27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eldhúsdagsumræðum frá Alþingi á samkv. þingsköpum að útvarpa við framhald 1. umr. fjárlaga, en sú venja hefur skapazt á síðari árum að víkja frá þessu, og eru umr. þess vegna ekki lengur tengdar við afgreiðslu fjárl., sem eru þó að jafnaði stærsta mál hvers þings. Þessi frestun er gerð með samkomulagi allra þingflokka, og verður þess valdandi í þetta skiptið, að í einum og sama mánuði er dembt yfir þjóðina hvorki meira né minna en fimm útvarpskvöldum frá Alþingi, og mun mörgum útvarpshlustendum þykja það vera ofrausn. Þetta vekur þá spurningu, hvernig haga beri notkun útvarps í sambandi við störf Alþingis, en það er áreiðanlega eitt af mörgu, sem þyrfti að endurskoða, bæði hvað snertir þingfréttir og þá tilhögun, að Alþingi leggi undir sig heil kvöld í útvarpinu til ama fyrir þá hlustendur, sem fremur mundu kjósa að hlýða á annað útvarpsefni. Ég ætla ekki að ræða þetta ýtarlega, og til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég taka það fram, að ég tel alveg sjálfsagt, að þjóðin fái tækifæri til að fylgjast sem bezt með störfum Alþingis með hjálp útvarpsins. Spurningin er aðeins sú, hvort núverandi fyrirkomulag nær þeim tilgangi og hvort ekki væri hægt að koma á annarri skipan, er gerði hvort tveggja að þjóna þeim tilgangi betur og félli hlustendum útvarpsins betur í geð.

Tökum t.d. þingfréttatímann. Hann fer svo að segja allur í upplestur strembinna þingskjala og þurra frásögn af atkvgr. Þar er aldrei sagt frá umr. eða orðaskiptum, sem oft gætu verið skemmtilegri til frásagnar heldur en lagafrumvörp, greinargerðir og nefndarálit í blaðagreinastíl. Meðal annarra þjóða tíðkast það, að orðsnjallir menn og fróðir eru fengnir til að gefa vikulegt yfirlit í stuttu máli um helztu atburði á þjóðþingunum. Mundi ekki svipaður háttur hér geta sparað Alþingi þá fyrirhöfn og hlustendum þann ama, sem fylgir heilum umræðukvöldum kvöld eftir kvöld? Þingfréttatíminn og umræðukvöldin lúta algerlega stjórn Alþingis, en ekki útvarpsins, og er það þess vegna á valdi þingsins að gera hér einhverja bragarbót, nema hentara kunni að þykja að fela það útvarpinu.

Hér á Alþingi eru stundum sett ýmis met, sem hvorki er skýrt frá í þingfréttum né íþróttafréttum útvarpsins, en þykja þó merkileg engu að síður. Þetta eru að sjálfsögðu met í ræðuflutningi. Þegar efnahagsmálin voru til umr. á síðasta þingi, talaði Einar Olgeirsson í 5 klst. og 18 mínútur. Það var þó ekki samfelld ræða, heldur með hvíldum og við tvær umræður. Í umr. um landhelgismálið á dögunum setti Lúðvík Jósefsson met í samfelldum ræðuflutningi með því að tala í 3 tíma og 22 mínútur. Það met stóð óhaggað þar til á aðfaranótt s.l. laugardags. Þá var til umr. í Nd. launajafnrétti kvenna og karla, og flokksbróðir Lúðvíks, Hannibal Valdimarsson, sem er mikill kvenréttindamaður, notaði tækifærið og sló met Lúðvíks. Hannibal talaði samfleytt um þetta hugðarefni sitt í 4 klukkutíma og 20 mínútur. Telja kunnugir, að sigur sinn í þessum maraþonræðuflutningi eigi hann því að þakka, að hann hafi sterkari fætur en Lúðvík. Hvernig sem því kann að vera háttað, er von, að menn spyrji, hver tilgangurinn sé með slíkum langlokuræðum og hvernig á því standi, að þær skuli vera leyfðar, því að augljóst er, að ef allir þm. tækju sér jafnlangan tíma til ræðuhalda, þá mundu störf þingsins aldrei taka enda. Hver þm. á samkv. þingsköpum rétt á að tala tvisvar í hverju máli við sömu umr. og framsögumenn þrisvar, og mundi því sú umræða, þar sem allir fengju ræðutíma eins og methafarnir þrír, geta staðið æðilengi, eða vikum saman. Eftirtektarvert er það, að þátttakendur í maraþonræðukeppninni eru allir úr stjórnarandstöðunni, og hefur Framsfl. ekki gefið Alþb. mikið eftir á þeim tveim þingum, sem ég þekki til, þótt einstakir þm, hans hafi ekki komizt jafnhátt á afrekaskrá og einstakir þm. Alþb.

