24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1785)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Í framhaldi af þeim umr., sem hér fóru fram í gær um þetta frv., vildi ég segja þetta í fyrsta lagi í sambandi við ræðu hv. 4 þm. Vestf. (SE):

Í upphafi máls síns talaði hann um það, að lög þessi hefðu staðið óbreytt í 27 ár, og það sýnir, að löggjöfin hefur gefizt vel. Það er rétt, að lög þessi hafa staðið óbreytt þennan árafjölda. En það er jafnalkunnugt, að mörg atriði löggjafarinnar eru löngu úrelt og hafa ekki verið framkvæmd. Enda þótt lögunum hafi ekki verið breytt, þá er það vitað, og öllum, sem hafa fylgzt með þessu máli, er það ljóst, að mörg ákvæði laganna eru löngu úr gildi fallin að því leyti, að þau eru úrelt og hafa þess vegna ekki komið til framkvæmda.

Þá sagði hv. þm., að með þessu frv. sé dregið verulega úr starfssviði nefndarinnar, t.d. falli niður veiðileyfi. Það er einmitt eitt af þeim atriðum, sem eru úrelt fyrir löngu, það eru veiðileyfin. Áður fyrr var það svo, að síldin varð ekki nýtt nema á mjög einhæfan hátt, en eftir að nýtingin varð fjölbreyttari, t.d. eftir að síldin var flutt ísuð til útlanda og eftir að farið var að frysta síld í stórum stíl til útflutnings, þá kom þetta ákvæði vitanlega ekki til greina, því enda þótt ekki væri hægt að salta síldina eða nægir markaðir fyrir þannig verkaða síld, þá var ástæðulaust að banna veiði fyrir þær sakir. Er þetta eitt af mörgum atriðum í nefndum lögum, sem er fyrir löngu úrelt og hefði átt að vera fellt niður úr lögunum, þótt fyrr hefði verið.

Þá var minnzt á það, að nú ætti nefndin eftir þessu nýja frv. einungis að hafa með höndum sölu á saltsíldinni, því að aðrar verkunartegundir væru taldar upp, sem ættu ekki að heyra undir nefndina. Áður var það aðeins ísuð síld, sem féll undan, og það var vitaskuld bara vegna þess, að þá var ekki komið til greina með hinar verkunaraðferðirnar, t.d. með niðursuðu síldar eða frysta síld, sem nú er framleidd í mjög stórum stíl. Það ákvæði, sem kom til viðbótar í brtt. nefndarinnar um að undanskilja enn fremur reykta síld, er vitanlega gert í sama tilgangi, enda aldrei ætlazt til annars en þess, að það væri fyrst og fremst saltsíldin, sem heyrði undir síldarútvegsnefndina, og það er sú verkun, sem síldarútvegsnefnd á að hafa með höndum eftirlit í sambandi við framleiðslu á og sölu saltsíldarinnar.

Í dagskrártill. eru rökin fyrir því, að það sé nauðsynlegt að endurskoða lögin betur en gert er með þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, að nauðsynlegt sé að fá til þess menn, sem bezt til þekkja um þessi mál, áður en sú breyting eigi sér stað, sem hér er lagt til í þessu frv. Í þessu sambandi vil ég benda á, að bæði í fyrra og eins nú hefur frv. þetta verið sent til síldarútvegsnefndar og til félags saltenda og enn fremur fleiri aðila. Ég tel, að þeir, sem þekkja bezt til með sölu síldarinnar, séu einmitt þessir menn, það séu síldarsaltendur og síldarútvegsnefnd. Við vitum það, að eftir að þeir hafa keypt síldina og eru orðnir eigendur að henni, þá er það enginn, sem setur sig betur inn í þau atriði, sem varða sölu síldarinnar, heldur en einmitt síldarsaltendurnir sjálfir og þá jafnframt síldarútvegsnefndin, sem hefur á undanförnum árum haft með sölu síldarinnar að gera. Það segir sig því sjálft, að með því að fá umsögn þessara manna, sem mæla með því, að frv. verði samþykkt, er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þeir hafi gert það að óathuguðu máli, þegar þeir telja, að hér sé stefnt í rétta átt.

