16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var á þingsetningarfundi, þegar Alþ. hóf störf, að þá gerði ég fyrirspurn til hæstv. forsrh. um landhelgismálið og þau samtöl eða þá samninga, sem menn vissu að þá hafði verið byrjað á. Hæstv. forsrh. lýsti þá yfir því, á þessum þingsetningarfundi, að það mundi verða haft samráð við Alþ. um þetta mál. Nú er alllangur tími liðinn síðan þetta var, og ég vil í tilefni af því spyrja hæstv. forsrh. um örfá atriði.

Það hefur þráfaldlega í fréttum frá Bretlandi verið talað um tillögu frá íslenzku ríkisstj. í þessu máli. Það hefur verið spurt hér í umr., sem hafa orðið um landhelgismálið, varðandi þetta. En þau svör, sem þar hafa komið fram, sýnast mér ekki hafa verið nógu ljós. Nú vil ég því spyrja hæstv. forsrh.: Hefur íslenzka ríkisstj. gert tillögu um það, sem hún mundi kalla lausn á landhelgisdeilunni við Breta?

Í annan stað hefur þráfaldlega verið talað um tillögur, sem brezk stjórnarvöld hafi gert í málinu, og ég spyr: Hefur íslenzka ríkisstj. eða umboðsmenn hennar í þessu máli móttekið einhverja till. frá brezku stjórninni um lausn á þessari deilu?

Eins og ég sagði áðan, lýsti hæstv. forsrh. því yfir, að það yrðu höfð samráð við Alþ. um þetta mái. Ég vil minna hæstv. forsrh á það, sem honum hlýtur að vera alveg ljóst, að það er ekki að hafa samráð við einn eða annan að kveðja hann ekkert til mála, fyrr en úrslit máls eru ráðin eða á síðustu stundu. Það eitt er að hafa samráð að láta þann aðila, sem á að ráðgast við, fylgjast með öllum málavöxtum, þannig að öll sjónarmið geti komið fram við meðferð málsins og verið tekin til íhugunar, áður en úrslitaákvörðun er tekin.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að enn þá hefur enginn fundur verið haldinn í utanrmn. um þetta mál, þótt svo langur tími sé liðinn og þótt vitað sé, að samningar um þessi efni eru sífellt í gangi. Umboðsmenn Bretastjórnar hafa verið hér til viðræðna um þetta mál, og umboðsmenn íslenzku ríkisstj. hafa einnig verið erlendis til þess að ræða þetta mál við brezk stjórnarvöld. Einhver sjónarmið hljóta að hafa verið sett fram í þessum umr., um það er ekkert að efast. En það hefur ekkert verið ráðgazt enn við utanrmn. Alþ. um þessi efni. Ég vil því færa fram þá ósk til hæstv. forsrh., að hann gangist nú fyrir því, að nú allra næstu daga, nú fyrir helgina og áður en nokkuð frekara gerist, verði kallaður saman fundur í utanrmn. og þar gefin skýrsla um þær viðræður, sem farið hafa fram, hvað þar hefur verið fram flutt af hendi Breta annars vegar og af hendi Íslendinga hins vegar. Ég vil fara fram á þetta við hæstv. forsrh.