Þess er ekki að dyljast, að slíkar ræður kosta allmikið fé. Mér skilst, að þetta þing komi til með að sitja í 145 daga, en þinghaldið kostar samkv. áætlun fjárlaga 9½ millj. kr. Það gerir um 65520 kr. á dag, eða 2730 kr. á klst., ef deilt er með öllum 24 tímum sólarhringsins. 4½ tíma ræða, eins og metræða Hannibals Valdimarssonar á þessu þingi, kostar Alþingi þannig minnst 1228 kr. Nú er Alþingi ekki jafnaðarlega að störfum 24 tíma á sólarhring, og ef reiknað væri með 12 tímum í framangreindu dæmi, sem raunar væri líka of hátt, kostar ræðan hvorki meira né minna en 24570 kr.

Ef gerður er samanburður á samanlögðum ræðutíma stjórnarandstöðunnar annars vegar og stjórnarsinna hins vegar við afgreiðslu helztu mála, kemur í ljós, að stjórnarandstaðan notar margfalt meiri ræðutíma en stjórnin og stuðningsmenn hennar. Þannig töluðu stjórnarandstæðingar um efnahagsmálin í fyrra samtals 34 klst. og 12 mín., en stuðningsmenn stjórnarinnar 12 klst. 54 mín. Í landhelgismálinu á dögunum töluðu stjórnarandstæðingar 34 klst. 39 mín., en stjórnarsinnar í 6 klst. 35 mín. Ef gerður væri samanburður á umr. um önnur mál, sem fara skjótar í gegnum þingið en efnahagsmálin og landhelgismálið, mundi hið sama koma í ljós: Stjórnarandstaðan notar hér í sölum Alþingis þrefalt til sjöfalt lengri ræðutíma en stjórnin og stuðningsmenn hennar, og von er, að menn spyrji: Hvað telur stjórnarandstaðan sig vinna á þessu? Ekki ná þessar ræður til þjóðarinnar, nema þegar útvarpað er, og blöðin hafa ekki rúm til að birta nema hrafl úr þeim jafnóðum. Þær birtast seint um síðir í þingtíðindum, óaðgengilegar til lestrar, einmitt fyrir það, að ræðurnar eru illa samdar, fullar af endurtekningum og stagli, og stundum fer þar meira fyrir tilvitnunum en orðum ræðumannsins sjálfs.

Einn vinning hefur stjórnarandstaðan af hinum löngu ræðum, eins og sýnt hefur verið fram á. Hún fær svo að segja einokunaraðstöðu til að notfæra sér eðlilegan umræðutíma um hvert mál, því að stjórnarsinnar láta sér oftast nægja réttinn til framsögu og stuttra andsvara. Þetta byggist einfaldlega á því, að stjórnin og stuðningsmenn hennar vilja hvorki tefja þingstörfin að þarflausu né beita ákvæðum þingskapa til að takmarka ræðutíma, meðan nokkur kostur er að komast hjá því, og árangurinn verður sá, að stjórnarandstaðan fær mestallan umræðutímann. Þessa tillitssemi þakkar stjórnarandstaðan síðan bæði með misnotkun ræðutímans og með glósum um stjórnarliðið, — það sé múlbundið og handjárnað og þingmennirnir viljalaus verkfæri stjórnarinnar, — og á þingmönnum stjórnarflokkanna dynja oft alls konar ögranir af þessu tagi. Eins og þetta er í pottinn búið, er ekki að furða, þótt málþófslið stjórnarandstöðunnar tali oft yfir tómum stólum í þingsölum, enda kemur það fyrir, að maraþonræðugarpar krefjast þess af forsetum, að það sé smalað fyrir þá áheyrendum.

