25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þau fáu orð, sem ég segi hér, eru frekar til þess að bera af mér sakir en að ræða sjálft málið. Hv. 4. landsk. þm. hefur látið sig henda það að bera á mig allþungar sakir fyrir að hafa haldið hér fund í heilbr.- og félmn. um það mál, sem hér er á dagskrá, að lokinni umr. á síðustu nóttu. Út af þessu þykir mér rétt að taka fram, að ég boðaði hér strax í gærkvöld, nokkru eftir að fundur var settur í hv. d., fund í heilbr.- og félmn. og fundarboðið hljóðar svo: „Heilbr.- og félmn. Nd. heldur fund í kvöld, 24. 3., að loknum fundi deildarinnar.“ Eins og fundarboðið ber með sér, er gert ráð fyrir því, að þessari umr. ljúki á kvöldfundi. Hér stendur alveg ákveðið í fundarboðinu: „Að loknum fundi deildarinnar“ í gærkvöld. Þetta fundarboð er sýnt öllum nm., og við það er engin aths. gerð, ekki heldur af hv. 4. landsk. (HV: Munnlega voru send frá mér mótmæli.) Ég veit ekkert um það, þau hafa aldrei komið til mín. Og þm. skrifa venjulega aths. við fundarboð, ef þeir annaðhvort geta ekki mætt eða óska eftir, að fundurinn sé haldinn á öðrum tíma. Þetta er ekki fyrir hendi hér. Ef hv. þm. hefði þá látið mig vita um, að hann óskaði eftir samkomulagi um það, að fundinum yrði frestað og hann ekki haldinn fyrr en síðar, gat vel verið, að milli okkar hefði tekizt það samkomulag, að hann hefði stytt ræðu sína, ekki um 1/6 heldur 5/6, og svo við frestað fundinum þar til í morgun. En það var ekki leitað eftir neinu slíku samkomulagi við mig um að hafa þann hátt á. En heldur virkilega hv. 4. landsk., að hann geti boðið mér sem gömlum og reyndum þm. upp á það að sitja hér nærri sex klukkutíma undir ræðu hjá honum á næturfundi, en sleppa honum svo við tveggja mínútna fund í nefnd um sama mál? Þá þekkir hann ekki mikið skap mitt eftir öll samvinnuárin. Það er þetta, sem ég vildi hafa bent hv. þm. á.

Auk þess vil ég taka fram, að það er algerlega rangt, að mér hafi verið fyrirskipað að halda slíkan fund, og það viðurkenndi raunverulega hv. þm. sjálfur, því að hann viðurkenndi, sem var rétt, að hæstv. landbrh. kom til mín til þess að biðja mig um að verða við óskum hv. 4. landsk., falla frá því að halda fundinn, og mér skildist, að það væri af því, að hann væri nú orðinn úttaugaður hér í þessari ræðu sinni. (HV: Nei, nei.) En ég sagði honum, að hvorki hann né hv. 4. landsk. né neinn annar væri hér yfirmaður minn yfir formennsku í nefnd og þess vegna kæmi ekki til mála, að ég frestaði þessum fundi, og sýnir það, að mér hefði aldrei verið fyrirskipað að hafa hann. Og hv. þm. veit, að ég læt ekki fyrirskipa mér neitt um mitt starf hér í Alþingi. Og hann hefur sjálfur viðurkennt og honum ber að viðurkenna það enn, að þetta sé rangt, sem hann hefur borið hér á mig, að ég hafi orðið að lúta nokkrum fyrirskipunum annarra í þessu máli. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að hv. 4. landsk. hefur sett tvö met hér á þessu þingi og jafnvel þó að lengra aftur í tímann verði leitað. Hann á met í því að hafa talað við 1. umr. lengstan ræðutíma og margtuggið upp sama efnið. Ég sat hér allan tímann, og ég veit, að hið sama hefði hann getað sagt á 30 mínútum, sem hann notaði nærri sex tíma til að segja, og leyfir sér svo þess utan að endurtaka allt saman aftur hér daginn eftir.

En hann á annað met. Hann á líka met í því að hafa staðið hér lengst í þögn í þessum stól og ekki sagt neitt. (Gripið fram í.) Ég vil segja, að bæði þessi met lýsa manninum vel. Þagnarmetið kostar þó Alþingi og ríkissjóðinn miklu minna fé, því að þögnin verður þó ekki prentuð, og á sama tíma veitti hún þeim mönnum, sem hér voru, mjög sérstæða og óvenjulega skemmtun, að sjá hv. þm. standa orðlausan, sem aldrei hafði komið fyrir fyrr, tímunum saman í ræðustól.

Út af þeim ásökunum, sem hv. þm. bar á verzlunarmannastéttina eða eigendur verzlananna í landinu, þá mótmæli ég algerlega þeim ásökunum. Ég þekki sjálfsagt alveg eins vel þá samninga, sem eru á milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda, og ég veit ekki til, að nokkurs staðar þar séu metin laun eftir kynjum. Það er flokkað í ákveðna flokka, og hvort það er karl eða kona, sem ræður sig til starfa í hinum mismunandi flokkum, er á valdi vinnuveitandans og vinnuþiggjandans og kemur ekkert við launagreiðslum. Ég get hins vegar upplýst hv. þm. um það, að í fjöldamörg ár, á þeim skrifstofum, sem ég hef haft með að gera, hafa konur haft nákvæmlega sömu laun fyrir sömu vinnu, og mér hefur aldrei dottið í hug að beita því ranglæti að greiða t.d. kvengjaldkera minni laun en karlgjaldkera við sama starf, og svo mun vera um flesta atvinnurekendur í verzlunarmannastétt í landinu, svo að einnig það er algerlega rangt, eins og flest af því eða margt af því, sem hv. þm. sagði hér í nótt í sinni löngu ræðu.

