06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

Fyrirspurninr um stórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið. Mér þykir einsýnt, að þær fréttir, sem birzt hafa í brezkum blöðum, að fram hafi komið ákveðin tillaga frá íslenzku ríkisstj. um lausn á málinu, séu rangar. En þegar mjög þekkt og útbreidd brezk blöð flytja málið á þennan hátt, að þau skýra bæði frá þessu og öðru á þann veg, að þau segja beinlínis, að ákveðin tillaga hafi komið fram af hálfu Íslendinga í málinu, og slíkt er með öllu rangt, sýnist þá ekki hæstv. ríkisstj. vera nokkur ástæða til þess, að við látum leiðrétta svona missagnir, sem ganga um málið? Er ekki ástæða til þess, að það komi eitthvað fram frá hæstv, ríkisstj., a.m.k. hér heima gagnvart Íslendingum, sem upplýsi hið rétta, þegar svona fregnir berast? Ég veit, að hæstv. utanrrh. hefur líka veitt því athygli, að í brezku blöðunum er beinlínis skýrt frá því, að nú bíði brezka ríkisstjórnin eftir svari Íslendinga við nýjustu orðsendingu Breta. En mér skildist nú á máli hans, að lítið nýtt hefði gerzt, og hér hefur ekki enn þá verið skýrt frá því, hvaða tillögur Bretar hafa lagt fram í málinu og hvaða orðsendingu þeir bíða eftir svari við. Sem sagt, það er ekki hægt að verjast því, að gangur þessa máls hafi verið þannig, það sé slík hula yfir því, sem gerist í þessu máli, að það sé ekki ætlazt til þess, að einu sinni alþingismenn fái að fylgjast með því, sem þarna er að gerast. Ég hefði talið miklu vænlegra á allan hátt, að hæstv. ríkisstj. hefði haft það samráð við Alþingi um gang málsins, sem hún hét í upphafi, en reyndi ekki að dylja alþingismenn þess, sem raunverulega er að gerast í málinu. En hæstv. utanrrh. segir, að málið sé enn til athugunar hjá ríkisstj., og taldi ekki rétt að upplýsa hér neitt um, hvað væri fyrirhugað um framhald þessara viðræðna, hvort það stæði til að taka þær formlega og opinberlega upp aftur nú á næstunni, hvort þær færu fram þá hér heima eða erlendis. Hann vék sér undan að svara þessu, og skil ég það á þá lund, að þetta muni allt vera óákveðið og málið nánast liggja niðri, þrátt fyrir það, sem brezku blöðin nú skýra frá um málið.

Ég vil svo aðeins að endingu ítreka þá ósk mína, að hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar að hafa meira samráð við Alþingi um gang þessa máls en verið hefur til þessa.