Stundum verður þess vart meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar, að þeir eru orðnir leiðir á þessum vinnubrögðum, sem vonlegt er. Ráðið til úrbóta er það, að flokkarnir komi sér saman um umræðutíma í hverju máli, þannig að treysta megi því, að umr. ljúki innan hæfilegs tíma eftir málavöxtum. Gætu þá orðaskipti orðið fjörlegri og umr. frjórri en nú á sér stað, því að ekki þyrfti að óttast, að þátttaka þingmanna stjórnarflokkanna í umr. tefði eða hindraði afgreiðslu mála. Ég vil taka það fram, að með þessum orðum er ég engan veginn að gagnrýna forseta þingsins fyrir að beita ekki valdi sínu samkv. þingsköpum til að takmarka og skipuleggja ræðutíma. Það er langoftast reynt að fá samkomulag allra flokka um þá hluti, og ef stjórnarandstaðan vill losa sjálfa sig og aðra við þau leiðindi, sem málþófi hennar fylgja, þá ætti hún að leita eftir samkomulagi í þá átt, sem ég hef drepið á.

Fyrst ég hef á annað borð gert þessa þætti í störfum Alþingis að umtalsefni, vil ég leyfa mér að bæta því við, að ég fagna fram kominni till. til þál. frá tveim þm. stjórnarandstöðunnar um alþingishús. Í grg. með þeirri tillögu er á það bent, að núv. húsakynni Alþingis eru orðin með öllu óviðunandi, og miðar till. að því, að úrlausn verði undirbúin. Um þessa till. ættu allir þm. að geta orðið sammála í einu eða öðru formi.

Þessu þingi er nú um það bil að ljúka, og til dagsins í dag hafði það afgreitt 65 lög. Sú tala mun enn hækka, áður en þingi lýkur í vikunni. Eitt af merkari málum þingsins var afgreitt í dag sem lög, en það er frv. Jóns Þorsteinssonar og annarra Alþfl.-manna í Ed. um launajöfnuð kvenna og karla. Þessi nýju lög fela það í sér, að á árunum 1962–67 skuli launajöfnuður nást milli kynjanna í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu, en það eru þau störf, sem algengast er að konur og karlar vinni hlið við hlið. Áður hafa konur í þjónustu hins opinbera fengið launajafnrétti með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Launajöfnuðurinn á að nást þannig, að hinn 1. jan. 1962 skuli laun kvenna hækka um 1/6 hluta og síðan árlega um 1/6 hluta mismunarins, þar til fullum launajöfnuði er náð 1. jan. 1967. Þriggja manna nefnd á að fylgjast með launabreytingunum og því, hverjir eigi rétt til þeirra á hverjum tíma, og er hlutverk n. fyrst og fremst að tryggja þeim, sem réttinn eiga, þær hækkanir, sem þeim ber. Til þess að n. geti unnið þetta verk, er henni nauðsynlegt að fylgjast með gerðum kjarasamningum og breytingum, sem á þeim kunna að verða á hverjum tíma, því að ákvæði laganna hindra það á engan hátt, að launþegasamtökin semji sjálf við vinnuveitendur um að jafna launamismuninn örar en lögin ákveða. Með þessum lögum eru uppfyllt ákvæði jafnlaunasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem Ísland er aðili að. Aðrar þjóðir hafa fullnægt þessari samþykkt með svipuðum hætti. Síðastliðin sex ár hefur launamismunurinn aðeins minnkað um 2%, og var það vegna lagasetningar á Alþ., sem sá árangur fékkst. Nú er talið algengast, að launamismunurinn sé 22%, og tryggja hin nýju lög, að sá munur hverfur á sex árum.

