28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þótt menn hafi ekki í ræðum stjórnarandstæðinga í gærkvöld eða í kvöld fengið miklar upplýsingar um það, hvernig bræðraband stjórnarandstöðunnar ætli að leysa vandamál þjóðarinnar, þá var ýmislegt skemmtilegt í ræðum þeirra. Því var lýst á skáldlegan hátt, hvernig birt hefði yfir þjóðinni, þegar Framsfl. kom til sögunnar. Ræðumani láðist raunar að nefna ummæli fyrrverandi forsrh. Steingríms Steinþórssonar, um það, að árin 1950–54 hefðu verið mesti framfaratími í sögu þjóðarinnar og um sama leyti kvartaði Tíminn yfir því, að undafarinn áratug hefði Sjálfstfl. haft öll lyklavöld um afgreiðslu mála.

Hv. 6. þm. Sunnl., Karli Guðjónssyni, sem átaldi mjög, að Rússlandsviðskiptum væri ekki sinnt sem skyldi, skal bent á að ganga inn með Suðurlandsbraut og skoða rússnesku bílana, sem er ekki hægt að selja þrátt fyrir margvísleg fríðindi. Þá væri fróðlegt að heyra skýringar hv. þm. Sigurvins Einarssonar, hvernig á að lækka skatta meira en niður í ekki neitt. Það verður að hryggja þennan sama hv. þm. með því, að stjórnarandstaðan hefur ekki haft minnstu áhrif á ákvörðunina um vaxtalækkun. Loks ætti þm. að hlífa Ungmennasambandi Þingeyinga við því að minna á hina furðulegu samþykkt þess.

Fæðingarstyrkir frá Bandaríkjunum eru óneitanlega æskilegri en styrkir til að koma í veg fyrir, að hugsjónarmál sjái dagsins ljós, svo sem varð um framlagið úr öryggissjóði Bandaríkjanna á dögum vinstri stjórnarinnar sem varð til þess, að vinstri stjórnin gleymdi að láta herinn fara.

Skemmtilegast var þó að heyra um hina nýju stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar, Eirík sáluga rauða og Christopher Soames hinn brezka, og loks sú kátlega fullyrðing, að Kennedy Bandaríkjaforseti sé á línu íslenzku stjórnarandstöðunnar. Það er næsta kaldhæðnislegt, hversu stjórnarandstæðingar fagna hverju orði frá Bretum, sem er andstætt íslenzkum hagsmunum. Christopher Soames á áreiðanlega lengi eftir að verða óskabarn Tímans og Þjóðviljans. En auðvitað sér hver heilvita maður, að hann veit engu betur en við hér á Alþingi, hvernig alþjóðadómstóllinn muni úrskurða ágreiningsmál um landhelgi á komandi árum.

Við vitum það eitt, að alþjóðadómstóllinn hefur beinlínis rutt brautina fyrir okkur Íslendinga í þessu lífshagsmunamáli okkar, og þótt stjórnarandstæðingar nú leggi sérstaka rækt við að gera lítið úr rétti okkar, þá er sem betur fer ekki ástæða til að halda, að þær fullyrðingar hafi áhrif á alþjóðadómstólinn, sem smáþjóðirnar öðrum fremur hljóta að setja traust sitt á. Þau orð, sem heyrðust hér í gærkvöld, að það væri heimsmet í réttindaafsali að leggja deilumál fyrir alþjóðadóm, eru ekki sæmandi á þingi smáþjóðar; sem á alla tilveru sína undir því, að rétturinn, en ekki valdið, ráði í heiminum.

Stjórnarandstaða í lýðfrjálsum ríkjum gegnir ekki síður mikilvægu hlutverki en stjórnarliðið. Hennar hlutverk er að veita ríkisstj. aðhald og halda uppi raunsærri og hófsamlegri gagnrýni á það, sem stjórnarandstaðan telur miður fara. Það skal játað, að allir íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa í stjórnarandstöðu meira og minna brotið gegn skyldum sínum í þessu efni. En ég efast mjög um, — að stjórnarandstaðan hafi nokkru sinni verið jafnhóflaus og niðurrifskennd í gagnrýni sinni og núv. stjórnarandstöðuflokkar eða öllu heldur flokkur, því að svo er stjórnarandstaðan einhuga, að þar er naumast lengur hægt að tala um tvo flokka.

