07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1753)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ræða hv. 1. þm. Vestf. hér áðan gefur ekki tilefni til mikilla andsvara. En það virtist eins og hann væri nú horfinn frá því flestu, sem hann hélt fram í fyrri ræðu sinni, og er ekki nema allt gott um slíkt að segja.

Það eru tvö atriði, sem ég vildi aðeins víkja að og hann vék að í seinni ræðu sinni, þó að hv. 4. landsk. hafi að vísu að nokkru leyti tekið af mér ómakið að því er annað atriðið varðar.

Hv. þm. vildi enn þá halda því fram, að það væri ekki hægt að samþykkja frv. okkar, sem hér er til umr., vegna þess að það væru ekki ljós ákvæði í því um, að hér ætti að vera um viðbótarfé að ræða auk þess fjármagns, sem veitt er á fjárlögum til þessarar starfsemi á hverju ári. Ég sagði, að það væri rétt, að það stæði ekki beinum orðum í lagagreinum frv., en ég teldi, að öllum, sem læsu frv. og grg. þess og álit okkar í minni hl., væri þetta ljóst. Auk þess held ég, að eftir þær umr., sem hér hafa orðið um þetta frv., geti ekki verið nokkur vafi á því, að til þess sé ætlazt. Það er ein af algengustu lagaskýringarleiðum, að ef lög þykja ekki kveða nógu ákveðið á um einhver ákveðin atriði, þá er leitað í umr. á þingi, hvort ekki finnist upplýsingar þar um tilgang löggjafans. Í þessu tilfelli hefur verið á þetta atriði minnzt af hv. þm., og ég sem annar flm. frv. hef tekið það skýrt fram, að til þess er ætlazt, að þetta sé viðbótarfé við það fjármagn, sem hefur á undanförnum árum runnið til byggingarefnarannsókna iðnaðardeildar háskólans. Vegna þessa atriðis eins getur hv. þm. því ekki staðið á móti frv.

Þá er það hitt atriðið, sem ég ætla að fara um örfáum orðum. Hv. 1. þm. Vestf. er um vinnubrögð hér á þingi á margan hátt til fyrirmyndar, hann hlustar mjög gjarnan á umr. og virðist stundum óhræddur við að segja sínar skoðanir á málum og mönnum. Því verð ég að segja, að mér fannst það ákaflega sárt að heyra hann hér í þessum ræðustól blákalt og að því er ég tel vísvitandi fara með eintómt skrök. Hann hélt því fram, að þeir umsagnaraðilar, sem við sendum frv. þetta til umsagnar og eru, eftir því sem ég man bezt, sjö, hefðu allir tekið fram, að ótímabært væri að samþykkja frv., vegna þess að það væri svo illa undirbúið. Sannleikurinn í þessu máli er sá, eð ekki einn einasti af þessum sjö umsagnaraðilum víkur að þessu einu orði. Það er alger uppspuni frá rótum hjá hv. þm., að þessir umsagnaraðilar haldi þessu fram. Hitt er svo annað mál, sem hv. 4. landsk. þm. kom inn á, að tveir af þessum sjö umsagnaraðilum leggja til, að samþykkt frv. verði frestað, og þeir gera það á þeirri forsendu, að málið sé í athugun annars staðar. Þeir taka það fram, að meiri hl. atvinnumálanefndar ríkisins hafi gert ákveðnar tillögur um fjáröflun til rannsóknarstarfsemi almennt í landinu og sent þessar tillögur til ríkisstj. og þar séu þær nú í athugun. Þessar einar eru ástæðurnar fyrir því, að þessir tveir aðilar telja sig ekki geta mælt með samþykkt frv., eins og hinir aðilarnir allir gera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þessar umræður meira en orðið er. En ég hygg, að eftir þau orðaskipti, sem hér hafa orðið út af þessu máli, megi öllum hv. þm. vera það ljóst, að þær mótbárur, sem hv. 1. þm. Vestf. og þeir í meiri hl. heilbr.- og félmn. hafa uppi gegn því, að frv. verði samþykkt, eru allar mjög veigalitlar, sumar algerlega órökstuddar, og það sem verra er, sumar af þeim eru hreinn tilbúningur.