28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég get tekið undir þær skoðanir tveggja síðustu ræðumanna, sem hér hafa komið fram, að mjög sé óviðeigandi sá háttur, sem hafður hefur verið á afgreiðslu máls þessa hér á hv. Alþ. Því hefur verið lýst, að frv. þetta kom til meðferðar hv. d. fyrst í gær, og mér skilst, að það sé ákvörðun ríkisstj. að knýja það í gegn fyrir þinglok.

Ég þarf ekki að rekja eða fara mörgum orðum um, hversu nauðsynlegt væri að endurskoða ekki einungis löggjöfina um síldarútvegsnefnd, heldur taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar og endurskoðunar lagaákvæði öll varðandi sölu síldar til útlanda og meðferð hennar hér innanlands. Ég er dálítið kunnugur þessum atvinnuvegi, hef alizt upp við hann á Siglufirði og þekki hann því dálítið af eigin raun. Mér hefur oft blöskrað, þegar ég hef hugsað um þessi mál, hversu lítil framför hefur orðið á þessum mikilvæga þætti athafnamála okkar Íslendinga. Eins og löggjöf um síldarútvegsnefnd er nú háttað, þá á hún m.a. að hafa forustu um markaðsöflun og markaðsleit, fína nýjar síldarverkunaraðferðir o.fl. Ég held, að síldarútvegsnefnd hafi mjög brugðizt þessu hlutverki sínu.

Íslendingar hafa, frá því að ég man fyrst eftir, verkað saltsíldina á mjög svipaðan hátt. Það hefur verið um mikla fábreytni að ræða, og mér hefur oft fundizt það skrýtið, að Íslendingar á árinu 1960 skyldu enn viðhafa þann frumbýlingshátt í þessari atvinnugrein að taka síldina og setja hana afhausaða niður í 100 kg tunnur og flytja þannig til útlendinga til þess að sjóða niður í dósir og verka á annan hátt, — verkefni, sem við sjálfir gætum auðveldlega annazt og gert þannig síldina miklu verðmætari þjóðarbúinu en hún er núna.

Ég átti þess einu sinni kost að koma í sænska niðursuðuverksmiðju, sem var að verka Íslandssíld, Norðurlandssíld. Síldin var tekin upp úr tunnunum og lögð niður í dósir. Framkvæmdin var ákaflega einföld, og ég er sannfærður um, að við gætum auðveldlega gert þetta sjálfir. Ég fór að grennslast um verðlag á síldinni, þegar búið var að vinna hana þannig, og ég gat ekki betur séð en það væri a.m.k. áttfalt á við það, sem útlendingarnir keyptu hana af okkur, þannig að ég tel, að hér sé geysilega mikið verkefni að vinna og mikilvægt þjóðarbúinu. Forustan í þessum málum þarf að vera meir vakandi en hún hefur verið til þessa, og raunverulega getur hv. Alþingi ekki sýnt sama sinnuleysið í þessum síldarverkunarmálum og verið hefur á mörgum undanförnum þingum.

Mér er kunnugt um, að á mörgum þingum hafa verið flutt frv. eða þáltill. um að stofnsetja niðursuðuverksmiðju á Siglufirði og víðar, en þau frumvörp hafa aldrei fengizt afgreidd á hv. Alþingi og dagað þar uppi.

Það er einkennilegt, að við sölu saltsíldar á Íslandi er hátturinn sá, að útlendingarnir hafa keypt hana, eins og ég hef áður sagt, í heiltunnum með um 100 kg í hverri tunnu. Þegar útlendingarnir yfirtaka þessa síld okkar, er hátturinn sá, að þeir taka úrtak úr síldinni, láta vigta það, og hver einasta tunna verður að ná þessari lágmarksvigt. Ef hún nær henni ekki, þá er viðkomandi „partí“ fellt, og fara verður yfir það aftur. Þó að hins vegar 9 tunnur af hverjum 10, sem eru í þessu úrtaki, skili kannske 5 eða 6 kr. umfram lágmarksþungann, er ekkert tillit tekið til þess. Þannig taka kaupendurnir árlega svo og svo mikið af saltsíld út úr landinu, sem þeir borga ekki eina einustu krónu fyrir.

Í annan stað vil ég til upplýsingar fyrir hv. þm. geta þess, að sá háttur er líka kominn á hjá þessum erlendu kaupendum, að þegar þeir eru að vigta þessar úrtakstunnur, hafa þeir venjulega dregið frá vigtinni 2 kg, sem þeir áætla fyrir pækil, er kynni að loða við síldina, þegar hún er vigtuð. Á þennan hátt hafa kaupendurnir að mínu viti náð verulega miklu magni saltsíldar út úr landinu án þess að greiða einn einasta eyri fyrir, og það má einkennilegt teljast, ef ekki er hægt að fá breytingu í þessu efni.

