27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Hið ástsæla norðlenzka skáld, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, segir í þjóðhátíðarkvæði sínu, Að Þingvöllum:

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrztu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk.

Í hennar kirkju helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Fáar ljóðlínur eru kærari og munntamari íslenzkri alþýðu en þessi einföldu orð þjóðskáldsins. Í fáum og meitluðum setningum bregður fyrir sögu íslenzku þjóðarinnar, sem valdi sér bústað norður við yzta haf og hefur smám saman mótazt af landi sínu, tekið við það órofa ástfóstri og gróið saman við gæði þess og galla.

Þau örlög voru lögð íslenzkri þjóð í öndverðu að sitja þetta land svo vel sem hún gæti og lifa af gæðum þess og auka gagnsemina, eftir því sem þekking og aðstæður framast leyfðu. Sú var einnig ákvörðun örlagavaldsins, að þjóðin leitaðist við að haga svo landstjórnarmálum, að henni mætti af þeim sökum farnast vel.

Íslenzka þjóðin hefur frá fyrstu tímum viljað lifa óháð og sjálfstæð í landi sínu og búa ein að kostum þess, eins og hún hefur rétt og skyldur til. Hins vegar hefur henni ekki alltaf auðnazt að samstilla svo tök sín á landstjórnarmálum, að því markmiði yrði náð. Þess vegna hefur hún oft á umliðnum öldum orðið að þola áþján illra stjórnara og arðránsmanna, sem mátu eigin hag meira en þjóðarheildarinnar. Móti þessum þrautum og öðrum fleiri „gekk hún djörf og sterk“, eins og skáldið segir, og henni hefur ávallt tekizt að hrista af sér hvert það ok, sem á hana hefur verið lagt. Það er eitt af kraftaverkunum í ævi þjóðarinnar.

Um síðustu aldamót var mjög farið að rofa til í löngu myrkri óstjórnar og arðráns útlendra valdamanna, sem þjakað hafði þjóðina og svæft með henni framtak og manndómsvilja. En um leið og myrkrinu létti og dagur var aftur á lofti, vöknuðu með henni að nýju þeir kraftar, sem blundað höfðu í brjósti hennar, og það var upphaf þeirrar sóknar fram á leið, sem er ráðandi í sögu alls fyrra helmings þessarar aldar og betur þó. Hver ný kynslóð hefur í ríkum mæli verið trú því hlutverki, sem henni er ætlað af forsjóninni: að auðga landið, efla dáð þess og styrkja hag þess.

Það var meginhlutverk fyrstu kynslóðar 20. aldar að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, binda endi á erlend yfirráð yfir landinu og skila næstu kynslóð í hendur frjálsu og óháðu samfélagi, sem hefði því meginhlutverki að gegna að byggja upp það, sem hrunið hafði, græða það, sem fallið hafði í órækt, og efla menntun, verkkunnáttu og alhliða vísinda- og listastarfsemi, sem var fólkinu í blóð borið, ef það aðeins fengi notið sín.

