28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við alþm. heyrðum það nú fyrir helgina og lásum í blöðunum, að hæstv. ríkisstj. hefði gert samning við stjórn Bandaríkjanna um, að nokkur breyting yrði hér á um yfirstjórn á hinum svokölluðu varnarmálum, þannig að flugherinn, sem hingað til hefði haft fyrst og fremst með þetta að gera, léti nú af yfirstjórn þar, en sjóherinn tæki við. Ég vil leyfa mér út frá þessari frétt í fyrsta lagi að átelja það, að hæstv. ríkisstj. skuli gera slíka samninga eða gera slíkar breytingar á samningum án þess að hafa svo mikið við sem að ræða við Alþ. um slíkt eða jafnvel að tilkynna þó a.m.k. Alþ. og gefa alþm. kost á að láta í ljós sínar skoðanir á því, áður en það er tilkynnt almenningi í landinu.

En í öðru lagi vildi ég leyfa mér, vegna þess að þessi tilkynning var mjög stutt og henni fylgdi lítil grg., að óska þess, að hæstv. utanrrh. skýrði Alþingi frá tildrögum þessara breytinga. Það hefur áður komið hér fyrir, og ég man eftir fréttum, sem hafa komið fyrir ekki alllöngu, sem ég hef einmitt notað sem tilefni til þess að spyrja hér að, hvað væri að gerast í þessum málum, og mér virtust þá slíkar fréttir koma jafnflatt upp á hæstv. ríkisstj. sem okkur alþm., þannig að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að fylgjast með því, svo lengi sem við höfum þennan her hér, hvað raunverulega er að gerast. Við vitum, að á þessum sama tíma hefur það verið að gerast úti í Stóra-Bretlandi, að Bandaríkjamenn hafa þar verið að koma sér upp stöðvum fyrir kjarnorkuknúna kafbáta, og þær valda miklum óróa í Bretlandi. Það er enn fremur vitað, að hér hefur verið áður hugmynd a.m.k. frá ameríska hernum eða hans forustumönnum um að koma upp slíkum stöðvum hér. Og þar sem venjulega er lítið rætt um þessi mál hér á Alþingi, litlar skýrslur gefnar, er það þess vegna að mínu áliti rétt og nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. gefi sem nánasta skýrslu eftir því, hvað hún sjálf veit um þessa hluti, um, hvað þarna er raunverulega að gerast.