25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er á dagskrá, um launajöfnuð karla og kvenna, er mjög mikið mannréttindamál. Launajafnrétti milli karla og kvenna hefur verið frá fyrstu tíð eitt aðalbaráttumál verkalýðshreyfingarinnar. Ég minnist þess, að á fyrstu dögum verkalýðshreyfingarinnar var þetta mál mjög ofarlega á baugi og átti þá ekki miklu fylgi að fagna hjá ráðamönnum þessa lands. Ég minnist þess t.d., að í einni kröfugöngu, sem farin var hér í Reykjavík, bar virðuleg kona, ein af brautryðjendum verkalýðshreyfingarinnar, spjald, sem á var letrað: „Sömu laun fyrir sömu vinnu.“ Það gekk ekki á öðru alla gönguna en skítkasti og óþverraorðum, sem voru kölluð til konunnar fyrir það að bera þetta spjald. Þannig var þá ástandið í þessum málum. Þá þótti það ekki sérstaklega aðkallandi eða mikilsvert að tala um jafnrétti karla og kvenna.

Þetta mál hefur, sem betur fer, átt ört vaxandi fylgi að fagna meðal alls þorra þjóðarinnar. Í nokkrum starfsgreinum njóta konur sömu launa og karlar. Má þar til nefna konur, sem eru í þjónustu ríkis og bæja. Samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn ber konu sömu laun og körlum. Það opinbera hefur þó reynt að fara í kringum þessi lagaákvæði á ýmsan hátt, en réttinn hafa þó konurnar þrátt fyrir allt. Þá hafa og mjög mörg verkalýðsfélög fengið því framgengt, að konum er nú greitt sama kaup og körlum við ýmsa vinnu, svo sem við fiskflökun og að nokkru við síldarsöltun eða síldarvinnu, en inn á það atriði mun ég koma alveg sérstaklega. Þá eru til verkalýðsfélög, sem hafa gert samninga við atvinnurekendur, þar sem konum skuli greitt sama kaup sem körlum við alla vinnu. Í þessu sambandi má benda á, að eitt verkalýðsfélag, sem gerði samning í vetur, verkalýðsfélagið á Skagaströnd, samdi um fullkomið launajafnrétti á milli karla og kvenna. Allt þetta stefnir vitanlega hröðum skrefum í þá átt að jafna þann mismun, sem hefur verið á milli kaups kvenna og karla, og mun þess ekki langt að bíða, að verkalýðsfélögin nái settu marki, því marki, sem þau hafa barizt fyrir frá upphafi, að konur fái sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að verkakonur á Siglufirði hafa nú sama kaup og karlmenn við alla tímavinnu við síldarverkun. Þetta fengu konurnar fram með samkomulagi við atvinnurekendur s.l. vor. Og ég get ekki séð, að þetta atriði í samningunum hafi á neinn hátt torveldað síldarvinnu á Siglufirði s.l. sumar, eins og bent er á í grg. fyrir frv. þeirra Alþfl.-manna, að ef ætti að koma á algeru launajafnrétti, þá yrði það til þess að torvelda eða jafnvel til að setja úr jafnvægi atvinnulífið í landinu.

Nú munu mörg verkalýðsfélög hugsa sér við væntanlegar samningaumleitanir, sem fram munu fara nú á næstunni milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda, að setja fram kröfu um fullt launajafnrétti. Þetta hefur flm. hlotið að vera fullljóst, og ég er ekki alveg frá því, að þetta frv. sé m.a. flutt til að stöðva þá þróun, sem fyrirsjáanlegt er í þessu máli að verða muni, jafnvel á þessu vori, að óbreyttu ástandi.

