07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1750)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem við hv. 7. þm. Reykv. (EÁ) flytjum um fjáröflun til rannsókna og tilraunastarfsemi, er leiði til lækkunar á byggingarkostnaði, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkissjóður skal árlega greiða til byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans fjárhæð, er jafngildi 1% af þeim fjárhæðum, sem byggingarsjóður lánar til íbúðabygginga á vegum húsnæðismálastofnunar ríkisins eða á annan hátt. Fé þetta skal nota í því skyni að leitast við að finna leiðir til lækkunar á byggingarkostnaði.“

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar, sem fjallað hefur um mál þetta, hefur klofnað í afstöðu sinni til málsins. Leggur meiri hl. til í áliti á þskj. 286, að frv. verði fellt, en minni hl., við hv. 4. landsk. þm. (HV), leggjum til í okkar nál. á þskj. 300, að frv. verði samþykkt.

Eins og kunnugt er, er byggingarkostnaður hér á landi langtum hærri en almennt gerist á meðal nálægra menningarþjóða. Til þess liggja að sjálfsögðu margar ástæður, en ekki hvað sízt mun hér um valda sú staðreynd, að byggingarannsóknir og tilraunir eru svo til óþekktar hér á landi. Kunnugir menn í þessum málum telja, að með því að efla slíka starfsemi í landinu og kynna jafnframt almenningi niðurstöður þeirra megi með því einu lækka byggingarkostnaðinn mjög verulega. Nefna sumir í þessu sambandi allt að því 20%, og er hér ekki um litla fjárhæð að ræða, ef tillit er tekið til þess, að hér mun fest í húsbyggingum fé árlega, sem nemur a.m.k. 1 milljarð króna.

Í grg. með frv. þessu höfum við flm. borið saman þróunina í byggingarkostnaði hér á landi og þróun þá, sem orðið hefur á meðal Vestur-Þjóðverja og Svía. Ég fer ekki út í það nú í þessari ræðu minni að rekja þær niðurstöður, en vísa um þær til grg., er fylgir frv., en ég staðhæfi, að þær niðurstöður eru okkur Íslendingum mjög óhagkvæmar. Úr þessu þarf að bæta, og er tilgangurinn með flutningi þessa frv. sá, að hér sé um einn lið að ræða í víðtækari ráðstöfunum, er miði að því að lækka byggingarkostnað hér á landi, eins og mjög víða annars staðar hefur verið gert, og þá ekki sízt vegna þess, að öflug rannsóknar- og tilraunastarfsemi hefur verið rekin í viðkomandi löndum, sem síðar hefur gert almenningi mögulegt að færa sér í nyt þær vísindalegu niðurstöður, er slík starfsemi hefur leitt til.

Ef frv. fengist samþykkt, mundi það þýða, að til byggingarrannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans yrði ríkissjóður að greiða árlega auk þess fjár, sem veitt er í fjárlögum, um 1% álag á það fé, sem hið opinbera lánar til húsabygginga árlega á vegum húsnæðismálastofnunarinnar eða á annan hátt. Hér yrði að vísu ekki um háa fjárhæð að ræða á hverju ári, miðað við þau útlán, sem verið hafa á undanförnum árum úr byggingarsjóðnum, en ég fullyrði þó, að tekjur þessar mundu leysa mjög verulega vandann hjá byggingarefnarannsóknum háskólans.

Af umsögnum þeirra aðila, sem frv. þetta fengu til umsagnar, er ljóst, að þeir telja allir eðlilegast, að einn og sami aðilinn fari með og hafi yfirstjórn þessarar rannsóknarstarfsemi. Sömuleiðis telja allir umsagnaraðilarnir eðlilegast, að byggingarefnarannsóknir iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans gegni þessu hlutverki, eins og við leggjum líka til í okkar frv. Um hitt er hins vegar ágreiningur hjá umsagnaraðilum og einnig ágreiningur um það í hv. heilbr.- og félmn. þessarar deildar, hvort rétt sé að leggja þessi útgjöld eingöngu á ríkissjóð, en skipta þeim ekki t.d. á milli byggjenda annars vegar og ríkissjóðs hins vegar. Um þetta má að sjálfsögðu deila og færa rök fyrir hvoru sjónarmiðinu sem er, með og móti. Við í minni hl. teljum hins vegar, að sanngjarnt og eðlilegt sé að leggja útgjöld þessi á ríkissjóð, m.a. vegna þess, að byggingarkostnaður mun nú hér á landi vera um a.m.k. 20–25% hærri en hann ella væri vegna beinna álaga hins opinbera á byggingarefni og byggingarvinnu. Auk þessa eru augljósir þeir margvíslegu hagsmunir þjóðfélagsins og hagsmunir ríkissjóðs af því, að takast megi að lækka húsnæðiskostnaðinn hér á landi, og tel ég óþarft að fara að rökstyðja það nokkru nánar, það ætti að liggja svo ljóslega í augum uppi fyrir hverjum sem er.

