28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. þm. Birgir Kjaran var að enda hér ræðu sína áðan og fór heldur ónákvæmlega með tölur. Ég hef ekki tíma til að fara út í það, en ég ætla að drepa á eitt sýnishorn. Hann talaði um greiðsluhallann hjá núv. hæstv. ríkisstj, og hins vegar hjá vinstri stjórninni og komst að þeirri niðurstöðu, að hann væri þó miklu betri hjá núv. ríkisstj., ef skip eru frá dregin. En hvað dró hann frá, þegar hann var að tala um greiðslujöfnuðinn hjá vinstri stjórninni? Gleymdi hann ekki að draga frá Sogsvirkjun, sementsverksmiðjuna og margt fleira? Ja, það er bókhald þetta!

Annar hv. þm. Sjálfstfl. talaði hér, frú Ragnhildur Helgadóttir, og sagði: Engum dettur annað í hug en að bæta þurfi kjör almennings og við það er stjórnarstefnan miðuð. — Einmitt það! Hún er þá miðuð við þetta! Þetta vissu menn alls ekki, að hún væri svona hjartagóð, en það er gott að segja frá því, þó að aldrei sé annað.

Það mun hafa vakið sérstaka athygli hlustenda í umr. í gærkvöld, að allir ræðumenn stjórnarflokkanna með hæstv. ráðh. Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar réðust gegn gildandi ákvæðum þingskapa um útvarpsumræður og málfrelsi á Alþingi, og við þetta bættist, að hv. þm. Birgir Finnsson fjandskapaðist einnig við það, að þingfréttir skuli fluttar í útvarp. Þessi málflutningur var svo skipulega samræmdur hjá stjórnarliðinu, að ekki er annað að sjá en ríkisstj. hafi í hyggju að gerbreyta þessum reglum. Hvað er hér á ferðinni? Á að fara að takmarka málfrelsi stjórnarandstæðinga á þingi? Á að fara að loka útvarpinu fyrir hlustendum, svo að þeir heyri ekki gagnrýni andstæðinga stjórnarinnar á orðum hennar og gerðum? Er sök stjórnarflokkanna í landhelgismálinu og efnahagsaðgerðunum farin að ganga svo nærri þeim, að þeir telji sig þurfa að loka útvarpinu fyrir hlustendum og skerða málfrelsi andstæðinga sinna? Það er ástæða til að spyrja: Er að rísa upp hrein einræðisstefna innan ríkisstj., sem vill hefta andlegt frelsi manna utan þings og innan?

Það er siðferðileg lýðræðisskylda stjórnmálamanna og flokka í alþingiskosningum að lýsa stefnu sinni í opinberum málum fyrir þjóðinni. Þeim ber að skýra afdráttarlaust frá fyrirætlunum sínum í meiri háttar málum og koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þjóðin verður að geta treyst því, að menn og flokkar séu það, sem þeir segjast vera. Sé þetta ekki gert, er verið að blekkja kjósendurna, draga þá á tálar og ginna þá til að velja sér þá fulltrúa á Alþing, sem þeir annars mundu ekki kjósa.

Hálft annað ár er nú liðið frá síðustu kosningum. Flokkar og frambjóðendur boðuðu þá stefnu sína í opinberum málum, hver á sína vísu. Nú er að ljúka öðru þingi eftir þær kosningar, og tími reikningsskilanna er sannarlega kominn. Þjóðin getur gert það upp við sig nú, hvernig flokkarnir hafa staðið við fyrirheit sín og kosningaloforð. Báðir stjórnarflokkarnir völdu sér kjörorð í síðustu kosningum. Undir þessum kjörorðum settu þeir sér það markmið að ná meiri hluta saman á Alþingi. Margir treystu yfirlýsingum þeirra, treystu fyrirheitum og kjörorðum og veittu þeim þennan meiri hluta.

Helztu kjörorð stjórnarflokkanna voru þessi: 1) Stöðvun verðbólgunnar án nýrra skatta. 2) Leiðin til bættra lífskjara er að kjósa Sjálfstfl. 3) Ekki kemur til mála minni landhelgi en 12 mílur kringum allt landið, en markmiðið er landgrunnið allt.

Hverjar hafa svo efndirnar orðið á þessum fyrirheitum? Ég skal nefna örfá dæmi.

