20.02.1961
Efri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (1773)

194. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls benti ég á, að með frv. til sveitarstjórnarlaga ætti að fella úr gildi margar greinar í lögum nr. 81 1936, um sveitarstjórnarkosningar, og eftir að þær greinar hafa verið felldar úr gildi, vantaði mikið á, að sú löggjöf yrði nægilega heilsteypt og augljós. Í annan stað benti ég á, að samræmi þyrfti að vera á milli laga um sveitarstjórnarkosningar annars vegar og hins vegar milli sveitarstjórnarlaga og laga um kosningar til Alþingis. Í framhaldi af þessu leyfi ég mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., Karli Kristjánssyni, að flytja við þetta frv. tillögu til rökstuddrar dagskrár, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Þar sem nauðsyn ber til að breyta lögum nr. 81 23. júní 1936, um sveitarstjórnarkosningar, til samræmis við sveitarstjórnarlög og lög um kosningar til Alþingis, og í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða í heild lög nr. 81 1936, um sveitarstjórnarkosningar, og leggi frv. um það efni fyrir næsta reglulegt Alþingi, þá telur deildin ekki ástæðu til að lögfesta þetta frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, en vísa til þess, sem ég sagði um málið við 1. umr. þess. Það hefur ekki unnizt tími til að láta prenta þessa till. til rökstuddrar dagskrár, og verður því að afhenda hæstv. forseta hana skriflega, og vænti ég þess, að hann taki hana til meðferðar.