Frv. þeirra Alþfl.-manna gerir ráð fyrir, að á árunum 1962–67, taki menn eftir, á árunum 1962–67 skuli laun kvenna hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf í eftirfarandi starfsgreinum: almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu, verzlunar- og skrifstofuvinnu. Með þessu eru vitanlega fjölmörg störf önnur undanskilin, svo sem margvísleg þjónusta og mörg önnur störf. Ekki verður séð, hvað hefur vakað fyrir flm. með slíkum vinnubrögðum. En maður hlýtur að spyrja: Hví ekki jöfn laun kvenna og karla við alla vinnu, hverju nafni sem hún nefnist? Hví ekki stefnt að því að tryggja öllum konum sama rétt? Tíminn, sem ætlazt er til að fari í að koma fram launajafnréttinu, er hvorki meira né minna en 6 ár. Það má segja, að hér sé verulega rólega af stað farið. Það er ekki byltingarsvipurinn á þessum hlutum hjá þeim hv. Alþýðuflokksmönnum. Og viti menn, það stóð svei mér ekki á Sjálfstfl. hér á Alþ. að lýsa stuðningi sínum við þetta mál. En manni dettur jafnvel í hug, að áhuginn fyrir jafnrétti kvenna í launamálum sé ekki eins mikill og einlægur og þessir hv. þm. vilja vera láta. Er ekki jafnvel hugsanlegt, að þetta frv. sé fram komið hér á Alþingi beinlínis til þess að draga það um nokkur ár, að konur fái þennan sjálfsagða rétt viðurkenndan? Ég kasta þessu fram sem fyrirspurn.

Þetta frv. ber ótvíræð merki þess, að hin lamandi hönd Sjálfstfl. hafi haft hönd í bagga um samningu þessa frv. Mér finnst það nú eftir annarri framkomu Alþfl.-manna hér á þingi ekkert merkilegt, þótt þeir hefðu leitað eftir áliti og stuðningi Sjálfstfl. til þess að koma þessu máli áleiðis. Ég þykist líka þess fullviss, að atvinnurekendur muni vera þessu frv. mjög fylgjandi. Það er ósköp skiljanlegt. Þeim er það áreiðanlega fullljóst, að það getur ekki liðið nema tiltölulega stuttur tími, þar til þeir verða viljugir, nauðugir að fallast á þá kröfu verkaláðsfélaganna, að konur fái sömu laun og karlar. Það er aðeins tímaspursmál. Þetta er svo sjálfsagt mál, að móti því er ekki hægt að streitast til lengdar. En nú hefur það stórmerkilega fyrirbæri gerzt, að þrír þm. Alþfl. í Ed. bera fram frv. á Alþingi, sem þeir kalla eins gæti heitið frv. til laga um að fresta launajöfnuði kvenna og karla í sex ár, — það er rétta nafnið á því. Það er sannarlega ekki verið að flytja þetta frv. sem jafnréttismál sem á að koma í gegn á stuttum tíma. Það skal í lögum festast, að það taki sex ár að koma á jafnrétti milli kvenna og karla á launamálum, undanskilin eru mörg störf, sem konur vinna við. Í frv. er sagt að lög þessi skerði ekki á nokkurn hátt rétt stéttarfélaganna til þess að semja um það við atvinnurekendur, að launajöfnuði skuli náð á skemmri tíma en lögin mæla fyrir um. En mér er nú spurn: Dettur nú virkilega þeim hv. alþingismönnum í hug, sem standa að þessu frv., að atvinnurekendur fari ótilneyddir að semja um hærri laun en lög gera ráð fyrir? Dettur þeim það virkilega í hug? Slíkt væri í alla staði mjög óraunhæft að láta sér slíkt til hugar koma.

