28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það líður nú að lokum þessara eldhúsumræðna. Ræðumenn Alþb. og Framsfl. hafa að makleikum haldið dómsdag yfir visnunarstefnu stjórnarinnar eða lömunarstefnunni, eins og leiðtogar útvegsmanna réttilega nefna hana sjálfir. Fátt hefur að vonum orðið um varnir af hendi stjórnarliðsins, enda er stjórnarmálstaðurinn með öllu óverjandi málstaður.

Hæstv. dómsmrh. reyndi lítillega að þvo hendur sínar af mesta stórglæp stjórnarinnar, svikunum í landhelgismálinu, en það var enginn þvottur, Bjarni Benediktsson, þær eru jafnataðar og áður. Það versta í þessu máli, þótt illt sé, er ekki þriggja ára undanþága erlendra togara í landhelginni. Nei, það langversta er það, að við getum ekki um fyrirsjáanlega framtíð stækkað landhelgi okkar út fyrir 12 mílur, þótt okkur liggi lífið á. Um það verðum við að sækja til Breta og alþjóðadómstólsins, og víst mun þeirra leyfi reynast torfengið. 9 af 15 dómendum hans eru frá þjóðum, sem okkur hafa verið andsnúnastar í landhelgismálinu. Þess vegna er það skammgóður vermir Vestfirðingum, þótt þeirra landhelgi hafi nú ekki verið skert.

Lítum á landgrunnskortið út af Vestfjörðum. Þá sjáum við, að meginhluti landgrunnsins er þar utan 12 mílna markanna. Nú hafa verið settir slagbrandar fyrir, að þetta landgrunn verði nokkurn tíma fært undir íslenzka fiskveiðilögsögu, nema samningurinn verði hafður að engu. Það er það alvarlega við landráðasamninginn. Það er það stórkostlega við samninginn, segir brezki ráðherrann. Þess vegna eru Vestfirðingar sennilega ásamt Austfirðingum einna verst leiknir allra Íslendinga vegna hinnar svokölluðu lausnar landhelgisdeilunnar við Breta. En víst eru allir Íslendingar sárt leiknir í þessu máli. Stjórnarherrarnir hafa fyrst tært upp lífsþrótt atvinnulífsins og síðan smækkað Ísland og rýrt íslenzka lífsmöguleika.

Hæstv. utanrrh. Guðmundur Í. Guðmundsson var líka með þvottatilburði í gærkvöld vegna landhelgismálsins. En hann hafði meira að þvo. Hann hafði sem fjmrh. tekið togarann Brimnes af atvinnulitlum Seyðfirðingum frá nýbyggðu fiskiðjuveri og afhent hann ásamt hálfri þriðju milljón króna flokksbróður sinum til rekstrar. Og enn meira hafði hann að þvo. Þessi sami hæstv. ráðh. hafði veitt þessum sama flokksbróður sínum, sem tók við fjármálaforustu Alþfl. eftir Ingimar Jónsson, ríkisábyrgð að upphæð 7 millj. kr. vegna kaupa á gömlum togara frá Þýzkalandi. Ábyrgðarheimild Alþingis var þó aðeins 4.3 millj. Mismunurinn virðist veittur í algeru heimildarleysi. Og nú hefur ríkið keypt þennan gamla togara af flokksgæðingnum fyrir 1½ millj. kr. með rúmlega 9 millj. kr. áhvílandi skuldasúpu. Báðir þessir togarar liggja nú í skipakirkjugarði Reykjavíkurhafnar. Á þessu hefur nú verið krafizt rannsóknar, en litlar líkur tel ég til, að rannsókn sú fáist samþykkt á Alþ. þrátt fyrir algert sakleysi ráðh. að eigin sögn hans. Þarna er um gróm að ræða, sem verður ekki þvegið af á einni kvöldstund. Ekki heyrði ég hv. 5. þm. Vestf., Birgi Finnsson, eyða neinum orðum að því, að slíkir og þvílíkir væru dýrir, þm. eða ráðherrar. En það er líka allt öðru máli að gegna, þegar æðstu toppkratar eiga í hlut,

