13.03.1961
Sameinað þing: 50. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

Minning látinna manna

forseti (FS):

Í gær barst sú fregn, að Garðar Halldórsson alþingismaður hefði andazt í sjúkrahúsi hér í bæ að kvöldi s.l. laugardags, 11. marz. Andlát hans kom ekki með öllu á óvart þeim, sem til þekktu, því að hann hafði um nokkurt skeið átt við vanheilsu að stríða og legið síðustu mánuði þunga legu í sjúkrahúsum.

Garðar Halldórsson varð sextugur að aldri, fæddist 30. des. árið 1900 á Sigtúnum í Öngulsstaðahreppi í Eyjafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Halldór bóndi þar Benjamínsson Flóventssonar og kona hans, Marselína Jónasdóttir frá Bringu í sömu sveit. Þegar Garðar var á sjöunda ári, fluttist hann með foreldrum sínum að Rifkelsstöðum í Öngulsstaðahreppi, og þar átti hann síðan heimili til æviloka. Hann stundaði nám í gagnfræðaskólanum á Akureyri tvo vetur og lauk gagnfræðaprófi vorið 1921. Að öðru leyti vann hann jafnan á búi foreldra sinna, þar til hann reisti sjálfur bú á Rifkelsstöðum árið 1927, og þar hefur hann búið síðan.

Garðar Halldórsson var kominn af eyfirzkum bændaættum, og hann valdi sér búrekstur að ævistarfi. Hann var búmaður að uppruna og eðli, iðjusamur og ötull, stórhuga og framkvæmdasamur, en gætti þó forsjár í hvívetna. Hagsýni hans og atorka duldust ekki til langframa í sveit hans og héraði, og voru honum falin trúnaðarstörf í þeirra þágu. Hann var lengi formaður Búnaðarfélags Öngulsstaðahrepps og oddviti sveitar sinnar. Fulltrúi Eyfirðinga á fundum Stéttarsambands bænda var hann frá árinu 1949, og síðustu 5 ár hefur hann átt sæti á búnaðarþingi. Haustið 1959 var hann kjörinn þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra. Hann átti sæti á tveimur þingum, en varð á báðum þingunum að hverfa frá störfum vegna sjúkleika.

Á Alþingi komu fram þeir mannkostir Garðars Halldórssonar, sem höfðu enzt honum til að skila farsælu starfi í átthögum hans. Hann vann hér störf sín af skyldurækni og alúð og hlífði sér hvergi, þó að hann gengi lengst af ekki heill til skógar. Hann kynnti sér rækilega þau mál, sem honum bar að fjalla um, var íhugull og reikningsglöggur og tók sæti í fjvn., þeirri nefnd þingsins, þar sem löngum er annasamast á þingtíma. Að eðlilegum hætti voru honum jafnan hugstæðust framfaramál íslenzks landbúnaðar.

Garðar Halldórsson var hreinskilinn alvörumaður. Hann hafði ekki tamið sér látbragðslist, en gekk að störfum með festu og einurð. Á búi hans og í heimasveit sjást þess merki, að hann hafði lokið miklu og giftudrjúgu ævistarfi. Á Alþingi naut hans við aðeins skamma stund, en þó var sýnt, að verka hans mundi sjá þar stað í ýmsum greinum, ef honum entist líf og heilsa. Nú er hann fallinn frá fyrir aldur fram, og á bændastétt lands vors þar á bak að sjá traustum fulltrúa sínum.

Vér samþingismenn hans viljum votta honum virðingu og ástvinum hans samhryggð með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]