Með efnahagslöggjöfinni hækkuðu erlendar vörur í verði um 40–80%. Fjölskylda, sem áður keypti erlendar vörur fyrir 10 þús. kr., verður nú að greiða 4–8 þús. kr. meira fyrir jafnmikið af sams konar vöru. Vextir hækkuðu gífurlega og lánstíminn var styttur á flestum fjárfestingarlánum. Það er mikið áhugamál manna, bæði við sjó og í sveit, að koma sér upp íbúðarhúsnæði yfir sig og sína. Vegna dýrtíðar kostar nú meðalíbúð a.m.k. 50–70 þús. kr. meira en áður. Ef menn skulda um ¾ hluta byggingarkostnaðar, eru vextir og afborganir af byggingarskuldunum 35–40 þús. kr. á ári. Sá bóndi, sem hafði ekki keypt sér nauðsynlegar búvélar fyrir efnahagsaðgerðirnar, mun finna það tilfinnanlega, hvernig honum er mögulegt að kaupa þær nú. Þótt hann kaupi ekkert annað en eina dráttarvél og eina múgavél, þá munu þessi tvö tæki kosta nú um 55 þús. kr. meira en áður.

90–100 tonna fiskibátur kostaði um 3 millj. kr. fyrir efnahagsaðgerðirnar. Að frádregnum lánum fiskveiðasjóðs þurfti útgerðarmaðurinn að leggja sjálfur fram um 1 millj. Nú kostar sams konar bátur um 5 millj., eða 2 millj. kr. meira en áður, og nú þarf útgerðarmaðurinn að leggja fram úr eigin vasa, þegar lán fiskveiðasjóðs er fengið, um 700 þús. kr. meira en áður.

Með efnahagslöggjöfinni var lagður tvenns konar söluskattur á þjóðina, 8.8% á allar innfluttar vörur og 3% á vörur í smásölu og á þjónustu. Á síðustu fjárlögum vinstri stjórnarinnar var söluskattur 115 millj. kr. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru söluskattar 509½ millj., eða 394½ millj. kr. hærri en áður. Þessi hækkun samsvarar 11270 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Hagstofan reiknar mánaðarlega út vísitölu framfærslukostnaðar. Sá útreikningur byggist á því vörumagni lífsnauðsynja, sem talið er meðalneyzla yfir árið hjá vísitölufjölskyldu, en hún er 4.2 menn. Þessar nauðsynjar kostuðu fyrir efnahagsaðgerðirnar samkv. hagskýrslum um 58 þús. kr. Nú kosta þessar nauðsynjar um 67 þús. kr., og þó er húsnæðiskostnaður aðeins reiknaður rúmar 10 þús. kr. á ári samkv. sömu skýrslum, en hann mun vera a.m.k. helmingi hærri í nýlegum húsum. Af þessu er ljóst, að árleg útgjöld vísitölufjölskyldunnar, sem er 4.2 menn, eru um 75–85 þús. kr. á ári.

Það er ófrávíkjanleg stefna hæstv. ríkisstj., að kaupgjald skuli ekki hækka, þar með eru taldar vinnutekjur bænda. Árstekjur verkamanns í Reykjavík, sem vinnur fullan vinnudag alla virka daga ársins, eru nú um 49600 kr. Vinnutekjur fjölmargra bænda eru vafalaust enn lægri og árslaun alls þorra launafólks ýmist lægri en þetta eða lítið hærri.

Hæstv. ríkisstj. sá sér ekki annað fært en láta einhverjar hagsbætur koma á móti þeim óskaplegu byrðum, sem ég hef hér nefnt nokkur dæmi um. Þessar bætur á göt efnahagsaðgerðanna eru aðallega tvenns konar: hækkun fjölskyldubóta og lækkun skatta. Ekki falla þær öllum í skaut og misjafnlega koma þær niður.

Hækkun fjölskyldubóta er svo vísindalega upphugsuð, að þótt hún nemi um 6600 kr. samtals á ári á þrjú fyrstu börnin í fjölskyldu hér í Reykjavík, nemur hækkunin ekki nema 269 kr. á ári á hvert barn, sem er umfram þrjú. Þær eiga ekki upp á pallborðið, barnmörgu fjölskyldurnar, hjá stjórnarflokkunum. Auðvitað fá þeir svo ekkert af þessu tagi, sem eiga ekki börn, eða þeir, sem aðeins eiga eldri börn en 16 ára.