Framfarabarátta Íslendinga á þessari öld stendur í nánum tengslum við þá stjórnmálastarfsemi, sem hér hefur verið rekin að höfuðstefnu um áratuga skeið, einkum hina síðustu áratugi. Þessi stefna í stjórnmálum miðaði og miðar að því að treysta atvinnugrundvöllinn, skapa ný skilyrði fyrir afkomu fjöldans, jafna lífskjörin, lyfta allri alþýðu upp úr heimskandi fátækt og vesaldómi og tryggja henni lífvænleg kjör. Ég ætla ekki að halda því fram, að einhver einn stjórnmálaflokkur eða félagssamtök eigi allan heiðurinn af því, hve vel hefur tekizt á tiltölulega stuttum tíma að lyfta almenningi á Íslandi úr örbirgð til sæmilegra álna. Á hitt vil ég benda, að fyrst og fremst er hér að þakka löggjafarstarfi á Alþingi, aðgerðum ríkisstjórna og margs konar almannasamtökum. Vissulega hafa margir lagt hér hönd að verki, og verður alls ekki, ef sanngjarnlega er talað, einum þakkað allt. Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á, að enginn stjórnmálaflokkur hefur haft lengri eða ríkari tök á landsstjórninni á mesta framfaraskeiði þjóðarinnar en Framsfl. Hann var fyrsti öflugi stjórnmálaflokkurinn í landinu, sem myndaður var til alhliða sóknar í innanlandsmálum, og hann hefur átt því láni að fagna að geta mótað framfarastefnu Alþingis í umboði þjóðarinnar lengur og farsællegar en aðrir flokkar. Hlutur hans í framfarasókninni er því tvímælalaust meiri en margra annarra, enda hefur það oftast verið hans sérhlutverk að leiða sóknina og láta hina fylgja sér á framfarabrautinni. Framsfl. hefur lagt megináherzlu á að treysta atvinnulífið með öflugu uppbyggingarstarfi um land allt. Hann hefur miðað stefnu sína við það, að fjármagni væri dreift um landið til þess að efla lífvænlega atvinnustarfsemi sem víðast í byggðum þess, í sveit og við sjó, og beitt sér fyrir löggjöf og stjórnarframkvæmdum, sem miðuðu í þá átt, og jafnframt stutt þau almannasamtök, sem stuðla að jafnari uppbyggingu landsins og eflingu framleiðslunnar úti um landsbyggðina.

Árangur þessarar stefnu Framsfl. blasir hvarvetna við, Þegar farið er um sveitirnar og sjávarplássin víða um land. Hin mikla ræktun og byggingarstarfsemi í sveitum hefur ekki komið af sjálfu sér, heldur liggur að baki þess mikið félagslegt starf og löggjafarstarf ekki sízt, auk hinnar miklu vinnu bændanna sjálfra. Má í þessu sambandi minna á lögin um byggingar- og landnámssjóð og Búnaðarbankann, sem hvor tveggja mörkuðu tímamót, ásamt margvíslegri annarri löggjöf, sem hér yrði of langt upp að telja, en Framsfl. hefur beitt sér fyrir.

Með löggjafarstarfi, sem oft má rekja til frumkvæðis framsóknarmanna, hefur verið greitt fyrir útgerðarstarfsemi í öllum landsfjórðungum og einstaklingum og félögum verið gert kleift að nýta hina miklu framleiðslumöguleika við sjávarsíðuna. Framsóknarmenn endurreistu fiskveiðasjóð á sínum tíma í nútímamynd, og hefur sú framkvæmd haft geysileg áhrif fyrir sjálfstæðan útgerðarrekstur einstaklinga víða um land. Framsóknarmenn hrundu af stað einu mesta stórvirki síns tíma, síldarverksmiðjum ríkisins, og gerðust með því brautryðjendur í innlendri síldarvinnslu. Grundvöllur hraðfrystihúsarekstrarins, hins bezta í fiskiðnaði okkar, var lagður á stjórnarárum Framsfl. og Alþfl. 1934–38. Þá hefur Framsfl. lagt höfuðáherzlu á samgöngumálin á sjó og landi og beitt sér meira fyrir þeim málum almennt á Alþingi en aðrir flokkar. Hér mætti einnig minnast á dreifingu raforku og síma um landið, sem framsóknarmenn hafa talið eitt af sínum stærstu málum og unnið ósleitilega að á þingi og í ríkisstj., þegar þeir hafa átt þar sæti.

