16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki gera neitt annað en bera af mér sakir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það stæði allt á því, að þessi ríkisstj. vildi ekki ganga eins langt í undanlátssemi við Breta og sú ríkisstj., sem ég hefði átt sæti í. Þetta kalla ég sakir, að bera þetta á nokkurn mann. Hvað er það, sem núv. ríkisstj. hugsar sér að gera? Við höfum fært út landhelgina. Við erum búnir að hafa 12 mílna landhelgi í tvö ár, og friðunin er um 95%. Þessa landhelgi hafa allar þjóðir viðurkennt í verki nema ein ofbeldisþjóð, þ.e.a.s. Bretar, sem hafa reynt að hnekkja þessu. Við höfum notið þessarar friðunar þannig, að fiskveiðar víðs vegar við landið ganga stórkostlegum mun betur en áður hefur verið, og það er friðuninni að þakka. Við höfum sigrað í landhelgismálinu, sigrað með þessar 12 mílur, og það er óhugsandi, að Bretar geti haldið áfram að fiska innan þessarar landhelgi undir herskipavernd. Það er svona, sem ástatt er. Og þá bollaleggur ríkisstj. að hleypa togaraflota Breta inn í landhelgina, hleypa honum á okkar fiskimenn og á þessi fiskimið og eyðileggja það, sem unnizt hefur, sem við erum búnir að vinna. Hvaða ástæða gæti verið til þess, að Íslendingar þyrftu að gera annað eins og þetta? Og hvað hefur hliðstætt áður gerzt í þessu máli? Ekki neitt.

Það er algerlega út í hött hjá hæstv. forsrh., að nokkuð hliðstætt hafi nokkru sinni gerzt í þessu máli. Þvert á móti liggur það fyrir, að þetta mál er algerlega unnið, ef ríkisstj. fremur ekki þetta óhæfuverk, sem það er að hleypa togaraflota Breta, einu þjóðarinnar, sem hefur sýnt okkur ofbeldi og raunverulega er búin að tapa, inn í landhelgina. Hitt er með öllu ósambærilegt, sem gert var til að afla fyrir fram viðurkenningar á einhliða rétti Íslendinga til þess að færa út landhelgina. Hér er nú verið að tala um að færa inn landhelgina í þágu Breta, í þágu brezka togaraflotans, og að eyðileggja það, sem við höfum þegar unnið.