07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1751)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég vil aðeins svara hér nokkrum athugasemdum, sem hv. frsm, minni hlutans gerði. Hann viðurkenndi í sinni ræðu, sem er raunverulega meginatriði þessa máls, að frv. ber það ekki með sér, að það fé, sem hér er ætlazt til að lagt sé fram til byggingarrannsókna, eigi að vera viðbót við það fé, sem lagt er fram á fjárlögum árlega, enda kemur það skýrt fram í 1. gr. frv., að það er ekkert ákveðið um það og enginn vafi á því, að ef frv. verður samþykkt óbreytt, þá mundi fjárveitingarvald, m.a. fjvn., líta svo á, að það væri séð fyrir fé til þessara efnarannsókna með þeim tekjustofni, sem hér er löggiltur, og þyrfti ekki frekar um það að hugsa. Þess vegna er það alveg nauðsynlegt, ef á að hafa þetta sem viðbótarfé, að þá sé frv. breytt, og ég vil undirstrika það, eins og ég tók fram í minni ræðu, að ég tel það meginástæðuna fyrir því, að ekki eigi að samþ. frv., enda er það svo illa undirbúið á öllum sviðum, að það nær ekki þeim tilgangi, sem til er ætlazt.

Það er einnig mjög mikill ágreiningur meðal þeirra aðila, sem frv. var sent til umsagnar. M.a. leggur húsnæðismálastjórn beinlínis til, að frv. verði fellt, af því að málið sé ekki nægilega vel undirbúið.

En aðallega stóð ég nú upp til þess að leiðrétta þann misskilning hjá hv. frsm., að mín framsöguræða skyldi skoðast þannig, að ég væri andvígur rannsóknum, því að það er ég alls ekki, síður en svo. Ég viðurkenni, að rannsóknir í þessu máli mundu geta bætt verulega úr. En ég viðurkenni ekki, að það sé einhlítt. Það er ýmislegt fleira, sem þarf að gera í málinu, en aðeins rannsóknirnar, og þar eru atriði, þar sem hægt er að ná betri og fljótari árangri en með rannsóknum, þó að þetta fé sé veitt til þeirra. Það var vegna þessara ummæla, sem ég vildi aftur taka til máls og mótmæla því, sem hv. frsm. sagði um þetta atriði.

Ég skal svo ekki eyða tíma í að karpa um aukaatriði, en vil enn benda á, að flestir þeir aðilar, sem um málið fjölluðu og sendu umsögn til deildarinnar, voru á þeirri skoðun, að málið þyrfti betri undirbúning.