Alþb. og Framsókn hafa undir gunnfána Hannibals Valdimarssonar beitt sér gegn þessu frv. og þótzt vilja ganga lengra. En fortíð Hannibals Valdimarssonar í málinu er sú, að þegar hann var félmrh. 1958 og hafði tækifæri til að koma á fullu launajafnrétti, skipaði hann nefnd í málið, sem enn hefur ekki skilað áliti. Í n. eiga sæti fjórar konur og einn karlmaður, Snorri Jónsson að nafni, og er ekki að því að spyrja: Þessi eini karlmaður er formaður n. Í umr. um mál þetta í Nd. lét Hannibal Valdimarsson m.a. svo um mælt, að í Finnlandi hefði nefnd unnið að undirbúningi sams konar máls í 7 ár, og þótti honum það ósköp hæfilegur hraði og til fyrirmyndar.

Ein ummæli Hannibals Valdimarssonar um þetta frv. voru þau, að það færi í þá átt að lítilsvirða og smána verkalýðshreyfinguna. Slíkt er fjarri öllu lagi. Hin nýju lög munu þvert á móti styrkja verkalýðshreyfinguna í þessu máli, af því að í þeim felst fullnaðarviðurkenning löggjafans á jafnrétti kynjanna í launamálum.

Heilindi Framsóknar í málinu er bezt að marka af því, að vinnuveitendasamtök þau, sem framsóknarmenn stjórna, hafa harðlega mótmælt setningu laganna ásamt öðrum atvinnurekendum. Hér á ég við Vinnumálasamband Sambands ísl. samvinnufélaga. — Með hinum nýju lögum er tryggður framgangur mikils mannréttindamáls á skynsamlegan hátt, og má það vera íslenzkum konum fagnaðarefni.

Þingið hefur verið um margt sögulegt, þótt hæst beri, sem vonlegt er, landhelgismálið. Því hafa verið gerð svo ýtarleg skil áður í útvarpsumr, og nú í kvöld af hæstv. utanrrh., að ég mun ekki fara um það mörgum orðum. Hvað sem stjórnarandstæðingar fullyrða um hið gagnstæða, felst þetta í lausn deilunnar við Breta:

Við fáum fullnaðarviðurkenningu á 12 mílunum. Við fáum stækkun á landhelginni um 50–65 km2 vegna útfærslu grunnlína. Við höldum opinni leið til að vinna að meiri útfærslu landhelginnar á grundvelli þeirrar sérstöðu okkar, að fiskimiðin geyma lífsbjörg þjóðarinnar, en á þeim grundvelli höfum við byggt aðgerðir okkar til þessa. Við höfum fengið Breta til að hætta ofbeldisaðgerðum sínum. Viðskiptin við þá eiga að komast í eðlilegt horf, og þeir eru skuldbundnir til að grípa ekki til ofbeldisverka á ný, þótt ágreiningur kunni að rísa í framtíðinni, heldur verður úr slíkum ágreiningi skorið af alþjóðadómstólnum. Gegn þessu fá Bretar tímabundin veiðileyfi á takmörkuðum svæðum í 9–15 mánuði á þremur árum, þó ekki á svæðinu frá Látrabjargi að Horni.