Því er hreyft í áliti meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. á þskj. 286, að eðlilegt sé að fella frv. þetta, þar sem nú liggja fyrir hjá hæstv. ríkisstjórn till. meiri hl. atvinnumálanefndar ríkisins um tekjuöflun til rannsóknastarfsemi í landinu almennt. Ég get ekki tekið undir þessi rök. Bæði er allsendis óvíst um undirtektir hæstv. ríkisstj. undir þær till. um tekjuöflun til rannsókna, sem meiri hluti atvinnumálanefndar ríkisins hefur samþykkt og sent ríkisstjórninni, og þó að till. atvmn. yrðu ef til vill einhvern tíma að lögum, verður vafalaust við þá lagasetningu tekið tillit til þeirra tekjustofna, sem til eru í landinu og miða að því að tryggja rannsóknarstarfseminni tekjur. Ég get því ekki talið, að þessi rök út af fyrir sig segi mikið.

Hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) flutti hér áðan mjög svo einkennilega ræðu, að ekki sé meira sagt. Grunntónninn í hans ræðu bar greinilega vott um litla trú á gagnsemi rannsókna og tilrauna til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Hann um það, hvaða trú hann hefur á því. En ég er hér á annarri skoðun.

Það eru nokkur atriði, sem komu fram í ræðu hv. þm., sem ég tel að rétt sé að svara með nokkrum orðum, þó að ég skuli ekki lengja mjög fundinn með því.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þar sem ekki væri beint fram tekið um það í frv., hvort hér væri um viðbótarframlag að ræða við þær tekjur, sem rannsóknarstarfseminni eru tryggðar á fjárlögum frá ári til árs, þá gæti þetta jafnvel þýtt lækkun á fjárframlögum til rannsóknarstarfseminnar. Ég get að vísu viðurkennt, að það er hvergi beinum orðum fram tekið í frv. sjálfu, að hér skuli vera um viðbótarframlag að ræða, en ég hygg þó, að öllum, sem lesið hafa frv. og grg. og álit minni hl. í þessu máli, sé það ljóst, að til þess hefur verið ætlazt. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að svo miklir þjóðfélagshagsmunir eru bundnir við það, ef takast mætti að lækka byggingarkostnaðinn, að það sé ekki einasta réttlætanlegt, heldur einnig sjálfsagt, að ríkissjóður leggi verulegt fjármagn fram til þess að gera þetta mögulegt.

Í öðru lagi fór hv. 1. þm. Vestf. mörgum orðum um það, að hér væri mjög erfitt eða raunar ófært að miða tekjurnar við nokkuð og gæti jafnvel komið þannig fyrir, að hvorki byggjendur né byggingarefnarannsóknirnar hefðu nokkurt gagn af samþykkt þessa frv., þar sem það gæti skapað slíka óvissu fyrir þessa aðila. Þetta eru ekki veigamikil rök. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er það kunnugt, að í löggjöfinni um byggingarsjóð ríkisins eru honum ákveðnir með lögum ákveðnir tekjustofnar, og aðaltekjur byggingarsjóðsins skv. þessum lögum eru tekjur vegna skatts á stóreignir og tekjur af skyldusparnaði. Það var í eina tíð, að húsnæðismálastjórn reiknaði út, hve mikið þessir föstu tekjustofnar mundu gefa byggingarsjóðnum í árlegar tekjur, og sú áætlun er til. Ég held ég fari rétt með, að húsnæðismálastjórn hafi reiknað með því á þeim tíma, þegar þessi áætlun var gerð, að þeir tekjustofnar, sem löggjöfin um byggingarsjóð ríkisins tryggði húsnæðismálastofnuninni, mundu gefa árlega um 40 millj. kr. Hitt er svo aftur annað mál, að þeir útreikningar hafa síðar brugðizt að mjög verulegu leyti, aðallega vegna þess, að skatturinn á stóreignirnar hefur nú í dag lækkað um nálægt því helming frá því, sem hann var upphaflega, og þar af leiðandi hafa þær tekjur, sem byggingarsjóður ríkisins hefur haft af þessum tekjustofni, lækkað fast að því um helming. En það breytir ekki hinu, og það er jafnrétt fyrir það, að hér er áætlun til um tekjur byggingarsjóðsins.

