21.11.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (FS):

Frá forseta Nd. hefur borizt svofellt bréf:

„Reykjavík, 19. nóv. 1960.

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf frá Birgi Finnssyni, 5. þm. Vestf.:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og verð fjarverandi næstu vikur, leyfi ég mér hér með, með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að fara þess á leit, að varamaður, Hjörtur Hjálmarsson skólastjóri, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt, með ósk um, að þér látið fara fram í sameinuðu þingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Benedikt Gröndal,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Með bréfi þessu fylgir kjörbréf til handa Hirti Hjálmarssyni, varaþm. í Vestfjarðakjördæmi, gefið út af yfirkjörstjórn þess kjördæmis. Hlé verður gert á fundinum í allt að 10 mín., meðan kjörbréfanefnd rannsakar kjörbréfið. –[ Fundarhlé.]