28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Eldhúsumr. eru umr. fyrir opnum tjöldum, þar sem þm. kveðja dyra á sérhverju útvarpsheimili og setjast á stól með heimilisfólkinu. Þær eiga því ekki að vera sjónarspil, heldur rökræður, þar sem hver og einn leggur sín kort á borðið, vitandi það, að almenningur í landinu er þrátt fyrir áróður og flokksbönd fús til að hafa jafnan það, er sannara reynist.

Eldhúsumr. eru reikningsskil þings og stjórnar til þjóðarinnar. Í þeim er ætlunin að gera upp þjóðarbúið og þjóðfélagsástandið, eins og það er talið liggja fyrir á líðandi stund. Við slíkt uppgjör eru það staðreyndir, en ekki stór orð, sem skipta máli. Í umr. sem þessum skulum við því gera okkur ljóst, að reiði og rök eru sitt hvað og fara raunar sjaldnast saman.

Stjórnarandstaðan hefur í umr. þessum gefið tilefni til ákveðins samanburðar, samanburðar milli stefnu vinstri stjórnarinnar og núverandi stjórnarstefnu. Þær staðreyndir, sem við verðum í því sambandi að gera okkur ljósar, felast í eftirfarandi fjórum spurningum:

1) Hvernig var efnahagsástandið hér á landi, þegar vinstri stjórnin lét af völdum?

2) Hvernig hefði þjóðinni vegnað, ef þeirri stjórnarstefnu hefði verið fylgt áfram eða ef ekkert nýtt hefði verið aðhafzt?

3) Hvað hefur núverandi ríkisstj. gert á sviði löggjafar, sem til úrbóta hefur miðað?

4) Hvern árangur hafa þessar aðgerðir núverandi ríkisstj. borið?

Þessum spurningum er ekki auðsvarað á fáum mínútum, en þess skal þó freistað. Við skulum þá fyrst hyggja að spurningunni: Hvernig var efnahagsástandið, þegar vinstri stjórnin lét af völdum í lok ársins 1958?

Dómar okkar, sem vorum andstæðingar þeirrar stjórnar, verða vafalaust taldir vilhallir og vefengdir. Dómar stjórnarsinna og þeirra, sem í stjórn sátu, verða hins vegar vart tortryggðir fyrir að vera stjórninni óhagstæðir, og því skulum við leiða einmitt þá til vitnis. Sjálfur forsrh., Hermann Jónasson, lýsti því yfir um þessar mundir, að atvinnulífið væri helsjúkt og að ný verðbólguskriða hefði skollið yfir þjóðina og að ekkert samkomulag væri innan ríkisstj. um nein úrræði til úrbóta. Hannibal Valdimarsson félmrh. og forseti Alþýðusambands Íslands hafði þau orð um ástandið, að fram undan væri leiðin til glötunar. Torfi Ásgeirsson, ráðunautur Alþýðusambandsins í efnahagsmálum, sagði í skýrslu sinni til Alþýðusambandsþings: „Sé horft fram á við, er það augljóst mál, að þetta lántökuskeið er senn runnið á enda“. Þá voru líka afborganir íslenzka ríkisins af erlendum lánum komnar upp í það að vera 12% af heildarverðmæti alls útflutnings þjóðarinnar. Skv. sömu skýrslu Torfa Ásgeirssonar höfðu launakjör verkamanna rýrnað um 7% á fyrsta starfsári vinstri stjórnarinnar. Og skv. áramótagrein Hermanns Jónassonar í Tímanum 31. des. 1958 hafði kaupgjald verkamanna þó hækkað um 6% fram yfir það, sem þjóðarframleiðslan þoldi að hans dómi. Þannig var efnahagsástandið hér á landi, þegar vinstri stjórnin skildi við, að dómi hennar eigin forsvarsmanna: Helsjúkt atvinnulíf. Ný verðbólguskriða skollin yfir. Erlend skuldasöfnun fram yfir gjaldeyrisgetu. Kauphækkanir fram yfir framleiðslugetu þjóðarinnar. Og engin samstaða innan ríkisstj. um nein úrræði.

Þá komum við að annarri spurningunni: Hvernig hefði þjóðinni vegnað, ef stefnu vinstri stjórnarinnar hefði verið haldið áfram og ekkert frekara aðhafst?