Þá benti hv. þm. á það, að nú ætti Landssamband ísl. útvegsmanna að tilnefna mann í nefndina, í staðinn fyrir að samkv. núgildandi lögum eru það síldarútvegsmenn um land allt, sem gera það með sérstakri atkvæðagreiðslu. Það vita nú held ég flestir, sem fylgjast eitthvað með þessum málum, að ástæðan fyrir því, að Landssamband ísl. útvegsmanna varð ekki aðili, þegar lögin voru stofnsett í fyrstu, er engin önnur en sú, að landssambandið var ekki til. Vitanlega hefði það á sama hátt gerzt aðili að því að tilnefna mann í þessa nefnd eins og Alþýðusamband Íslands. Hv. þm. benti á það sérstaklega í þessu sambandi, að það væru ýmsir aðrir aðilar í landssambandinu en síldarútvegsmenn. Það er mikið rétt, að það eru fleiri aðilar en gera út á síld hverju sinni. Þó var það nú svo um tíma, að bæði togarar og bátar voru gerðir út jöfnum höndum á síldveiðar fyrir Norðurlandi, þó að það hafi verið minna um það nú á síðari árum, að togararnir tækju þátt í þeim veiðum. En ég vil þá spyrja í þessu sambandi hv. þm.: Hvers vegna vaknaði ekki athyglin hjá honum í sambandi við Alþýðusamband Íslands? Eru það eingöngu menn, sem vinna að síldveiðum, sem eru í þeim samtökum og þess vegna engin ástæða til þess að gera athugasemd við það, að Alþýðusambandið tilnefni mann í nefndina? Eða er ástæða til þess að vekja athygli varðandi Landssamband ísl. útvegsmanna á því, að það séu ekki allir, sem í þeim samtökum séu, síldarútvegsmenn? Alþýðusamband Íslands er saman sett af ýmsum stéttasamböndum, eins og alkunnugt er, hvers vegna á það að hafa sérstöðu til þess að tilnefna mann í nefndina, án þess að það séu þá sjómannasamtökin sérstaklega innan Alþýðusambandsins, sem tilnefna þennan mann? Nú er það svo í lögunum, að það er ekki tilskilið, en það er Alþýðusambandið eða stjórn þess, sem tilnefnir fulltrúa í nefndina. Og ég veit, að það byggist ekki á neinu öðru, að Landssamband ísl. útvegsmanna var ekki beinn aðili, þegar lögin voru sett á sínum tíma, en því, að landssambandið var þá ekki til. Að sjálfsögðu hefði það verið aðili á sama hátt og Alþýðusamband Íslands, eins og frumv. þetta gerir ráð fyrir.

Þetta var í aðalatriðum það, sem fram kom til athugasemda frá hv. 4. þm. Vestf. út af þessu frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) hafði haft einhver orð um það, að ég hefði sagt í viðtölum við ýmsa menn í þinginu, að þetta frv. mundi ekki ná fram að ganga á þessu þingi og þess vegna væri engin ástæða til þess að vera að flýta sér neitt með afgreiðslu á málinu. Ég veit ekki, hvort ég hef þetta alveg rétt eftir honum, því að ég var því miður ekki viðstaddur í d., þegar hann lét þessi orð falla, en ég skal þá leiðrétta, ef það er ekki rétt haft eftir. Ég get ekkert um það sagt, hvort málið nær fram að ganga eða ekki. Það er meining okkar, sem flytjum málið, að ef þess er nokkur kostur, þá nái það fram að ganga á þessu þingi. En það er hvorki ég né aðrir, sem geta fullyrt um, hvort það tekst eða ekki.

En í sambandi við það, sem hann sagði, að einkaframtakið hefði hér um bil verið búið að sigla þessari framleiðslu í strand, þegar síldarútvegsnefnd tók við málunum, þá er það mesti misskilningur, því að það var síldareinkasalan, en ekki einkaframtakið, sem var búin að sigla þessu máli algerlega í strand, þegar síldarútvegsnefnd tók við á sínum tíma. Það minnast þess allir, sem fylgzt hafa með þessum málum, að ástandið var orðið þannig, þegar síldarútvegsnefnd tók við af síldareinkasölunni, að síldartunnan var komin niður í það lágt verð, að heil tunna af síld dugði ekki fyrir aðgöngumiða á bíó, svo lágt var verðið á síldinni í höndum síldareinkasölunnar á þeim tíma, og það var ekki fyrir afskipti einkaframtaksins á þeim tíma, að svo illa var komið þessum málum, þegar síldarútvegsnefnd var stofnsett.