Hæstv. ríkisstj. telur sig hafa afnumið skatta af almennum launatekjum. Ég skal nefna dæmi um það, hvernig þessi lækkun tekjuskatts og útsvars er. Hjón í Reykjavík með 2 börn og 50 þús. kr. árstekjur eða verkamannakaup lækka í sköttum um 928 kr. En ef þessi tveggja barna fjölskylda er með 200 þús. kr. árstekjur, þá lækkar hún í sköttum um 30327 kr. Þarna fær hátekjumaðurinn jafnmikla skattalækkun og 33 lágtekjumenn. Þeir þekkja sína, stjórnarflokkarnir.

Af þeim dæmum, sem ég hef hér nefnt um efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj., er eftirfarandi ljóst: Dýrtíðarflóðið, vaxtaokrið, skattabyrðarnar og lánsfjárkreppan útiloka allar framkvæmdir hjá þeim, sem eiga að lifa af venjulegum launatekjum. Hjá fjölda manna, sem á undanförnum árum hafa stofnað til skulda vegna bygginga, ræktunar, vélakaupa eða þess háttar, valda þessar byrðar hinum sárustu erfiðleikum, enda eru nú þegar dæmi til þess, að menn missa eignir sínar af þessum ástæðum.

Vinnutekjur bænda, verkamanna, iðnaðarfólks og fjölmargra annarra launamanna eru aðeins um 2/3 hlutar þess, sem lífsnauðsynjar vísitölufjölskyldu kosta nú samkv. opinberri verðskráningu. Vegna þessarar stórkostlegu kjaraskerðingar verður þetta fólk nú að draga úr neyzlunni, neita sér um nauðsynjar, en láta sér nægja að fullnægja brýnustu þörfum sínum.

Hæstv. ráðh. Bjarni Benediktsson sagði í gærkvöld, að atvinnuleysi hefði ekki orðið umfram það, sem stafar af aflaleysi. Hann viðurkenndi þó, að atvinnuleysi ætti sér stað. En er atvinnuleysi í byggingariðnaði vegna aflaleysis? Eru uppsagnir verkafólks í verksmiðjum vegna aflaleysis? Og hvaða ráð gaf þessi hæstv. ráðh. láglaunamönnunum, sem ekki geta lifað á dagkaupinu sínu? Hann sagði þeim að vinna aukavinnu, — aukavinnu í atvinnuleysinu. Ætlar hann að leggja þeim til þessa aukavinnu?

En til hvers hafa þessar óskaplegu byrðar verið lagðar á landsmenn, aðra en hátekjumenn, sem fá þetta uppbætt með skattalækkun? Til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálum, segir hæstv. ríkisstj., til þess að þjóðin lifi ekki um efni fram, til þess að útiloka skuldasöfnun erlendis, til þess að koma atvinnuvegunum á traustan og öruggan grundvöll. En hver er svo árangurinn? Hæstv. ráðh. Bjarni Benediktsson hafði ekki annað að segja um árangurinn en þetta í gærkvöld: „Hálfnað er verk, þá hafið er.“ Það var vissulega hyggilegt að segja ekki meira.

Hv. þm. Jón Árnason taldi þó, að lækkun okurvaxtanna um áramótin væri að þakka árangri af efnahagsaðgerðunum. Ekki er hann kunnugur málunum, því að vaxtalækkunin var knúin fram af stjórnarandstöðunni, og er ekki um það að villast. Eða vill ekki þessi hv. þm., Jón Árnason, kynna sér það betur uppi á Akranesi, t.d. á morgun, hversu öruggan grundvöll hann er kominn á, sjávarútvegurinn þar? Það á nefnilega að bjóða upp tvo Akranestogarana á morgun á nauðungaruppboði og annar þeirra er kyrrsettur úti í Bretlandi vegna erlendra skulda.

Jafnvægi hefur ekki náðst. Erlendar skuldir hafa vaxið stórlega, en ekki minnkað. Erlend framkvæmdalán, sem spöruðu þjóðinni gjaldeyri eða sköpuðu henni gjaldeyristekjur, eru nú stórum minni en áður. En það hefur verið tekið þeim mun meira af neyzlulánum til skamms tíma.