Því er auðsvarað. Það svar samdi Jónas Haralz efnahagsmálaráðunautur Hermanns Jónassonar. Það svar var í skjalatösku Hermanns Jónassonar, þegar hann gekk á þing Alþýðusambands Íslands sællar minningar. Það svar hljóðaði þannig: Vísitalan á því herrans ári 1958 var komin upp í 185 stig. Og Jónas Haralz boðaði, að innan skamms tíma mundi hún verða komin upp í 217 stig og undir haustið 1959 mundi hún sennilega verða komin upp í 270 stig. Einu úrræði vinstri stjórnarinnar til þess að forða þjóðinni frá þessari óðaverðbólgu voru nýir skattar, nýjar álögur um 250 millj. kr., sem hefðu þýtt fyrir allan almenning í landinu 6% kjararýrnun til viðbótar þeirri kjararýrnun, sem fylgt hafði þegar í kjölfar annarra aðgerða vinstri stj. Við þessu ástandi tók núv. ríkisstj., þó að minnihlutastjórn Alþfl. hefði um ársskeið spyrnt við fótum eftir getu.

Og þá erum við komnir að þriðju spurningunni: Hvað gerði núverandi ríkisstj. á sviði löggjafar til úrbóta?

Fyrst er þá að nefna efnahagsmálalöggjöf viðreisnarstjórnarinnar, sem fól í sér: 1) rétta gengisskráningu, 2) afnám uppbóta- og styrkjakerfisins, 3) sköpun heilbrigðs starfsgrundvallar fyrir framleiðsluna, 4) frjálsa gjaldeyrisverzlun, 5) frjálsa innflutningsverzlun, 6) aukið vöruval í verzlunum og bætt vörugæði, 7) afnám fjárfestingarhafta, 8) utanríkisverzlun var gerð óháðari vöruskiptamörkuðunum og 9) stöðvun verðbólgunnar.

Þá voru það skattamálin. Með löggjöf sinni um tekjuskatt og útsvör afnam ríkisstj. tekjuskatt af þurftarlaunum og lækkaði útsvör verulega. Þessar breytingar á skattalöggjöfinni miðuðu að auknu jafnrétti á sviði skattamála og sniðu ýmsa agnúa af þeirri skattalöggjöf, sem fyrir var og beint hafði dregið úr athafnalöngun og vinnusemi landsmanna.

Í þriðja lagi má svo nefna bankamálin. Þar hefur ríkisstj. átt frumkvæði að því, að stigið hefur verið mikið og farsælt spor með samningu heildarlöggjafar um íslenzka banka. Þessi löggjöf er algerlega ópólitísk. Hún er lýðræðisleg og fullkomnari og nýtízkulegri en bankalöggjöf flestra annarra landa, og efa ég ekki, að núv. ríkisstj. mun hafa varanlegan heiður af því handaverki.

Þá eru það lögin um stofnlánadeildina, sem breyta skyndilánum útvegsins í föst fjárfestingarlán, sem verður að telja merka löggjöf, sem ekki mun valda deilum, a.m.k. þegar tímar liða. Svipað er og að segja um raforku- og jarðhitalöggjöfina, sem ef að líkum lætur mun valda kapítulaskiptum í sögu íslenzkra orkumála og vísindarannsókna almennt.

Margt fleira mætti til nefna af gagnmerkri, róttækri og stefnumarkandi löggjöf stjórnar Ólafs Thors, en til þess vinnst því miður ekki tími.

En löggjöf og góður ásetningur segja ekki nema hálfa söguna. Það, sem máli skiptir, er, hver hefur orðið árangur löggjafarinnar. Og komum við þar að fjórðu og síðustu spurningunni: Hvað segja staðreyndirnar um þau efni? Við skulum taka tilboði Framsóknarþingmanna frá í gærkvöld og gera samanburð á afrekum vinstri stjórnarinnar og viðreisnarstjórnarinnar. Við skulum aðeins líta á nokkrar óvefengjanlegar tölur, sem hver og einn getur sannprófað með því að líta í skýrslur Hagstofu Íslands og bankanna.

Gang efnahagsmálanna má lesa á nokkurs konar efnahagsloftvog. Þau tölulegu atriði, sem þar skipta einna mestu máli, eru eftirfarandi: 1) spariinnlán landsmanna, 2) verzlunarjöfnuður, 3) vísitala framfærslukostnaðar, 4) gjaldeyrisstaða bankanna, 5) innflutningur framleiðslutækja, 6) vinnufriðurinn í landinu. Skal nú farið fáeinum orðum um hvert þessara atriða fyrir sig.

