28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1796)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir hafður nokkuð undarlegur háttur á við afgreiðslu þessa máls og satt að segja háttur, sem er alveg óvenjulegur hér á Alþingi og gefur þess vegna ástæðu til þess, að þetta mál sé að öllu leyti athugað og rannsakað betur, vegna þess að slíkur háttur gefur tilefni til vissra grunsemda í sambandi við tilgang um að keyra mál í gegn á þann hátt, sem nú virðist eiga að gera með þetta mál.

Ég vil segja það við hæstv. ríkisstj., ef einhver af ráðherrunum léti svo lítið að vera hér við, þegar verið er að ræða svona mál, að þeir þurfa ekki yfir því að kvarta, að stjórnarandstaðan hafi gert þeim erfitt um almenna, þinglega meðferð á þeim málum, sem hér hafa legið fyrir frá hálfu ríkisstj. eða stjórnarliða. Nú seinast í gærdag, þegar þetta mál lá hér fyrir, var því vísað svo að segja umræðulaust til nefndar. Það var þá álit mitt og ég býst við margra annarra, að sú væri meiningin með þetta mál, að því væri sýnd sú kurteisi að fara hér til sjútvn., þar sem það kæmi til þessarar hv. deildar á næstsíðasta degi þingsins, til þess að það fengi að sofna þar í friði, eins og ýmis fleiri mál okkar þm. hafa fengið að gera í ýmsum nefndum þessa þings og þessarar hv. deildar. Okkur datt ekki í hug, að mál, sem svo að segja er tekið upp á allra síðustu dögum þingsins nú í Ed., það væri meiningin með slíkt mál, að það ætti að fara að reyna að gera tilraun til þess að umbylta ástandi, sem verið hefur í síldarútvegsmálum landsins, ofskiptum Alþingis af síldarútvegsnefnd, á þessum síðustu dögum. Okkur datt það satt að segja alls ekki í hug, að hæstv. ríkisstj. vildi fylgja þessu máli eftir með slíku offorsi, að það væri ekki hægt að láta svona mál fá neina meðferð í þeirri nefnd, sem því er vísað til í aðaldeild þingsins. Enn sem komið er hefur ekki unnizt nokkur tími til þess að athuga þetta mál í nefnd. (Gripið fram í: Það má ekki segja, að þetta sé aðaldeild þingsins.) Þetta er aðaldeild þingsins. Það eru 2/3 allra þingmanna í þessari hv. deild. Og ég býst við einmitt, að þegar hæstv. dómsmrh. flutti sig úr Ed. í Nd. og sýndi okkur þann heiður að sitja síðan hér á bekk með okkur, þá hafi hann einmitt gert það vegna þess, að hann hefur fundið til þess, að þessi deild væri aðaldeild þingsins, og þar vildi hann vera. Og ég vonast til þess, að hann hafi kunnað sæmilega vel við sig, síðan hann kom hingað til okkar í Nd. Um það er því ekki neinum blöðum að fletta, að þessi deild sé aðaldeild þingsins og það sé öllum ljóst, ekki sízt forustumönnum stjórnmálaflokkanna á þinginu. — Þess vegna er það engum efa bundið, að þegar þetta mál lá fyrir þessari deild í gær, þá var, eins og ég vil nú endurtaka, fyrst hæstv. dómsmrh. er kominn, — þá var það meining mín og margra annarra, að það ætti aðeins að sýna þessu máli þá kurteisi að lofa því að komast svo langt, að það færi til nefndar í þessari aðaldeild þingsins og fengi svo að sofna þar eins og ýmis góð mál. Mér datt satt að segja ekki í hug, að það gæti verið í alvöru meint um mál, sem er raunverulega tekið upp í Ed. núna til afgreiðslu þar alveg á síðustu dögum, að, það ætti að fara að reyna að setja slíkt mál í gegnum þingið. Og ég vil alvarlega mælast til þess, bæði við hæstv. forseta og hæstv. ríkisstj., ef hún hefur mikinn áhuga á þessu máli, að, það sé horfið frá öllum slíkum fyrirætlunum.

Ég held það sé alveg óhætt að segja, að stjórnarandstaðan hafi viðvíkjandi þeim málum, sem hafa gengið í gegnum þingið á sinn eðlilega máta, sízt sýnt nokkra tilhneigingu til þess að vilja koma í veg fyrir, að þau mál, sem með eðlilegum hætti kæmu hér, næðu fram að ganga. En um þetta mál gegnir allt öðru máli. Þessu máli er vísað til sjútvn. í gær, og minni hl. í sjútvn. hefur ekki einu sinni enn þá fengið tækifæri til þess að semja neitt nál. um þetta mál. Meira að segja fulltrúi Alþb. í þeirri nefnd, sem er fyrrv. sjútvmrh. og viðskmrh., hefur ekki fengið neina aðstöðu til þess að móta sína afstöðu viðvíkjandi þessu máli, koma fram með brtt. viðvíkjandi þessu máli né á annan hátt að láta þetta mál til sín taka sem fyrrv. yfirmaður þessara mála.

