31.01.1961
Efri deild: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta mál er nú í raun og veru útrætt, en vegna þeirrar fyrirspurnar, sem hv. þm. bar fram til mín, þá er rétt, að ég svari henni. Ég tel það vera algerlega komið undir mati ríkisstj. og hennar trúnaðarmanna, hvenær og hvort þeir telja rétt að skýra frá einhverju máli, sem stendur til að leggja fyrir hv. Alþ. Það er algerlega undir þeirra mati komið, og Alþ. er síður en svo nokkur óvirðing sýnd, þó að almenningi sé gefinn kostur á því áður að kynnast almennum málum, sem fyrir þingið á að leggja. Ég veit það, að hv. þm. er svo vel að sér í okkar stjórnmálasögu, að hann veit, að það var einmitt eitt af aðalatriðum í okkar frelsisbaráttu, t.d. starfi Jóns Sigurðssonar, að kynna þjóðinni málin áður en þau voru lögð fyrir þingið. Það var gert með skipulögðum hætti af hans hálfu og talið eitt meginatriði í sönnu þjóðfrelsi og til þess að skapa heilbrigt almenningsálit í landinu. Það er þess vegna eftir hinum beztu fyrirmyndum í stjórnmálasögu Íslands, að stjórnmálamenn af öllum flokkum kynna sínum mönnum málin, áður en þau eru borin fram. Hvort það er gert einum degi áður eða nokkrum mánuðum áður, það er algerlega undir tilviljun komið og mati þessara manna.

Sá, sem hefur gerzt hér sekur um mistök og frumhlaup, það er hv. þm., sem hefur uppi þessar athugasemdir, sem hann vildi nú raunar mjög draga úr og viðhafði allt önnur orð um en í fyrstu ræðu sinni. Nú sagði hann, að hér væri ekki um neitt leyndarmál að ræða, það væri einungis röng formsaðferð, sem hefði verið viðhöfð, og annað slíkt. Það var ekki framar verið að nota orðið „trúnaðarbrot“, sem varð til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs. Það var einungis það gífuryrði, sem gerði það að verkum, að ég gat ekki látið hjá líða, úr því að ég var staddur hér inni í deildinni af tilviljun, að mótmæla þessum ummælum.

Að lokum vil ég svo segja það, að þegar hv. þm. segir, að ég hafi einungis getað nefnt eitt fordæmi fyrir því, að svona hafi verið farið að, þá mundi ég eftir því fordæmi vegna þeirra óréttmætu aðfinninga, sem það varð fyrir. Sjálf fordæmin eru svo mörg, að mér mundi ekki endast dagurinn til þess að telja þau upp, ef ég hefði tíma til þess að fara í blöð og aðrar heimildir til að gá að þeim. Ég mundi eftir þessu fordæmi vegna þeirra óréttmætu aðfinninga, sem stjórnarandstaðan af þessu tilefni hafði uppi.