Að mínum dómi eru þessi málalok stórsigur fyrir Íslendinga og furðulegt, að Framsfl. skuli ekki fremur kjósa að eigna sér að einhverju leyti sigurinn heldur en að gerast taglhnýtingur kommúnista, sem vildu ekki lausn deilunnar, heldur áframhald hennar, eins og Lúðvík Jósefsson hefur hreinskilnislega játað. En þetta er aðeins ein af mörgum sönnunum fyrir hinu nána samstarfi þessara flokka og bendir allt til þess, að þar hafi kommúnistar yfirhöndina. Flutningur vantrauststillögunnar ber það með sér, að flokkarnir hyggja á stjórnarsamstarf, og er hugarfars- og stefnubreyting Framsóknar í utanríkismálum einn liður í undirbúningi að væntanlegu stjórnarsamstarfi hennar og kommúnista. Sama máli gegnir um þjónkun maddömunnar við kommúnista í verkalýðsfélögunum. Það er engu líkara en kommúnistar hafi Framsóknarforingjana um þessar mundir í eins konar heilaþvottarkúr, til þess að þeir geti látið þá játa hina kommúnistísku trú. Árangurinn segir þegar til sín. Dagblaðið Tíminn er ekki orðið annað en kópía af Þjóðviljanum. Þm. Framsóknar fara í Keflavíkurgöngur, og háttsettir Framsóknarforingjar eru hafðir á oddinum á fundum hernámsandstæðinga. Með afstöðu sinni til lausnar landhelgisdeilunnar, létu framsóknarmenn sér úr greipum ganga bezta tækifærið, sem þeim hefur gefizt, til að hreinsa sig af kommúnistaþjónkuninni. Þar með hafa þeir búið um sig í íslenzkum stjórnmálum á eyðiskeri hjá kommúnistum, því að það er ekki oft hægt að leika þann leik, sem þeir léku árið 1950, að bera fram vantraust á ríkisstjórn og fella hana, en ganga síðan til stjórnarmyndunar strax á eftir með þeim flokki, sem borinn var vantraustinu. Þetta lék Framsókn 1950, en nú treystir hún á kommúnista til að geta krækt í ráðherrastóla og valdaaðstöðu fyrir flokksforingjana. Þeir eru núna eins og gervitungl, sem snúast á sporbraut kringum Einar Olgeirsson. Getur það verið, að óbreyttir framsóknarmenn, sem treyst hafa fyrri orðum foringja sinna, séu ánægðir? Svo var ekki að heyra á Vilhjálmi Hjálmarssyni, sem eyddi ræðutíma sínum hér í kvöld í það að afsaka kommúnistadekur Framsóknar.

Þessu þingi tókst að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og voru þau afgreidd án greiðsluhalla, en það er eitt höfuðskilyrði þess, að jafnvægi haldist í þjóðarbúskapnum. Skeði nú hvort tveggja, að fjárlög voru afgreidd snemma og að leitazt var við að draga úr útgjaldaliðum á ýmsum sviðum. Nemur sparnaðurinn á útgjaldaliðum alls um 12.3 millj. kr. Síðan afgreiðslu fjárlaga lauk, hafa verið gerðar ráðstafanir til stórfellds sparnaðar í rekstri Keflavíkurflugvallar og sameining Áfengisverzlunar ríkisins og Tóbakseinkasölunnar hefur á þessu þingi verið ákveðin með lögum, og mun af því leiða mikinn sparnað í rekstri þessara stofnana. Þá hafa verið undirbúnar framkvæmdir á vegum landssímans, er miða að því að koma á sjálfvirku símakerfi um land allt. Stofnkostnaður við það verður að vísu hár, en sparnaður í rekstri svo mikill, að reiknað er með, að kerfisbreytingin leiði til gjaldskrárlækkunar, þegar hún hefur komizt í gagnið. Hófsemi í útgjöldum ríkisins og í kostnaði við rekstur ríkisfyrirtækja, sem selja almenningi þjónustu sína, og greiðsluhallalaus fjárlög eru ein nauðsynlegasta forsenda þess, að efnahagslíf þjóðarinnar þróist eðlilega, en fari ekki öðru hverju stórskaðlegar kollsteypur. Stefna stjórnarflokkanna og aðgerðir þeirra hingað til tryggja að þessu leyti nauðsynlegt jafnvægi, ef ekki kemur annað til, sem ekki verður við ráðið.