Mig langar nú, hlustendur góðir, til, að við rifjum upp helztu ákæruatriði stjórnarandstöðunnar á núv. ríkisstj. og stjórnarflokka, eins og þau hafa birzt í ræðum talsmanna bræðraflokkanna, Framsóknar og Alþýðubandalags, í útvarpsumræðum og málgögnum flokka þessara. Sem inngang að þeim reiðilestri fer vel á að minna á þær röksemdir Framsfl. gegn kjördæmabreytingunni síðustu að með henni væri vísvitandi að því stefnt að leggja hinar strjálbýlu byggðir landsins í auðn, og jafnvel gengið svo langt í einu málgagni Framsfl. að fullyrða, að tungu og þjóðerni verði stefnt í voða og líklegt að grasið hætti að gróa, ef sú breyting næði fram að ganga.

Því er nú blákalt haldið fram, að ríkisstj. og stuðningslið hennar stefni markvisst að því að innleiða örbirgð og atvinnuleysi á Íslandi. Skipulega sé að því unnið að draga úr framkvæmdum og hindra uppbyggingu. Framsóknarmenn hafa af sínu alkunna hyggjuviti fundið upp orðið samdráttarstefna, sem í gærkvöld og í kvöld var orðið breytt í „lömunarstefna“, og við höfum heyrt í öllum þeirra ræðum í þessum tímaræðum, hvernig þeir hafa keppzt um að mála á vegginn sem hrikalegastar myndir af því, hvernig þessi voðalega samdráttarstefna muni smám saman leggja byggðir landsins í rúst og eyðileggja þá undraverðu uppbyggingu, sem vinstri stjórnin hafi unnið að. Láist þá að geta þess, að meira var keypt af framleiðslutækjum á s.l. ári en nokkru sinni áður á einu ári, og er þar hæsta upphæðin skip og flugvélar 600 millj. kr. Þeir segja, að kjör launþega sé lögð sérstök rækt við að rýra og jafnframt sé verið að koma öllum atvinnuvegum landsmanna á kaldan klaka. Kjarnorðasta lýsing á stefnu ríkisstj. og afleiðingum hennar er að finna í einu nál. 1. þm. Norðurl. e., Karls Kristjánssonar. Þar segir:

„Sjávarútvegurinn er á heljarþröm. Landbúnaðurinn keyrður í kreppu. Iðnrekstur í voða. Verzlunin dregst saman. Fjárfestingarframkvæmdir að detta niður. Hið almenna framtak fellt í fjötra. Atvinnuleysi að hefjast. Kaupmáttur launa stórlega skertur.“

Ekki þótti þó þessum virðulega þingmanni þessi kjarnyrta lýsing nægilega stórfengleg, því að hann sagði, að ástandið minnti á móðuharðindin, þá skelfilegustu óáran, sem yfir íslenzku þjóðina hefur gengið frá upphafi vega

Síðustu einkunnirnar, sem stjórnarandstaðan hefur svo gefið ríkisstj., eru landráð og þjóðsvik í sambandi við landhelgissamninginn við Breta. Í því máli er þáttur Framsfl. ömurlegur. Ég veit ekki, hvort framsóknarmenn hafa nú lifað sig svo inn í baráttuaðferðir samherja sinna í Alþb., að þeir telji það líklegustu aðferðina til að sannfæra fólk um sinn málstað að lýsa stjórnarliðinu og verkum þess með svo öfgafullum fordæmingum, að jafnvel Þjóðviljinn verði algerlega undir í stóryrðanotkun. Hitt er ég sannfærður um, að margir eru þeir í röðum óbreyttra liðsmanna Framsóknar og einnig Alþb. um byggðir landsins, sem lítt geðjast að slíkum málflutningi. Menn geta gagnrýnt núv. ríkisstj. og stefnu hennar, en að halda því fram, að ríkisstj. og þinglið hennar séu einhuga um að reyna að gera þjóðinni þann miska, er þeim sé auðið, er fullyrðing, sem ekki sæmir að bera á borð fyrir upplýsta og menntaða þjóð.