Þær breytingar, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir á gildandi lögum um síldarútvegsnefnd, eru ekki margar og í sjálfu sér ekki mjög stórvægilegar. Mér sýnist, að aðalatriðið í sambandi við frv. þetta sé að fjölga í n. úr 5 mönnum í 7. Til viðbótar þeim 5 mönnum, sem hafa verið í n., á nú að kjósa 2 fulltrúa til viðbótar eftir tilnefningu Félags síldarsaltenda á Norðausturlandi og Félags síldarsaltenda á Suðvesturlandi. Ég get fallizt á, að eðlilegt sé, að framleiðendasjónarmiðin ráði miklu í síldarútvegsnefnd, og spurning er, hvort það væri ekki heppilegasta skipulag þessara mála, að um frjáls samtök framleiðendanna væri að ræða og þeir kysu sínar stjórnir. En ég sé ekki, að fjölgun í n., eins og lögin eru nú, sé til nokkurra bóta. Ég held, að hér af leiði aðeins aukinn kostnað fyrir þá, sem standa í þessum atvinnuvegi, en sá kostnaður er meira en nógur fyrir.

Eitt af verkefnum síldarútvegsnefndar er m.a. að ákveða fersksíldarverðið til sjómanna og útvegsmanna á hverju ári. Það væri því ekki óeðlilegt, fyrst Alþingi á annað borð er að kjósa þessa nefnd að meira eða minna leyti, að það gætti þá nokkurs jafnvægis um sjónarmið síldarsaltenda eða síldarkaupenda annars vegar og síldarseljendanna hins vegar, það er að segja sjómannanna og útvegsmannanna. En svo er ekki. Nú á að bæta við í n. tveimur fulltrúum, sem á að skipa úr hópi síldarkaupenda. Fyrir var í n., eins og hún var skipuð, a.m.k. einn úr þeirra hópi, sem Alþ. hefur kosið, og raunar tveir, því að annar hefur það samband við ákveðna síldarsöltunarstöð, að telja má, að hann hafi verulegra hagsmuna þar að gæta. Þá hefur viljað þannig til, að sá fulltrúi, sem hefur verið kosinn úr hópi útvegsmanna, hefur verið síldarsaltandi. Ef þessir menn halda áfram að starfa í n., þá má segja, að með viðbót þessara tveggja fulltrúa, sem félög síldarsaltenda eiga að leggja til, hafi síldarsaltendurnir eða síldarkaupendurnir meiri hluta í n. og þeir hafi aðstöðu til þess í sambandi við verðlagsákvarðanir á fersksíldinni til sjómanna og útvegsmanna að bera fyrir borð hagsmuni þeirra. Þetta tel ég fyrir neðan allar hellur, ef Alþingi er á annað borð að skipta sér af kosningu þessarar nefndar.

Það hefur gætt verulegrar gagnrýni á störfum síldarútvegsnefndar á undanförnum árum. M.a. hefur veruleg óánægja verið með það bæði hjá sjómönnum og eins síldarsaltendum, hversu oft hefur dregizt, að n. leyfði að byrja söltun á hverju sumri. Oft hefur þetta orsakað það, að þegar loksins leyfi var gefið til þess að byrja söltun, var bezti síldartíminn liðinu og ekki var hægt að salta nema hluta af því, sem var búið að selja fyrir fram. Ég skal viðurkenna, að það er dálítið erfitt fyrir þá sem eiga að ákveða, hvenær megi byrja söltun, að haga svo störfum sínum, að þeir verði ekki fyrir gagnrýni. En það er víst, að gagnrýnin á verkum síldarútvegsnefndar að þessu leyti er orðin svo almenn, að nauðsynlegt er, að það sé rannsakað, hvort sú gagnrýni er byggð á einhverjum rökum.

Ég held, að það væri ástæða til þess, eins og ég gat um í upphafi, að hv. Alþ. kæmi sér saman um að fresta afgreiðslu þessa máls í þetta skipti. Það hefur engan veginn hlotið þann undirbúning, sem ástæða er til að það fái. Grg. með frv. er ákaflega ófullkomin, og allar skýringar vantar í grg. um það, hvaða breytingar eigi hér á að gera frá eldri löggjöf. Þar sem hér er um veigamikið mál að ræða, sjálfa meðferðina á saltsíldinni og hvernig við eigum að vinna að markaðsöflun fyrir hana og haga verkun hennar, þá held ég, að það sé fyllilega ástæða fyrir ríkisstj. að fallast nú á þær óskir, sem stjórnarandstaðan hefur sett fram um, að mál þetta verði ekki afgreitt nú með offorsi á þessu þingi, heldur frestað fram á næsta þing og látin fara fram nákvæm athugun á því og svo raunar síldarmálunum öllum í heild.