16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég þarf að sönnu ekki, herra forseti, að bera af mér neinar sakir, því að allt þetta, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, er aðeins endurtekning eða upptugga á því, sem þeir sögðu, flokksbróðir hans, formaður flokksins, hv. 2. þm. Vestf., og hv. 5 þm. Reykn., sem líka virðist vera orðinn flokksbróðir hans, — mér skildist hann nú vera utangarna og í engum flokki, það sem maður kallar pólitískt viðrini, og hafa gefið sér það heiti sjálfur. Það er endurtekning á því, sem þeir eru búnir að segja og hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. hafa rekið öfugt ofan í þá jafnóðum. Það þarf meiri matarlystina til að bera þetta á borð eða smekkvísina. Það eina, sem ég vil benda á, var í tilefni af lokaorðum þm. Hann segir: Hvaða ástæða er fyrir því, þó að ég og mínir flokksbræður vildu 1958 bjóða Bretunum kostakjör, að vera að bjóða það núna? Að sönnu var því leynt eins og mannsmorði, að þetta hefði verið boðið. Og það er ekki lengra síðan en örfáir dagar, að formaður flokksins, hv. 2. þm. Vestf., sagði á Alþingi: Það eru tvö grundvallarsjónarmið í þessu máli, sem aldrei má víkja frá. Það má aldrei bera sig saman við aðra um, hvað maður ætlar að gera í þessu máli, fyrir fram, og þá enn síður hvika um hársbreidd frá teknum ákvörðunum. — Svo komst bara upp, að þetta var það, sem hann hafði sjálfur verið að gera með sínum fyrsta aðstoðarmanni, þessum hv. þm. Það komst allt upp. Ég fer ekki að rekja það hér. En þessi þm. segir: Hvaða skynsamleg rök geta nú verið fyrir því, að við séum eitthvað enn þá að hugsa um að slaka til, að við séum eitthvað enn þá að feta í fótspor vinstri stjórnarinnar? Hvaða skynsamleg ástæða er að vera nú að feta í fótspor þeirrar stjórnar, segir hv. þm., sem ég sjálfur stóð að, af því að deilan er búin? Ég vitna aftur í formann flokksins, hv. 2. þm. Vestf., sem nýverið sagði á utanríkismálanefndarfundi þetta: Horfurnar um það að koma þessari deilu úr sögunni hafa aldrei verið verri, — Hann margtók fram, að það væru hinar ískyggilegustu horfur í framtíðinni. Hann lét ekki nægja að lýsa sinni hugarangist yfir þessum framtíðarhorfum okkar í þessum efnum með sérstökum kvíðboga fyrir lífi og limum sjómannanna, heldur bar hann beinlínis fram till. um það, hvernig ætti að koma málinu út úr heiminum. Ég veit ekki, hvort þessi þm. hefur hlustað á umr, í Ed. eða hvort hann les nokkurn skapaðan hlut af þeim ræðum, sem prentaðar eru í Tímanum eftir formann flokksins. Hann heldur sig líklega við það heygarðshornið að lesa það, sem er eftir hann sjálfan, skrifað af honum, eða ræður sínar, og leiðist líklega form. flokksins og les ekki hans ræður. En ef hann hefði eitthvað af því lesið, þá vissi hann allt þetta og væri þá ekki að tefja tíma þingsins að eilífu með því að vera að endurtaka þetta allt saman í fyrirspurnarformi hér, af því að það er algerlega óþarfi, það liggur alveg augljóst fyrir.