02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (1764)

45. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. á þskj. 145, um lántökuheimild og ráðstöfun lánsfjár til hafnarframkvæmda. N. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. hennar, þ.e.a.s. Pétur Sigurðsson, Matthías Á. Mathiesen og ég, leggur til, að málinu verði vísað frá með rökst. dagskrá, en minni hl., þeir Gísli Guðmundsson og Lúðvík Jósefsson, leggur til, að frv. verði samþ. með breytingum.

Í nál. okkar, sem meiri hl. skipum, er gerð grein fyrir ástæðum þess, að við teljum ekki fært að mæla með samþykkt frv., en frv. felur í sér tvennt: í fyrsta lagi, að ráðstafað skuli 30 millj. til viðbótar af lánsfé, sem heimilað var að taka samkv. fjárlögum 1959 til hafnarframkvæmda, og í öðru lagi, að teknar skuli 2 milljónir dollara að láni í sama skyni. Um fyrra atriðið er það að segja, að upplýst hefur verið hér á Alþingi að því lánsfé, sem þar er um rætt, hefur öllu verið ráðstafað nú þegar, og það er því um tómt mál að tala, að það fé verði hægt að nota í því skyni, sem frv. gerir ráð fyrir. Um síðara atriðið, 2 millj. dollara lántöku, er það að segja, að ef gera á myndarlegt átak í hafnarmálum, — sem við í meiri hl. n. vissulega viðurkennum að sé full þörf fyrir, — þá er fullvíst, að sú upphæð mundi vera allsendis ófullnægjandi. Með tilliti til þess og svo hins, að upplýst hefur verið, að hæstv. ríkisstj, vinni nú að því að fá lán til ýmissa mikilvægra framkvæmda, þ. á m. til hafnargerða, leggjum við til, að frv. verði vísað frá með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að hraðað verði endurskoðun hafnarlaga og laga um hafnarbótasjóð og samningu tíu ára áætlunar um hafnarframkvæmdir, og í trausti þess, að bráðlega fáist úr því skorið, hver árangur verður af tilraunum ríkisstjórnarinnar til útvegunar lánsfjár til hafnarframkvæmda, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í þessari dagskrártillögu er minnzt á endurskoðun hafnarlaga og laga um hafnarbótasjóð og samningu tíu ára áætlunar um hafnarframkvæmdir, en á Alþingi 1958 var samþ. svo hljóðandi þáltill. um þau mál, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta í samráði við vitamálastjóra gera tíu ára áætlun um nauðsynlegustu hafnarframkvæmdir í landinu og sé fyrst og fremst við það miðað, að framkvæmdirnar geti stuðlað að öruggri og aukinni útflutningsframleiðslu. Einnig verði endurskoðuð gildandi lagaákvæði um skiptingu kostnaðar við hafnargerðir milli ríkis og sveitarfélaga svo og ákvæðin um landshafnir og önnur þau atriði laga um hafnargerðir, er ástæða þykir til að breyta með hliðsjón af fenginni reynslu og til samræmis við aðrar niðurstöður athugunar þessarar.

Jafnframt verði endurskoðuð lögin um hafnarbótasjóð og athugað, hvort ekki sé tiltækilegt að efla starfsemi hans, svo að hann geti m.a. veitt hagkvæm lán til langs tíma til nýrra hafnarframkvæmda.“

Eitt atriðið, sem er í endurskoðun samkv. þessari þáltill., er um hluta ríkissjóðs og sveitarsjóða í hafnarmannvirkjum, og meðan ekki liggur fyrir, hver niðurstaða verður af þeirri athugun, er ekki fyllilega hægt að gera sér grein fyrir, hvernig ætti að skipta því lánsfé, sem tekið yrði til hafnarframkvæmda, milli þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, og m.a. af þeirri ástæðu verður það að teljast eðlilegt, að beðið sé eftir því, að þessari endurskoðun ljúki, áður en endanlega er ákveðið um meiri háttar lántöku til hafnarframkvæmda, sem þó er nú unnið að, eins og hér hefur verið upplýst á Alþingi af hæstv. forsrh.

Undanfarin ár hafa verið tekin ýmis meiri háttar lán til alls konar fjárfestingarframkvæmda í landinu, og það er vissulega svo, að í mörg horn er að líta hjá okkur í því tilliti og ekki hægt að sinna öllu í einu. En það hefur farið þannig með hafnarframkvæmdirnar, þegar þessum stóru lánum hefur verið úthlutað, að ekki hefur verið ætlað til þeirra neitt af þessu lánsfé fyrr en 1959, þegar það var gert með þeirri skiptingu í fjárlögum, sem minnzt er á í frv., og síðan hefur, eins og tekið er fram í nál. meiri hl. sjútvn., hæstv. ríkisstj., sú sem nú situr, ráðstafað 15 millj. kr. af erlendu lánsfé í þessu skyni. Síðastliðið ár og árið 1959 mun hafa verið unnið fyrir um 80 millj. kr. í höfnunum samkv. upplýsingum vitamálastjóra. Það mætti vissulega auka það fé mikið, ef vel ætti að vera í þessu tilliti, því að hafnirnar eru að sjálfsögðu undirstaða þess, að við getum gert út og eflt fiskiðnað okkar. Og ég vil leyfa mér að vænta þess, að þó að við, sem skipum meiri hl. sjútvn., teljum okkur ekki fært að taka undir það frv., sem hér liggur fyrir, þá líði ekki á löngu, þangað til hæstv. ríkisstj. gerir ráðstafanir í þessum efnum, sem geti orðið til þess að lyfta undir hafnarframkvæmdir í landinu frekar en verið hefur að undanförnu.