06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan beina fyrirspurn til hæstv. landbrh. utan dagskrár. Ég verð að gera það utan dagskrár, vegna þess að það er ekki svigrúm til að gera það með öðrum hætti. Eins og hæstv. ráðh. hefur oftar en einu sinni getið, mun það hafa verið ætlunin, að hæstv. ríkisstj. sæi svo um, að ræktunarsjóður og byggingarsjóður fengju það fjármagn, sem þeir þyrftu til þess að geta lánað á svipaðan hátt og verið hefur undanfarin ár. Mér hefur skilizt, að þessir sjóðir séu ekki enn þá búnir að fá þetta fjármagn. En nú er mjög liðið á árið og aðþrengt orðið um, að þessi lán geti orðið afgreidd, og vildi ég því vonast eftir því, að sjóðirnir gætu fengið þetta fé nú alveg á næstunni, og spyrja hæstv. ráðh. frétta í þessu efni, hvort hann geti ekki sagt okkur eitthvað ákveðið um þetta núna, hvenær sjóðirnir fái féð.