23.03.1961
Efri deild: 81. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1782)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hefur skýrt frá, varð ekki samkomulag í n. um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., en það eru flm. frv. allir þrír, vill samþ. frv. með smávægilegum breyt., en minni hl., sem ég skipa ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e., leggur til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá.

Eins og hv. þm. er ljóst, er hér ekki á ferðinni frv. til breyt. á l., heldur ný löggjöf, sem á að koma í staðinn fyrir gamla. Að vísu er hún í verulegum atriðum eins og hin fyrri, en hún er líka í verulegum atriðum á annan veg.

Lög um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl. eru búin að standa óbreytt í 27 ár eða frá 1934, þegar fyrst voru sett lög um þessi mái. Þetta atriði eitt sýnir, að löggjöfin hefur gefizt vel, það hafi verið vel til hennar vandað, þar sem engar breyt. hafa verið á henni gerðar svo langan tíma, og hitt mun varla fara á milli mála, að setning þessarar löggjafar á sínum tíma hafi verið mikið nauðsynjamál. Þeir muna það, sem nú eru orðnir fullorðnir menn, hvernig ástandið var í þessum málum á þeim tímum og að þetta var ein hin þarfasta löggjöf, sem sett var í atvinnumálum þjóðarinnar. Með þessu er ég ekki að segja það, að ekki sé þörf á að breyta þessum lögum, sem svo lengi hafa staðið, eftir ýtarlega athugun. Það er fjarri mér, að ég vilji halda í lög óbreytt, af því að þau séu orðin gömul. En ég segi það, að það út af fyrir sig bendir í þá átt, að vel hafi verið til þessara laga vandað, að þeim skuli ekki enn hafa verið breytt eftir allan þennan tíma.

Þær breytingar, sem felast í þessu frv. frá eldri lögum, eru aðallega tvenns konar: dregið er mjög mikið úr verksviði síldarútvegsnefndar og skipun n. á að verða á nokkuð annan veg en hún hefur verið.

Aðalbreytingin á verksviði síldarútvegsnefndar er sú, að afnema á með öllu afskipti síldarútvegsnefndar af síldveiðum, þ.e. að öll veiðileyfi eiga nú að falla niður.

Hin breytingin er þó meiri, að hér eftir á síldarútvegsnefnd ekki að hafa nein afskipti af sölu og útflutningi annarrar síldar en saltsíldar. Síld, sem verkuð er með öðrum hætti og seld úr landi, á að vera síldarútvegsnefnd óviðkomandi. Ég bendi á, að í 3. gr. frv. er ekki alls kostar rétt orðalag á greininni, þar sem þetta er þó eitt af aðalatriðum frv., en þar segir: „Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld eða verkaða á annan hátt.“ En í niðurlagi gr. segir, að undir þessi ákvæði komi ekki ísuð síld, fryst, niðursoðin eða niðurlögð, og samkvæmt brtt. meiri hl. n. á að bæta við : „reykt síld“. Ég held, að þetta séu flest eða jafnvel alveg öll verkunarstig síldar önnur en söltun, svo að það er varla hægt að afgreiða frv. með þessu orðalagi í 3. gr. eins og það er, ef þetta á að standa í niðurlagi sömu gr. Þetta stríðir algerlega hvort á móti öðru. Það er ekki hægt að tala um það í byrjun gr., að enginn megi bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld eða verkaða á annan hátt, en tína svo upp í niðurlagi gr. öll verkunarstigin nema söltun.

Nú vil ég alls ekki segja neitt um það á þessu stigi, hvort þær breyt., sem í þessu frv. felast frá eldri lögum, eru aðkallandi eða nauðsynlegar. Til þess skortir mig kunnugleika, og ég hygg, að allmarga hv. þm, skorti nægilegan kunnugleika til að dæma um þetta. Ég býst við, að ýmsar af þessum breyt., sem farið er fram á í þessu frv., kunni að vera réttmætar. Þó efast ég um, að það séu nema sumar þeirra. En við í minni hl. m. leggjum áherzlu á það, að ekki sé flaustrað af löggjöf um þetta efni og það á allra síðustu dögum þingsins, heldur fari endurskoðun fram á þessum lögum, endurskoðun þeirra manna, sem eru kunnugastir málunum, hafa mesta reynslu um þetta og mestra hagsmuna hafa að gæta. Það eitt felst í raun og veru í okkar rökst. dagskrá, að svo sé gert.

Tveir af flm. þessa frv. fluttu á síðasta þingi frv. um þetta sama efni, en þó var það frv. nokkuð á annan veg en þetta. M.ö.o.: flm. hafa skipt nokkuð um skoðun í þessum málum síðan í fyrra. Bendir þetta ekki í þá átt, að hér þurfi rækilegri athugun á þessum málum en orðið er? Ég held, að það sé varla hægt að mótmæla því með rökum, að hér þurfi að endurskoða lögin rækilega, og það leggjum við til, sem í minni hl. n. erum, með okkar rökst. dagskrá.

Hitt aðalefnisatriði þessa frv. eða breyt., sem felst í því frá eldri lögum um þetta efni, er skipun síldarútvegsnefndar. Hún er þannig skipuð nú, að þrír eru kosnir af Alþingi, einn er tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og einn er kosinn af síldarútvegsmönnum, beinni kosningu af útvegsmönnum sjálfum. Samkv. þessu frv. er lagt til, að fjölgað verði í síldarútvegsnefnd um tvo, úr 5 upp í 7. Þrír verði áfram kosnir af Alþingi, einn verði enn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn verði tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, í staðinn fyrir að hann hefur verið áður kosinn beinni kosningu af síldarútvegsmönnum, og loks komi tveir frá félögum síldarsaltenda, sem eru tvö, annað fyrir Norður- og Austurland, hitt fyrir Suðvesturland.