Framsfl. rauf stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. 1956 með þeirri röksemd, að taka yrði upp nýja stefnu í efnahagsmálum og gera róttækar ráðstafanir til viðreisnar efnahagskerfinu, sem væri ekki auðið að gera nema með stuðningi verkalýðsflokkanna. Vinstri stjórnin var mynduð með sterkum þingmeirihluta. Hennar stóra tækifæri var um áramótin 1956–57. Allir væntu þess, að nú yrði hin mikla stefnubreyting. En áræði brast, og samheldnina vantaði. Samkomulag varð um það eitt að stefna inn á verðbólgubrautina með enn meiri hraða en áður. Alvarleg vinnudeila hófst. Aftur brast bæði kjark og samheldni. Sú deila var að tilhlutan ríkisstj. sjálfrar leyst á þann veg, að ógerlegt mátti teljast að stöðva aðrar kauphækkanir. Allt frá byrjun kepptust ráðherrar vinstri stjórnarinnar við að smíða naglana í eigin líkkistu, en fólkið, sem hafði treyst glæstum loforðum fyrir kosningar, fylltist gremju og vonleysi. Ekki er að efa, að þeir, sem að vinstri stjórninni stóðu, hafi viljað vinna þjóð sinni gagn. En þeim láðist í upphafi að koma sér saman um það, sem hafði æðimikla þýðingu, stjórnarstefnuna. Samkomulag var gert um það eitt að mynda stjórn, draga með öllum ráðum sem mest úr áhrifum sjálfstæðismanna og láta að öðru leyti hverjum degi nægja sína þjáningu. Auðvitað gerði vinstri stjórnin ýmislegt þjóðinni til hagsbóta, en í meginefnum varð starf hennar eða starfsleysi samfelld raunasaga og endalokin í samræmi við það. Því er að vísu haldið fram af framsóknarmönnum, að enda þótt Hermann Jónasson hafi lýst því yfir, að ný verðbólguskriða væri skollin yfir þjóðina, þegar hann baðst lausnar, hafi raunverulega efnahagsástand þjóðarinnar aldrei verið betra. Vinstri stjórnin fær þá væntanlega í sögunni þau eftirmæli, sem sennilega engin önnur stjórn í veröldinni hefur fengið, að velmegun hafi orðið henni að bana.

Það er tilgangslaust fyrir framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn að neita því, að vinstri stjórnin gafst upp við að leysa þann vanda, sem hún fyrst og fremst var stofnuð til að leysa. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar þessir sömu menn þykjast þess umkomnir að finna verkum núv. stjórnar allt til foráttu. Það hefði verið æðimiklu auðveldara og sársaukaminna að framkvæma viðreisnaraðgerðirnar 1956 en 1959 og 1960. Sú staðreynd liggur í augum uppi.

Núv. ríkisstj. féll ekki í þá sömu gröf og vinstri stjórnin að semja um það eitt að setjast í ráðherrastóla. Fyrir fram var stefnan mörkuð, og að framkvæmd hennar hefur verið unnið af meiri festu og sanngirni en áður hefur þekkzt hér á landi um samstjórnir. Við vissum það öll í stjórnarliðinu, að með hinni nýju efnahagsmálastefnu var verið að stíga örlagaríkt spor, sem fyrst um sinn var ekki líklegt til að valda ánægju hjá neinum, og því ylti allt á skilningi þjóðarinnar um það, hversu til tækist. Við höfðum ekki trú á, að auðið væri að stökkva yfir dýrtíðargjána í tveimur stökkum, heldur yrði það að gerast í einu stóru stökki. En til þess þurfti mikla einbeitni og kjark, og ábyrgðarlaus stjórnarandstaða gat sundrað svo kröftunum, að þjóðinni tækist ekki að ná öruggri fótfestu á hinum bakkanum. Það var í upphafi og er enn í dag sannfæring okkar í stjórnarliðinu, að við höfum valið rétta stefnu og engin önnur stefna hafi verið fær til efnahagslegrar viðreisnar. Og þeim fjölgar nú óðum, sem viðurkenna það, að enda þótt skurðaðgerðin hafi verið sársaukafull, hafi hún verið óumflýjanleg til að ná fullum bata. Sístækkandi skammtar deyfilyfja gátu aldrei læknað hina alvarlegu meinsemd í efnahagskerfinu.