Það mikil festa hefur venjulega verið yfir afgreiðslu mála hér hjá okkur á Alþingi, að þegar t.d. fyrirkomulag eins og síldarútvegsnefnd er búið að vera jafnvel tvo til þrjá áratugi í tiltölulega föstum skorðum, þá hefur ekki þótt eðlilegt að fara að breyta slíku, nema það væri vandlega athugað, vel rætt í nefndum, menn fengju að bera saman lögin við gömlu lögin og menn fengju að leita jafnvel álits um þetta, þannig að það væri ekki farið að hreyfa þannig allt í einu við allgömlu fyrirkomulagi, án þess að það fengist þrautrætt. Og hæstv. ríkisstj., sem á vissum sviðum hefur breytt til um stefnu, við skulum t.d. segja í sambandi við innflutnings- og gjaldeyrismálin, hún hefur einmitt haft þann hátt á, að hún lætur af sinni hálfu undirbúa tiltölulega mjög vendilega ákveðin frv. af hennar hálfu viðvíkjandi þeim málum. Hún leggur þau mál fyrir þingið sjálf sem stjórnarfrv., þar sem hún er búin að gerhugsa málin, og segir síðan við Alþingi: Nú vil ég taka upp alveg breytta hætti um þetta mál. — Síðan gefst okkur þm. í þeim nefndum, sem slík mál fara til, tækifæri til þess að athuga þau mjög ítarlega, gefa út um þau okkar nál. og ræða þessi mál mjög ýtarlega hér í þinginu, og ég hef aldrei fengið neina kvörtun frá hæstv. ríkisstj. um, að það hafi verið neinn óhóflegur dráttur í sambandi við nein slík mál. Þetta er eðlilegur háttur, þegar verið er að breyta gömlu og grónu skipulagi í þessum efnum.

Á ýmsum öðrum sviðum hefur það verið haft þannig jafnvel, þegar menn hafa viljað fara að breyta slíku, ef um dálitið flókið mál hefur verið að ræða, að frv. hefur verið lagt fyrir Alþingi, stundum máske síðla á þingi, eins og þetta mál var lagt fram, og þm. hafa fengið tækifæri til þess að athuga það, en menn hafa um leið og jafnvel hæstv. dómsmrh, hefur hvað eftir annað fylgt stórum lagabálkum úr garði, þegar hann hefur lagt þá hér fyrir Alþingi, bæði í sinni núv. stjórnartíð og fyrr, með þeim orðum, að hann ætlaðist ekki til þess, að svona stór lagabálkur væri afgreiddur í einni svipan, heldur væri þetta athugað núna og yrði tekið upp aftur á næsta þingi. Og ég held, að þess háttar meðferð á málum, sem annaðhvort eru orðin allhefðbundin í þjóðfélaginu eða mjög mikilvæg og snerta hagsmuni margra eða réttarafstöðu margra, slíkur háttur á málunum sé réttur. Þess vegna uggði ég ekki fyrir mitt leyti að mér í gær: Mér datt ekki annað í hug en það væri sjálfsögð kurteisi að lofa þessu máli að fara til nefndar á næstsíðasta degi þingsins og það gæti ekki neitt annað búið þar á bak við. Svo framarlega sem það hefði verið meiningin og ég hefði haft nokkra hugmynd um, að það ætti að reyna að fara að knýja þetta mál í gegnum þingið, þá hefði ég fyrir mitt leyti farið að ræða þetta mál þá undireins.

Ég vil þess vegna, fyrst einn hæstv. ráðh. nú er viðstaddur, skjóta því til hans, um leið og ég beini því til hæstv. forseta, að það sé ekki reynt nú á síðustu dögum þingsins að gera þann óvinafagnað að fara að reyna að knýja mál eins og þetta í gegn á þessum allra síðustu dögum, eða svo að segja næstsíðasta og síðasta degi.

