23.03.1961
Efri deild: 81. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1783)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Björn Jónsson:

Herra forseti. Langsamlega mikilvægasta verkefni síldarútvegsnefndar er að annast eða hafa yfirumsjón með sölu íslenzkra sjávarafurða á erlendum mörkuðum og jafnframt eftirlit með framleiðslunni í því sambandi. Þetta hlutverk, hver sem fer með það eða á að gegna því, er sérstaklega mikilvægt og jafnvel mikilvægara í þessari framleiðslugrein en öðrum vegna þess, hve framleiðsla okkar þjóðar er tiltölulega mikil í þessari grein, og það, hvernig henni er stjórnað af okkar hálfu, getur haft áhrif jafnvel á heimsmarkaðsverð viðkomandi vörutegundar.

Það hefur þess vegna lengi, eða nú um aldarfjórðungsskeið a.m.k., verið óumdeilt, að nauðsynlegt væri að hafa sölu síldarafurðanna með einhverjum hætti sem mest á einni hendi, m.a. til þess að forðast offramleiðslu, hugsanleg undirboð og annað, sem að slíku gæti stuðlað. Mér virðist a.m.k. við fljóta yfirsýn, að til greina komi aðallega þrjár leiðir til að ná þeim markmiðum, sem allir eru sammála um að stefna beri að í þessum efnum, þ.e.a.s. því markmiði, að við framleiðum sem mest magn af góðri vöru og getum selt hana við sem hagkvæmustu verði fyrir okkur. Og þessar leiðir eru í fyrsta lagí sú, að ríkisvaldið skipi þessari útflutningsgrein forstöðu með einhverjum hætti, forstöðu, sem hafi einkaleyfi á sölu og eftirlit með framleiðslunni, þ.e.a.s. að starfandi sé eins konar ríkiseinkasala á þessari útflutningsframleiðslu, og þetta er í rauninni sú leið, sem hefur verið farin síðastliðinn aldarfjórðung hjá okkur eða allt frá þeim tíma, að óheft einkaframtak í þessum efnum hafði — ásamt kannske öðrum atvikum — nær hrint þessari mikilsverðu framleiðslugrein okkar í algert öngþveiti. Í öðru lagi gæti að sjálfsögðu komið til greina, að sá aðili, sem síðastur er talinn eigandi þessarar framleiðslu hér innanlands, þ.e.a.s. síldarsaltendur aðallega og eigendur niðursuðuverksmiðja, mynduðu með sér félagsskap, sem þá hlyti löggildingu sem einkaútflytjandi í þessari framleiðslu. Og í þriðja lagi kynni svo að vera hugsanlegt, að allir framleiðendur væru, að vissu marki að minnsta kosti, frjálsir að því að selja sína framleiðslu á erlendum markaði, hver fyrir sig eða sameiginlega eftir atvikum, og yrðu þá einungis að sæta eftirliti, svipað og önnur útflutningsframleiðsla, hvað verðlaginu við kæmi Það væri svipað eftirlit með sölu á þessari útflutningsframleiðslu okkar og nú er gildandi um aðra sjávarútvegsvöru.

Það er vafalaust, að allar þessar leiðir, hver þeirra sem farin yrði, hafa eitthvað til síns ágætis, og ég ætla ekki hér að meta það, hver þessara meginleiða, sem til greina koma, sé æskilegust. En aftur á móti hlýtur hitt að liggja nokkurn veginn í augum uppi, að skipun á yfirstjórn þessara mála verður að vera í einhverju samræmi við það, hvaða leið er valin hvað skipulagið á þessum málum snertir. Það held ég að menn hljóti að vera sammála um, þó að þá að öðru leyti kunni að greina á um, hvaða leiðir sé heppilegast að fara. Ég held t.d., að engum mundi koma til hugar að setja það í lög, að t.d. stjórn ríkiseinkasölu á ákveðinni vörutegund, — við getum hugsað okkur áfengi eða tóbak, þar sem við höfum slíkar einkasölur, — að stjórn slíkra ríkisstofnana væri skipuð að meira eða minna leyti af heildsölum. Ef ekki væri slík einkasala starfandi í þessari grein innflutningsins, en heildsalar t.d. hefðu með sér samband um kaup og dreifingu á þessum vörutegundum, væri auðvitað langeðlilegast, að þeir stjórnuðu þeirri starfsemi sjálfir og hefðu allan veg og vanda af þeirri stjórn, eða þá að þeir önnuðust þetta hver í sínu lagi og þyrftu ekki að sæta neinni yfirstjórn af opinberri hálfu, annarri en þá ákvæðum verðlagseftirlits eða því um líku. Mér finnst, að í höfuðatriðum hljóti alveg sama að gilda um útflutningsgreinarnar.

