14.11.1960
Efri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þeirri venju hefur ætíð verið fylgt af landhelgisgæzlunni að gefa skýrslur um slík atvik, og efast ég ekki um, að hún verði gefin, ef atburðarás er eitthvað svipuð því, sem hv. þm. segir hér, sem ég skal ekkert um dæma, fyrr en gögn málsins liggja fyrir. Hitt er svo annað mál, að það eru ekki ýkjamargir dagar síðan hv. þm. talaði um það hér í hv. d., að við ættum í viðureign okkar við Breta að fylgja því fordæmi að beita ekki valdi gegn þeim, og hann taldi, að það væri ráðlegasta leiðin til þess, að við sigruðum þá að lokum. Nú er það auðvitað matsatriði algert hverju sinni, hvort valdi eigi að beita og hversu langt eigi að fara í eftirför. Það er sumpart forstjóra landhelgisgæzlunnar að taka ákvörðun um það, sumpart varðskipsstjórans. Ef vandi þykir mikill, þá er borið sig saman við dómsmrn. Það er rétt, að ég hef ekki verið í dómsmrn, síðan kl. 10½ í morgun, ég þurfti að fara á fund, en þegar ég var þar í morgun, var mér ekki skýrt frá því, að neitt samráð hefði verið haft við það eða nokkur skýrsla þangað borizt um þetta mál. Það liggur alveg ljóst fyrir.