Þá er viðvíkjandi þessu máli um að ræða, á hvern hátt skuli stjórna síldarútvegsmálum landsins og hvers konar fyrirkomulag skuli hafa um söluna á einni af þeirri höfuðafurð, sem flutt er út úr landinu, á síldarútflutningnum. Nú hefði ég satt að segja kosið, þegar verið er að ræða slíkt mál, að hér hefði hæstv. viðskmrh. verið viðstaddur. Ég veit ekki, hvort hann er hér á landi nú eða hvernig er með hann. Ég hefði satt að segja haft persónulega alveg sérstaklega þörf fyrir það og ánægju af því að tala við hann í sambandi við þessi síldarsölumál. (Gripið fram í: Hann er með okkur í anda.) Já, en það gæti verið, að hann snerist frá ykkur í anda, ef hann hlýddi á mál manna hér, og svo mikið er víst, að hann hefur fundið ástæðu til þess að leita jafnvel persónulega til mín í sambandi við þessi síldarsölumál, þegar núv. ríkisstjórnarsamsteypa hefur verið í miklum vandræðum með þessi mál, og ég hefði satt að segja viljað gera þá kröfu til hans, að hann hefði sýnt þá háttvísi í sambandi við svona mál að ætla ekki að taka þátt í því að fara að reyna að þvinga fram aðgerðir í þessum málum, sem ég álít að geti verið til stórtjóns.

Við skulum gera okkur það ljóst, að ástandið í sambandi við síldarsölumálin á Íslandi er engan veginn gott. Það er ákaflega fjarri því, að það líti mjög vel út með okkar síldarsölu og að stjórnin á þeim málum sé að öllu leyti óaðfinnanleg. Það álit, sem ég hef þessa stundina af því að sjá, hvernig búið er að þjóðinni í þessum málum, er, að þarna sé stórhætta á ferðum, hætta á því, að þeir markaðir, sem við höfum á undanförnum árum og áratugum ýmist unnið okkur eða verið að reyna að halda í, séu að glatast okkur, séu að glatast fyrir ranga viðskiptapólitík. Og ég er hræddur um, að það sé komið svo, að sá aðilinn, sem við höfum jafnvel átt hvað mest viðskipti við í þessum efnum, sé orðinn mjög gramur yfir þeim viðskiptum, vegna þess að það sé staðið svo illa við þá samninga, sem gerðir séu, þannig að í þessum málum sé beinlínis hætta á ferðum, að við getum misst úr okkar höndum þá markaði, sem okkur hafa verið dýrmætastir og við höfum jafnvel áratugum saman verið að berjast fyrir að reyna að vinna. Og ég álít, að það, sem eigi alveg sérstaka sök á þessu, sé röng viðskiptapólitík, sem eðlilega hæstv. viðskmrh. fyrst og fremst hlýtur að bera ábyrgðina á.

Það er engum blöðum um það að fletta, hvað er í húfi, svo framarlega sem þarna er farið rangt að. Við vitum, að síldin er raunverulega einhver allra dýrmætasta vara, sem við fáum hér á land, og það má með réttum aðferðum gera úr henni meiri auðæfi en úr nokkurri annarri vöru. Þó hefur ástandið í þessum síldarmálum langa lengi verið slíkt, að framfarir hafa verið hverfandi litlar um að vinna að því með skipulögðum ráðum að fullvinna þessa vöru. Ef eðlilegt hefði verið um okkur Íslendinga, þá hefðum við verið búnir að koma okkar síldarmálum í það horf fyrir löngu, að svo að segja mestöll sú vara, sem verulega góð væri af Norðurlandssíldinni, væri lögð niður, við legðum hana í dósir í íslenzkum niðurlagningarverksmiðjum. Við höfum í íslenzku síldinni svo að segja einokun á vöru í heiminum, sem á engan sinn líka, svo framarlega sem hún er meðhöndluð þannig, að hún sé lögð niður í dósir og seld sem „gaffalbitar“ og annað slíkt. Þá er þetta eitthvert mesta lostæti, sem sézt getur og fundizt á borðum. Hefði verið veruleg framtakssemi í þessu máli, þá hefði fyrir löngu verið tekið að vinna að því að koma hér upp niðurlagningarverksmiðju. Erfiðleikarnir í þessum málum hafa verið þeir, að áhrif erlendu kaupendanna og þá fyrst og fremst þeirra sænsku á íslenzka síldarsaltendur og sérstaklega síldarsaltendur norðanlands hafa í marga áratugi verið meinsemd í íslenzku verzlunarlífi. Áhrif sænsku síldarkaupendanna á síldarsaltendur norðanlands hafa svo valdið því, að það ófremdarástand hefur haldizt, að við höfum fyrst og fremst selt meginið af allri þessari síld sem nokkurs konar hráefni úr landi. Þetta er ástand, sem fyrir löngu hefði þurft að vera farið að ráða bót á. En tengslin á milli saltendanna og síldarkaupendanna sænsku hafa verið slík, alveg frá því að Siglufjörður var eins og sænsk nýlenda, að við höfum aldrei getað losnað almennilega úr þeim viðjum. Við þyrftum að koma þessu meir og meir í það horf, að kaupendurnir í Svíþjóð yrðu meira eða minna knúðir til þess, jafnvel kannske í samstarfi við okkur Íslendinga, að láta verka síldina þannig, að hér væri gengið frá henni í þær niðurlagningardósir, sem hún er vinsælust í, bæði í Svíþjóð og Bandaríkjunum og víðar.