Ég vil benda á það, án þess að leggja dóm á, hvort það sé réttmætt eða ekki, að mér sýnist, að áhrif síldarsaltendanna eigi að verða þarna mestu ráðandi, langsamlega mestu ráðandi í þessari nefnd. Ég skal ekki dæma um það, hvort það er réttmætt eða ekki réttmætt, en ég bendi á þetta. Tveir fulltrúar eiga að vera beint kosnir af félögum síldarsaltenda. Eins og nú standa sakir munu vera tveir af hinum þingkjörnu mönnum síldarsaltendur. Þarna eru komnir fjórir, ef slíkt verður áfram. Og við vitum ekkert um hina, nema þeir kunni einhverjir að vera síldarsaltendur líka.

Ég verð að segja það, að mér virðist, að það mætti gæta meir áhrifa frá sjálfum útvegsmönnum og sjómönnum. Það má segja, að tilnefning Alþýðusambands Íslands sé á þeirra vegum, og hún á að haldast, það er engin breyting.

En hins vegar á, um leið og fjölgað er um tvo í n., að fella niður kosningu eins mannsins í n., sem nú er kosinn beinni kosningu af útvegsmönnum, en í staðinn á Landssamband ísl. útvegsmanna að nefna mann í n., en það er félagsskapur miklu fleiri útvegsmanna en síldarútvegsmanna. Ég ætla, að það séu ekki nema nokkuð á þriðja hundrað skip, sem stunda síldveiðar oftast nær árlega, en fiskiskip í landinu munu vera á milli sex og sjö hundruð, svo að viðhorf sjómanna og útgerðarmanna eru auðvitað miklu víðtækari en hvað snertir aðeins síldarútgerð. Það má að vísu ætla, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna nefni í þessa n. mann, sem er síldarútvegsmaður, en ekkert ákvæði er um það í frv.

Þá held ég, að það sé mjög óvenjulegt, að Alþingi kjósi í stjórn opinberrar stofnunar minni hl. stjórnarinnar, kjósi þrjá menn af sjö. Ég man ekki eftir neinu hliðstæðu dæmi, það kann að vera til, en ég man ekki eftir neinu slíku, þar sem stjórn opinberrar stofnunar er kosin að nokkrum hluta af Alþingi, en að nokkrum hluta af öðrum aðilum, að þá skuli hinir þingkjörnu vera í minni hl. Mér finnst, að það komi þá alveg eins til mála, að Alþingi hætti með öllu að kjósa menn í þessa n. og að öll síldarútvegsnefnd sé tilnefnd af öðrum aðilum, en að Alþingi kjósi minni hluta í slíka n., það tel ég a.m.k. óvenjulegt.

Hv. frsm. meiri hl. skýrði frá því, að það hafi aðeins svarað n. tveir aðilar af sex, sem hún óskaði eftir umsögnum frá. Það er rétt. Svo var það, þegar nál. voru gefin út. En hann skýrði frá því hér áðan og skýrði mér frá því í dag, að nú hefðu tvær umsagnir borizt í viðbót. Ég hef hvoruga þeirra séð, en hann hefur sagt mér frá þeim. Önnur umsögnin er meðmæli með þessu frv., en hin umsögnin er mótmæli gegn því. Það eru mótmæli frá Alþýðusambandi Íslands, en meðmæli frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Með öðrum orðum: af þeim sex aðilum, sem málið var sent til umsagnar, hafa þá fjórir svarað, og af þessum fjórum eru þrír meðmæltir frv., m.ö.o. allir aðilarnir, sem eiga að nefna menn fyrst nú í þessa n. Það eru saltendafélögin bæði, og það er Landssamband íslenzkra útvegsmanna, sem eiga nú að tilnefna menn í síldarútvegsnefnd samkvæmt þessu frv., en höfðu ekki þann rétt áður, svo að það er ekki beint að undra, þó að þeir mæli með frv.

En þó að síldarsaltendur eigi nú að fá svo aukin áhrif í þessari n., eins og hér er gert ráð fyrir og ég vil ekki dæma um, hvort réttmætt sé eða ekki, þá hefur nú samt málið komið til umr. hjá síldarsaltendum norðanlands, og er skammt þess að minnast, að síldarsaltendur í stærstu síldveiðistöð landsins, Siglufirði, hafa mótmælt frv.

Það er því sitt af hverju, sem mælir með því, að dagskrártill. okkar í minni hl. verði samþ., þar sem í henni felst ekkert annað en það að láta endurskoða þessi l. fyrir næsta þing, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um, að þau verði endurskoðuð og þannig betur undirbúnar till. í þessu máli af þeim aðilum í landinu, sem bezt skilyrði hafa til þess, kunnugastir eru, mesta hafa reynsluna og mestra hafa hagsmunanna að gæta. Það sýnist því ekki til of mikils mælzt, þegar á hitt er þá litið líka, að mér sýnist geta brugðið til beggja vona um, að þetta frv. nái fram að ganga, þegar svo mjög er komið að þingslitum eins og nú er, og færi nú svo, að málið strandaði hér í þinginu, yrði ekki útrætt, þá er verr farið fyrir sjálfa áhugamenn þessa frv. heldur en að fallast á okkar rökst. dagskrá, því að þá er ekki við því að búast, að neinn undirbúningur eða endurskoðun á þessum l. fari fram á milli þinga, sem maður verður að gera ráð fyrir að yrði, ef okkar rökst. dagskrá á þskj. 555 yrði samþykkt.