Þá vék hv. þm. Vestf. að því og að því er mér skildist vildi reyna að gera það hlægilegt eða tortryggilegt, að hér væri eitthvert óskaplegt ósamræmi á milli efnisins í 1. mgr. 1. gr. frv. og 2. mgr. Hann sagði, að í 1. mgr. væri ákvæði um það, að tekjur þessar mættu einungis ganga til byggingarefnarannsókna og það út af fyrir sig gæti ekki lækkað byggingarkostnaðinn mjög verulega. Svo sagði hann, að í 2. mgr. væri ætlazt til þess, að tekjurnar rynnu almennt til rannsókna til lækkunar á byggingarkostnaði. Mér er óskiljanlegt, hvernig hv. þm. getur fundið út úr þessu misræmi, ekki sízt ef það er tekið með í reikninginn, að honum er fullkunnugt um, bæði af þeim umsögnum, sem heilbr.- og félmn. bárust út af þessu frv., og eins vegna þeirra umræðna, sem urðu í hv. nefnd, sem þetta mál var hjá til umsagnar, að þá var það upplýst, að byggingarefnarannsóknir iðnaðardeildar háskólans framkvæma rannsóknir langt út fyrir það eitt að rannsaka byggingarefni. Þetta kemur ljóslega fram í umsögn, sem rannsóknaráð ríkisins sendi hv. nefnd og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér lítillega upp úr. Þar segir:

„Rannsóknaráði virðist, að nokkur misskilningur felist í þessari spurningu.“ — Það er spurning, sem hv. þm. hefur orðað sjálfur og sent rannsóknaráði með frv., — spurningar, sem hann aldrei bar t.d. undir mig og ég vissi ekki, hvernig voru orðaðar, og veit raunar ekki enn þá, hvernig voru orðaðar. En svarið er þannig m.a.: „Rannsóknaráði virðist, að nokkur misskilningur felist í þessari spurningu. Svokallaðar byggingarefnarannsóknir iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans takmarkast alls ekki eingöngu við rannsóknir byggingarefna, þó að það hafi verið meginþáttur starfseminnar til þessa. Það hefur ávallt verið ætlunin að byggja þar upp sjálfstæða rannsóknastarfsemi og upplýsingaþjónustu til þess að vinna að bættu skipulagi og aukinni tækniþróun við húsbyggingar. Þetta kemur aftur greinilega fram í meðfylgjandi áætlun. Við teljum því sjálfsagt, að þessu fjármagni sé beint til byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans vegna þeirra rannsókna til endurbóta á byggingarháttum og lækkunar á byggingarkostnaði, sem hljóta að teljast sjálfsagðar við þá stofnun. Aðrar stofnanir koma ekki til greina, enda óeðlilegt að byggja upp fleiri stofnanir á sama sviði.“

Hv. þm. hefði því átt að vita betur, og hann hefði getað sparað sér þau mörgu orð, sem hann hafði um þetta ósamræmi, sem í raunveruleikanum er hvergi til, en hefur á einhvern óskiljanlegan hátt myndazt í hans eigin hugmyndaheimi.

Að síðustu vék hv. 1. þm. Vestf. að því, að inn í frv. þetta vantaði ákvæði um það, að verksalar einir skyldu ekki græða á lækkun byggingarkostnaðar, eins og hann vildi telja að reynslan hafi verið í sumum tilfellum áður. Mér kom þessi yfirlýsing hv. þm. dálítið einkennilega fyrir. Ég held, að flestir hv. þm. geti verið því sammála, að slíkt ákvæði ætti að sjálfsögðu lítið heima í lögum eða frv. eins og því, sem við erum hér að ræða nú. Auk þess veit ég ekki betur en samningsrétturinn um kaupgjald sé viðurkenndur í þessu landi. Ég veit ekki til þess, að það sé farið að skipa með lögum hér frá hv. Alþ. því, hvað einstakar stéttir eigi að taka í kaup og kjör. Ég þekki það ekki.

Ég held, að ég hafi nú svarað því flestu, sem ég á annað borð tel að hafi þurft að svara og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Vestf.

Ég vil svo að endingu aðeins undirstrika meginkjarnann í því máli, sem við hér erum að ræða.

Hann er þessi: Það liggur fyrir, að byggingarkostnaður á Íslandi er langtum hærri en hann gerist nokkurs staðar meðal menningarþjóða í kringum okkur. Það liggur einnig fyrir, að ein allra öruggasta leiðin til þess að lækka þennan byggingarkostnað sé sú að stórauka rannsóknarstarfsemi og tilraunastarfsemi í byggingariðnaðinum og gera almenningi kunnar þær niðurstöður, sem kunna að fást við slíkar rannsóknir. Það liggur í þriðja stað fyrir, að þá stofnun í landinu, sem farið hefur með þessar rannsóknir, skortir algerlega fé til þess að geta framkvæmt þær, svo að nokkru verulegu gagni geti komið. Frv. er flutt til þess að koma til móts við þær óskir, sem hafa komið fram frá þessari stofnun um aukið fjárframlag. Ég er ekki að segja það, þó að þetta frv. verði samþykkt, að málið sé þar með leyst eða það sé endilega leyst á þann hátt, sem réttast er og hagkvæmast. En ég fullyrði, að þetta mundi vera verulegt spor til þess að höggva á þann hnút, sem er í þessum málum. Ég vil því treysta því, þangað til annað reynist réttara, að hv. þm. fáist til þess að samþykkja þetta frv.