27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Karl Guðjónsson rökstuddi mál sitt hér áðan með því að nefna tölur um verð á sementi. Sagði hann, að framleidd hefðu verið 72 þús. tonn á árinu 1960 og það hefði verið selt á 1100 kr. tonnið innanlands, en á 260 kr. tonnið til útflutnings. Er hér um að ræða beinar falsanir, sem rétt er að leiðrétta nú þegar. Hið sanna er, að framleiðsla verksmiðjunnar var um 90 þús. tonn á s.l. ári, en ekki 72 þús. tonn, eins og hv. þm. sagði. Voru seld innanlands um 70 þús. tonn, en 20 þús. tonn voru seld til útlanda. Um verð á sementinu er það að segja, að það er selt innanlands á 800–1000 kr. tonnið við verksmiðjuvegg. Bætist síðan við það flutningsgjald, sem að sjálfsögðu er mishátt eftir því, hvert sementið er selt. Til útflutnings er sementið selt á 105½ shilling og 115 shillinga tonnið eftir tegund. Eru það 556 kr. fyrir aðra tegundina, en 606 kr. fyrir hina. Frá þessu dregst flutningskostnaður, og fær verksmiðjan því 450–500 kr. nettó fyrir hvert tonn eftir tegund í erlendum gjaldeyri, en ekki 260 kr., eins og hv. ræðumaður sagði.

Þegar hv. stjórnarandstæðingar gagnrýna þær viðreisnarráðstafanir, sem núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa beitt sér fyrir og nú hafa verið framkvæmdar nokkuð á annað ár, tala þeir alltaf um, að breyta þurfi um stefnu, það verði að taka upp hagstæðari stefnu í íslenzkum efnahagsmálum. En þessi söngur er ekki nýr. Þetta er sami söngurinn og forustumenn Framsóknar kyrjuðu t.d. 1956, þegar þeir rufu stjórnarsamstarfið og sögðu, að ekki væri unnt að leysa efnahagsmál þjóðarinnar með Sjálfstfl. Það sama sögðu þeir um samstarfsflokka sína í vinstri stjórninni, þegar hún andaðist. Þá var engin samstaða með þeim um nein úrræði, sem að gagni máttu koma til að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum, sem við blöstu, ef ekki væri tafarlaust snúið við. En forustumenn Framsóknar hafa verið hljóðir um eitt, og það er að gefa nokkrar upplýsingar um það, hver hún er, þessi nýja stefna, sem þeir alltaf eru að tala um að taka verði upp. Ástæðan fyrir því er ofurskiljanleg; og hún er engin önnur en sú, að þeir eiga engin úrræði, engar sjálfstæðar tillögur eða stefnu gagnvart þeim vandamálum, sem þeir sjálfir og vinstri stjórnin átti ríkasta þáttinn í að skapa og kalla yfir þjóðina.

Þegar núv. ríkisstj. tók við, var enn í gildi það kerfi varðandi útflutningsframleiðsluna, að henni var fleytt áfram með verðuppbótum á útfluttar afurðir og ýmsum hliðarráðstöfunum, sem komu í veg fyrir, að útgerðin stöðvaðist. Allar slíkar ráðstafanir, sem gerðar voru, entust sjaldan út árið og voru því alger bráðabirgðaúrræði, en allar áttu þær það sameiginlegt að vinda meira og meira upp á verðbólguhjólið. Stjórnarvöldin í landinu höfðu valið það hlutskipti, að í stað þess að horfast í augu við raunveruleikann og spyrna við fótum var horft undan vandanum og gripið til bráðabirgðaúrræða, sem aðeins færðu ástandið lengra frá því, sem raunhæft var. Eina lækningin, sem að gagni mátti koma, var sú, að valdhafarnir gerðu sér fulla grein fyrir ástandinu, eins og það var, þyrðu að taka á sig áhættuna af þeim aðgerðum, sem óhjákvæmilegar voru, og hættu að skjóta sér undan vandanum.

