07.02.1961
Neðri deild: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1755)

52. mál, lækkun byggingarkostnaðar

Frsm. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 1. þm. Vestf, vill enn halda í af þrákelkni, að ég fari rangt með, þegar ég vitna í umsagnir þeirra aðila, sem við sendum þetta frv. til umsagnar.

Ég vil ekki misnota það tækifæri, sem ég hef hér til þess að segja örfá orð út af seinustu ræðu hans, til þess að lesa upp allar þær umsagnir, sem hafa borizt, enda tekur hv. þm. það sjálfur fram í áliti sínu, meirihlutaáliti heilbr.- og félmn., að þær séu allt of langt mál, til þess að hægt sé að birta þær með nál. þeirra meirihlutamanna. Ég staðhæfi, að fjórir aðilar af þeim sex eða sjö, sem við sendum frv, til umsagnar, taka ákveðna, jákvæða afstöðu með því, að frv. verði samþykkt. Ég tek það fram í grg. minni, að þá greini á um það suma hverja, hvort eðlilegt sé að leggja þetta gjald allt á ríkissjóð eða eigi að skipta því á milli byggjenda og ríkissjóðs. Um það er ágreiningur, og ég tek það fram í nál. mínu. Hitt stendur óhaggað, að fjórir af sex eða sjö aðilum, sem fengu þetta frv. til umsagnar, mæla með því, sumir alveg óbreyttu, aðrir telja, að heldur hefði átt að skipta útgjöldum þessum á byggjendur og ríkissjóð. Þeir hv. þm., sem vildu kynna sér, hvor okkar fer hér með rétt mál, hafa að sjálfsögðu tækifæri til þess með því að lesa þessar umsagnir, — ég er með þær hér í höndunum og legg þær fram á lestrarsal hér á eftir.