Eitt allra furðulegasta ákvæði í frv. eru þó ákvæði 3. gr. Samkv. henni á að kjósa þriggja manna launajafnaðarnefnd, og skal hún þannig skipuð: einum skipuðum af félagsdómi, og er hann formaður n., öðrum af Alþýðusambandi Íslands og hinum þriðja af Vinnuveitendasambandi Íslands. Þannig skal nefndin skipuð. Í þessari nefnd á sæti aðeins einn fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar. En hvert er svo verkefni þessarar nefndar? Jú, nefnd þessi skal hafa það verkefni að ákveða hina árlegu launahækkun. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum, að ákvörðun nefndarinnar verður ekki áfrýjað. Sem sagt, þessari nefnd er falið einveldi í því að ákveða um hvernig og á hvaða hátt þessi launahækkun skuli vera framkvæmd. Hér er því að mínum dómi á hinn ósvífnasta hátt verið að taka af launasamtökum réttinn til ákvörðunar um kaupgjaldsmál sín og fá hann í hendur lögskipaðri nefnd, sem þannig er skipuð, að verkalýðssamtökin eiga aðeins einn fulltrúa. Mér finnst það mjög ótrúlegt, að verkalýðssamtökin, sérstaklega kvennasamtökin, taki slíku réttindaráni með þögn og þolinmæði. Hingað til hafa verkalýðsfélögin talið samningsréttinn hin dýrmætustu réttindi, sem þau muni aldrei af hendi láta. Nú hefur það merkilega gerzt, að þrír hv. alþm. Alþfl. í Ed. hafa flutt frv. til laga, þar sem eitt ákvæði þess frv. er um að taka samningsréttinn af konunum í einu mesta réttindamáli þeirra. Það er ekki þar með sagt, að hann sé tekinn að öllu leyti, en um þetta atriði er rétturinn tekinn og afhentur þessari ákveðnu nefnd. — Það var svo eftir Alþfl. að bæta einni nefndinni við. Þær nefndir, sem fyrir eru, eru víst ekki nógu margar. Vitanlega á að launa þessa nefnd, maður verður að ganga út frá því sem gefnu.

Ekki verður séð, að þetta ákvæði frv. sé til neins annars en að torvelda það, sem lögin gera ráð fyrir. Hvað á það t.d. að þýða, það ákvæði frv., að þau verkalýðsfélög, sem semja um kaup og kjör fyrir konur í starfsgreinum samkv. 1. gr., skuli skyld til þess í nóvember ár hvert að sækja um launahækkun? Ég fæ á engan hátt skilið, til hvers þetta ákvæði er sett inn í frv. Ef frv. gerir ráð fyrir, að laun kvenna í ákveðinni starfsgrein skuli hækka á sex árum upp í karlmannskaup, þá get ég ekki séð, að það þurfi neitt skrifstofubákn, neina lögskipaða nefnd til þess að reikna slíkt út. Slíkan útreikning geta verkalýðsfélögin vitanlega sjálf framkvæmt í samráði við atvinnurekendur, það þarf enga launaða nefnd, enga ríkisskipaða nefnd til slíks. Þessi nefndarskipun er algerlega óþörf og beinlínis hættuleg og getur gefið slæmt fordæmi, sem verkalýðsfélögin ættu vel að athuga, áður en þau fallast á slíkt.

Hvernig sem á þetta frv. er lítið, verður það ekki skoðað í öðru ljósi en því, að það verði til þess, ef að lögum verður, að seinka því um sex ár, að fullur jöfnuður náist í þessu mikla sanngirnismáli launastéttanna. Það er aðalatriði í málinu.

Snemma á þessu þingi flutti hv. 4. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, forseti A.S.Í., ásamt okkur fimm þm. Alþb., frv. til l. um sömu laun kvenna og karla. Í því frv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, — það er reyndar búið að kynna þetta áður, það gerir ekkert til, þó að það sé gert aftur:

„Við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum skulu konum greidd sömu laun og körlum.“

Hér er hreint að verki gengið. Eftir þessari 1. gr. skulu konum greidd sömu laun sem körlum. Og svo segir í 2. gr.:

„Við færslu milli launaflokka skulu sömu reglur gilda fyrir konur sem karla.“

Og í 3. gr.: „Skrifstofustörf öll og afgreiðslustörf í verzlunum skulu greidd sama kaupi, hvort sem þau eru unnin af konum eða körlum.“

Í 4. gr. segir:

„Öll störf í hraðfrystihúsum, verksmiðjum og við iðju og iðnað o.s.frv. skulu enn fremur greidd sama kaupi, hvort sem unnin eru af konum eða körlum. Skulu sérákvæði í öllum samningum stéttarfélaga um lægri kaupgjaldsákvæði kvenna falla úr gildi við gildistöku laga þessara.“

Og svo kemur 5. gr.:

„Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.“

Þessu frv. fylgir allýtarleg grg. Þess er getið m.a., að hv. 4. landsk. þm. hafi flutt á þinginu 1948 frv. í Ed. um launajafnrétti kvenna. Þetta frv. var um algert jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífsins. Í umr., sem þá urðu um málið, viðurkenndu flestir þm., sem í þeim tóku þátt, að misrétti kvenna í launamálum væri augljóst, og létu sumir þeirra líklega um fylgi við frv., ef það fjallaði einungis um launajafnrétti kvenna og karla. En málið var svæft í nefnd. Þannig var áhuginn þá á þessum málum. 1953 flutti sami hv. þm. frv. aftur, og að þessu sinni gerðust þeir Gylfi Þ. Gíslason, Emil Jónsson og Eggert Þorsteinsson meðflm. að frv. Takið eftir, Alþfl.-mennirnir þrír til viðbótar eru meðflm. að frv. Frv. gerði ráð fyrir, að launajafnréttið yrði þá að lögum samstundis, ef það yrði samþykkt. En nú skeður það á þessu þingi, að einn þessara sömu manna flytur frv. til laga um launajöfnuð karla og kvenna, en það á bara ekki að taka gildi fyrr en eftir 6 ár að fullu leyti, það á að taka 6 ár að koma því á. Ekki finnst mér framförin mikil hjá þessum hv. Alþýðuflokksþingmanni. Á næsta þingi, 1954, flytur hv. 4. landsk. enn frv. um sömu laun kvenna og karla, að þessu sinni flutti hann frv. einn. En eins og áður snerust íhaldsöflin gegn því og það náði ekki fram að ganga: Nú er það flutt í fjórða sinn af okkur þingmönnum Alþb.

Samkv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skulu konur, sem eru opinberir starfsmenn, hafa sömu laun og karlar. Þetta er líka þannig í framkvæmd, að því er snertir sumar stéttir embættismanna. Það dettur t.d. engum í hug, að konan í kennarastétt eigi að hafa lægri laun fyrir sitt kennarastarf en karlmaður, sem er stéttarbróðir hennar.

Í grg. frv. okkar eru allýtarleg rök fyrir frv., sem ég sé ekki út af fyrir sig ástæðu til að fara mjög mikið inn á, vil þó aðeins geta hér nokkurra atriða, með leyfi hæstv. forseta, til viðbótar, — þar segir:

„Við almenn erfiðisstörf í þjónustu atvinnuveganna ríkir nú álíka ósamræmi um kaupgreiðslur kvenna eins og um launagreiðslur kvenna í opinberri þjónustu. Stéttarfélögin hafa náð samningum við atvinnurekendur um, að konum skuli greitt karlmannskaup við ýmis störf. Þannig hafa konur, sem flaka fisk í hraðfrystihúsum, víðast hvar karlmannskaup, en konur, sem önnur störf vinna í sömu fyrirtækjum og afkasta þó eigi minna verki en karlmenn mundu afkasta í þeirra sporum, hafa tæp 80% af kaupi karla. Yfirleitt er almennt kaup verkakvenna nú um 78% af tímakaupi karlmanna við almenna vinnu. Þetta er óviðunandi ranglæti, enda skapar slíkt launamisrétti slíka úlfúð og óánægju á vinnustað, að miklum leiðindum veldur og er atvinnulífinu auk þess tvímælalaust til tjóns.“

