28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

Almennar stjórnmálaumræður

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eldhúsdagsumræður eru til þess ætlaðar, að þar verði brugðið upp heildarmynd af störfum Alþingis. Bera þær svip af reikningsskilum milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Rísa þá oft hátt öldurnar og eru lítt spöruð lofsyrði um samherja og lastyrði um andstæðinga. Öll hljótum við að vera sammála um, að aldrei er ástandið í þjóðfélaginu alfullkomið, hvorki nú né endranær. Allir stjórnmálamenn, ef þeir á annað borð eru góðir menn, vilja þó að því vinna, hver eftir sinni sannfæringu, að ástandið verði jafnfullkomið og aðstæður frekast leyfa.

Alþingi hefur setið á rökstólum síðan 10. okt. í haust og lýkur að öllum líkindum störfum á morgun. Eru ekki líkur til, að það muni koma aftur saman fyrr en í október á næsta hausti. Ég mun nota það tækifæri, sem ég hef hér í kvöld, til að stikla á því stærsta, sem áunnizt hefur í nokkrum sérstökum málum, síðan núv. stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og Alþfl. hófst, í þeirri von, að sú upprifjun geti orðið til þess að gera mynd áheyrenda af stjórnarstarfinu nokkru fyllri en ella.

Vík ég þá fyrst að nokkrum atriðum, sem félagsmál varða.

Ríkisstj. hefur haft forustu um, að félagslegt öryggi borgaranna hefur vaxið stórlega með auknum almannatryggingum. Sú aukning kemur glögglega fram, ef borin er saman heildarupphæð bótagreiðslnanna síðasta ár vinstri stjórnarinnar svokölluðu og áætluð upphæð á þessu ári. Árið 1958 var upphæðin 136.6 millj., en á þessu ári er hún áætluð 396.1 millj., þ.e. ekki langt frá því að vera þrisvar sinnum hærri.

Þegar í fyrravetur komu til framkvæmda stórauknar fjölskyldubætur, hækkun barnalífeyris og mæðralauna, en hvort tveggja eru greiðslur til einstæðra mæðra, svo og hækkun elli- og örorkulífeyris.

Næsta skref var stigið um síðustu áramót. Réttur margra bótaþega hefur til skamms tíma verið háður því, að tekjur þeirra færu ekki fram úr vissu hámarki. Þau ákvæði höfðu margvíslega ókosti í för með sér, eins og mörgum yðar, áheyrendur góðir, mun vafalaust vera kunnugt af eigin raun. Þessi svokölluðu skerðingarákvæði leiddu m.a. til þess, að lítils háttar tekjur, sem fullorðið fólk vann sér inn með atorku og iðjusemi, urðu til þess, að það missti ellilífeyri sinn. Sama var að segja um ýmsar aðrar tegundir bóta. Ákvæðin um þessa skerðingu voru felld niður um síðustu áramót. Jafnframt voru settar nýjar reglur, sem auka fríðindi þeirra, sem fresta töku ellilífeyris.

Þrátt fyrir þessar umbætur á sviði almannatrygginga er enn unnið að frekari lagfæringum á löggjöfinni um þessi efni, Koma þar til athugunar ákvæðin um skiptingu landsins í verðlagssvæði og afstaðan milli almannatrygginganna og ýmissa sérstakra lífeyrissjóða, sem er vaxandi vandamál, svo og lagfæringar á ýmsum atriðum, er varða mæðralaun, fjölskyldubætur og barnalífeyri.

Í þeim endurbótum á tryggingamálunum, sem gerðar hafa verið, síðan núverandi stjórnarsamstarf hófst, er fólgin mikil réttarbót fyrir allan almenning, og af þeim leiðir verulegar kjarabætur fyrir fjölda fólks. Fjölskyldumaður fær fjölskyldubætur, sem nema 2600 kr. á ári með hverju barni. Maður, sem fær kaup eftir almennum Dagsbrúnartaxta og nýtur ekki eftirvinnu og á t.d. 3 börn, fær því 650 kr. á mánuði í fjölskyldubætur eða um 16% uppbót á umrætt kaup. Málflutningur ýmissa hv. stjórnarandstæðinga á þessu þingi hefði verið vandaðri, ef þessa hefði verið getið, og að auki hefði mátt geta um skattalækkun þá, sem gerð var að frumkvæði ríkisstj. Auðvitað dettur samt engum annað í hug en brýn þörf sé á að bæta kjörin verulega frá því, sem nú er, og við það er stjórnarstefnan miðuð.

