28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Hjartarson forstjóri:

Herra forseti. Frv. það til laga, sem hér er til umr. og birt er á þskj. 367, er flutt í Ed. af þremur þm., þeim hv. 4. þm. Vesturl., Jóni Árnasyni, hv. 3. þm. Vestf, Kjartani Jóhannssyni, og hv. 10. þm. Reykv., Eggert G. Þorsteinssyni. Þetta frv. sá fyrst dagsins ljós 15. f.m. og fór til sjútvn. þann 17. s.m.

Einhverra hluta vegna svaf þetta frv. værum svefni í sjútvn. deildarinnar í rúman mánuð.

Það þóttu nokkur tíðindi, þegar þetta frv. var lagt fram, og þegar rætt var um efni þess manna á milli innan þings og utan, var gefið í skyn og því spáð af kunnugum, að þessu frv. væri ekki ætlað að verða að lögum á þessu þingi, til þess væri of skammur tími, frá því að það var lagt fram og til þingslita, það krefðist umþenkingar og þyrfti nána athugun. Þessi spá rættist þó ekki. Fjörkippur nokkur færðist í alla málsmeðferð í Ed. í kringum 20. þ.m., eftir að þetta frv. hafði verið í rúman mánuð hér í þinginu, en í þeim umr., sem hafa farið fram hér í þessari hv. deild, hefur ekkert sérstakt komið fram um það, hvað valdið hafi þessum fjörkipp.

Sjútvn. Ed. skilaði áliti, tveimur frekar en einu, og lagði meiri hl. n. til, að frv. yrði samþykkt, en minni hl., að afgreiðsla þess yrði sú, að því yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og var hún svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 74 frá 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði gerð í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í áliti minni hl. sjútvn. segir enn fremur m.a.: „Með frv. þessu er lagt til, að gerðar verði allmiklar efnisbreytingar á lögum nr. 74 frá 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl.

Það má telja eðlilegt, að endurskoðun fari fram á þessum lögum eftir svo langan tíma sem þau hafa verið í gildi. En hitt er einnig nauðsynlegt, að sú endurskoðun sé ýtarleg og gerð í samráði við þá aðila í landinu, sem kunnugastir eru þessum málum og þar hafa mestra hagsmuna að gæta.

Sjútvn. hefur athugað frv. þetta, en ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n., en það eru flutningsmenn frv., leggur til, að frv. verði samþykkt, en minni hl. n. telur, að hér þurfi að koma til ýtarleg endurskoðun á lögunum. Frv. var sent til umsagnar 6 aðilum, er fjalla um síldarútvegsmál, en aðeins tveir þeirra hafa sent n. umsagnir sínar um málið.“

Síðan bættust fleiri aðilar við, sem sendu umsögn um þetta mál, Félag síldarsaltenda á Suðurlandi, Félag síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Alþýðusambandið og Landssamband ísl. útvegsmanna, en frá tveim aðilum hefur enn ekki borizt nein umsögn, og í umr. hér hefur ekkert verið upplýst um það, hvort eftir umsögnum þessara aðila hefur verið rekið eða ekki.

Það er eftirtektarvert, að þetta frv. var látið liggja í skúffum þm. án afgreiðslu í margar vikur, en til hv. Nd. kom frv. fyrst í gær, 27. marz, og þá var það afgr. við 1. umr. til sjútvn. Fundur var haldinn í sjútvn. Nd. í gær, aðeins stutta stund, og ég vil leyfa mér að segja, að þegar tillit er tekið til þess, hvað hér er stórt mál á ferðinni, þá er málsmeðferðin í sjútvn. þessarar hv. deildar með eindæmum, því að enginn tími var hafður til að ræða þetta mál og athuga ýmis gögn varðandi afgreiðslu þess.

Þess í stað lét meiri hl. n. sig hafa það að senda frv. til hv. Nd. umhugsunarlítið og mælti með því, að frv. yrði samþykkt og gert að lögum.