Höfuðstefna Framsfl. í atvinnumálum er sú, að Alþingi og ríkisstj. beiti sér fyrir aðgerðum. sem auðveldi atvinnuframkvæmdir, auki framtak einstaklinga og félaga og verði sem allra flestum hvatning til þess að taka virkan þátt í framleiðslustörfunum. Við teljum fráleitt, að ríkisstj. sitji aðgerðarlaus hjá í sambandi við atvinnumálin, þannig að þau verði aðallega leyst af fjársterkum einstaklingum eða þröngri peningaklíku, sem hefur skyndigróðann einan að leiðarljósi. Við viljum haga fjármálunum á þann veg, að framtak hinna mörgu einstaklinga fái notið sín. Þetta getur ríkisvaldið gert og hefur gert á undanförnum árum með margvíslegri aðstoð við framleiðendur í flestum greinum atvinnulífsins. Tvö atriði má nefna í þessu sambandi. Annars vegar er vægileg vaxtapólitík, t.d. með tilliti til lána úr stofnlánasjóðum, og hins vegar ríkisábyrgðir á lánum til uppbyggingar fyrirtækja af ýmsu tagi. Hvort tveggja hefur reynzt mikilvægt fyrir uppbygginguna í landinu, og er illa farið, að núv. ríkisstj. stefnir að því leynt og ljóst að uppræta þessa mikilvægu aðstoð við atvinnuframkvæmdirnar, eins og glögglega kemur fram í þeirri vaxtapólitík, sem hún rekur, og hinum nýju lögum um ríkisábyrgðir, þar sem stefnt er að því að draga stórlega úr öllum ríkisábyrgðum, alveg án tillits til reynslunnar af þeim í heild og í einstökum flokkum ríkisábyrgða.

Framsóknarmenn hafa ævinlega lagt megináherzlu á, að framfarastefnan næði til landsins alls og að íbúum allra fjórðunga væru sköpuð sem jöfnust afkomuskilyrði og lífsaðstaða. Þeir hafa því beitt sér fyrir sem allra víðtækastri dreifingu fjármagnsins til uppbyggingar á landinu öllu og jafnan tekizt, þegar þeir hafa verið í stjórn, að ná samkomulagi við samstarfsflokka sína um þá stefnu, þó að stundum hafi orðið að sækja fast á, enda á jafnvægisstefna Framsfl. marga hvassa andmælendur í öðrum flokkum, sem hafa gerólík sjónarmið. Þessi andstæðu sjónarmið eru mjög ríkjandi í núv. stjórnarstefnu, og í fáu mun hún greina sig jafnaugljóslega frá stefnu undanfarandi ára en einmitt í þessu tilliti. Í sambandi við þetta get ég ekki stillt mig um að benda á, hve gerólík stefna núv. stjórnar er stefnu vinstri stjórnarinnar á árunum 1956–58, ekki sízt hvað þetta snertir og raunar í öllum höfuðmálum. Vinstri stjórnin vann að öflugri uppbyggingu víða um land, og mun lengi sjá merki þeirrar uppbyggingar, jafnvel þótt stjórnin sæti aðeins stutt að völdum og ætti við innbyrðis örðugleika að etja í lok samstarfsins. En framkvæmda- og framfarastefna vinstri stjórnarinnar var í anda þess uppbyggingaráhuga, sem einkennt hefur íslenzkt þjóðlíf undanfarna áratugi. Kreppupólitík núv. ríkisstj. er hins vegar í andstöðu við hinn almenna framfarahug þjóðarinnar og getur því aldrei orðið til frambúðar.

Boðberar kreppustefnunnar reyna að afsaka sig með því, að vinstri stjórnin hafi skilið þannig við landsmálin, þegar hún fór frá í des. 1958, að allt hafi verið í kaldakoli og þess vegna hafi verið nauðsynlegt að kippa að sér hendinni með framfarir og uppbyggingu. Þessi firra er að vísu marghrakin áður, en öruggasta afsönnun hinnar fölsku fullyrðingar og yfirskinsástæðu núverandi valdhafa er að finna í opinberum skýrslum um þjóðarhag 1958. Þá kemur í ljós, að staða landsins gagnvart útlöndum hefur aldrei verið betri um langt árabil en einmitt á árinu 1958. Það er alger rangfærsla og vísvitandi blekking, þegar öðru er haldið fram. Þess er líka vert að geta, að á árinu 1958 stóð framleiðslan með blóma. Hagur almennings var þá svo góður, að í erlendum efnahagsskýrslum var fullyrt, að þá væru bezt lífskjör á Íslandi í allri Evrópu. Aftur á móti hefur allt snúizt öfugt í höndum núv. valdamanna. Greiðsluhalli við útlönd er geigvænlegur, þrátt fyrir krepputökin, og kjaraskerðingin og kauprýrnunin slík, að hagur almennings hefur aldrei verið lakari nú um langt árabil, þótt stjórnin ausi úr ríkissjóði hundruðum milljóna til niðurgreiðslna og fjölskyldubóta.