Ef við eigum þess vegna að fara að taka síldarútvegsnefnd og fyrirkomulagið í henni til endurskoðunar, þá þurfum við hér á Alþingi að ræða þessi mál alveg ofan í kjölinn. Við þurfum að athuga, hvað það er, sem hefur verið að í þessum málum, og hvað það er, sem við viljum láta breyta, á hvern hátt við viljum láta reka okkar verzlunarpólitík í þessum efnum, hvert það er, sem við viljum stefna. Og ég veitti að ef við sjálfir tökum ekki upp á að gera þetta, þá fer illa fyrir okkar mörkuðum. Ég veit, að það er sama ástandið að vissu leyti í Sovétríkjunum, sem hafa verið stór markaður hjá okkur. Þar eins og annars staðar gengur þróunin hjá neytendunum í þá átt, að menn hætta meir og meir að kaupa síld upp úr tunnum hjá kaupmönnum. Ekki sízt ungu húsmæðurnar vilja fá sína síld eins og ýmislegt fleira, sem þær borða, niðurlagt í dósir, sem þær geta skrúfað lokið af með þægilegu móti og matreitt á kvöldborðið með lítilli fyrirhöfn, í staðinn fyrir að þurfa að vera að flaka síld og annað slíkt. Þess vegna er gefið, að við þurfum að vinna að því að gerbreyta í þessum málum. En það þýðir, að við þurfum að skapa þá aðstöðu í síldarsöltunarmálunum, að það sé enginn aðili hér á Íslandi, sem geti komið í veg fyrir þessa hluti, og það sem væri þó enn betra, að þær stofnanir, sem hefðu að einhverju leyti með þetta að gera, reyndu að ýta undir þessa þróun og hjálpa til við hana, en ekki standa í vegi fyrir henni, eins og oft hefur verið undanfarið.

Ég veit, að það er ekki aðeins hvað snertir Norðurlandssíldina, sem þarna er hætta á ferðum. Það er líka hætta á ferðum viðvíkjandi Suðurlandssíldinni, þó að þar séu nokkuð aðrar aðstæður og þó að sú síld vegna þess, hve hún er annarrar tegundar og annars eðlis, þurfi allt aðra meðferð. Ég sé ekki betur en þar vofi yfir jafnvel enn þá meiri voði en Norðurlandssíldinni. Ég sé ekki betur en sú viðskiptapólitík, sem nú hefur verið tekin upp, sé að stórspilla síldarsöltunarmöguleikunum, og ekki aðeins síldarsöltunarmöguleikunum, heldur líka möguleikunum á að flytja síldina út í ýmsu öðru formi, flytja hana út frysta og annað slíkt.

Ég er hræddur um, ef hæstv. viðskmrh. væri hér viðstaddur, að það væri fróðlegt að fá hjá honum dálitla lýsingu á því, hvernig t.d. einn sá markaður, sem okkur hefur verið sérstaklega dýrmætur í sambandi við sunnanlandssíldina, markaðurinn í Austur-Þýzkalandi, muni vera að þróast núna. Ég vil minna á að síld hefur löngum verið beinlínis gullkista fyrir Ísland. Og það er ákaflega hart, ef við eigum nú að fara að horfa upp á það, að markaðir, sem við með ærinni fyrirhöfn höfum aflað og höfum oft orðið að reyna að hjálpast að allir að reyna að halda, séu brotnir niður fyrir ranga viðskiptapólitík í þessum efnum.

