27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

Almennar stjórnmálaumræður

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Síðustu tvo mannsaldrana hefur íslenzka þjóðin haft mikil umsvif og mörg járn í eldi. Sjálfstæðisbaráttan við Dani er til lykta leidd, og Íslendingar skipa sér í flokk með frjálsum og fullvalda þjóðum. Á sama tíma er hafizt handa um nýtt landnám í víðri merkingu. Þúsundir vaskra manna og kvenna flytjast vestur um haf og gerast dugandi borgarar í annarri heimsálfu. Enn fleiri þúsundir hverfa úr sveitunum að nýta auðlindir hafsins í krafti nýrrar veiðitækni og reisa þorp og bæi á ströndinni, þar sem nú býr mikill meiri hluti þjóðarinnar.

En slíkt er grómagnið á þessum áratugum, að samhliða því að skila af sér tugþúsundum landnámsmanna til starfa tveim megin Atlantsála hefur fólkið í sveitunum staðið að stórfelldu landnámi heima fyrir.

Enn í dag, eftir hina gífurlegu tilfærslu byggðarinnar, sér íslenzkur landbúnaður þjóðinni fyrir gnægð hinna hollustu matvæla og leggur einnig nokkurn skerf til útflutningsins. Árlegt verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar er nú rétt um einn milljarð íslenzkra króna.

Það er ómaksins vert að gefa því gætur, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. býr að þessum þýðingarmikla atvinnuvegi, sem síðustu 15 árin hefur þróazt svo ört, að enda þótt bændum hafi fækkað um 18% á þessu árabili, hefur mjólkurmagn aukizt um 68%, kjötframleiðslan hart nær tvöfaldazt og búin stækkað um 60%. En það er skemmst frá að segja, að samdráttarstefna ríkisstj. markar hér sem víðar alger tímamót. Þau segja fyrst til sín sem gífurlegur samdráttur í framkvæmdum sveitanna. Þannig minnkar skurðgröftur nú á einu ári um 15% og miklu meiri samdráttur fram undan að óbreyttu. Ræktunarframkvæmdir minnka um 1/4, vélakaup dragast saman, og í heilum byggðarlögum er vart byrjað á nýrri byggingu, þó að menn reyni til hins ýtrasta að ljúka þeim, sem byrjað var á.

Að dómi stjórnarliðsins sakar þetta ekki hót. Þar ríkir sú skoðun, að nóg sé að gert um byggingar og ræktun í sveit, og fulltrúaráðsmaður í flokki forsrh. hefur sagt í ræðu, að bændum mætti að ósekju fækka um helming.

En lítum á staðreyndir. Ef framleiðsla búsafurða hefði staðið í stað síðasta áratuginn, þyrfti nú að flytja inn kjöt- og mjólkurvörur fyrir hvorki meira né minna en 300–400 millj. kr. á ári. Þegar þess er enn fremur gætt, að við þurfum að tvöfalda landbúnaðarframleiðsluna næstu 20–30 árin til þess eins að mæta vaxandi innanlandsneyzlu, þá er það alveg ljóst, hvað í húfi er, ef fram fer sem nú horfir: Innlenda framleiðslan hættir að aukast til jafns við neyzluþörf ört vaxandi þjóðar. Og annað hitt: Sveitirnar, sem lengi hafa á vissan hátt staðið höllum fæti vegna gífurlegs útstreymis fólks og fjármagns, þola ekki stöðnun. Ef þar á nú að verða kyrrstaða, sem þýðir hnignun í reynd, þá getur það hæglega leitt til hreinnar upplausnar í heilum byggðarlögum.

Stjórnarliðið sér nú orðið, hvert stefnir. En í stað þess að játa mistökin og leitast við að bæta fyrir brotin með raunhæfum aðgerðum, er hv. þm. Jónas Pétursson sendur í útvarp að segja bændum frá þeim stórkostlegu tímamótum í búnaðarsögu Íslendinga, er orðið hafi við komu nýs bankastjóra að Búnaðarbankanum. Að Magnúsi Jónssyni alveg ólöstuðum verður það að segjast, að meiri málefnauppgjöf er vart hugsanleg.

Hver eru svo afskipti stjórnarliðsins af löggjöf landbúnaðarins? Þau hófust raunverulega með setningu hinna illræmdu bráðabirgðalaga haustið 1959. Sú löggjöf sór sig greinilega í ætt við búnaðarráðslögin, sem voru einn liðurinn í þeirri furðulegu viðleitni að eyðileggja stofnun Stéttarsambands bænda þegar í byrjun. Þeirri aðför var hrundið. Bændur stofnuðu samtök sín og hafa eflt þau síðan. Og fyrir atbeina Framsfl. voru búnaðarráðslögin afnumin.