Almenningur í landinu hefur aldrei lifað um efni fram. En nú er svo sorfið að lágtekjumönnum og reyndar fleirum, að hins ýtrasta sparnaðar er þörf. Hinn trausti grundvöllur atvinnuveganna, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að skapa, er þannig, að þjóðarlíkaminn var orðinn lamaður á s.l. hausti, sagði forustumaður sjálfstæðismanna í L.Í.Ú. Þess vegna þurfti hæstv. ríkisstj. að stofna til kreppulána með brbl. fyrir sjávarútveginn, sem nemur hundruðum milljóna króna.

Í landbúnaðinum er ástandið svo, að jarðir fara nú í eyði í stórum stíl. En á bjargráðum til þessa atvinnuvegar bólar ekkert.

Hæstv. ríkisstj. bað um frið, til þess að tilraunir hennar í efnahagsmálum gætu heppnazt. Hún hefur fengið þennan frið, meiri frið en nokkur önnur ríkisstj. Eftir þennan frið er árangurinn sá, sem ég hef lýst. Leiðin til bættra lífskjara, sem hæstv. ríkisstj. vísaði mönnum á, hefur legið í öfuga átt. Stöðvun verðbólgunnar án nýrra skatta hefur orðið dýrtíðarflóð með gífurlegri sköttum en áður þekktust. En það fyrirheitið, sem landsmenn munu þó hafa treyst að staðið yrði við, einhugur án undansláttar í landhelgismálinu, — nú er það farið sömu leiðina og hin. Meira að segja hefur það gerzt, sem engum mun hafa dottið í hug fyrir fram: afsal um alla framtíð á rétti Íslendinga til einhliða útfærslu landhelginnar. En sjútvmrh. brezki hreykir sér nú af því opinberlega, hvernig sér hafi tekizt að semja um landhelgina við Íslendinga.

Hæstv. ráðh. Guðmundur Í. Guðmundsson sagði í gærkvöld, að það hefði fengizt alþjóðaviðurkenning á því, að draga mætti grunnlínur milli annesja. Þetta er rétt. Sú regla var staðfest á ráðstefnunni í Genf 1958. Þarna staðfestir hæstv. ráðh., að hann fór með blekkingar í útvarpi um daginn, þegar hann sagði, að Íslendingar fengju með landhelgissamningnum útfærslu á grunnlínum í staðinn fyrir að Bretar fengju að veiða í íslenzkri landhelgi í þrjú ár. Þetta þurftu Íslendingar ekki að kaupa af Bretum fyrir neitt, því að þeir áttu þennan rétt, eins og hæstv. ráðh. segir nú. Þá vitnaði þessi sami hæstv. ráðh. í 10 ára gömul ummæli Tímans um Haag-dómstólinn. Fyrir 10 árum ríkti mikil trú á því, að dómstóllinn gæti orðið smáþjóðum gagnlegur. En því miður sýnir reynslan, að þessar vonir hafa brugðizt, enda hefur engin þjóð látið þennan dómstól dæma um stærð landhelgi sinnar utan við grunnlínur.

Stjórnarflokkunum tókst að blekkja meiri hluta þjóðarinnar í síðustu kosningum með fyrirheitum, sem þeir ætluðu sér aldrei að standa við, eins og þjóðin hefur nú fengið að þreifa á. Um hið pólitíska siðgæði af þessu tagi er bezt að vitna til samþykktar, sem gerð var fyrir fáum dögum á héraðsþingi ungmennafélaga Suður-Þingeyinga, en þar segir m.a.:

„Þá vill fundurinn enn fremur mjög ákveðið vara við þeirri hættu, sem þjóðinni er búin af spilltu stjórnmálasiðgæði íslenzkra stjórnmálamanna, eins og nú síðast birtist í gerð þessa landhelgissamnings, þar sem þeir virða að vettugi eigin orð og eiða við þjóðina, en lúta erlendu ofbeldi.“

Sagan sýnir, að Þingeyingar hafa fyrr gefið réttan tón. Þarna hvetur þingeysk æska til vakningaröldu gegn siðgæðisskorti ráðandi flokka. Sú alda mun rísa, og gegn þeirri öldu tekst þessum flokkum ekki að leika slíkt í annað sinn. — Góða nótt.