Það eru miklir hlutir, sem þurfa endurskoðunar við í sambandi við síldarútvegsmálin. Og nú kemur hér fram nýtt frv. um þessi mál, frv. um að breyta þarna til, og þá verður mér satt að segja fyrst af öllu fyrir að spyrja: Hvernig stendur á því, þegar þm. úr hv. stjórnarliði flytja nú frv. um breyt. á síldarútvegsmálum og sölumálunum þar, að þeir fara ekki inn á að leggja til, að þeirra stefna sé framkvæmd í þessu máli? Mér hefur verið tjáð hvað eftir annað, að það sé yfirlýst stefna núv. hæstv. ríkisstj. að koma á frelsi, koma á verzlunarfrelsi í viðskiptamálum, stefnan sé sú, að almenningur í landinu eigi að fá að vera frjáls um að nota íslenzkar auðlindir og vinna úr jafnt íslenzkum fiski sem öðrum þeim auðlindum, sem hér eru til, frjálsir eigum við að mega flytja þessar vörur út; frjálsir eigum við að mega selja þær á erlendum mörkuðum, frjálsir eigum við að mega berjast fyrir því að vinna erlenda markaði fyrir íslenzkar vörur, m.ö.o.: þarna eigi að ríkja frelsi, það eigi að vera frelsi einstaklingsins, frelsi þeirra samtaka, sem þarna eru, frelsi peninganna og frelsi vinnunnar. Og má ég nú spyrja, svo framarlega sem þeir menn, sem þetta frv. fluttu í Ed., kynnu að eiga einhverja málsvara hér í Nd., hvernig stendur á því, þegar núv. hv. stjórnarlið tekur upp á því að ætla að fara að endurskoða fyrirkomulagið á síldarútvegsnefnd, að þeir skuli ekki leggja til að koma á sínu margþráða frelsi í þessum efnum? Hvernig stendur á því? Frelsið ætti að þýða það, að leyfilegt væri að vinna hér úr síldinni á allan mögulegan hátt, salta hana, reykja hana og annað slíkt, og berjast fyrir því á öllum mögulegum mörkuðum að reyna að koma henni inn. Hvernig stendur á því, að okkur almennum borgurum í landinu er ekki boðið að fá að njóta þessa frelsis? Hvaða hagsmunir eru hér að verki, sem vilja meina þeim almenna íslenzka borgara, þeim manni, sem veiðir síld eða vill salta síld, að selja sína síld til útlanda og reyna að vinna henni markað eða mynda alls konar samtök um það, ef menn vilja það heldur? Hvað er það, sem er á móti slíku? Mig langar til þess að fá fram frá hálfu hv. þm. stjórnarliðsins hér í Nd., að fá að heyra, hvað það er, sem þeir hafa á móti viðskiptafrelsinu. Ég hef hingað til heyrt þá lofsyngja þetta, og mig langar til þess að vita, hvað það er, sem þeir hafa á móti því. Það ætti þó víst að vera óhætt að segja það.

Það hefur verið svo undanfarið, þegar við höfum verið að ræða hér ýmis mál, við skulum segja í sambandi við t.d. útflutning á fiski, að það hefur stundum verið á það bent, hvort það væri ekki rétt að fara að innleiða meira frelsi á þeim sviðum en verið hefur. Ríkisstj. hefur þar allt í sínum höndum sjálf, að veita öll leyfi, sem þyrfti til útflutnings á hraðfrystum fiski eða söltuðum fiski eða skreið, og hún hefur notað þetta vald til þess að veita þeim samtökum, sem þarna hafa starfað að, einum eða tvennum, einkaaðstöðu til útflutningsins. Nú nýlega var rætt allmikið um þetta mál hér í þessari hv. d. í sambandi við till., sem ég flutti um vissa rannsókn, sem ég óskaði eftir á einum slíkum samtökum, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Og það komu fram ýmsar upplýsingar viðvíkjandi ráðstöfunum, sem gerðar höfðu verið af hálfu þeirra, sem stjórna þeim samtökum. En það kom mjög greinilega fram í því sambandi, að menn kærðu sig ekkert um frelsi á því sviði. Ég upplýsti það þá, að t.d. amerískir innflytjendur hefðu óskað eftir að kaupa freðfisk frá Íslandi, en þeir hefðu ekki getað fengið að kaupa freðfisk frá Íslandi. Það var ekki hægt að fá hann keyptan. Það var enginn annar aðili, sem gat fengið hann keyptan, heldur en það samband, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafði myndað þar vestanhafs. Þannig kom mjög greinilega í ljós, að menn vildu viðhalda mjög harðvítugri einokun á þessu sviði.