Tveir hv. þm. stjórnarandstöðunnar viku að öðrum þætti félagsmála, húsnæðismálunum, í umr. í gærkvöld. Vissulega er þar við mikinn vanda að fást, og margir eiga í erfiðleikum með íbúðir sínar. Þann vanda vill ríkisstj. leysa á grundvelli þeirrar meginstefnu, sem Sjálfstfl. hefur jafnan lagt áherzlu á, að fólk geti sjálft komið sér upp húsnæði, og hefur núv. ríkisstj. tekizt að afla mikilla fjárhæða til þessara mála. Á síðasta ári hafði húsnæðismálastjórn 72 millj. kr. til útlána. Þó að sú upphæð nægði ekki til að leysa allra vanda, var hér um meira en helmingi hærri upphæð að ræða en árið 1958, síðasta ár vinstri stjórnarinnar. Nær því engri átt, að sú fullyrðing fái staðizt, sem sett var fram í gærkvöld af hv. þm. Geir Gunnarssyni úr Hafnarfirði, að sú fjármagnsaukning sem orðið hefði, dygði ekki til að mæta hækkun þeirri, er orðið hefur á byggingarkostnaði. Á árinu 1955 var áætlað, að byggja þyrfti um 900 nýjar íbúðir árlega. Síðan hafa um 1460 íbúðir verið byggðar á ári að meðaltali, og er áætlað, að lokið verði við um 1500 íbúðir á þessu ári. Á sex árum hefur þá verið byggt yfir um 40 þús. manns, ef gert er ráð fyrir, að 4–5 búi í hverri íbúð, og er það tvöföld tala fólksfjölgunar í landinu á sama tíma. Ástæða er því til að gera sér vonir um, að vandinn í húsnæðismálum fari minnkandi. Í ríkisstj. er nú unnið að því að tryggja, að á þessu ári verði til útlána til íbúðabygginga a.m.k. jafnmikið fé og var á síðasta ári.

Mig langar þessu næst til að víkja að tveim málum, sem sérstaklega varða konur og samþykkt hafa verið á þessu þingi. Annað fjallar um breytingu á lögum um fjármál hjóna og hitt um launajöfnuð kvenna og karla.

Hv. þm. Auður Auðuns beitti sér fyrir fyrra málinu og flutti það ásamt þm. úr öllum flokkum. Um fjármál hjóna hafa um áratugaskeið gilt tvenn lög hér á landi. Konur, sem gengu í hjónaband 1923 eða fyrr, hafa flestar verið mun lakar settar en aðrar konur að þessu leyti. Nú í vetur voru hin eldri lög afnumin, og gilda því nú sömu lög um þessi efni fyrir alla borgara.

Lögin um launajafnrétti voru samþykkt í gær. Stuðningsflokkar ríkisstj. stóðu saman um að lögfesta þessa þýðingarmiklu réttarbót, en frv. var flutt í Ed. snemma á þessu þingi af nokkrum þm. Alþfl. Samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum, skal á árunum 1962–67 hækka laun kvenna til samræmis við laun karla í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verzlunar- og skrifstofuvinnu. Samkvæmt þessu verður fullu launajafnrétti náð 1967. Talið er, að kaup kvenna sé nú um 23% lægra að meðaltali en kaup karla í þeim atvinnugreinum, sem um er að tefla.

Þegar litið er til þess, hve kostnaðarsamt mál hér er um að ræða, er augljóst, að sú lausn, sem lögfest hefur verið, hefur margvíslega kosti. Eins og oft vill verða, taldi hv. stjórnarandstaða sig þó kunna betri ráð til lausnar þessu máli. Er af því allmikil saga, eins og drepið var á í umr. í gærkvöld. Hirði ég ekki að rekja þá sögu, en vil aðeins minna á, að þeir, sem mest hafa haft sig í frammi af hálfu stjórnarandstæðinga nú, hafa áður haft eins góða aðstöðu og hugsazt getur til að koma málinu í höfn, en ekki gert það. Sú leið, sem nú hefur verið valin, hefur ekki í för með sér þá hættu á röskun á vinnumarkaðinum, sem óneitanlega gæti af því hlotizt, að jafnmikilli greiðslubyrði og hér er um að ræða væri velt á atvinnuvegina í einni svipan. Ef svo væri gert, gæti það og leitt til þess, að einhverjar konur kynnu að missa atvinnu sína, ef gengið væri fram hjá konum við ráðningar, og að upp kæmu aðrir erfiðleikar, sem orðið gætu konum til tjóns.

Góðir áheyrendur. Full ástæða hefði verið til að minnast á ýmis fleiri mál, ekki sízt mál, sem varða menntun hinnar uppvaxandi kynslóðar. T.d. voru á þessu þingi settar nýjar reglur um námslán, sem eiga að tryggja, að miklu meira fé verði handbært til að létta ungu fólki nám þess en verið hefur. Vegna gengisbreytingar var þörf á nýskipan á þessu sviði, og hefur fyrir atbeina ríkisstj. fengizt mikil úrbót með hinum nýju lögum. Örar breytingar á þjóðfélagsháttum kalla á nýja hætti í uppeldis- og skólamálum, og er vafalaust, að ýmsu þarf að breyta á þessu sviði á næstu árum, ekki sízt að því er varðar menntun stálpaðra unglinga og þeirra, sem enn eldri eru.

Í þessari stuttu ræðu hef ég, herra forseti og góðir hlustendur, leitazt við að benda á nokkur atriði, sem ég tel að hafa verði í huga, þegar gerðir eru upp reikningar og litið á árangur stjórnarstefnu síðustu missira. Mér virðist mega fullyrða, að í þessum efnum, eins og á fjölmörgum öðrum sviðum, sem aðrir stjórnarsinnar hafa gert að umræðuefni í þessum útvarpsumr., hafi verið vel unnið og góður árangur náðst. Mun því þjóðinni bezt farnast, ef hún sér til þess, að unnt verði að halda enn lengra áfram á þeirri braut til tryggari kjara og öruggari afkomu, sem gengin hefur veríð í tíð núv. ríkisstj.

Ég leyfi mér að óska öllum hlustendum gleðilegrar páskahátíðar. — Góða nótt.