Sama sagan gerist í kringum brbl. 1959. Stéttarsambandið brást við hart. Framsfl. tók upp hanzkann á hinum pólitíska vettvangi. Stjórnarliðið lét undan síga, og þolanleg lausn fékkst í verðlagsmálunum að því sinni.

Það þing, sem nú er að ljúka störfum, hefur haft mörg mál til meðferðar. En það fer lítið fyrir landbúnaðarfrumvörpum ríkisstj. Og þegar framsóknarmenn hreyfa hagsmunamálum bænda á þingi, þá er því mætt með svo þverúðarfullri tregðu, að helzt má líkja við Pétur gamla hjá Hagalín, sem sagði: „Ég sker, þegar mér sýnist“.

Ég nefni dæmi: Frv. framsóknarmanna um bústofnslánasjóð og vélakaup, er komið gæti til móts við þarfir þeirra, er skemmst eru á veg komnir og varbúnastir að mæta holskeflum viðreisnarinnar, því er ekki sinnt. Ekki heldur frv. um eflingu ræktunarsambandanna og öðru um fyrirgreiðslu til handa ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitabæja, hliðstæða þeirri, er sjóðirnir fengu 1953 og 1957. Till. framsóknarmanna um alveg sams konar aðstoð við bændur og útgerðin fær með lagfæringu á lánamálum sínum var algerlega hafnað. Sandgræðslufrv., undirbúið af stjórnskipaðri nefnd, fæst ekki einu sinni flutt á venjulegan hátt. Kornræktarfrv. Ásgeirs Bjarnasonar og Páls Þorsteinssonar er komið til n. í síðari þingdeild, en þess er líka vandlega gætt, að það komist ekki á leiðarenda. Hér er þó um stórmerkt framtíðarmál að ræða. Áratuga brautryðjandastarf Klemenzar á Sámsstöðum og stutt, en merkileg reynsla Egilsstaðabænda og fleiri sannar, að kornræktin getur orðið gildur þáttur í búskapnum. Frv. er ætlað að styðja vaxandi kornyrkju, — en allt um það, máli frá andstæðingi má aldrei hleypa í gegn.

Frá þessu er ein undantekning, sem þó sannar regluna á næsta kátlegan hátt. Framsóknarmenn höfðu flutt frv. um aukna fyrirgreiðslu vegna nýbýlinga, sem okurvextir og önnur ókjör viðreisnarinnar leika svo grátt, að hjá þeim, sem nú eru í miðjum klíðum, ríkir hreint neyðarástand, og útilokað er að reisa bú í sveit frá grunni nú. Málið fékkst ekki einu sinni tekið fyrir í þingnefnd! Undir þinglokin sér þó ríkisstjórnin að sér. En ekki mátti samþykkja það frv., sem fyrir lá, heldur var kastað inn nýju frv. nákvæmlega um sama efni. Meðferð þessa máls gefur glögga mynd af einstæðum vinnubrögðum þingmeirihlutans. Hún sýnir þó jafnframt, hverju hörð málefnabarátta Framsfl. getur til leiðar komið á stundum, þrátt fyrir allt.

Hv. þm. Gunnar Gíslason gaf það raunar fyllilega í skyn við vantraustsumræðurnar, að bændur þyrftu einskis góðs að vænta af framsóknarmönnum framar, þetta væru allt orðnir grjótharðir kommúnistar. Mátti skilja á klerki þessum, að ella hefði kannske verið á þá hlýtt í herbúðum stjórnarinnar.

