31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að beina örfáum orðum til viðskmrh., og vildi ég mælast til þess, ef hann væri viðstaddur, að hægt væri að ná í hann. (Forseti: Ég hef leitað mér upplýsinga um það, að hæstv. viðskmrh. er ekki kominn í þinghúsið.) Ég segi þá þessi orð án þess, að hann sé við, en ég vildi vekja athygli á tilviki, sem snertir Alþingi, og ég vildi vekja athygli á því tilviki að viðstöddum viðskmrh., sem bankamál heyra undir, til þess að gefa honum kost á að tjá sig um það tilvik gagnvart þingheimi.

Í Morgunblaðinu í morgun er frásögn af fundi Varðarfélagsins, sem haldinn var í gærkvöld, og þar er skýrt frá því, að framsögu á þeim fundi hafi haft Jóhann Hafstein alþingismaður og bankastjóri og hafi hann rætt bankamálin á þeim fundi, og á forsíðu Morgunblaðsins segir frá því, hvað Jóhann Hafstein alþm. og bankastjóri hafi sagt um það efni, þegar hann skýrði frá fyrirhugaðri bankalöggjöf. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Varðarfundi í gærkvöld vék Jóhann Hafstein bankastjóri nokkuð að breytingum þeim, sem ráðgert er að gera á löggjöfinni um seðlabanka. Þar segir m. a., að Seðlabankinn skuli hafa samvinnu við ríkisstj. og skýra skoðanir sínar fyrir henni, en verði um ágreining að ræða milli bankans og stjórnarinnar, sé bankanum rétt að skýra skoðanir sínar opinberlega. Þó skal hann telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstjórnin kann endanlega að marka í peningamálum, nái að lokum tilgangi sínum. Slíkur ágreiningur gæti leitt til þess, að bankastjóri yrði að víkja úr starfi, og eru sérstök ákvæði um, hvernig þá skuli með fara. Tengsl þau, sem Seðlabankinn hefur við viðskiptabanka Landsbankans, skuli rofin að fullu. Hann skuli hafa með höndum seðlaútgáfu og myntsláttu og eftirlit með bönkum, sparisjóðum, annast viðskipti við ríkissjóð, ákvarða vexti, hafa áhrif á peningamagn og útlán bankakerfisins og fara með gengis- og gjaldeyrismál og annast hagskýrslugerð.“

Það leikur því ekki á tveim tungum, að hér hefur á fundi í stjórnmálafélagi í bænum verið skýrt frá meginefni frv. um mikilvægt málefni, en það frv. hefur ekki, eins og hv. dm. vita, verið lagt fram hér á þingi enn, og þingmönnum almennt er allsendis ókunnugt um efni þessa frv., að fráskildu því, sem þeir geta lesið í þessari frásögn af fundi í Varðarfélaginu. Ég tel, að slík vinnubrögð sem þessi séu vægast sagt óheppileg. Ég held, að það sé óheppilegt að innleiða þau vinnubrögð hér að fara að segja frá efni mikilvægra stjórnarfrv. á fundum í stjórnmálafélögum, áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Ég fæ ekki betur séð en það sé höggvið nærri virðingu Alþingis með slíkum starfsháttum og Alþingi sé í raun og veru misboðið með þvílíkum vinnubrögðum, og víst er um það, að slík vinnubrögð þættu ekki viðeigandi annars staðar í þingstjórnarlöndum. Ég minnist þess t.d., — það eru að vísu nokkuð mörg ár síðan, — að þá varð brezkur fjármálaráðherra, ef ég man rétt, að fara frá, — láta af embætti, — vegna þess að hann hafði skýrt nokkuð frá efni fjárlagafrv. eða ræðu þeirri, sem hann ætlaði að flytja, þegar frv. var fram lagt, nokkrum klukkustundum áður en hann flutti þessa ræðu.

Ég held, að það hljóti allir að sjá, að það eru óheppileg og óeðlileg vinnubrögð að fara þannig að segja frá efni frv. jafnýtarlega og hér hefur bersýnilega verið gert, áður en þau eru lögð fram á Alþingi. Það er alveg víst, að ef slík vinnubrögð eru upp tekin og ekki spyrnt við fæti, þá getur skapazt regla, sem er mjög óheppileg. Ég tel þess vegna alveg sjálfsagt, að þingmenn láti ekki bjóða sér slík vinnubrögð þegjandi. Ég fyrir mitt leyti hef ekki viljað láta þetta fara þegjandi fram hjá mér, án þess að vekja athygli á því, og ég hafði ætlað að beina örfáum spurningum til viðskmrh., sem bankamálin heyra undir. Ég hefði í fyrsta lagi viljað spyrja hann um það, hvort það hefði verið með vitund og vilja hans eða ríkisstj., að farið væri að skýra á þennan hátt opinberlega frá frv., sem ríkisstj. hyggst flytja, og ég hefði viljað spyrja hann að því, hvort hann teldi ekki, að hér væri um trúnaðarbrot að ræða af þeim, sem framsögu hafði, sem væntanlega hefur verið riðinn við samningu þessa frv., eða hvort hann vildi taka ábyrgð á slíkum vinnubrögðum. Ég hefði viljað spyrja hann, hvort hann teldi ekki starfsháttu sem þessa bera vott um smekkleysi og slíkt bæri að varast í framtíðinni.

Ég veit það t.d., að enn hefur stjórn Seðlabankans, sem þetta frv. snertir þó, ekki séð þetta frv., sem farið er að segja frá opinberlega í einstökum atriðum á fundi í stjórnmálafélagi, og ég hef fulla ástæðu til að ætla, að framkvæmdastjórn Seðlabankans hafi ekki séð það enn. Nú eru auðvitað engin lög til, sem segja það, að frv. sem þetta skuli lagt fyrir framkvæmdastjórn Seðlabankans eða henni sýnt það, áður en það er lagt fram á Alþingi. En ég hygg samt, að það mundi einhvern tíma hafa verið talin eðlileg og sjálfsögð kurteisi að hafa þann hátt á.

Það sé fjarri mér að gera lítið úr stjórnmálafélögum, sem auðvitað eru nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. En ég verð að segja það, að mér finnst skörin vera farin að færast upp í bekkinn, ef á að fara að skýra frá málum og frv. jafnýtarlega og bersýnilega hefur hér verið gert, áður en þau eru flutt á Alþingi, og ég álít, að þinginu beri skylda til þess að spyrna fæti við slíkum vinnubrögðum. Þótt ég hafi enga löngun til þess að vekja illdellur um þetta mál, vildi ég alls ekki láta þetta fara hér þegjandi fram hjá mér, án þess að ég lýsti andstöðu minni við svona vinnubrögð og andúð á svona vinnubrögðum, og ég vænti þess, að allir réttsýnir og sanngjarnir alþingismenn finni það og viðurkenni, að hér hafa átt sér stað mistök, sem bér að varast í framtíðinni.