Ótti stjórnarflokkanna við það, að nú sé að myndast heilsteypt vinstriblokk í landinu, gekk eins og rauður þráður gegnum allar ræður stjórnarsinna í gærkvöld og í kvöld líka. Það gekk ekki á öðru hjá þeim en reyna að hræða bændur með kommúnistum og vekja tortryggni verkamanna í garð bænda. Er ekki von, að þeir séu hræddir? Hlýtur ekki stjórnarstefnan að þjappa mönnum til sjávar og sveita saman? Jú, auðvitað hlýtur hún að gera það. Stjórnarflokkarnir koma fram sem einn flokkur væri. Þess vegna eiga allir stjórnarandstæðingar að þoka sér fast saman. Þeir eiga og verða að taka saman höndum um þróttmikla framleiðslustefnu, sem bjargi þjóðinni frá uppdráttarsýki viðreisnarinnar svokölluðu.

Hv. 5. þm. Vestf., Birgir Finnsson, upphóf hér undarlegt tal í gærkvöld. Það var harmagrátur yfir því, að stjórnarandstaðan notfærði sér málfrelsi sitt á Alþingi. Var nú nokkuð undarlegt, vil ég spyrja, þótt Lúðvík Jósefsson flytti ýtarlega ræðu um landhelgismálið? Var ekki dauðaþögn alls stjórnarliðsins í því máli öllu furðulegra fyrirbæri? Ef til vill hefur hv. þm. með mínútna útreikningum sínum verið að beina því til kjósenda að kjósa sér billega þm., sem iðkuðu ekki þann ósóma að vera að tala á Alþingi. Yfirleitt legg ég það ekki í vana minn að tala í hverju máli á Alþingi, en hvort ég tala langt eða stutt, þegar ég tala á annað borð, fer mjög eftir málefnum og vinnubrögðum hv. þingmeirihluta. Ég játa, að ég get verið kappsfullur nokkuð, þegar því er að skipta, en samt hygg ég, að ástæðulítið sé að bregða mér um óþarfamælgi á Alþingi að öllum jafnaði.

Í sambandi við mig vék hv. þm. að launajafnrétti kvenna og kvað mig vera mikinn kvenréttindamann. Ekki biðst ég á nokkurn hátt undan því heiti, þó að þeir Alþýðuflokksmenn dragi dár að slíkum málum. En ég hef frá öndverðu litið á launajafnrétti kvenna sem almennt mannréttindamál, og það gera raunar allir sæmilegir jafnaðarmenn. Þess vegna hef ég reynt að verða því máli til liðs. Ég hef fjórum sinnum flutt frv. til laga á Alþingi um launajafnrétti kvenna og karla, í fyrsta sinn 1948, fyrir 13 árum. Síðan flutti ég sams konar frv. 1953, og voru þeir Gylfi Þ. Gíslason, Emil Jónsson og Eggert G. Þorsteinsson þá meðflm. mínir að frv. Nú felldu þeir Eggert G. Þorsteinsson og Emil Jónsson orði til orðs sömu tillögur og þeir þá tóku þátt í að flytja. Gylfi Þ. Gíslason bjargaðist hins vegar frá þeirri vansæmd með fjarveru. Næst flutti ég málið 1954, en einnig þá létu íhaldsöflin ekki á sér standa að hefta framgang þess. Í fjórða sinn bar ég málið fram á liðnu hausti ásamt fimm þm. Alþb. Að þessu sinni hefur Framsfl. veitt launajafnrétti kvenna fullan stuðning, en stjórnarflokkarnir hafa legið á málinu allt til þingloka. En nú hafði málið náð slíkum vinsældum, að heppilegra þótti að hræsna fylgi við það. Þess vegna var borinn fram frumvarpsóburður um launajöfnuð þriggja starfsstétta: verkakvenna, verzlunarfólks og verksmiðjustúlkna, og skyldi hækka kaup þeirra á árunum 1962–67, en ekkert á þessu ári, unz jöfnuði væri náð loks á árinu 1967. Samkv. þessu frv. eiga verkakvennafélög á hverju hausti að senda umsókn um launahækkun til nefndar, sem verkalýðsfélögin eiga einn fulltrúa í af þremur. Þetta er að mínu áliti auðmýkjandi. En þó versnar enn, því að enginn launasamningur, sem aðilar undirrita, fær nú gildi, nema hann hljóti staðfestingu þessarar nefndar. Þetta frv. hefur nú verið lamið í gegnum þingið á seinustu dögum þess og gert að lögum. Ég fullyrði, að þetta verður fremur til að torvelda og tefja, að launajafnrétti kvenna komist á. Frv. er þá líka fram borið, þegar verkalýðssamtökin höfðu ákveðið að berjast fyrir því, að kaup kvenna yrði 90% af kaupi karla á þessu ári og jafnrétti síðan náð í einum lokaáfanga. Nú er boðin 76 aura hækkun á ári miðað við klukkustund. Nú vilja verkakonur í Keflavík fá sama kaup og atvinnurekendur í Vestmannaeyjum og vinnuveitendafélagið sömdu um fyrir skemmstu. Slíkri samkeppniskröfu er þó harðlega neitað. En 76 aura launajafnrétti Alþfl. er boðið í staðinn og þó með fáránlegum skilyrðum. Þetta er þeirra launajafnrétti í framkvæmd.