Í sambandi við afgreiðslu sjútvn, þessarar hv. deildar leyfi ég mér að spyrja þá hv. alþm., sem mynduðu meiri hl. í þessari n. og mæla með frv., hvernig stóð á því, að þeim fannst ekki ástæða til að kalla fyrir sig forstöðumenn þeirrar stofnunar, sem er búin að hafa með þessi mál að gera í rúman aldarfjórðung. Hvað er það, sem veldur því, að stjórnarmeðlimir eða nefndarmenn síldarútvegsnefndar, sem verður að telja þá aðila, sem bezt þekkja þessi mál eftir langan starfsdag, eru ekki aðspurðir varðandi þetta frumvarp? Hvers vegna er ekki rætt við þá, þegar lögum um síldarsölu, sem hafa verið í gildi í landinu, á að breyta eftir tæp 30 ár? Ég vil enn fremur spyrja: Fannst þeim engin ástæða til þess að taka tillit til eða láta a.m.k. koma í grg. frá sinni hálfu mótmæli 20 stærstu síldarsaltenda í landinu gegn frumvarpinu? Ég veit ekki betur en allir síldarsaltendur á Siglufirði, að undanteknum einum, sem virðist skrifa undir álit stjórnarinnar í Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, mótmæli, að þetta frv. verði á þessu stigi málsins gert að lögum. Og ég verð að segja, að ég harma það, að þegar frsm. meiri hl. sjútvn. þessarar deildar ræddi þetta mál í upphafi, þá minntist hann ekki einu orði á þessa staðreynd.

Í grg. fyrir frv., eins og það er lagt fram í Ed., er ekki minnzt á, eins og venja er, ýmsar þær breytingar, sem verða á lögunum um síldarútvegsnefnd, ef þetta frv. verður samþykkt, heldur er þar látið skína í það, að þetta breyti sáralitlu, og ekki nákvæmlega farið út í breytingarnar, eins og er gert í flestum frv., sem lögð eru fram til breytingar á lögum.

Ég tek hér til máls m.a. vegna þess, að 99% af saltendum á stærstu söltunarstöð á landinu hafa mótmælt þessu frv. Og ég vil lýsa því hér yfir fyrir hönd þingmanna Framsfl., að við mótmælum svona vinnubrögðum og áteljum það, að hér er boðað til næturfundar um þetta mál, þegar það er búið að liggja óafgreitt í margar vikur í annarri deild og svo virðist, að ekki hafi átt að afgreiða það á þessu þingi, heldur er það látið bíða til síðustu sólarhringanna eða sólarhringsins til að troða því þá í gegn. Menn, sem eru mjög kunnugir þessum málum, hafa sagt í einkasamtölum við mig, að það væri alls ekki ætlunin, að þetta frumvarp yrði að lögum á þessu þingi, og það mun fleiri þingmönnum hafa verið sagt af þeim, sem voru þessum hnútum kunnugastir. Og ég vil leyfa mér að beina fyrirspurn til þeirra stuðningsmanna hv. þm., sem flytja þetta frv. í Ed.: Hvaða rök eru fyrir því að knýja þetta í gegn á tólftu stundu gegn vilja stjórnarandstæðinga? Það er ekki þar með sagt, að ekki sé þörf á að endurskoða þessi lög. Lögin voru sett 1934, og ég vil ekki fullyrða, að þau þurfi ekki endurskoðunar við. Ég vil ekki fullyrða hér, að það eigi endilega að vera fimm menn, sem stjórna síldarsölunni í landinu. En ég vil mótmæla því, að þetta mál sé afgreitt í því flaustri, sem virðist eiga að afgreiða það.

Ég vil þá með nokkrum orðum víkja að efni frv. og þá fyrst að þeim lögum, sem því er ætlað að breyta.

Þegar lögin um síldarútvegsnefnd voru sett í des. 1934, gekk það ekki hljóðalaust. Það hefur þótt vera þó nokkur hávaði hér í þinginu undanfarna daga. En það var ekki hávaðaminna hér, þegar sú stjórn, sem sat þá að völdum á Íslandi, var að koma fram ýmsum umbótamálum, og það væri freistandi nú eftir rúm 25 ár að lesa upp ýmsar fullyrðingar þáv. hv. þm. um þessi lög og frv. um síldarútvegsnefnd, sem þá var til afgreiðslu, en ég ætla ekki að tefja hv. þm. á því. En ég vil leyfa mér að fullyrða það, að þegar þessi lög voru sett, var brotið blað í síldarsögu Íslands.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var í ræðu sinni hér í dag að minna á frelsi í þessu sambandi. Okkur, sem vorum aldir upp við frelsi fyrir 1934 í þessum málum, langar nú ekki alveg sérstaklega í sams konar frelsi á ný. Þeir, sem söltuðu síldina, réðu öllu um það, hvenær þeir seldu síld og hvenær ekki. Maður man eftir tilfellum, þegar síldarsaltandinn gat fengið 99 kr. fyrir tunnuna, en hann vildi bíða eftir því að fá 100 kr., — honum fannst talan skemmtilegri í munni og á blaði, — en svo fékk hann ekki neitt. Síldin fór í gúanó, og það voru verkamenn og sjómenn, sem töpuðu á þessum misheppnuðu spekúlasjónum síldarsaltendanna. Það var háð duttlungum þeirra, hvort verkamannabörnin á þeim stöðum, þar sem atvinnurekstur þeirra var, héldu jól sómasamlega eða ekki, áður en þessi löggjöf var sett, sem Framsfl. beitti sér fyrir og Alþfl. 1934. Það er því ekkert undarlegt, þó að þeim, sem eitthvað hugsa um þessi mál, þyki vænt um þessa löggjöf og sé ekki alveg sama um, hvort henni sé umturnað á einni nóttu hér í löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Eftir að lögin um síldarútvegsnefnd voru sett, gerbreyttist afstaða bankanna til þeirra manna, sem ráku síldarsöltun. Áður fyrr töldu hvorki bankarnir né stærri sparisjóðir síld veðhæfa, og í mörgum tilfellum þurfti síldarsaltandinn að taka lán erlendis, sem var þá háð hættunni um gengisbreytingu og háð ýmsum öðrum skilyrðum, m.a. sölu, en þetta breyttist eftir tilkomu laganna.