Ef litið er svo á, að útflutningurinn eigi að vera í höndum ríkisins, eins og hann hefur í reyndinni verið síðustu 26 ár, þá er vitanlega langeðlilegast og raunar það eina, sem til greina getur komið, að stjórn þeirrar ríkisstofnunar sé í höndum Alþingis eða ríkisstj. og hún beri þá alla ábyrgð gagnvart öllum aðilum. Ef aftur á móti er litið svo á, að þessi útflutningsstarfsemi sé bezt komin í höndum þeirra, sem sjá um síðasta stig framleiðslunnar og virðast vera haldnir þeirri trú, að þeir séu raunverulega þeir einu, sem eigi þar einhverju um það að ráða, hvernig með hana fer, eftir að hún hefur farið í gegnum þeirra hendur, þá leiðir vitanlega af því, að þeir eiga, að hafa allan veg og vanda af því, hvernig þessum málum er stjórnað að öllu leyti. Það kemur líka fram, ef maður athugar gildandi lög um þessi mál, þ.e. síldareinkasölulögin, að þar er gert ráð fyrir þessum möguleika á þann hátt, að framleiðendum er heimilað að mynda sjálfir með sér sölusamlag á þessum vörutegundum, ef viss hluti af þeim kemur sér saman um að gera það. Það er því langt frá því, að eftir gildandi lögum sé komið í veg fyrir, að þessi önnur leið, sem ég nefndi, sé farin.

Þetta frv., sem hér er til umr., getur að mínu viti ekki skoðazt sem nein endurskoðun á meginskipulagi síldarsölumálanna, og þó að nokkrar breytingar séu gerðar á lögunum um þetta efni, þá eru þær allar harla lítilfjörlegar og skipta í rauninni engu máli um sjálfa framkvæmdina. Þó að niður séu felld nokkur ákvæði, sem eru orðin úrelt og hafa ekki verið framkvæmd árum saman eða jafnvel ekki frá byrjun, breytir það í raun og veru ekki nokkrum hlut. Eina breytingin á skipan þessara mála, sem skiptir einhverju máli, er um sjálfa stjórn síldarútvegsnefndar. Þó að frv. sé alllangt og þannig í allmiklum umbúðum, þá eru þær umbúðir eingöngu umbúðir um þetta eina atriði. Þannig er ætlun flm. að breyta stjórninni á yfirstjórn síldarsölumálanna án þess að gera nokkra breytingu á sjálfu skipulaginu sem þó hlýtur að vera algerlega ákvarðandi um það, hvernig stjórnin er saman sett. Og breytingin, sem hér er lagt til að sé gerð, er sú, eins og kom greinilega fram hjá hv. frsm. minni hl. sjútvn., 4. þm. Vestf., að það er lagt til, að stjórn þessarar ríkisstofnunar eigi hér eftir að vera þannig skipuð, að fulltrúar ríkisvaldsins, sem eiga að bera ábyrgðina og reka þessa stofnun, eigi að hafa þrjá fulltrúa af sjö, þeir eiga að vera í minni hluta í nefndinni. Um þetta er frv. og raunverulega ekki neitt annað. Og það er fljótsagt, að ég tel ekki vera heila brú í slíkri hugmynd. Annaðhvort á þessi stofnun að vera í höndum ríkisins og stjórn hennar að vera skipuð samkvæmt því eða þá að hún á að vera í höndum framleiðenda, sem þá veita henni forstöðu og hafa af henni allan veg og vanda. Það breytir ekki þessu máli, þó að sá háttur hafi verið á hafður á undanförnum árum að heimila tveimur aðilum að skipa minni hl. í þessari nefnd. Eftir sem áður hefur stjórn nefndarinnar verið að meiri hluta í höndum fulltrúa Alþingis, sem þannig hafa haft úrslitavaldið í málefnum stofnunarinnar.