Uppgjafaliðið úr Framsókn og Alþýðubandalaginu hefur hins vegar af enn meiri kostgæfni og samheldni unnið að því að hindra viðreisnarstarf núv. stjórnar en það vann að lausn vandamálanna, meðan það hélt um stjórnvölinn. Hvarvetna þar, sem vart varð við óánægjuglóð, hafa foringjar stjórnarandstöðunnar blásið að kolunum með öllum kröftum, og af svo miklu kappi hefur verið unnið við að kynda óánægjueldana, að láðst hefur að gæta nægrar forsjár í þessu nytjastarfi. Þannig var samtímis á Alþýðusambandsfundi og fundi í L.Í.Ú. af hálfu tveggja foringja Alþýðubandalagsins haldið uppi árásum á ríkisstj., á öðrum staðnum fyrir það að búa svo hraklega að útgerðinni, að hún hefði engan starfsgrundvöll, og á hinum staðnum fyrir að arðræna verkalýðinn í þágu atvinnurekenda og ætla jafnvel að dirfast að veita útgerðinni stórfellda fjárhagsaðstoð. Samtímis og aðalblað Framsfl. birtir grein eftir sérfræðing flokksins í verðlagsmálum um, að ekki sé hægt að starfrækja verzlun vegna of lítillar álagningar, og haldið er fram, að sjávarútvegur og iðnaður sé fyrir tilverknað ríkisstj. í kreppuástandi, þá segir aðalritstjóri þessa sama blaðs í útvarpsumræðum fyrir nokkrum kvöldum, að aldrei hafi stóratvinnurekstur rakað að sér eins miklum gróða og í tíð núv. ríkisstj. Og það er furðulegt, þegar vandaðir menn, eins og 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, afflytja svo staðreyndir eins og hann gerði í útvarpsræðu fyrir nokkrum kvöldum. Þar hélt hann því m.a. fram, að verr væri nú séð fyrir lánamálum landbúnaðarins en áður. Sannleikurinn er sá, að sízt hærri lán eru nú óafgreidd hjá sjóðum Búnaðarbankans en áður, og útlán, bæði úr byggingarsjóði og ræktunarsjóði, urðu á s.l. ári mun hærri en þau hafa hæst verið áður. Hitt er svo annað mál, að afla þarf mikils nýs fjármagns til stofnlána í landbúnaði og koma sjóðum Búnaðarbankans á starfhæfan grundvöll, en þau atriði ættu framsóknarmenn sjálfs sín vegna ekki að reyna að gera að árásarefni á aðra. Vandamál landbúnaðarins eru mörg. En ég efast mjög um það, að áður hafi af meiri ötulleik og með betri árangri verið unnið að málum bændastéttarinnar en af núv. hæstv. landbrh.

Jafnóraunhæfar eru ásakanir framsóknarmanna á ríkisstj. fyrir það, að með stefnunni í bankamálum, svo sem með bindingu fjármagns í Seðlabankanum, sé sérstaklega verið að veitast að atvinnuuppbyggingu úti um land og þá auðvitað fyrst og fremst vegið að samvinnufélögum. Hér er ekki um neinn tilflutning fjármagns til Reykjavíkur að ræða til notkunar þar. Féð er eftir sem áður eign viðkomandi stofnana, en bindingin er ætluð til þess, að Seðlabankinn geti án verðbólguverkana veitt aftur rekstrarlán til atvinnuveganna, að sjálfsögðu eftir sömu reglum um allt land, og tryggt aðstöðuna út á við. Hér er einn þáttur efnahagsaðgerðanna, sem er nauðsynlegur, en getur ekki verið vinsæll, og þá er sjálfsagt að blása í glóðir óánægjunnar. Þannig má lengi telja, en til þess vinnst ekki tími hér.

Ég skal þó aðeins minnast á fjárframlög til samgöngubóta, sem haldið er fram að núv. ríkisstj. hafi mjög skert. Eru þá notaðar prósentutölur, sem gefa alranga mynd, því að ríkissjóður hefur nú tekið á sig hundraða milljóna útgjöld vegna aukinna trygginga og vegna niðurgreiðslna á vöruverði. Er auðvitað fásinna að halda því fram, að önnur útgjöld ríkissjóðs hefðu átt að hækka til að halda sömu hlutfallstölu og áður. Staðreynd málsins er sú, að fjárveitingar til verklegra framkvæmda hafa hækkað mjög verulega eftir gengisbreytinguna, alveg andstætt því, sem var stefnan undir forustu þáv. fjmrh., Eysteins Jónssonar; bæði við gengisbreytinguna 1950 og þegar yfirfærslugjaldið var lagt á 1958. Þá voru fjárveitingar til verklegra framkvæmda ekkert hækkaðar, og þá var ekki talað um árásir á strjálbýlið.

Þannig er allt á sömu bókina lært.