Það er nú siðfræði út af fyrir sig og ekki svaraverð, að bændur verði að þola búsifjar viðreisnarinnar og þrjózkufullt tómlæti valdhafa vegna þess, að framsóknarmenn séu orðnir kommúnistar. En af því að kommúnistastimpillinn er orðinn helzta vopn hins rökþrota stjórnarliðs gegn ádeilum framsóknarmanna, er rétt að víkja að því fáum orðum. Annars eru menn farnir að kannast við þetta öndvegisamboð á búi íhaldsins, eða hafa kannske ekki framsóknarmenn og allir aðrir íhaldsandstæðingar ævinlega heitið kommúnistar á máli Morgunblaðsliðsins? Jú, vissulega, að minnsta kosti síðustu 30–40 árin, — nema þegar íhaldið gat notað kommúnista til skemmdarverka í íslenzkum þjóðmálum. Þá heita framsóknarmenn ekki kommúnistar á máli íhaldsins. Og það var ekki talað illa um kommúnista á því heimili, meðan hjálpazt var að því að mylja niður Alþfl. í verkalýðshreyfingunni og gera hann að því veraldarundri, sem hann er nú. Ekki heldur 1942, á meðan þeir voru brúkanlegir til að breyta kjördæmaskipuninni og hleypa af stað þeirri dýrtíðaröldu, sem varð ekki stöðvuð síðan. Ekki heldur 1944, þegar æðsta presti kommúnista voru fengin lyklavöld íslenzkra menntamála og margar fleiri gáttir opnaðar þeim kumpánum. Og full aðgát var höfð í máli á íhaldsheimilinu, meðan unnið var að því með Moskvakommúnistum og hægri krötum að ríða niður vinstri stjórnina og kollvarpa kjördæmaskipuninni, — einnig meðan formaður Sjálfstfl. enn á ný leitaði stjórnarsamstarfs við „herra Einar“ eftir kosningarnar 1959. Þeir, sem hafa umgengizt kommúnista á þennan hátt, geta sparað sér köpuryrðin.

Afstaða Framsfl. til annarra flokka er alveg skýr. Hann mótar sjálfur stefnu sína í hverju stórmáli og vinnur eftir málefnum með öðrum flokkum.

Ég hef leitt rök að því, hversu lömunarstefnan leggst eins og mara á íslenzkan landbúnað og hindrar nauðsynlega uppbyggingu hans. Því miður er sömu sögu að segja og engu fegurri úr öðrum starfsgreinum, og er það rakið af öðrum. Hér við bætist svo það, sem verst er af öllu, aðfarir ríkisstj. í landhelgisdeilunni við Breta. Það er ekki langt síðan útvarpsumræður fóru fram um það mál. Síðan hafa línur enn skýrzt. Bátar eru hraktir af miðum sínum, og yfir hróp ýmissa brezkra blaða um brezkan ósigur heyrist róleg rödd brezku ríkisstjórnarinnar: Tólf mílurnar skiptu ekki öllu, þær voru okkur tapaðar. En samningurinn stöðvar einhliða útfærslu Íslendinga. — Þetta segja talsmenn Bretastjórnar, og því miður, þeir vita alveg hvað þeir eru að fara.

Það, sem gerzt hefur í landhelgisdeilunni, er í stuttu máli þetta: Bretum, þeirri þjóð, sem harkalegast hefur uppurið íslenzkar fiskislóðir og ein þjóða beitt okkur vopnuðu ofbeldi, þeim er nú hleypt á grunnmið bátanna, sem búið var að vinna. Og í stað þess, að Íslendingar voru áður í fylkingarbrjósti með einhliða útfærslu, hafa þeir nú hnýtt sig aftan í aðra, nánar tiltekið Breta og svo Haag-dómstólinn, án þess að hafa hugmynd um, hvernig hann verður skipaður og hvernig mál horfa þá og þá. Engum fær dulizt, að ef þessi stefna hefði ráðið 1958, byggjum við enn við 4 mílna landhelgi. Og eitt skulum við gera okkur alveg ljóst. Það blasir nú við, að ef núv. stjórnarflokkar færu með völd að þrem árum liðnum, þá yrðu veiðiréttindi Bretanna framlengd. Það sýnir málflutningur þeirra nú og öll meðferð málsins í þeirra höndum. Öll loforð í gagnstæða átt eru minna en einskis virði í munni þeirra, sem þegar hafa rofið ótal yfirlýsingar og svardaga í þessu máli.

Góðir hlustendur. Ég hef drepið á örfáa þætti í störfum hæstv. ríkisstj. Sú stjórn, sem svona vinnur, lamar atvinnulífið með óraunhæfum efnahagsaðgerðum og lætur bugast fyrir erlendu ofbeldi. Hún hleður glóðum elds að höfði sér og hrúgar upp forsendum að þungum áfellisdómi. Þess er engin von, að Íslendingar uni lömunarstefnunni til lengdar. Hvarvetna blasa við ónotaðir möguleikar, verkefnin bíða, og fólkið vill leysa þau. Þar, sem svo horfir, er afturhaldssöm ríkisstjórn feigðinni mörkuð frá fyrsta degi. — Góða nótt.