Ég læt þetta nægja, sem ég hef hér tekið upp úr grg. Ég tel, að það séu þar færð fram öll helztu rökin fyrir því, að frv. okkar á þskj. 114 verði samþykkt, en aftur á móti frv., sem þeir Alþfl.-menn í Ed. flytja, verði vísað frá, vegna þess að að mínum dómi gengur það allt of stutt, það tekur allt of langan tíma að koma jafnréttisákvæðinu í gegn, og auk þess eru í frv. ákvæði, sem ég tel að séu hættuleg gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Ég hef hér að nokkru rætt um frv. hv. þm. Alþfl., sem flutt var í Ed. Ég hef enn fremur lýst að nokkru frv. hv. 4. landsk. o.fl. og gert samanburð á þessum frumvörpum. Ekki verður um það deilt, að á þessum tveim frumvörpum er mjög mikill munur. Frv. þeirra Alþfl.-manna gerir ráð fyrir, að launajafnrétti kvenna skuli nást fram á 6 næstu árum. Frv. okkar Alþb.-manna gerir aftur á móti ráð fyrir, að launajafnréttið skuli ganga í gildi nú þegar á þessu ári. Þetta er aðalatriðið. Það er það, sem ber á milli. Á þessum tveimur frumvörpum er afgerandi mismunur. Reyndar má segja, að bæði frumvörpin stefni að sama marki, en höfuðmismunurinn, — ég vil endurtaka það, — er sá, sem áður hefur verið lýst, að annað frv. gerir ráð fyrir að ná launajafnréttinu fram í áföngum, sem eiga að ná yfir 6 ára tímabil. Það á að skipa nefnd, sem á að úrskurða um réttmæti umsókna um launahækkun til kvennanna. Þetta ákvæði er alveg furðulegt, alveg sérstaklega þegar að því er hugað, hvernig þessi nefnd er skipuð og að í henni er aðeins einn fulltrúi frá verkalýðssamtökunum. Ég vil alveg sérstaklega vara við þessari skipan mála. Með þessari nefndarskipun er réttur viðkomandi verkalýðsfélags stórlega skertur, og það, sem kannske er þó enn þá alvarlegra, að með þessu er ríkisvaldinu gefið allmikið vald til íhlutunar um launamál verkalýðsfélaganna. En hingað til hafa verkalýðsfélögin talið, að forðast beri af fremsta megni afskipti ríkisvaldsins af málefnum verkalýðsfélaganna. Með ákvæðum 3. og 4. gr. er að mínum dómi farið inn á mjög vafasamar leiðir, og ég trúi því ekki, að þetta ákvæði frv. sé sett þar inn með samþykki verkakvennafélaganna í landinu. Mér finnst þetta ákvæði eitt svo varhugavert, að þó að ekkert annað væri athugavert við frv., mundi ég ekki sjá mér fært að greiða því atkvæði. Í frv. okkar Alþb.-manna eru engin slík ákvæði. Þar er aðeins, að við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu, sveitarfélögum og einstaklingum og fyrirtækjum skuli konum greidd sömu laun og körlum. Þetta er ákaflega einfalt mál. Ég hef áður lýst þessu frv. og sýnt fram á, að það er afgerandi mismunur á þessum tveim frumvörpum.

Ég sé, að í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. er sagt, að n. sjái enga ástæðu til að gefa út sérstakt nál. um frv. á þskj. 114. Þá veit maður það. Þá veit maður um hug hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. gagnvart okkar frv. Í sjálfu sér kom það mér a.m.k. ekki neitt sérstaklega á óvart.

Svo vel er ég orðinn kunnugur skoðunum manns af sama sauðahúsi og hv. meiri hl. eftir 40–50 ára starf mitt í verkalýðshreyfingunni.

Í grg. hv. flutningsmanna fyrir frv. á þskj. 64 segir, að á því sé ekki vafi, að það sé farsælast fyrir alla aðila, að launajöfnuður nái fram að ganga smátt og smátt á nokkrum árum, það sé vitanlega matsatriði, eins og það er orðað, hvað mörg ár það skuli taka. Svo segir: „Væri fullur launajöfnuður lögboðinn þegar í stað í einum áfanga, mundi það geta valdið mjög mikilli röskun í atvinnulífinu. Afleiðingin af því gæti orðið atvinnuleysi meðal kvenna“ o.s.frv. Ég held nú, að hér sé sett fram fullyrðing án nokkurs rökstuðnings. Hvað hefur gerzt, þar sem launajafnrétti hefur verið komið á? Ég benti á það áðan, að á Siglufirði var um það samið á s.l. vori, að konur, sem ynnu í tímavinnu við síld, öll sú vinna skyldi greidd með karlmannskaupi. Ekki varð ég var við það og ég held enginn, að nein röskun yrði þar á atvinnulífinu, síður en svo, af þeim ástæðum, og vinna kvennanna varð sízt minni en áður, það fullyrði ég. Sama mun hafa orðið upp á teningnum alls staðar, þar sem komið hefur verið á launajafnrétti. Eða veit nokkur þess dæmi, að konur, sem hafa kennararéttindi t.d., séu útilokaðar frá kennarastöðum, þó að í þeirri stétt ríki launajafnrétti? Það væri afar fróðlegt, ef einhverjir hv. alþm. vissu þess dæmi, að þeir segðu þá frá því hér á Alþingi.