Hv. þm. Halldór Sigurðsson kom með mikið talnaflóð hér í gærkvöld, sem því miður gaf mjög villandi mynd af fjármálaþróuninni. Hann hefði í sambandi við fordæmingu sína á hinni stórfelldu hækkun fjárlaga átt að gera grein fyrir þeim útgjöldum ríkissjóðs, sem hefði mátt fella niður að dómi framsóknarmanna. Framsóknarmenn hafa yfirleitt verið á móti öllum sparnaðartillögum núv. ríkisstj. Eina úrræði þeirra til lækkunar er að sameina sendiráðin á Norðurlöndum. Meiri hl. fjvn. lagði einmitt til, að það mál yrði tekið til sérstakrar athugunar. En allan þann tíma, sem framsóknarmenn hafa verið í ríkisstj., hefur þeim aldrei hugkvæmzt þessi sparnaður.

Verkamönnum og sjómönnum er sagt, að þeir eigi að fá stórfelldar launahækkanir, en þó er í hinu orðinu sagt, að allur atvinnurekstur sé að stöðvast vegna fjárskorts. Sagt er, að ríkið leggi allt of miklar álögur á þjóðina, og lagt er til að fella niður söluskatt. En samtímis leggja sömu menn til að hækka útgjöld ríkissjóðs og skerða aðra tekjustofna hans, svo að mörgum milljónatugum nemur. Lögð er hin mesta rækt við að sannfæra bændur um, hversu gengislækkunin hafi verið mikil ógæfa fyrir þá, en þó er ómótmælt, að Framsókn átti sjálf þátt í gengislækkun í vinstri stjórninni og vildi þá framkvæma enn meiri gengislækkun. Það er hér sem á fleiri sviðum, að þegar Framsókn gerir einhverja ráðstöfun, þá er hún góð og menn eiga að þakka og vegsama Framsóknarforingjana, en þegar aðrir gera nákvæmlega það sama, þá skulu haldnir mótmælafundir og harðorðar mótmælasamþykktir gerðar. Skyldu menn ekki fara að sjá í gegnum þennan hráskinnaleik?

Jú, sú er einmitt reyndin. Stjórnarandstaðan hefur ekki haft erindi sem erfiði. Þjóðin hefur ekki brugðizt vonum okkar, sem að þessum ráðstöfunum höfum staðið. Hún hefur ekki látið gerningaveður samherjanna í forustuliði Framsóknar og Alþb. villa sér sýn. Það hefur ekki reynzt eins auðvelt að blása í óánægjuglóðirnar og stjórnarandstaðan hélt. Þjóðin hefur ekki talið þá menn líklega leiðsögumenn, sem sjálfir höfðu gefizt upp. Þjóðin hefur skilið, að hér er um framtíð hennar að tefla, afkomu hennar og efnahagslegt sjálfstæði og að ekki varð hjá því komizt að leita nýrra úrræða og nýrrar forustu, eftir að hin fyrri forusta hafði reynzt óhæf. Vitanlega una margir og ef til vill flestir illa sínum hlut, en æ fleiri skilja, að annarra betri kosta var ekki völ. Allar stéttir hafa kvartað, og stjórnarandstaðan hefur kvartað fyrir allar stéttir, og það er ljósust sönnun þess, að reynt hefur verið að jafna metin, en engum ívilnað öðrum en þeim, sem verst eru settir.

Í dag er aðeins um tvær leiðir að velja: Annars vegar þau viðreisnarúrræði, sem núv. stjórnarflokkar hafa framkvæmt og þeir eru ráðnir í að framfylgja, ef þjóðin veitir þeim áfram nauðsynlegan styrk. Hins vegar er forusta Framsóknar og Alþb. um stjórnarstefnu, sem þeir hafa ekki gert neina tilraun til að marka.

Spor þessara flokka hræða sannarlega, og þeir geta naumast vænzt þess, að þjóðin taki alvarlega fordæmingu þeirra á núverandi stjórnarstefnu, nema þeir þá um leið lýsi sínum sameiginlegu úrræðum. Og hversu margir skyldu þeir vera, sem vilja trúa samstjórn Framsóknar og kommúnista fyrir örlögum þjóðarinnar?

Enda þótt við aflabrest og ýmsa óáran hafi verið að etja, sem loksins var af stjórnarandstöðunni viðurkennt í umræðunum í gærkvöld og meira að segja af hv. þm. Lúðvík Jósefssyni í kvöld, þá hefur ótrúlega þokazt í rétta átt í efnahagsmálum, síðan viðreisnarlöggjöfin tók gildi. Hafa þeirri þróun verið svo góð skil gerð af öðrum, að ekki þarf að endurtaka það.