Það er fullkomin sögufölsun, þegar því er haldið fram, að vinstri stjórnin hafi farið frá vegna þess, að allt væri í kaldakoli. Ástæðan var sú, að ýmis óábyrg, en áhrifamikil öfl utan og innan stjórnarflokkanna voru að knýja fram verðbólgu, sem ekki náðist samkomulag um innan stjórnarinnar, hversu mæta skyldi. Það er svo þáttur út af fyrir sig að rekja hátterni Sjálfstfl. um þær mundir, skrif Morgunblaðsins og ræðuflutning sjálfstæðisforustunnar, samstarf Sjálfstfl. við Moskvukommúnista og fleira slíkt, sem þessum herrum óar ekki við, þegar það hentar þeirra pólitíska valdabrölti. Sjálfstæðismenn skulu ekki halda, að menn séu búnir að gleyma því, hverjir það voru, sem efldu kommúnista mest til valda og áhrifa hér á landi, og hverjir það voru, sem dilluðu þeim hæst. Menn eru ekki svo gleymnir, að þeir muni ekki, þegar sjálfstæðismenn voru í óbeinu stjórnarsamstarfi við kommúnista árið 1942 og síðar í mjög virku og nánu samstarfi við þá árin 1944–47, þegar hæstv. núv. forsrh., Ólafur Thors, var forsrh. í ríkisstj., þar sem sjálfur hinn andlegi leiðtogi kommúnista á Íslandi, Brynjólfur Bjarnason, var menntmrh. Í þeirri sömu stjórn var einnig núv. hæstv. félmrh., Emil Jónsson, sem enn í dag þiggur náðarbrauð kommúnista í Hafnarfirði og myndar þar með þeim meiri hluta í bæjarstjórn. Og eitt síðasta dæmið um virka samstöðu Sjálfstfl. og kommúnista er barátta þeirra fyrir kjördæmabreytingunni 1959. Og það er ekki heldur gleymt, að fyrir rúmum tveimur árum var Sjálfstfl. tilbúinn að mynda ríkisstj. með kommúnistum. Og þessir herramenn eru að klína kommúnistaorði á Framsfl. Ég held, að þeir gætu unnið sjálfum sér eitthvað þarfara en að standa í steinkasti úr því glerhúsi, sem þeir búa í.

Þessu þingi er nú senn lokið. Ríkisstj. og sá meiri hl., sem hún styðst við, hafa ráðið gerðum þess í öllum aðalatriðum. Stefna ríkisstj. hefur verið óbreytt á þessu þingi frá því í fyrra að því leyti, að haldið hefur verið áfram að framkvæma kreppustefnuna, sem mörkuð var með valdatöku Sjálfstfl. og Alþfl. En þó að þingið sé með sömu einkennum og það var í fyrra og sé sjaldgæft í íslenzkri þingsögu, að þingmeirihluti streitist við að búa til fjárhags- og atvinnukreppu með löggjafarstarfi sínu, þá verður þessa síðasta þings ekki fyrst og fremst minnzt fyrir það, heldur annað. Hátindur þeirrar uppgjafar- og undansláttarstefnu, sem núv. ríkisstj. rekur á öllum sviðum, eru aðgerðir hennar í landhelgismálinu. Síðari kynslóðir munu fyrst og fremst muna eftir þessu síðasta þingi í sambandi við uppgjafarsamninginn við Breta, þegar íslenzka ríkisstj. samdi af sér um alla framtíð í mesta hagsmunamáli þjóðarinnar. Ríkisstj. og liði hennar hefur því tekizt að gera sjálfa sig fræga, en fræga að endemum. — Góða nótt.