Rökin fyrir því að gera þessa hlálegu breytingu eiga að vera þau fyrst og fremst, að það hljóti að vera til mikilla hagsbóta fyrir alla, sem að síldarframleiðslunni vinna. Ég hygg, að hv. flm. hljóti að hafa þar fleira í huga en bara síldarsaltendur, því að vitanlega eru þeir ekki nema lítill hluti af þeim mikla fjölda manna, sem hefur hagsmuni í þessu sambandi, að það hljóti að vera til mikilla hagsbóta, að síldarsaltendur ráði meira um afurðasöluna en þeir hafa gert hingað til. Nú vil ég alls ekki draga það í efa, að störf síldarútvegsnefndar megi gagnrýna og það jafnvel á margvíslegan hátt, og ég get verið flm. sammála um það, að henni hafi á ýmsan hátt verið mislagðar hendur, og mætti nefna um það mörg dæmi. En hvers vegna í ósköpunum nota þá ekki síldarsaltendur, sem hér eru svo mjög bornir fyrir brjósti, heimild sína, sem þeir hafa samkv. gildandi lögum, til þess að mynda sitt eigið sölusamband og fá þar með afurðasöluna, ef þeir telja það allra meina bót, og krefjast þess þá, að síldarútvegsnefnd með því hlutverki, sem hún á nú að gegna, sé hreinlega lögð niður? Ég held aftur á móti, að það sé sannast mála, að það hafi ekki sérstaklega bagað síldarútveginn, að fáir eigendur síldarsöltunarstöðva hafi ekki haft nógu mikil áhrif á störf síldarútvegsnefndar, því að það er vissulega rétt, sem fram hefur komið, að síldarútvegsnefnd hefur um árabil og áreiðanlega mjög lengi verið skipuð að meiri hluta af síldarsaltendum. En það er að vísu rétt, að þeir hafa ekki verið þar sem kjörnir fulltrúar síldarsaltenda og kannske ekki borið sérstaklega ábyrgð gagnvart þeim. En ég hygg líka, að skoðanir manna séu mjög skiptar um það og jafnvel síldarsaltenda, hvort þeir fulltrúar, sem nú yrðu kosnir af svokölluðum söltunarfélögum síldarsaltenda hér syðra og á Norðurlandi, mundu verða nokkuð betri fulltrúar síldarsaltenda en þeir, sem nú skipa meiri hluta í síldarútvegsnefnd, og ég tel það beri a.m.k. vott um, að grunsemdir um það séu nokkuð miklar uppi, að í stærsta síldarsöltunarbæ landsins hafa eigendur söltunarstöðva einróma mótmælt þessu frv., þ.e.a.s. síldarsaltendur á Siglufirði, og ég held þess vegna, að sú staðreynd styðji það mjög mikið, að þetta mál sé athugað betur. Og það er eins og ég sagði áður, að það liggur alveg ljóst fyrir, að ef síldarsaltendur væru einhuga um að stíga spor í þá átt, sem hér er lagt til, mundu þeir vilja, að sporið yrði stigið til fulls, og mundu nota heimild gildandi laga til þess að mynda sín eigin sölusambönd. Og þeir eru áreiðanlega margir, síldarsaltendurnir, ekki sízt norðanlands og kannske sunnan líka, sem gera sér vel ljósa annmarkana á þeirri skipan, sem hér er lögð til, og þó kannske enn þá ljósara, að sú grautargerð, sem hér er á ferðinni, er ekki til neinna bóta, hvorki fyrir þá né aðra. Hitt þykist ég svo vera viss um, að þeir, sem hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við síldarútveginn, og þar eru, eins og ég áður sagði, síldarsaltendur langt frá því að vera þeir einu, sem koma til greina sem réttmætir áhrifaaðilar, að þeir hafa áhuga fyrir þvú að þessi mál öll séu tekin til rækilegrar athugunar og endurskoðunar, en till. okkar í minni hl. sjútvn. styður einmitt að því, að það verði gert.

Ég sakna nú hv. frsm., ég ætlaði að ræða svolítið sérstaklega við hann, en ég vonast til, að því verði þá komið til hans, sem ég segi um það, að í sambandi við það hafa borizt umsagnir seint og um síðir frá fjórum aðilum af sex, sem hefur verið leitað til, að ég hygg, að formaður n. eigi verulega sök á, að þessar umsagnir hafa ekki legið fyrir, m.a. vegna þess, að mér er kunnugt um það, að hann hefur tjáð a.m.k. einum aðila, sem þarna kom til greina, að það væri ekki svo áríðandi að skila neinni umsögn um þetta, því að þetta frv. ætti ekki að ganga fram á þessu þingi. Ég hygg, að svona vinnubrögð hjá formanni nefndar hér í hv. deild séu — ég vil ekki segja einsdæmi, en þau eru áreiðanlega stórkostlega vítaverð, þegar formaður otar aðstöðu sína til þess að hindra það, að mál upplýsist eins og efni standa til, og ég fyrir mitt leyti vil víta þá framkomu, sem í því lýsir sér.