Þótt nauðsynlegt sé að athuga fortíðina, til þess að hægt sé að læra af reynslunni, þá er það þó framtíðin sem öllu máli skiptir. Með efnahagsaðgerðum núv. ríkisstj. er verið að leggja traustan grundvöll að nýrri framfarasókn þjóðarinnar. Þjóðviljinn hefur að undanförnu mikið rætt um hina miklu framleiðsluaukningu undanfarin ár, en þó hafi kaupmáttur launa ekkert aukizt. Ég skal ekki um það segja, hvort tölur blaðsins séu réttar að öllu leyti, en hér er þá vissulega fengin ótvíræð sönnun þess, að verðbólguþróunin og uppbótastefnan, sem voru aðalbjargráð vinstri stjórnarinnar, hafi engum verið hættulegri en launþegum. Það verður því að byggja á nýjum grunni, ef hægt á að vera að bæta lífskjörin. Með viðreisnarráðstöfununum er verið að tryggja þennan nýja grundvöll.

Lækning efnahagsmeinsemdanna er sársaukafull, meðan á henni stendur. En síðar mun hinn heilbrigði þjóðfélagslíkami fær til enn meiri og árangursríkari átaka en áður. Traust á gjaldmiðil þjóðarinnar hefur þegar verið endurvakið. Brask með gjaldeyri og eignir er úr sögunni. Framleiðsluvörum þjóðarinnar hafa verið sköpuð ný samkeppnisskilyrði á erlendum markaði. Jafnframt mun jafnvægi í efnahagsmálum veita aðstöðu til þess að afla fjár, bæði til stóriðju og til eflingar núverandi atvinnugreinum. Að uppbyggingunni verður að vinna skipulega og af hagsýni, og fyrsta skrefið í þá átt er sú framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. er nú að láta vinna að.

Meginstefnan í þjóðmálum á hverjum tíma hlýtur að vera sú að búa öllum almenningi sem bezt lífskjör. En án aukningar framleiðsluverðmæta verða lífskjörin ekki bætt. Það er auðvitað hægt með hinu mikla samtakaafli verkalýðshreyfingarinnar að knýja fram kauphækkanir. En séu þær ekki ákvarðaðar með hliðsjón af greiðslugetu framleiðsluatvinnuveganna, munu þær enga verr hitta en launþega sjálfa. Það getur verið gaman fyrir þá, sem telja sig sérstaka umboðsmenn verkalýðshreyfingarinnar, að bera fram stóryrtar hótanir, eins og heyrðust hér í umræðum í gærkvöld. En reynslan hefur ótvírætt sýnt, að ráð ofstopamannanna eru lokaráð.

Annars hafa launþegasamtökin í heild sýnt lofsverðan skilning á viðreisnaraðgerðunum, enda reynslan af kauphækkunarstefnunni ekki glæsileg síðustu árin. Skylt er því að kanna til þrautar öll úrræði til þess að bæta kjörin á þann hátt, að kaupmáttur launanna aukist.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Núv. ríkisstj. hefur með manndómi ráðizt gegn vandamálunum, og það vita allir, sem staðreyndir virða, að án viðreisnaraðgerðanna væri nú fjárhagslegt öngþveiti í landinu. Það þýðir ekki að halda því að skynsömu fólki, að ríkisstj. í lýðfrjálsu landi geri óvinsælar ráðstafanir að gamni sínu eða löngun til að vinna þjóð sinni tjón. Er ekki komið nóg af því, að stjórnarvöldin láti berast með straumi almenningsálitsins á hverjum tíma? Stjórnarskráin sjálf býður þingmönnum að gera það, sem þeir vita sannast og réttast. En þeir eiga ekki að lúta fyrirmælum frá kjósendum. Þingmenn, sem þora ekki að fylgja sannfæringu sinni af ótta við kjósendur, eru ekki hæfir til að stjórna málum þjóðarinnar. Stjórnarliðið veit vel, að efnahagsaðgerðirnar eru ekki líklegar til vinsælda í bili. Við stígum hins vegar hið örlagaríka spor í fullri sannfæringu um það, að við séum að vinna þjóð okkar gagn og í trausti á dómgreind almennings í landinu. Stjórnarandstæðingar eru það greindir menn, að þeir vita vel, hvað í húfi er, ef ráðstafanirnar mistakast. Því raunalegri er hin alhliða niðurrifsbarátta þeirra. Þjóðin mun að síðustu kveða upp úrslitadóminn, og við biðum ókviðnir þess dóms. — Góða nótt.