Síldarútvegsnefnd hefur að mínum dómi reynt að gera á hverjum tíma það bezta, sem hún taldi, fyrir saltendur og síldarútveginn og landið í heild. Hins vegar er með verk þessarar n. eins og verk annarra, að þau eru oft misheppnuð, og það verður að segjast hér, að stundum hafa ráðstafanir síldarútvegsnefndar verkað öfugt við það, sem hún ætlaðist til. En sjálfsagt hefur hún sínar málsbætur.

Þeir, sem styðja þetta frv., segja, að það breyti engu, nema það fjölgi um tvo í síldarútvegsnefnd. Það er rétt, það fjölgar um tvo. En hvort það breytir einhverju öðru, hvort það eru fleiri breytingar, það get ég ekki sagt, þetta kom fyrst í gær hingað til d., og ég efast um, að þm. þessarar hv. d. hafi haft tíma til þess að bera hverja gr. saman við þau lög, sem á að breyta. Það var auðvitað starf sjútvn. þessarar deildar að gera það. Hún átti að fara yfir frv., og hún átti að bera það saman við þau lög, sem á að breyta, og gefa sína skýrslu til hv. deildarmanna. En þetta var ekki gert, af því að það var ekki tími til þess, og það var nánast, að þessi nefndarfundur væri haldinn á hlaupum. Það er t.d. eitt ákvæðið hér um það, að söltunarfélögin á Norðurlandi og Austurlandi eigi að kjósa einn í síldarútvegsnefnd og Félag síldarsaltenda á Suðvesturlandi einn. Ég vil ekki segja á þessu stigi málsins, að þetta sé ósanngjarnt. Ég vil ekki segja, að saltendur eigi ekki að hafa nein ítök í rekstri síldarútvegsnefndar. En það kom réttilega fram hér hjá hv. 11. landsk. þm. (GJóh), að um langan aldur hafa saltendur haft áhrif á gang mála í síldarútvegsnefnd. Hann benti á, og ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að endurtaka það hér, því að það voru orðnir svo fáir þm. hér í húsinu, er hann talaði, að af 10 aðalmönnum og varamönnum síldarútvegsnefndar, eins og hún er nú skipuð, hafa hvorki fleiri né færri en 8 menn af þessum 10 afskipti af síldarsöltun norðan-, austan- og sunnanlands. Frá því að síldarútvegsnefnd var kjörin fyrst 1935, hafa alltaf verið í nefndinni menn, sem hafa gætt hagsmuna síldarsaltenda.

Þá vil ég einnig benda á og spyrja stuðningsmenn þessa frv. um það: Hvernig hugsa þeir sér framkvæmd þessara laga, ef það skyldi nú koma fyrir, sem maður hefur heyrt minnzt á að gæti komið fyrir, að saltendur á Austurlandi stofnuðu sérstakt félag síldarsaltenda þar og yrðu ekki lengur í félagi með Norðlendingum? Á þá enn að breyta lögunum um síldarútvegsnefnd? Nei, ég held, að það rétta í þessu sé það, að endurskoðun á lögum um síldarútvegsnefnd fari fram. En það má ekki vera neitt flaustursverk, eins og ég óttast að verði. Því má ekki samþ. nú það frv., sem fyrir liggur. Það, sem þarf að ske, er það, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því nú á milli þinga, að þessi mál verði endurskoðuð og fyrir hinu nýja þingi, sem kemur saman í haust, liggi frv. um þetta mál, byggt á nákvæmum athugunum og samstarfi fulltrúa frá síldarútvegsnefnd, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusambandinu og síldarsaltendafélögunum.

Ég lýk svo máli mínu í trausti þess, að sá endir verði á þessu máli hér í deildinni, að till. efnislega á þá leið, sem ég hef hér lýst, verði samþ. að lokum.