14.11.1960
Efri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vildi mælast til þess mjög eindregið við hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess að kanna, hvort hæstv. dómsmrh. er staddur hér í alþingishúsinu. Ég óska að gera til hans fsp. um atvik, sem heyrir undir hann og kom fyrir í gærkvöld. Ég tel þetta mjög mikilvægt. Ég tel fsþ., sem ég hyggst gera, þess eðlis, að þingheimur eigi kröfu til þess að fá þegar í stað svör hæstv. dómsmrh. við aðgerðum, sem hann hefur fyrirskipað sem dómsmrh. (Forseti: Ég er búinn að gera tilraun til að athuga, hvort hann sé mættur. Ég hef nú komizt að raun um það, að hæstv. dómsmrh. er ekki í húsinu.) Ég óskaði vitanlega að gera þessa fsp. utan dagskrár, en ég vænti þess fastlega, þar sem það mál, sem hér hefur verið til umr., landhelgismálið, er hér á dagskrá, að hæstv. dómsmrh. mæti við þá umr., og ég tel þýðingarlaust að gera grein fyrir fsp. minni nú að hæstv. dómsmrh. fjarstöddum og áskil mér þá rétt til þess að fá að gera þessa fsp. undir umr. um málið. Ég hafði hugsað mér að biðja um orðið í þeim umr. til þess að bera af mér sakir, en ég vil þá láta þess getið, að ég vænti þess, að ég fái orðið til þess að bera fram undir umræðunum ákveðna fsp. til hæstv. dómsmrh. út af ákveðnu atviki, mjög mikilvægu, sem kom fyrir í gærkvöld. Ég óska þess eindregið, að ráðstafanir verði gerðar til þess nú þegar, að hæstv. dómsmrh, mæti hér í deildinni við umr. — [Stutt hlé.]

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár vegna atviks, sem mér er tjáð eftir góðum heimildum að hafi átt sér stað í gærkvöld. Mér er tjáð, að í gærkvöld hafi varðskipsforinginn á varðskipinu Þór kallað á forstjóra landhelgisgæzlunnar gegnum loftskeytastöðina í Vestmannaeyjum og skýrt frá því, að varðskipið Þór hefði komið að brezkum togara 2½ sjómílu frá landi undan Ingólfshöfða, þ.e.a.s. — ég þarf ekki að skýra þetta nánar með mörgum orðum — innan 3 mílna landhelgi, sem Bretar þykjast viðurkenna. Varðskipsforinginn skýrði frá því, að hann hefði skotið aðvörunarskotum að þessum togara, en togarinn stefndi nú til hafs, virtist hafa höggvið á vörpuna, og varðskipsforinginn óskaði fyrirmæla landhelgisgæzlunnar um, hvað gera skyldi. Mér er tjáð, að forstjóri landhelgisgæzlunnar hafi þegar í stað gefið varðskipsforingjanum þau fyrirmæli, að hann skyldi hætta að skjóta, en bíða frekari fyrirmæla, sem mundu berast innan stundar. Mér er tjáð, að nokkru seinna hafi verið kallað af forstjóra landhelgisgæzlunnar á varðskipsforingjann og honum gefin ný fyrirmæli: Hættið að skjóta og hættið að veita þessum togara eftirför. Snúið ykkur þess í stað að því að reyna að slæða upp vörpuna, sem þessi togari hefur skilið eftir.

Það hittist svo undarlega á, að þennan dag, 13. nóv. 1960, eru liðin nákvæmlega 2 ár síðan mjög svipað atvik kom fyrir innan 3 mílna landhelgi, hinnar löglegu, alviðurkenndu og óumdeildu landhelgi Íslands. Það var brezkur togari, sem var staðinn að landhelgisbroti 2.7 sjómílur, að ég hygg, undan landi. Skotið var að honum aðvörunarskotum, honum veitt eftirför, en brezkt herskip skarst í leikinn og gaf hinum íslenzka varðskipsforingja það sögufræga aðvörunarkall: Ef þú snertir á þessum togara, þá sökkvi ég þér.

Við höfum frásögnina af þessu atviki, sem kom fyrir fyrir 2 árum í hvítri bók íslenzkrar ríkisstj., sem hefur verið afhent og útbýtt meðal fulltrúa allra þjóða á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það var ótvírætt brot á landhelgi Íslands, þeirri löglegu landhelgi Íslands, sem ekki er deilt um. Það var vopnuð árás á Ísland, eins og réttilega er sagt í þeirri bók.

Vill hæstv. dómsmrh. gefa þingheimi þegar í stað — og ég tel til þess fulla ástæðu — skýrslu um þennan atburð, sem gerðist í gærkvöld og er í því fólginn í stuttu máli, eins og ég hef skýrt frá, að íslenzkum varðskipsforingja er skipað af æðstu foringjum landhelgisgæzlunnar, en hæstv. dómsmrh. er hennar æðsti yfirmaður, að hætta að veita eftirför togara, brezkum togara, sem er staðinn að landhelgisbroti innan 3 mílna lögsögu.

Ég vil ekki hafa þetta fleiri orð að sinni. Ég held, að þær upplýsingar, sem ég hef fengið, séu óvefengjanlegar, vegna þess að margir hafi hlustað á þau skeyti, sem þarna fóru á milli. En ég bíð upplýsinga hæstv. dómsmrh. og skýringa á því, ef hann sem æðsti yfirmaður íslenzkrar landhelgisgæzlu hefur gefið þá skipun íslenzkum varðskipsforingjum að hætta að veita eftirför togara, sem er staðinn að slíku broti sem þessu.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, rétt minna á það, að um leið og hæstv. dómsmrh. lýsti yfir almennri sakaruppgjöf til handa öllum brezkum þegnum og brezkum aðilum, sem hefðu gerzt sekir í íslenzkri 12 mílna fiskveiðilögsögu frá 1. sept. 1958 og þangað til í maí í vor, þá lýsti hann því hátíðlega yfir, að ef frá þeim degi, sem sakaruppgjöfinni var lýst yfir, ættu sér stað brot brezkra togara innan 12 mílna fiskveiðilögsögu, þá yrði þeim togurum engin linkind sýnd. En hér er annað og alvarlegra um að ræða. Ef upplýsingar mínar eru réttar, að brezkur togari hafi verið staðinn að broti 2½ sjómílu frá landi, þ.e.a.s. innan 3 mílna lögsögu, þá hefur átt sér stað í annað sinn brot innan 3 mílna lögsögunnar. Og þá er spurningin: Er svo komið, að þessi hæstv. ráðh., sem lýsti yfir í vor, að nú yrði brezkum togurum engin linkind sýnd, — er nú svo komið, að þessi hæstv. dómsmrh. gefur skipanir um að sýna slíkum lögbrjótum fulla linkind?