16.01.1961
Sameinað þing: 30. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

forseti (FS):

Frá forseta neðri deildar hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 13. jan. 1961.

Formaður þingflokks Framsfl. hefur ritað mér eftirfarandi:

„Þar sem Garðar Halldórsson, 4. þm. Norðurl. e., hefur tjáð mér, að hann geti ekki sótt fundi Alþingis á næstunni sökum veikinda, leyfi ég mér hér með, samkvæmt beiðni hans og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óska eftir því, að varamaður hans, Ingvar Gíslason lögfræðingur, Akureyri, taki á meðan sæti á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Jóhann Hafstein, forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Kjörbréf Ingvars Gíslasonar hefur verið rannsakað og gilt metið áður, og tekur hann því sæti á Alþingi samkvæmt þessu.

Þá hefur enn fremur borizt frá forseta neðri deildar svofellt bréf:

„Reykjavík, 16. jan. 1961.

Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Einari Ingimundarsyni, 4. þm. Norðurl. v.:

„Vegna embættisanna mun ég ekki geta tekið sæti á Alþingi, er það kemur saman nú að loknu jólafríi. Óska ég þess, að 1. varaþm. Sjálfstfl. í Norðurlandskjördæmi vestra, Jón Pálmason bóndi á Akri, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Jóhann Hafstein, forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Kjörbréf Jóns Pálmasonar hefur einnig áður verið rannsakað og gilt metið, og tekur hann því samkvæmt þessu nú þegar sæti á Alþingi.

Þá hefur enn borizt bréf frá forseta neðri deildar á þessa leið:

„Reykjavík, 16. jan. 1961.

Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi símskeyti frá Jónasi Péturssyni, 3. þm. Austf.:

„Vegna annríkis við störf hjá tilraunabúinu á Skriðuklaustri get ég ekki mætt á Alþingi nú þegar og óska því eftir, að varamaður taki sæti mitt.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Jóhann Hafstein, forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Varamaður Jónasar Péturssonar er Einar Sigurðsson. Kjörbréf hans hefur áður verið rannsakað og gilt metið, og samkvæmt þessu tekur hann nú sæti á Alþingi.

Enn hefur borizt bréf frá forseta efri deildar á þessa leið:

„Reykjavík, 16. jan. 1961.

Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi símskeyti frá Kjartani J. Jóhannssyni, 3. þm. Vestf.:

„Get ekki mætt á Alþingi næstu tvær vikur. Óska, að fyrsti varamaður, Sigurður Bjarnason, taki sæti á meðan.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Sigurður Ó. Ólafsson,

forseti efri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Kjörbréf Sigurðar Bjarnasonar hefur áður verið rannsakað og gilt metið, og tekur hann því sæti á Alþingi samkv. þessu.

Ég býð alla þessa hv. varaþingmenn velkomna til þings.