Ég vildi svo aðeins að síðustu mega kasta fram þeirri spurningu, sem raunverulega hv. 8. þm. Reykv. hér upplýsti áðan: Hvers vegna kom ekki þessi hv. þm. fram þessu frv. í sinni ráðherratíð? Það vildi nú svo vel til, að þá heyrðu þessi mál undir hans ráðuneyti. Hann fullyrti hér í nótt, að það hefði verið af því, að Alþfl. hefði verið svo vondur við hann, að hann hefði ekki viljað leyfa honum það í vinstri stjórninni. Hæstv. núv. heilbr.- og félmrh. kallaði þá fram í og sagði, að það væri algerlega rangt. Þeir geta deilt um það. Þeir eru gamlir samflokksmenn og geta deilt um það, hvort það er rangt eða rétt. En hvort sem það er rangt eða rétt, þá er alveg vitanlegt, eftir því sem upplýst er, m.a. í hans ræðu í nótt, að það hefur þá verið fylgi fyrir hendi, allur Sjálfstfl. með því, eftir því sem hv. þm. upplýsti, og svo sjálfsagt allur Framsfl. og allur kommúnistaflokkurinn, ekki vantar það. Og hvers vegna setti hann þá ekki fram þetta mál og fékk það gert að lögum? Það hvílir sannarlega þung ábyrgð á honum sjálfum að hafa ekki gert það, og það afsakar ekkert, þótt hann fyrir fram hafi ekki fengið samkomulag um það innan ríkisstj. Þá átti hann að reyna á þolrifin hér í þingi til að vita, hvort ekki fengjust nægilega mörg atkv. með því, að þetta yrði gert að lögum. Nei, það var gert annað þá, sem hann einmitt var að hæla sér og vinstri stjórninni fyrir. Hann sagði, að vinstri stjórnin hefði minnkað mismuninn á launum karla og kvenna um 2%, eins og hann sagði í ræðu sinni áðan, og hældi henni mjög mikið fyrir það. Ef það er rétt, þá tæki það ekki nema hálfa öld að afnema allan mismuninn, ef tekin yrðu 2% á hverju ári, og það þykir þessum ágæta þm. mjög gott.

Aðeins örfá orð, herra forseti. Út af öðrum málum, sem hv. þm. minnti á að ekki hefðu verið afgreidd úr heilbr.- og félmn., vil ég að mestu láta nægja það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér um störf n., en skal þó bæta þessu við:

102. mál, sem er um sömu laun kvenna og karla og er frv., sem borið var fram af hv. 4. landsk. ásamt fleirum, var tekið fyrir í n. 5. des., 21. jan., 14. febr. og 20. marz eða fjórum sinnum alls. Og það var ávallt í fullu samkomulagi við hv. 4. landsk um, að n. yrði ekki klofin á þeim tíma, sem það er þá til umr., vegna þess að það var verið að leita samninga um, hvort hægt væri að koma fram málinu yfirleitt í þinginu, því að það lá frv. um sama mál fyrir í Ed. Og þessi meðferð er síður en svo óvenjuleg. Þetta er gert um önnur mál hér í þinginu, m.a. frv. um sveitarstjóra, 80. mál, sem flm. þess frv. féllst á að láta bíða, þar til séð yrði, hvaða afgreiðslu sams konar mál fengi í Ed. Það hefði vitanlega ekki verið vit í að samþykkja það frv., þegar fyrir lá í Ed. heildarlöggjöf til sveitarstjórnarlaga og ákvæði frv. í Nd. tekið inn í heildarlöggjöfina. Og sama hefði vitanlega verið hér, að þessi frumvörp hefðu verið samræmd, ef meiri hl, hefði fengizt fyrir þeim tillögum. Það fékkst meiri hl. fyrir tillögunum um 80. málið í þinginu, hér var ekki meiri hl. til fyrir þessum tillögum. Og ef hann hefði verið, þá gat ekki heilbr.- og félmn. Nd. eyðilagt þann meiri hl. við það að halda frv. í n., síður en svo. Það voru og önnur mál, eins og landsútsvör, því var haldið í n. og rætt um það margoft í n, og bent á, að það væri von á tekjustofnafrv. fyrir sveitarsjóði. Með því að þar væri ákvæði um landsútsvar, væri ekki ástæða til að afgr. frv., og var það því ekki heldur afgreitt. Svona gengur þetta venjulega í þingi, og þetta veit hv. þm. En hann þarf að hafa eitthvað til þess að geta talað um, þegar hann er orðinn alveg þurrausinn að efni um það mál, sem er á dagskrá.

Ég vil svo aðeins að síðustu upplýsa það, að þau 14 ár, sem ég var í Ed., var það á hverju einasta ári í þinglok, að nefndarfundir voru haldnir að nóttu til til þess að koma fram málum, sem vitað var að meiri hluti þings var fyrir.