Stjórnarflokkarnir gerðu ráðstafanir til þess, þegar gengið var fellt s.l. vetur, að létta launþegum þær byrðar, sem af gengisfellingunni hlaut að leiða, m.a. með því að stórhækka bætur almannatrygginganna. Þær hækkuðu um rúmlega 200 millj. kr. Tekjuskattur var lækkaður um 110 millj. kr., og sveitarfélögunum var fenginn nýr tekjustofn, 56 millj. kr. af söluskatti, og með því komust þau hjá útsvarshækkunum og gátu í mörgum tilfellum lækkað útsvörin. Niðurgreiðslur á vöruverði námu s.l. ár um 303 millj. kr. Þessari stefnu er enn haldið áfram á þessu ári. Bætur almannatrygginganna hækka um 71 millj., og kemur nú til framkvæmda afnám skerðingarákvæðanna svonefndu. Það þýðir, að allir, sem orðnir eru 67 ára að aldri, geta fengið lífeyri, þótt þeir hafi ekki látið af störfum, og greiddur er t.d. barnalífeyrir með börnum, sem misst hafa föður sinn, án tillits til fjárhagsástæðna móðurinnar. Frestun á töku lífeyris veitir rétt til meiri hækkunar en áður, og sú hækkun, sem þannig fæst, nær einnig til maka, sem lífeyrisþegi kann að láta eftir sig. Það hefur lengi verið beðið eftir þessum endurbótum í tryggingamálunum, en allar fyrri ríkisstjórnir hafa skotið þeim á frest. Hluti sveitarfélaga í söluskatti hækkar nú í 71 millj. kr., og nokkur hækkun verður á niðurgreiðslum á nauðsynjavörum. Þannig er stefnunni fylgt, og ef greiðslugetu atvinnuveganna verður ekki ofboðið, er sýnilegt, að stjórnarstefnan muni heppnast og færa þjóðinni raunverulegar kjarabætur. Rétt er þó að gera sér ljóst, að þarna kemur fleira til en þau mannlegu öfl, sem vilja sprengja greiðslugetu atvinnuveganna. Aflabrögðin og veðráttan hafa sitt að segja. S.l. ár var heildaraflinn 54 þús. tonnum minni en árið áður.

Það var fróðlegt að heyra Karl Guðjónsson ræða um aflaleysið í kvöld. Hann var ekki í vandræðum með skýringuna. Aflaleysið var allt ríkisstj. og viðreisninni að kenna, að hans sögn. Slíkur málflutningur er varla svaraverður. En ég vil benda á, að undanfarna mánuði hafa kommúnistar og Framsókn keppzt við að neita því, að um nokkurt aflaleysi hafi verið að ræða á s.l. ári. Nú treysta þeir sér ekki lengur til að neita þeirri staðreynd, að aflinn varð um 10% minni en árið áður þrátt fyrir aukinn skipastól og tilkostnað. Bræðrablöðin, Þjóðviljinn og Tíminn, bergmáluðu hvort annað, þegar línan var sú að þræta fyrir aflabrestinn. Næstu daga mun hin nýstárlega kenning Karls Guðjónssonar um aflaleysið af völdum ríkisstj. endurhljóma í Tímanum. Eitt er við þetta unnið: Staðreyndin um 10% aflarýrnun verður ekki lengur dulin, augu manna hljóta um leið að opnast fyrir því, af hvílíku hyldýpis ofstæki stjórnarandstaðan berst.