Nú komum við að ástandinu í síldarútvegsmálunum, hvernig fara skuli með söluna á íslenzku síldinni, og þá koma þrír þm. úr hópi frelsisins, því að frelsissinnar eru þeir, og leggja fram frv. um að fara að gerbreyta öllu skipulagi útflutnings síldarútvegsnefndar. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt, að hæstv. forsrh. er nú kominn í salinn. Ég var að lýsa eftir því í ræðu minni hér áðan, hvernig á því stæði, að þrír frelsissinnar úr liði hæstv. ríkisstj. fara að flytja frv. í Ed. um endurskoðun á síldarútvegsmálunum og sérstaklega um útflutninginn á síld, — hvernig á því stæði, að þessir menn legðu ekki til að taka nú upp frelsi um útflutning á síld frá Íslandi. Við höfum heyrt þess getið, þm. stjórnarandstöðunnar, að hæstv. núv. ríkisstj. væri ákaflega hlynnt frelsi í viðskiptum og hún vildi, að landsmenn hefðu sem allra mest frelsi til þess að mega flytja út sína vöru, framleiða sína vöru, selja sína vöru og vinna markaði fyrir íslenzka vöru. Svo þegar þrír þm. stjórnarliðsins taka sig saman um að flytja frv. til þess að fara nú að kollvarpa gömlu fyrirkomulagi, sem þarna hefði verið um síldarútflutning, þá bregður allt í einu svo við, að þeir leggja ekki til að gefa þetta frjálst. Þeir leggja til að viðhalda þarna einokun, breyta þeirri einokun og jafnvel gera þá einokun enn sterkari. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvernig stendur á þessu? Trúir hæstv. ríkisstj. ekki sjálf á frelsið í þessu? Trúir hún ekki á einstaklingsframtakið? Trúir hún ekki á verzlunarfrelsið? Eða er þetta vegna þess, að þessir þrír þm. hafa tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstj. og hún hafi orðið að beygja sig á eftir fyrir þeim? (Forsrh.: Það skyldi nú ekki vera, að þeir hefðu skoðanafrelsi í Sjálfstfl.?) Nú, kannske að það sé þannig. En er þá allur Sjálfstfl. þegar hann einu sinni fékk að hugsa frjálst, er hann þá allur kominn á þá skoðun, að einokun sé betri en frelsi? Þetta er sem sé mjög mikilvæg upplýsing, sem hæstv. forsrh. nú gefur, og hún gefur alveg sérstakt tilefni til umþenkinga. Hæstv. forsrh. upplýsir okkur um það, að í Sjálfstfl. ríki skoðanafrelsi í síldarútvegsmálum, skoðanafrelsi í síldarútvegsmálum hafi leitt til þess, að ákveðnir þm. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að frelsi um verzlun í sambandi við síld sé alveg ófært fyrirbrigði. Þegar hæstv. forsrh. sleppti taumnum af þessum þm. sínum og leyfði þeim allt í einu að fara að hugsa, þá komust þeir að þeirri niðurstöðu, þegar þeir voru búnir að hugsa alveg fram til 15. febr., að frelsi væri eitt af því skaðlegasta, sem orðið gæti í sambandi við síldarútveg eða eitthvað annað slíkt, þarna yrði að sjá um að viðhalda einokun. Má ég spyrja hæstv. forsrh.: Er meiningin að gefa skoðanafrelsi á fleiri sviðum í Sjálfstfl., og við hverju megum við eiginlega búast, þegar þessir þm. ætla allt í einu að fara að taka upp á þessum fjanda að hugsa og það meira að segja sjálfstætt?

Hæstv. ríkisstj. byrjaði sína veru á því að boða frelsi, tilkynna þjóðinni, að nú eigi að innleiða frelsi, nú eigi að koma á hinu langþráða verzlunarfrelsi og afnema þau óskaplegu höft, sem verið hafa í ein 30 ár, loksins sé röðull frelsisins upp runninn yfir íslenzka þjóð. Og svo gerist þessi skrambi, að þegar stjórnin er búin að sitja hálft annað ár, þá tekur hæstv. forsrh. upp á því að gefa Sjálfstfl. skoðanafrelsi í síldarútvegsmálum. Og hvað kemur svo út úr þessu? Það kemur út úr þessu, að allt, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að hugsa um frelsi og boða um frelsi frá upphafi vega, þetta hefur reynzt tóm helvítis vitleysa. Og nú kemur afleiðingin af skoðanafrelsinu í Sjálfstfl.

Ef þessar upplýsingar hefðu verið komnar fram í Ed., þegar þetta mál var rætt þar, þá hefði verið ástæða til að ræða málið af meiri alvöru en það var rætt þar. Hefðu menn vitað, að þetta var það eina pródúkt, sem sézt hefur í þinginu af skoðanafrelsi þm. Sjálfstfl., þá hefðu menn sýnt þessu frv. í Ed. miklu meiri virðingu. Menn hefðu rætt þetta og grandskoðað þetta á allan mögulegan hátt, því að slíkan grip hafa menn ekki séð hér áður. Hingað til hefur það verið hæstv. ríkisstj., sem hefur komið fram með hin og þessi mál og sagt við sína þm.: Heyrið þið, nú verðið þið að gera svo vel og beygja ykkur, það er alveg sama, hvaða skoðun þið hafið á þessum málum. — Stundum tekur það kannske eina viku, stundum tekur það einn mánuð, stundum tekur það lengri tíma, en að lokum eru þingmennirnir komnir á skoðun ríkisstj. En hér aftur á móti fengu þeir allt í einu skoðanafrelsi, hv. þm. Sjálfstfl. Ég er hræddur um, að þetta mál hefði verið rannsakað öllu betur í Ed.n ef menn hefðu vitað slíkt.