Nei, sannleikurinn í þessu máli er sá, að þótt komið væri á algeru launajafnrétti kvenna, mundi það valda tiltölulega lítilli röskun í atvinnulífinu. Það, að launajafnrétti kvenna mundi valda atvinnuleysi meðal kvennanna, er hrein fjarstæða, sem ekki eru ljáandi eyru að. Það er almennt viðurkennt, að við sum störf afkasta konur meiri vinnu en karlar og eru beinlínis frekar eftirsóttar til þeirrar vinnu. Þetta er augljós staðreynd, sem er alveg óþarfi að ræða frekar um. Þetta vita allir, sem eitthvað hafa kynnt sér atvinnulíf á Íslandi. Svo er annað, og það er, að ef hér ríkti eðlilegt ástand í atvinnulífinu, — ég segi, ef það ríkti, — er full þörf fyrir allt það vinnuafl, sem hægt er að fá, jafnt kvenna sem karla. Það má vel vera, að stefna hæstv. ríkisstj. leiði til atvinnuleysis. Því miður bendir ýmislegt til þess, að að slíku ástandi sé stefnt. En ég er þess fullviss, að jafnvel þótt svo hörmulega tækist til, að hér yrði atvinnuleysi að einhverju leyti, þá mundu konur ekki frekar verða fyrir því atvinnuleysi en karlar. Þessi ótti hv. flm. um, að launajafnréttið mundi skapa atvinnuleysi meðal kvennanna og jafnvel koma öllu atvinnulífi úr skorðum, er hrein fjarstæða, sem ekki er hægt að ljá eyru að. Það er eitthvað annað, sem hefur vakað fyrir þessum hv. flm. en kemur beinlínis fram.

Ég ætla að vera alveg hreinskilinn og segja þeim, hvað ég held að vaki fyrir þeim. Það, sem ég held að vaki fyrir þeim með að láta launajafnrétti komast á í smááföngum á næstu 6 árum, er fyrst og fremst þessi vel þekkta tilhliðrunarsemi við atvinnurekendur, sem við þekkjum allt of vel úr sögu Alþfl. nú síðustu árin. Hv. flm. hafa ábyggilega fylgzt svo vel með þróun þessara mála að undanförnu, að þeir hafa vitað og skilið líka, að verkalýðssamtökin mundu nú á næstunni knýja launajafnréttið í gegn með kjarasamningum við atvinnurekendur, hvað sem hver segði. Málið er bara svo einfalt, að það verður ekki stöðvað. Eina leiðin kannske til þess að stöðva það um eitthvert ákveðið tímabil var að festa í lögum, að launajafnréttið mætti ekki komast á fyrr en eftir 6 ár. Það er þess vegna, sem frv. er flutt. Það er verið að gefa atvinnurekendunum alveg sérstakt tækifæri til þess að þurfa ekki að semja um það nú þegar, að launajafnréttið komist á, það á að fresta því um 6 ár. Það er þetta, sem verið er að gera og ég tel að sé aðalatriðið og aðalástæðan fyrir því, að frv. á þskj. 64 er flutt.

Ég vil svo að lokum lýsa því yfir, sem menn hafa sjálfsagt skilið á minni ræðu, að ég mun ekki greiða atkv. með þessu frv. Ég vil skora á hv. alþm. að athuga vel, hvað þeir eru að gera, áður en þeir samþykkja þetta frv. Þeim væri miklu nær að samþykkja frv. okkar Alþýðubandalagsmannanna. Hv. heilbr.- og félmn. ætti að sjá sóma sinn í því að taka það frv. fyrir, gefa út sérstakt nál. og leggja til, að það yrði samþykkt. Það væri mannlegar að farið.