07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1752)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í þeirri ræðu, sem hv. 1. þm. Vestf. lauk núna, sagði hann, að annar sá aðili, sem ekki mælti með frv., en hafði fengið það til umsagnar, húsnæðismálastofnun ríkisins, hafi mælt gegn því, af því að hún teldi málið svo illa undirbúið. Það vill nú svo til, að rökstuðningur húsnæðismálastofnunarinnar fyrir því, að hún mæli ekki með samþykkt þessa frv., er engan veginn þessi, heldur, eins og hér er sagt í nefndaráliti, „að hún leggi ekki með samþykkt þess nú, þar sem mál þetta sé nú í athugun hjá atvinnumálanefnd ríkisins.“ Það er allt annað. Þegar svona er gengið á snið við sannleikann, þá er hægt að mistúlka málið rækilega í löngu máli, og áframhaldið var eftir þessu hjá hv. þm. Hann sagði, að langflestir þeirra aðila, sem hefðu fengið málið til umsagnar, hefðu mælt gegn því, af því að það væri svo illa undirbúið. Það liggur þó hér fyrir svart á hvítu, og það veit formaður hv. heilbr.- og félmn. vel, að Verkfræðingafélagið mælti með því, að Arkitektafélag Íslands mælti með því, að iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans mælti með því og að rannsóknaráð ríkisins mælti með því, en tveir aðilar hins vegar töldu ekki, af þeim ástæðum, að málið væri annars staðar í athugun, ástæðu til þess að mæla með samþykkt frv. nú. Þetta er sannleikur málsins.

Málið er ekkert umfangsmikið. Það er eingöngu um það að verja tiltölulega lágri upphæð til eins aðila, sem annast rannsóknarstarfsemi í þjónustu byggingarmálanna í landinu, hefur til þess knappt fé og þyrfti sannarlega að fá þessa upphæð og hærri til þess að geta starfað. Það er trú margra manna, að rannsóknarstarfsemi í þjónustu byggingarmálanna mundi geta að einhverju leyti dregið úr óhóflegum kostnaði bygginga hér á landi. Þess vegna leggjum við til, að þetta litla frv. um það að verja nokkrum hundruðum þús. kr. til þessarar rannsóknarstarfsemi í þjónustu byggingarmála sé samþykkt, og þætti engin ofrausn. Allir aðilarnir játa, að það þyrfti í raun og veru miklu meira fé til þessarar starfsemi. Bæði húsnæðismálastofnun ríkisins og Iðnaðarmálastofnun Íslands, sem þó mæltu ekki með frv., viðurkenna, að þörfin fyrir fé til þessarar þjónustu og starfsemi sé mikil. Og það vitum við ósköp vel, sem mælum með þessu frv., að það hefði verið ástæða til að ætla til þess meira fé en nú er á fjárlögum og þetta frv. ætlast til að lagt sé til þessara mála í viðbót.

Hitt er svo bara af ásettu ráði til þess að drepa málinu á dreif, þegar hv. 1. þm. Vestf. fer að tala um, að það hefði átt að vera í þessu frv. mýmargt annað, sem haft geti áhrif á byggingarkostnað í landinu og dregið úr óhóflegum kostnaði við byggingarstarfsemi, eins og t.d. lóðaokrið í Reykjavík og eins og t.d. það, að það sé hnoss, sem nokkrum útvöldum falli í skaut, að fá lóð hér í Reykjavík. Þetta er alveg satt hjá honum. En hvaða erindi átti það inn í frv. um litla fjárveitingu til rannsókna á byggingarstarfsemi? Ég skyldi vera flutningsmaður með honum um það, ef hægt væri að lögbinda það, að það að fá lóð hér í Reykjavík væri ekki hnoss handa einhverjum gæðingum bæjarstjórnarinnar og þeirra fjölskyldna, sem að henni standa, og svo séu þessar lóðir seldar fyrir tugi þúsunda, marga tugi þúsunda, þeim sem þurfa á lóðum að halda, þegar er búið að veita sama gæðingnum kannske lóð ár eftir ár. Það er alveg rétt, þetta er ófögnuður, sem þyrfti að ráða bót á, en átti ekkert erindi inn í þetta frv., og þess vegna alger útúrdúr og krókaleið, langt frá efni þessa frv., þegar hann fór að tala um það langt mál.

Tæknin t.d., að skriðmót skuli ekki lækka byggingarkostnað, það er rétt, það er ófremdarástand. En það er allt annað mál en lítils háttar styrktarstarfsemi við rannsóknarþjónustu á vegum háskólans. Þetta fylgir einkarekstrinum, einkaframtakinu, einkabraskinu, að maður, sem hefur haft fjármagn til þess að eignast fyrir nokkra tugi þús. eða hundruð þúsunda kannske tæki, sem heitir skriðmót, sem gerir það ódýrara að steypa upp hús, hann hefur aðstöðu til þess og hefur víst alveg fullan rétt til þess að okra á því, ef aðrir hafa ekki aðstöðu til þess að keppa við hann um þetta og lækka þannig hans álagningu á þessa þjónustu. Þetta hefur gerzt hér, það er alveg rétt, að sú nýja tækni, sem kallast skriðmót, hefur ekki orðið til þess að draga úr byggingarkostnaði, því miður. En ekki skyldi standa á mér, ég hygg ekki heldur á hv. 4. þm. Reykn., að vera meðflutningsmenn að frv. um það að koma í veg fyrir okurstarfsemi og einkagróðabrall í landinu í sambandi við byggingarmál. En það er önnur saga.