En nú verður mér aftur að spyrja: Er ekki ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að fara að athuga sinn gang í málinu, ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að þegar hún leyfir sínum þingmönnum skoðanafrelsi, þá komist þeir að þeirri niðurstöðu, að frelsið, sem hún boðar, sé til bölvunar. Hvernig væri, að þm. Sjálfstfl. færu nú að athuga alvarlega út frá skoðanafrelsi allt það, sem ríkisstj. hefur verið að gera fram að þessu, allar hennar ráðstafanir í sambandi við verzlunarmálin, í sambandi við innflutninginn og í sambandi við útflutninginn? Ég er nefnilega hræddur um, fyrst það hafa verið stjórnarfrumvörp, sem voru flutt um innflutninginn og útflutninginn hér á undanförnum þingum, þá hafi sem sé ekkert skoðanafrelsi í Sjálfstfl. komizt þar að. Og ef hæstv. forsrh. tæki upp á því núna að gefa sínum þm. skoðanafrelsi í þeim málum, þá er ekki gott að vita, að hvaða niðurstöðu þeir kæmust. Ég er sem sé hræddur um, að þegar hæstv. ríkisstj. stendur nú frammi fyrir því, að hennar þm. fara að hugsa frjálst og komast að þeirri niðurstöðu, að verzlunarfrelsið sé svona lítils virði, þá verði hún að fara að endurskoða alla sína pólitík, og ég held satt að segja, að það sé full ástæða til þess.

Ég var að minnast á það áðan í minni ræðu, áður en henni var frestað, — hæstv. forsrh. var ekki við þá, — að ástandið í síldarsölumálunum væri satt að segja þannig, að það væri full ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að fara að endurskoða þessi mál, og ég gat þess, að það mundi vera komið þannig ástand í síldarútvegsmálunum, að þeir markaðir, sem við á undanförnum árum og áratugum höfum verið að reyna að vinna, væru í hættu, þessir markaðir væru að brotna niður, þeir væru að eyðileggjast, og það væri þess vegna full ástæða til þess að taka þetta mál miklu rækilegri tökum en hér er gert og taka þetta mál til verulegrar umræðu í þinginu út frá þeim þjóðarvoða, sem yfir vofir í þessum málum. Ég býst við, að hæstv. forsrh. sé það jafnvel enn kunnugra en mér, hvernig ástandið bæði viðvíkjandi Norðurlandssíldinni og viðvíkjandi Suðurlandssíldinni er í þeim málum og hvernig útlitið er þar viðvíkjandi okkar mörkuðum. Þessir hlutir og þetta ástand allt saman þarf þess vegna algerrar endurskoðunar við. Það hefði þess vegna verið eðlilegur og sjálfsagður hlutur, svo framarlega sem hafa ætti eðlilegan hátt á umr. um mál eins og þetta, að þetta hefði verið athugað verulega í sameiningu. Í nefndum þingsins er tækifæri til þess. Hæstv. ríkisstj. hefur a.m.k. stundum álitið, að það væri heppilegt að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum um svona mál. Og þegar er verið að gera stórar ráðstafanir í svona málum, þá hefur það hingað til tíðkazt og það líka hjá núv. hæstv. ríkisstj., að stjórnarandstaðan fengi sína möguleika á því að athuga málin, koma fram með sinar hugmyndir um þau, gera sínar breytingartillögur við þau og ræða þau jafnvel alveg bróðurlega við ríkisstj. Hér hefur ekki verið hafður sá háttur á. Hér er eins og hlaupið hafi eitthvert írafár í þetta mál og allt í einu hafi verið stokkið til og sagt, að þetta mál eigi nú að ná fram að ganga.

