16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að fjölyrða út af seinni ræðu hv. þm. Hann taldi nokkra sönnun fyrir því, að ég hefði ekki sagt allan sannleikann, að ég væri ekki í samræmi við brezk blöð. Það væri hvorki meira né minna en það, að ef ég segði satt, þá hefðu brezk blöð farið með slúður. Maður skyldi ekki halda, að þetta væri einn af þeim mönnum, sem standa næstir Tímanum á Íslandi, ef hann rekur bara í rogastanz, ef blöð fara með slúður. Nei, við þekkjum það hér á Íslandi, að það kemur fyrir á beztu heimilum, að blöð fara með slúður. Ég get náttúrlega ekki sagt honum, hvað orði til orðs fer á milli þeirra manna, sem af hendi Íslendinga annars vegar og Breta hins vegar hafa rætt þetta mál. Ég svaraði því, sem hans fyrirspurn gaf tilefni til, að af okkar hendi hefðu ekki verið gerð tilboð né heldur hefðu Bretar gert okkur föst tilboð um málið. Ég held mig þó muna það, að einhver hafi sagt mér frá því af samninganefndarmönnunum, að Bretar hefðu mikið spurt um, hvort við mundum vera fáanlegir til þess í þessari ríkisstj. að ganga jafnlangt til móts við Breta og sú stjórn, sem hv. þm. átti sæti í, var reiðubúin til að gera 1958. En það hefur nú staðið á því m.a., að við höfum ekki viljað vera svo elskulegir við Bretann sem þessi hv. þm. og hans samstarfsmenn voru. Ég geri ráð fyrir, að ef við hefðum viljað ganga inn á að bjóða þau kjaraboð, sem hann bauð þá eða þeir, og það, að mér skilst, með vitund allrar stjórnarinnar, þá hefðu Bretar sagt: Þakka kærlega fyrir. — Við værum þá sjálfsagt búnir að komast að samkomulagi í málinu. En það hefur ekki legið fyrir enn þá, að við höfum séð okkur fært að vera jafntilleiðanlegir og sú hæstv. stjórn var.

Ég þarf svo ekki að árétta það hér enn, sem ég sagði hér 10. okt. s.l. Það er náttúrlega ekki hægt að binda mig á því, hvaða skilning þessi hv. þm. leggur í mín orð, þau voru öllum auðskiljanleg. Það mætti æra óstöðugan, ef við einstakir þm. í stjórnarliðinu ættum ævinlega að standa upp, þegar stjórnarandstæðingar segja: Ja, svona eru hlutirnir, svona eru þeir, þetta hafi hv. þm. í stjórnarliðinu sagt og viðurkennt með þögninni o.s.frv. Ef við stæðum ævinlega upp og segðum: Nei, hvorki sagði ég þetta né heldur viðurkenndi ég þetta með þögninni, hvað væru þá umræðurnar orðnar?

Ég tók hér einu sinni til máls snemma á þinginu um efnahagsmálin og leiðrétti þá verstu firrurnar af því, sem þessi hv. þm. hefur sagt. Hann hélt margar ræður eftir það. Mér datt ekki í hug að svara einu einasta orði, og sneri hann þó út úr öllu, sem ég hafði sagt, og sneri því við. Ég hélt, að hann væri orðinn of reyndur þm. til að bera fyrir sig slíkt og því um líkt, að ef menn ekki mótmæla öllu, sem hinir segja, þá sé það bara játað. Hann á að hafa of langa þingreynslu að baki til að tefla fram slíkum rakaleysum sem sönnunargögnum.