16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef náttúrlega ástæðu til þess að þakka fyrir þá traustsyfirlýsingu, sem hv. 1. þm. Austf. gaf hér, þar sem hann sér sérstakt tilefni til þess að spyrja mig um það, sem hann áður er búinn að heyra svör annarra hæstv. ráðh. um, og virðist hann bera alveg sérstakt traust til mín um það, að ég muni skýra öðruvísi og réttara frá en þeir hafa gert.

Ég segi það sama og þeir hæstv. ráðh., sem um þetta mál hafa fjallað í hv. Ed., að það hafa af hendi Íslendinga engar till. verið gerðar í málinu né heldur hafa Bretar gert okkur nein tilboð. Við vitum, eins og áður hefur verið sagt, nokkru meira um þeirra hugarfar en þegar þessar umr. hófust, eins og ég geri líka ráð fyrir að þeir geri sér ljóst, að vissir hlutir, sem þeir kunna að hafa óskað eftir, koma ekki til greina af hendi Íslendinga, en til neinna úrslita hefur enn ekki komið í þessum málum.

Varðandi það, sem hv. þm. minntist á, að ég hefði gefið fyrirheit um að hafa samráð við Alþ., — sé ég ástæðu til að leiðrétta hans skilning að því leyti, að í nefndri yfirlýsingu minni, sem mun hafa verið gefin hér á Alþ. 10. okt. s.l., hygg ég, að ég hafi lýst því yfir, að það yrði haft samráð við Alþ., áður en endanlegar ákvarðanir yrðu teknar um málið.

Ég vil svo aðeins, út af tilmælum hans til mín um, að haldinn yrði fundur í utanrmn., vísa til þess, að ég hef ekkert vald til þess að kveðja utanrmn. saman. Það er þá nær að beina þeirri fyrirspurn eða þeim tilmælum annaðhvort til hæstv. forseta Sþ. eða til hæstv. utanrrh. eða hv. form. nefndarinnar. Þessi hv. þm. gæti þá kannske í leiðinni fengið nokkra vitneskju um, hverjum augum hæstv. utanrrh. lítur á það að gefa utanrmn. skýrslu um mál, sem eiga eða þurfa vegna hagsmuna þjóðarinnar að vera með leynd; og mun hæstv. utanrrh. í þeim efnum byggja á nokkurri reynslu.

Annað sé ég ekki ástæðu til að taka fram í tilefni af fsp. hv. þm.