Hvað er það þá raunverulega, sem lagt er til að gera í sambandi við þetta. Ef menn hafa með því að fara að hugsa nú frjálst um þessi mál komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki bæri að hörfa til frelsisins, heldur styrkja raunverulega þá opinberu íhlutun í mál, þá var náttúrlega hægt að hafa ýmiss konar hátt á því. En sá háttur, sem hér virðist valinn, er sá að fara sérstaklega að gefa saltendum — sérstökum félögum saltenda — aðstöðu til þess að ráða þarna allmiklu með. Það má lengi um það deila, hverjir ættu að ráða, ef maður ætlaði að fara að gefa ýmsum hópum þarna rétt til þess að ráða. Ef til vill eiga sjómenn og útvegsmenn ekki öllu minna undir þessu en saltendurnir. Ef til vill mundi sjómaðurinn og útvegsmaðurinn, sem kemur að landi með sinn afla, vilja segja: Ég vil fá að vera frjáls, og ef ég fæ ekki að vera frjáls, þá vil ég fá að ráða allmiklu um það, hvort mín síld fæst söltuð eða ekki. — Ég er hræddur um, að sjómönnum og útvegsmönnum, sem kæmu að landi með góðan afla og góða síld, þætti það anzí hart, ef allt í einu kæmu einhverjir saltendur og segðu við þá og hefðu vald og afl til þess að geta gert það. Þú færð ekki að salta þessa ágætu síld, af því að ég ræð því, hverjir fá að salta. — Ég er hræddur um, að mönnum fyndist, jafnvel þó að það væri skoðanafrelsi í Sjálfstfl., fara nokkuð lítið fyrir atvinnufrelsinu í síldarsöltuninni, sjómönnunum og útgerðarmönnunum, þegar þannig væri komið. Það er þess vegna engin sérstök ástæða til þess, að saltendur eða þeirra samtök hefðu þarna nein afgerandi áhrif á, hve mikið fengist saltað í landinu. Ég þekki það til í þessum málum, að ég veit ósköp vel, hverjar tilhneigingar saltendanna eru í þessu efni. Tilhneigingar saltendanna eru alltaf þær að salta sem minnst og reyna að fá sem hæst verð fyrir hverja tunnu. Saltendurnir eru út af gamalli reynslu fyrst og fremst verulega hræddir við eitt, og það er of mikil söltun. Það er það, sem þeir eru hræddastir við af öllu, enda hefur það oft reynzt þeim þungt í skauti. En að láta hagsmuni þeirra eina ráða þarna og með þeirri breytingu, sem hér er lagt til, að gefa þeim á vissan hátt kannske úrslitavald þarna, það nær bókstaflega ekki nokkurri átt. Þar að auki er vitalegt, að því fer fjarri, að saltendur séu sammála um þetta. Saltendur og þeirra félög hafa þarna mjög mismunandi skoðun. Saltendur eru alveg klofnir í þessum málum. Það er ekki einu sinni sameiginleg ósk allra saltenda, sem þarna er á bak við. Þess vegna, ef ætti að fara að endurskoða þetta mál og skapa þarna ýtt skipulag, þá er ákaflega margt annað, sem þarna kæmi til greina, og hagsmunir saltendanna eru sannarlega ekki hagsmunir, sem mega, þótt sjálfsagt sé að taka tillit til þeirra, vera einhlítir í þessu efni, og þeir mundu ekki vera það, svo framarlega sem þetta er frjálst, svo framarlega sem mönnum væri leyfilegt að salta og selja eins og hver út af fyrir sig treystir sér til og hefðu ekki annað aðhald en það, sem mikið var talað um fyrir tveim árum, þegar frelsið var innleitt í voru landi, að menn færu þá á hausinn, ef þeir stæðu sig ekki með það að selja sína vöru. Þess vegna eru þessar tillögur mjög varhugaverðar í þessu sambandi, og ég er meira að segja hræddur um, að þær upplýsingar, sem fyrir liggja í þessum málum, í grg. þessa frv., séu alls ekki réttar.

Ég vil þess vegna alvarlega beina því til hæstv. ríkisstj. að vera ekki að taka upp á því nú á síðasta degi þingsins, sem átti að vera, að reyna að knýja svona þingmannafrumvörp í gegn. Stjórnarandstaðan hefur sýnt þeim málum, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið með, alveg fulla tilhliðrunarsemi, og ég sé ekki, að ríkisstj. hafi haft þar yfir neinu að kvarta. Í þeirri trú, að það væri meiningin, að þetta mál yrði, eins og kallað er, saltað í nefnd, var það látið fara til 2. umr. Og ég fæ satt að segja alls ekki skilið, hvað það er, sem gæti allt í einu valdið því, að það væri svona mikil nauðsyn á að knýja þetta mál fram, eða hvers konar offors það er, sem það er sótt með. Ég vil vekja athygli á því, að eðlilega meðferðin á máli eins og þessu væri, að það væri bara lokið um það 1. umr. og það látið daga uppí, en ef menn vildu fara eitthvað alvarlegt að gera í þessum málum, þá væri annaðhvort af hálfu hæstv. ríkisstj. sett nefnd til þess að athuga um fyrirkomulagið í þessum málum eða þá jafnvel sett milliþinganefnd í það. Það er í hæsta máta óviðkunnanlegt að ætla að bylta á nokkrum dögum í þinginu fyrirkomulagi, sem búið er að standa í 20–30 ár í þessum efnum. Ég vil þess vegna leyfa mér, eins og ég gerði í upphafi míns máls, að beina því til hæstv. ríkisstj., að hún sé ekki að sækja þetta mál með neinu offorsi, og beina því til hæstv. forseta, að um þetta mál verði hafður sá háttur á, sem eðlilegt er um þingmannafrv., sem lítið hefur verið rætt og enga athugun hefur fengið í nefnd, að það verði látið rólega daga uppi nú á þinginu, en ekki verði freistað að gera þann óvinafagnað í lok þingsins að reyna að fara að beita einhverjum óvenjulegum aðferðum til þess að knýja svona mál fram að óhugsuðu máli.