Það þykir jafnan góðs viti, þegar sparifjármyndun eykst í landinu. Það er talið bera vott um vaxandi traust almennings á því þjóðfélagi, sem hann býr í, og auka möguleika þjóðarbúsins til vaxtar og þróunar. Hér hef ég nokkrar tölur, sem sýna þróun þessara mála á tímabili vinstri stjórnarinnar og á viðreisnarstjórnartímabilinu. Árið 1956 jukust spariinnlánin um 144 millj. kr., árið 1957 um 174 millj. og árið 1958 um 212 millj., en árið 1960, á ári viðreisnarstjórnarinnar, jukust þau um 357 millj, kr. eða helmingi meira en árleg meðalaukning nam á ári á tímabili vinstri stjórnarinnar.

Verzlunarjöfnuðurinn hefur og verið okkur Íslendingum nokkurt áhyggjuefni um langt skeið. Hann hefur yfirleitt verið óhagstæður og leitt til óhæfilega mikillar skuldasöfnunar erlendis. Þó er atriði, sem gefa verður gaum að, þegar gerður er samanburður á verzlunarjöfnuði einstakra ára, og það er, hvort hallinn á verzlunarjöfnuðinum stafar af eyðslu, auknum neyzluinnflutningi eða af innflutningi framleiðslutækja, sem síðar munu auka framleiðsluna, auka útflutning og þjóðartekjur og þannig rétta verzlunarjöfnuðinn við, þótt síðar verði. Ef við skoðum verzlunarjöfnuðinn frá þessu sjónarmiði, þ.e.a.s. drögum innflutning skipa frá verzlunarjöfnuðinum og berum hann þannig saman frá ári til árs, þá blasa við eftirfarandi staðreyndir: Á árinu 1957 er verzlunarjöfnuðurinn óhagstæður um 780 millj., árið 1958 er hann óhagstæður um 410 millj., en árið 1960 er hann ekki óhagstæður um nema 218 millj. kr. Þá er það og staðreynd, sem vert er að undirstrika í þessu sambandi, að á tímabili viðreisnarstjórnarinnar hefur verið fluttur til landsins skipastóll, sem nemur 16.6 þús. smálestum, en á öllu tímabili vinstri stjórnarinnar voru ekki flutt inn skip nema samtals 8.3 þús. að smálestatölu, eða helmingi minna en skipainnflutningur hefur verið á tímabili viðreisnarstjórnarinnar, sem þó hefur setið mun skemur en vinstri stjórnin.

Nátengd verzlunarjöfnuði er gjaldeyrisstaða bankanna gagnvart útlöndum. Í lok ársins 1956 var staða íslenzku bankanna gagnvart útlöndum þannig, að þeir skulduðu 108 millj. kr., en í lok ársins 1960 er hún sú, að bankarnir áttu þá 250 millj. kr. inni erlendis, og hafði staða bankanna þannig batnað um tæpar 360 millj. á þessu tímabili.

Um vísitölu framfærslukostnaðar og vinnufriðinn í landinu er þetta að segja: Ef reiknað er með núverandi vísitölu fyrir bæði tímabilin, kemur í ljós, að á tímabili vinstri stjórnarinnar hækkaði hún um 14 stig, en á tímabili viðreisnarstjórnarinnar hefur hún aðeins hækkað um 4 stig. Þessi verðlagsþróun á tímabili vinstri stjórnarinnar leiddi eðlilega af sér mikinn óróa meðal launþega, sem m, a. kom fram í því, að 14 launþegasamtök áttu í langvarandi vinnudeilum á því stjórnartímabili. En á tímabili viðreisnarstjórnarinnar hefur aðeins komið til tveggja vinnustöðvana.

Góðir hlustendur. Ég hef í þessu sambandi reynt að halda mig aðeins við óvefengjanlegar tölulegar staðreyndir. En kjarni þessa máls er með almennum orðum sagt, að í lok vinstristjórnartímabilsins horfði til algers öngþveitis í efnahagsmálum þjóðarinnar og stjórnin sá engin ný úrræði, enda vil ég spyrja þingmenn og landsmenn: Hver vill snúa við? Hver vill snúa við til vinstristjórnartímabilsins? Hver vill snúa við til hinna stöðugu kjaraskerðinga? Hver vill snúa við til úrræðaleysisins? Hver vill snúa við til uppbóta- og styrkjakerfisins? Hver vill snúa við til fjárfestingarhaftanna? Hver vill snúa við til verzlunarófrelsisins? Ég held, að það sé enginn, sem vill snúa við til þessa ástands, enda verður ekki snúið við héðan af.

Við höfum lagt inn á nýja braut. Við höfum gert rétt, en ekki rangt. Það tekur tíma að ná settu marki. En ef þjóðin hefur festu til þess að ganga hina nýju braut, þá mun hún markinu fyrr eða síðar ná og lífskjör þjóðarinnar batna varanlega. — Góða nótt.