Núverandi ríkisstj. hefur sýnt það í verki, að hún var þessum vanda vaxin. Með efnahagslöggjöfinni var ákveðið, að gengi ísl. krónunnar skyldi skráð samkv. því, sem eðlilegur tilkostnaður útflutningsframleiðslunnar sagði til um. Og hún hefur enn fremur beitt sér fyrir ýmsum öðrum aðgerðum, er stuðlað gætu að því, að atvinnuvegirnir gætu staðið á eigin fótum. Einn veigamesti þátturinn í þeim aðgerðum eru lögin um stofnlánadeild sjávarútvegsins, þar sem ákveðið er að koma á nýjum lánaflokki við stofnlánadeildina. Með þessum nýja lánaflokki er ákveðið að breyta bráðabirgðalánum og ýmsum skuldum, sem hlaðizt hafa á sjávarútveginn á undanförnum árum, í löng lán með hagstæðum vöxtum. Það, sem háð hefur eðlilegri uppbyggingu sjávarútvegsins nú um langan tíma, er lánsfjárskorturinn, sem ríkt hefur í sambandi við nýjar fjárfestingarframkvæmdir og hvers konar endurbætur. Segja má, að Fiskveiðasjóður Íslands sé svo til eina lánsstofnunin, sem veitt hefur slík lán og með hagstæðum vöxtum. Mestur hluti þeirra lána er þó einvörðungu bundinn við fiskiskip, en þau lán hafa verið látin ganga fyrir, þar sem sjóðurinn hefur ekki yfir því fjármagni að ráða, að hann geti fullnægt hinni miklu fjárþörf, sem hér er fyrir hendi.

Lánsfjárskortur útvegsins er ekki nýtt mál, sem orðið hefur til á einu ári, heldur er það vandamál eða öllu heldur vandræðaástand. sem á mörgum árum hefur verið að þróast, þar til nú, að svo er komið, að því verður eigi lengur á frest skotið. Er þetta einn hlutinn af arfleifð vinstri stjórnarinnar, sem hún skildi eftir sig og nú kemur í hlut núv. ríkisstj. að leysa og ráða bót á.

Því er svo ekki að leyna, að þegar uppbótakerfinu lauk á s.l. ári, var þannig ástatt hjá sjávarútveginum í heild, að hann átti enga sjóði til þess að mæta því verðhruni, sem átti sér stað á öllu lýsi og mjölframleiðslunni —jafnhliða aflabresti á síldveiðunum fyrir Norðurlandi. En þó er hinn geigvænlegi aflabrestur, sem átt hefur sér stað hjá togaraflotanum á s.l. ári og enn er fyrir hendi, það sem af er þessu ári, það alvarlegasta, sem hent hefur þennan atvinnuveg og þjóðina í heild um langt tímabil.

Því hefur verið haldið fram, að orsökin til minnkandi afla togaranna sé sú, að togaraflotinn hafi að undanförnu stundað veiðar á heimamiðum og siglt með aflann á erlendan markað. Því fer víðs fjarri, að slíkur málflutningur eigi við minnstu rök að styðjast, því að aflabrögð togaranna hafa gengið geigvænlega saman, hvert sem skipin hafa leitað, jafnt á hinum fjarlægari miðum sem hér heima við landið. Afleiðing þessa áfalls er svo það, að einstaklingar og bæjarfélög, sem togaraútgerð hafa með höndum, stynja undan taprekstrinum, sem þegar er að verða þeim ofviða og óviðráðanlegur.

Það hafa á öllum tímum verið áraskipti í aflabrögðum sjávarútvegsins, og svo mun enn verða. Vonandi batna aflabrögðin á ný. En það má öllum vera ljóst, að það er ekki á valdi neinna venjulegra efnahagsráðstafana að tryggja reksturinn, þegar svo árar sem raun ber vitni varðandi afla togaraflotans. Samhliða réttlátri verðskráningu peninganna er sjávarútveginum lífsnauðsyn að hafa aðgang að hagstæðum stofn- og rekstrarlánum. Þessi viðleitni ríkisstj., sem felst í lögunum um stofnlánadeild sjávarútvegsins, er vissulega spor í rétta átt. Með efnahagslögunum voru allir útlánsvextir hækkaðir verulega. Ríkisstj. gaf þá fyrirheit um það, að strax og ráðstafanirnar væru farnar að bera árangur, mætti vænta þess, að vextirnir yrðu lækkaðir að nýju. Þegar svo um s.l. áramót þótti sýnt, að jafnvægi hefði skapazt í peningamálum þjóðarinnar og því unnt að lækka vextina nokkuð, mátti lesa það í blöðum stjórnarandstöðunnar, að ríkisstj. væri að hverfa frá stefnu sinni. Slíkur er málflutningur þeirra manna, sem vilja ekki kannast við staðreyndir. Sannleikurinn er hins vegar sá, að sú vaxtalækkun, sem hér átti sér stað, var merki þess, að efnahagsstefnan hafði borið árangur og stefnt var í rétta átt.