Hv. 8. þm. Reykv., frú Ragnhildur Helgadóttir, sakaði mig um það í þingræðu og vék einnig að því hér í kvöld, að ég hefði glatað góðu tækifæri til að koma á launajafnrétti kvenna, þegar ég var félmrh. Ef til vill má saka mig um það, að ég hafi ekki reiknað með, að málið væri umsetið af fjandmönnum í öllum áttum. Ég lét það sitja fyrir að fá fullgilta fyrir Íslands hönd alþjóðasamþykktina um sömu laun kvenna og karla. Það gerðist 1957. Hún gekk í gildi ári síðar samkvæmt alþjóðaákvæðum eða á árinu 1958. Nokkrum vikum síðar fór vinstri stjórnin frá völdum. Og sé ég sakaður um að hafa svikið málið fyrir að hafa ekki komið því fram með löggjöf um launajafnrétti á þeim stutta tíma, sem eftir var af lífi þeirrar stjórnar, sem ég sat í, hvað þá um stjórn Emils Jónssonar, sem sat að völdum allt árið 1959, og hvað um samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl., sem setið hefur að völdum síðan? Ég setti jafnlaunanefnd, skipaða fjórum konum, til að rannsaka nákvæmlega, hvernig komið væri launamálum kvenna í landinu, og gera tillögur um það mál. Vinstri stjórnin minnkaði líka bilið milli kaups kvenna og karla með löggjöf. Og í sambandi við löggjöf Emils Jónssonar um niðurfærslu verðlags og launa í ársbyrjun 1959, þegar kvennakaupið var lækkað um 2.48 kr. á klukkustund, lögðum við Karl Guðjónsson alþm. til, að kvennakaupið væri undanþegið þeirri lækkun. Ef það hefði verið gert, hefði kaup kvenna þá þegar orðið 90% af kaupi karla. En till. var felld af íhaldinu og Alþfl., og hv. 8. þm. Reykv., frú Ragnhildur Helgadóttir, lagði einmitt til úrslitaatkvæðið til að fella till. Svo kemur þessi kona, sem brugðizt hefur málstað kynsystra sinna svo greypilega, með ásakanir í minn garð. Henni mundi þó öllu betur sóma, þessari ágætu konu, að gera betur hreint fyrir sínum eigin dyrum, því að það er aðeins örskammt síðan frúin rétti upp hönd sína á Alþ. til að fella svohljóðandi tillögu:

„Við öll störf, embætti og sýslanir hjá íslenzka ríkinu, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum skulu konum greidd sömu laun og körlum.“ Og enn fremur: „Við færslu milli launaflokka skulu sömu reglur gilda fyrir konur sem karla.“

Þegar þessar tillögur um algert launajafnrétti höfðu verið felldar, var enn reynt að laga frv. Alþfl.-mannanna með því að bera fram þessa brtt.:

„Hinn 19. júní 1961 skulu laun allra kvenna samkv. samningum stéttarfélaga ákveðin 90% af kaupi karla. Sá mismunur, sem þá er á kaupi kvenna og karla, skal jafnast út á þremur árum í jöfnum hlutum, unz fullum launajöfnuði er náð hinn 19. júní 1964.“

En einnig sú tillaga var felld með atkv. konunnar á Alþingi. Þetta er hennar saga.

