engin kona sá sér fært að stunda nám í umræddum skólum við slíkt réttleysi að námi loknu.

Þessi ákvæði giltu þangað til fyrir 50 árum, réttum 50 árum nú í ár, því að þau voru ekki afnumin í íslenzkum lögum fyrr en 1911. Árið 1909 er það, sem konum er fyrst viðurkenndur almennur kosningarréttur og kjörgengi í sveitarstjórnarmálum til jafns við karlmenn, ekki aðeins þeim, sem veittu búi forstöðu, heldur öllum konum á kjörgengisaldri. Og það eru sem sé 52 ár síðan það mátti trúa konu fyrir því að fara með atkvæðisrétt í sveitarstjórnarmálum. Og það er einmitt þetta sama ár, 1911, sem, Alþingi gerir loks þá bragarbót gagnvart konum, að þær hljóta rétt til embættisnáms og námsstyrkja og embætta. Þá öðlast þær rétt eins og piltarnir til þess að njóta kennslu, ljúka fullnaðarprófi í öllum menntastofnunum landsins, og konur öðlast þá sama rétt og karlar til hlutdeildar í því styrktarfé, sem veitt er úr opinberum sjóðum námsmönnum við æðri og óæðri menntastofnanir landsins, eins og þá er orðað í lögum, en fram að 1911 engan rétt til neins af þessu. Það eru þá aðeins 50 ár síðan konan öðlaðist þessi mannréttindi. Og svo er öllum kunnugt, að það var árið 1915, fyrir 46 árum, að konur fengu í fyrsta sinn með lögum kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis og þar með í orði kveðnu stjórnmálalegt jafnrétti á við karla. En vitanlega þurfti enginn við því að búast, að á fyrstu áratugunum, sem konur nytu þessara réttinda, hefðu þær aðstöðu til þess að notfæra sér þau til fulls. Það hefur aðeins orðið að koma smátt og smátt, því að aldagamall vani er lífseigur og hefur mikil tök á fólki.

Og svo kemur, þegar nokkrir áratugir, aðeins nokkrir áratugir eru liðnir, frá því að konan á Íslandi hefur fengið hin frumstæðustu mannréttindi, þá kemur ráðh. hér í ræðustól, ráðh, félagsmála, félmrh. á Íslandi, og lýsir því yfir í hrifni, að það sé alveg sérstakt gleðiefni, hvað Íslendingar hafi verið víðsýnir og frjálslyndir að því er snertir það að veita konum mannréttindi og réttarbætur til jafns við karlmenn. Ég verð að segja, að það er ekki hátt risið á þeim hugsunarhætti, ef viðkomandi ráðh. hefur haft þekkingu á þessum málum, hvernig réttleysið hefur þjakað íslenzkar konur allt fram á ævidaga þeirrar kynslóðar, sem nú er uppi. Og nú erum við sem sé að glíma við það, að sú fásinna er viðurkennd, að konur eigi að vinna, leggja fram vinnuafl sitt fyrir lægra kaup en karlmaðurinn, og það er verið að berjast um það á árinu 1961 í sölum Alþingis, hvort það sé óhætt að viðurkenna þessi réttindi konunni til handa eða ekki. Og það virðist fullt útlit fyrir það, að jafnvel konur á Alþingi, sem nú hafa öðlazt þau mannréttindi að mega sitja hér, taka þátt í störfum, þær lúti valdboði karlmanna um það að stimpast þarna við og láta konur ekki fá þessi réttindi nema í smáskömmtum, eins og það væri eitthvert eiturlyf.

Nei, það er fortakslaust rétt, að eins og það varð ekki lengur staðið á móti því, að konur fengju kosningarrétt til sveitarstjórna, kosningarrétt til Alþingis, að þær fengju rétt til þess að stunda nám í skólum landsins og taka þar próf, njóta af styrktarfé veittu úr ríkissjóði, fengju heimild til þess að stunda nám í þeim menntastofnunum, sem byggðar voru af almannafé, og öll önnur réttindi, sem konum hafa verið veitt á undanförnum árum og öllum þykja nú sjálfsagðir hlutir, eins er það sjálfsagður hlutur að afnema þær leifar gamals réttleysis í launamálum, sem við enn þá búum við. Og það er algerlega ósæmilegt að stimpast lengur við því, eins og hv. þm. Karl Kristjánsson sagði í Ed. í gær. Það er miklu meira en kominn tími til þess að afnema þessar seinustu leifar ranglætisins gagnvart kvenþjóðinni. Og ef Alþingi fæst ekki til þess að gera það, þá verður að gera það af verkalýðshreyfingunni, það er mér alveg fyllilega ljóst, þar sem íhaldsöflin þó góðu heilli mega sín minna en í sölum Alþingis.

Ég skal nú láta máli mínu lokið. En ég minni á það, að þm. Alþb. geta ekki fylgt þessu frv. um launajöfnuð kvenna í áföngum og með nefnd, sem á að hafa úrskurðarvald í launamálum og verkalýðsfélögin eiga að sækja um til í nóvembermánuði ár hvert, ef þau vilja fá viðurkennda réttmæta gerða samninga milli sín og atvinnurekenda, fá þá uppáskrifaða af einhverri valdsnefnd, þar sem verkalýðshreyfingin á einn fulltrúa af þremur. Við það sættir verkalýðshreyfingin sig ekki. Þess vegna gefum við Alþb.-menn aðeins kost á því að fylgja þessu frv., ef við það fengjust samþykktar brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Í fyrsta lagi, að það yrði í frv. tekið fram, að við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum skuli konum greidd sömu laun og körlum. Í öðru lagi, að við færslu milli launaflokka skuli sömu reglur gilda fyrir konur sem karla. Í þriðja lagi, að við skrifstofustörf öll og afgreiðslustörf í verzlunum skuli greitt sama kaup, hvort sem slík störf eru unnin af konum eða körlum. Og í fjórða lagi, að öll störf í hraðfrystihúsum, verksmiðjum og við iðju og iðnað o.s.frv. skuli enn fremur greidd sama kaupi, hvort sem þau eru unnin af konum eða körlum, og skuli sérákvæði öll í samningum stéttarfélaga um lægri kaupgjaldsákvæði til kvenna falla úr gildi við gildistöku þessara laga.

Því aðeins að þessar brtt. fáist samþykktar, getum við Alþb.-menn fylgt þessu frv. Verði þessar till. hins vegar felldar nú við 2. umr., þá munum við enn freista þess við 3. umr. að koma fram breytingum til bóta á þessu afmánarfrv.