Þá hefur framsóknarforustan haldið því á lofti, að allar framkvæmdir landbúnaðarins hafi dregizt verulega saman, og kenna þar um, að núv. ríkisstj. hafi látið undir höfuð leggjast að útvega Búnaðarbankanum eða ræktunar- og byggingarsjóðunum nægilegt lánsfé. Er hér eins og fyrri daginn farið alrangt með staðreyndir. Það sanna er, að vinstri stjórnin skildi við þessa stofnsjóði landbúnaðarins algerlega févana og í kalda koli, með sama úrræðaleysið að leiðarstjörnu sem í öllum öðrum efnahagsmálum þjóðarinnar. Erfiðleikar þessara sjóða stafa hins vegar fyrst og fremst af því, að þeir hafa á undanförnum árum verið látnir starfa að verulegu leyti með erlendu lánsfé, og þess vegna hafa þeir orðið fyrir miklum skakkaföllum við allar þær gengisfellingar, sem átt hafa sér stað, hvort heldur það hefur verið í formi yfirfærslugjalds vinstri stjórnarinnar eða á annan hátt. Núverandi ríkisstj. tókst hins vegar að bjarga þessum hagsmunamálum landbúnaðarins með því að útvega sjóðunum innlent lánsfé. Er það á allan hátt miklu hagstæðara og tryggara. Leiddi það til þess, að á s.l. ári var unnt að veita bændum meiri lán vegna framkvæmda í sveitunum en nokkru sinni fyrr hafði átt sér stað, samkv. þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá Búnaðarbankanum. Þar með er að fullu kveðinn niður sá orðrómur, sem framsóknarforustan hefur þyrlað upp um þessi mál, að núv. ríkisstj. hafi vanrækt sjálfsagðan stuðning við þessar þýðingarmiklu stofnanir bændastéttarinnar.

Ekkert mál hefur að undanförnu verið rætt jafnmikið utan þings og innan eins og landhelgismálið. Það er því óþarfi að fjölyrða um málið mikið að þessu sinni. Á það má þó benda, hversu allur þróttur smátt og smátt þvarr hjá stjórnarandstöðunni og fylgisflokkum hennar í andstöðunni við hina endanlegu lausn málsins.

Þegar Alþingi kom saman á s.l. hausti, skipuðu þessir flokkar sér í varðstöðu við ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu og við dyr alþingishússins daginn, sem Alþingi var sett. Höfðu þeir á lofti kröfuspjöld með áletrunum um, að samningar í þessu máli væru svik. Og það stóð alveg á sama, hvert efni eða innihald samningsins væri. Þetta var þegar enginn vissi um, hvaða samningar mundu takast um málið eða hvort þeir yfir höfuð tækjust. En nú, þegar að leikslokum kom og upplýst var, hvað hægt var að semja um við þá þjóð, sem reynzt hafði okkur mestur þrándur í götu, hjaðnaði fylkingin og hefur hvergi sézt á henni bóla, hvorki fyrr né síðar. Þetta sýnir betur en flest annað, hversu vonlaust stjórnarandstaðan taldi andófið, þegar í ljós kom, hversu hagstæða lausn ríkisstj. gat boðið fram um lausn deilunnar.

Það, sem ég tel hagstæðast í sambandi við lausn landhelgisdeilunnar nú, eru hin miklu hafsvæði á auðugustu fiskimiðum við strendur landsins, sem nú verða innan fiskveiðilögsögunnar. Stjórnarandstaðan hefur svarað því til, að með því hafi ekkert annað gerzt en að við höfum fært út landhelgina og að þeim mörkum, sem við áttum ótvíræðan rétt til án þess að spyrja nokkurn um. Ég vil spyrja: Er það trúlegt, að stjórnarandstaðan hafi litið þannig á málið í fullri alvöru, mennirnir, sem nú á þessu þingi báru fram frv. til laga undir forustu hv. þm. Hermanns Jónassonar um, að það skyldi lögfesta á Alþingi gömlu grunnlínurnar, og báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa skilað nál. um málið, þar sem þeir mæla eindregið með þeirri skipan, en það er sama og að afhenda Bretum og öðrum erlendum fiskveiðiþjóðum auðug fiskimið, sem eru að flatarmáli rúmlega 5000 ferkílómetrar? Það er svo nú fyrst, þegar þeir sjá, hve hagstæðum samningum ríkisstj. hefur náð, sem þeir rjúka upp og segja: Við viljum enn þá meira og það nú strax. — Ég nefni þetta sem eitt dæmi af ótalmörgum fleiri, sem ég hef því miður ekki tíma til að koma að á þessum fáu mínútum.

Afstaða sú, sem Alþýðubandalagsmenn tóku við lausn landhelgisdeilunnar, kom engum á óvart. Það var fyrir fram vitað, að þeir höfðu það að markmiði að spilla öllu samkomulagi um málið og reyna með því að reka fleyg í samvinnu hinna vestrænu þjóða. Hitt var öllum meira undrunarefni, að forusta Framsfl. skyldi láta kommúnista hafa sig til þess að taka þátt í slíkum skollaleik. Verður ekki annað séð en flokksforusta Framsóknar sé algerlega samrunnin kommúnistaflokknum. — Góða nótt.