Hv. 4. þm. Vesturl., Jón Árnason, reyndi í umr. hér í gær að réttlæta þann viðreisnarárangur, að sementsnotkun hér á landi dróst stórlega saman á árinu 1960, og sýna fram á, að verð á útfluttu sementi til Bretlands væri hagstæðara en Karl Guðjónsson hafði greint frá. Taldi Jón sementið selt fyrir 105 shillinga, sem gæfu 400–500 kr. verð fyrir tonnið. Þótt svo færi, næði verð Breta samt ekki helmingnum af verðinu, sem Íslendingar verða að greiða. Það kann að vera, að tölur Jóns eigi við um þann smávægilega sementsútflutning, sem varð í fyrra. En í hinum nýgerða samningi um 20 þús. tonna sölu er heimsmarkaðsverð stórlega undirboðið, og verð okkar er ekki 105 shillingar, heldur 83 shillingar í brezkri höfn, þ.e. 444 kr. tonnið þar, og af því getur sementsverksmiðjan enga von gert sér um að fá fyrir sementið við verksmiðjuvegg meira en 260 kr., eins og Karl réttilega sagði. En Íslendingar verða að greiða verksmiðjunni það verð ferfalt. Ef Jón Árnason er ánægður með þessi viðskipti við Breta, er hann meiri vinur Breta en fyrirrennari hans var hér á þingi.

Hvarvetna á landinu er nú um það spurt, hvað verkamannafélagið Dagsbrún geri í kaupgjaldsmálunum. Á sunnudaginn var hélt verkamannafélagið Dagsbrún mjög fjölmennan félagsfund og ræddi þar einvörðungu um kaupgjaldsmálin og viðhorf launþega til dýrtíðarinnar. Þar var einróma gerð svo hljóðandi ályktun, sem á erindi til allra launþega:

„Fundur í verkamannafélaginu Dagsbrún, haldinn sunnudaginn 26. marz 1961, ályktar eftirfarandi:

Í rösk tvö ár hafa verkamenn búið við stórskert launakjör, bæði vegna beinnar kauplækkunar í ársbyrjun 1959 og óbeinnar kauplækkunar frá því í marzmánuði 1960, en síðan hefur kaupinu verið haldið föstu, á sama tíma og allt verðlag hefur stórhækkað af völdum gengislækkunarinnar. Kaupmáttur launanna hefur því farið síminnkandi og tekjur verkamanna auk þess lækkað vegna minni atvinnu. Um það bil þrír mánuðir eru nú liðnir síðan Dagsbrún og nokkur önnur verkamannafélög sendu atvinnurekendum kröfur sínar um breytingar á samningum til þess að bæta upp þessa stórfelldu kjaraskerðingu. Áður og jafnhliða hafði verkalýðshreyfingin krafizt þess, að ríkisstj. gerði ráðstafanir til lækkunar á vöruverði og annað, er verða mætti til þess að auka kaupmáttinn. Ríkisstj. hefur nú lýst yfir því, að hún muni engar ráðstafanir gera til lækkunar á vöruverði, og samningaumleitanir við atvinnurekendur hafa enn engan árangur borið, nema síður sé, þar sem þeir hafa sett fram gagnkröfur, sem miða að enn skertari kjörum. Verkamenn hafa sýnt mikla þolinmæði og gefið atvinnurekendum og ríkisstj. langan tíma til þess að koma til móts við sanngjarnar kröfur sínar. En verkamenn geta ekki öllu lengur unað þessu ástandi, og þeir verða að fá kjaraskerðinguna bætta. Fundurinn skorar því á atvinnurekendur að nota vel þann tíma, sem enn gefst til samninga við verkamannafélögin, án þess að til verkfalls komi. Jafnframt heitir fundurinn á alla verkamenn að sýna einhug og festu og vera við því búnir að knýja fram hinar réttlátu kröfur með mætti samtakanna.“

Þetta eru nýjustu fréttirnar af stærsta verkamannafélagi landsins, verkamannafélaginu Dagsbrún.

Herra forseti. Ég lýk nú máli mínu. Ég heiti á allan verkalýð landsins, konur og karla, að sýna órofa samheldni og festu frá þessari stundu og vera við því búinn að knýja hinar réttlátu kjarabótakröfur fram með mætti samtakanna. Það má hæstv. ríkisstj. íhaldsaflanna, ríkisstj. dýrtíðar og okurvaxta, kaupníðslu og atvinnutæringar og svika í landhelgismálinu vita, að nú er senn hvað líður komið að skuldadögunum. — Góða nótt.