Aflabresturinn er mestur hjá togurunum, og á útgerð þeirra við mikla örðugleika að stríða. En Karl Guðjónsson ætti líka að vita, að ekki var vertíðin í Vestmannaeyjum s.l. vetur yfirmáta góð, eða um 20% undir meðalári. Veðráttan á vertíðinni að þessu sinni lofar ekki heldur góðu um útkomuna í ár. Af þessu getur leitt stórfelld vandamál, einkum af því, að aflaleysið kemur í kjölfar verðfalls á fiskimjöli og lýsi í fyrra. Útgerðin á af þessum sökum í miklum erfiðleikum. S.l. ár var reynt að létta henni róðurinn með því að veita aðstoð úr hlutatryggingasjóði, að upphæð 10 millj. kr., eftir síldveiðarnar. Einnig var ákveðið að verja um 80–90 millj. kr., sem eftir urðu í útflutningssjóði, þegar hann hafði staðið við allar skuldbindingar sínar, til þess að greiða vátryggingariðgjöld fiskiskipa s.l. ár. Og loks eru nú að koma til framkvæmda lög um lánabreytingar, sem eiga að skapa mörgum útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslustöðvum stórbætta aðstöðu til rekstrar. Þá hafa vextir verið lækkaðir um 2% og afnumið 2½% útflutningsgjaldið. Stefnir þetta allt að því að létta útgerðinni og fiskvinnslustöðvunum róðurinn. En eins og horfir um aflabrögðin, er hætt við, að meira þurfi til að koma, og þegar þannig er ástatt, er ekki rétti tíminn til stórfelldra kauphækkana. Það reynir nú mjög á það, hvort atvinnuvegirnir geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar, og ef kaupgjald verður sprengt upp við þessar aðstæður, mundi sú leið færa okkur á ný fram á hengiflugsbrúnina, sem við vorum staddir á haustið 1958, þegar Hermann Jónasson lagði árar í bát og gafst upp við að leysa þann vanda, sem við blasti.

Þrátt fyrir þá erfiðleika, sem enn er ekki séð fyrir endann á, hafa ráðstafanir stjórnarflokkanna í efnahags- og gjaldeyrismálum borið tilætlaðan og góðan árangur í viðskiptum landsins út á við og þróun peningamála innanlands. Tímans vegna verð ég að láta mér nægja að vísa um þessi mál til ársskýrslu Seðlabankans, sem nýlega var birt, en samkv. henni var vöruskiptajöfnuður óhagstæður s.l. ár um 218 millj. kr., en um 632 millj. kr. árið 1959, þegar innflutningur skipa og flugvéla hefur verið dreginn frá bæði árin. Útlánaaukning 1960 varð 295 millj. kr., en innlán jukust um 324 millj. kr. Innlánaaukningin er þannig meiri en útlánaaukningin, en árið 1959 var þessu öfugt farið. Þá nam útlánaaukning, umfram aukningu innlána, 250 millj. kr. Spariinnlán jukust um 83 millj. kr. meira s.l. ár en árið 1959. Í þessum efnum erum við á réttri leið, og við höfum fyllstu ástæðu til að ætla, að viðreisnin haldi áfram að bera jákvæðan árangur.

Alþfl. tók þá afstöðu haustið 1958, þegar engin samstaða var lengur í vinstri stjórninni um nein úrræði til að forða þjóðinni frá voða í efnahagsmálunum, að beita sér fyrir björgunar- og viðreisnarstjórn. Því starfi hefur flokkurinn síðan haldið áfram, ásamt samstarfsflokknum, í þeirri öruggu vissu, að með þessu starfi vinnur Alþfl. umbjóðendum sínum mest gagn. Þjóðinni hefur verið bjargað frá efnahagslegu hruni, atvinnuleysi og örbirgð, sem við blasti. Nokkru hefur þurft að fórna, til þess að þetta mætti takast. En hverjar hefðu fórnirnar orðið, ef enginn hefði fengizt til að snúast gegn vandanum haustið 1958 eins og Alþfl. gerði? Þeirri spurningu er auðvelt að svara. Taumlaust dýrtíðarflóð hefði skollið yfir, og skilið eftir atvinnulausa og hnípna þjóð í svo miklum vanda, að hún hefði auðveldlega getað glatað sjálfstæði sínu að fullu og öllu. Alþfl. hefur gert sitt til að forða Íslendingum frá þessari ógæfu, og hann mun halda því starfi áfram ótrauður. — Ég þakka þeim, sem hlýddu. Góða nótt.