28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (1801)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef í þetta sinn kvatt mér hljóðs til þess að gera grein fyrir nál. á þskj. 704 frá minni hl. sjútvn., hv. 4. þm. Austf. og mér, sem lagt hefur verið fram, síðan ég tók til máls á fundi í dag um þetta mál, en þegar ég talaði þá, hafði minni hl. n. ekki lagt fram nál. Ég gerði satt að segja ráð fyrir því, þegar ég talaði í dag, að ekki mundi þurfa til þess að koma, að minni hl. þyrfti að gefa út þetta nál., á það mundi verða fallizt að taka þetta mál til nánari athugunar á milli þinga, og mig furðar nokkuð á því, að slík áherzla skuli vera lögð á þetta mál — og nú, að því er helzt virðist, af hæstv. ríkisstj., sem raunar stóð ekki að flutningi þessa frv., svo að vitað væri, — að nú skuli vera haldið áfram fundi í deildinni um hánótt að loknum útvarpsumr. til þess að ræða þetta mál. Mér virðist hér gæta meira kapps í málafylgju af hálfu þeirra, er að þessu frv. standa, heldur en málsefni virðast gefa tilefni til.

Eins og ég gat um í dag og raunar hefur verið lýst af öðrum, bar þetta mál þannig að, að það var flutt af nokkrum þingmönnum í hv. Ed. um miðjan febrúarmánuð. Ég ætla, að frumvarpinu hafi verið útbýtt í Ed. 15. febrúar. Tveim dögum síðar var því vísað til hv. sjútvn. þeirrar d. Síðan liggur frv. hjá nefndinni í meira en mánuð. Og af því bárust þær fréttir, að bæði ég og aðrir höfðu fulla ástæðu til að ætla, að ekki væri áhugi fyrir því að afgreiða málið á þessu þingi. Svo gerist það fyrir örfáum dögum, að meiri hl. nefndarinnar í Ed., sem er raunar flutningsmenn málsins, tekur sig til og afgreiðir meirihlutaálit um málið, og minni hl. gaf þá einnig út sitt álit. Nú rétt fyrir helgina var svo málið afgreitt frá hv. Ed. En mörgum að óvörum er þetta mál svo tekið til meðferðar hér í hv. Nd. í gær, og þá loks virtist það komið fram, að a.m.k. verulegur áhugi væri fyrir því að afgreiða málið, er aðeins tveir dagar voru til ráðgerðra þingslita.

Ég hef áður skýrt frá meðferð málsins í hv. sjútvn. þessarar deildar, sem var í rauninni engin önnur en sú, að málið var tekið til meðferðar og um það rætt aðeins stutta stund, ekki lesnar umsagnir þær, sem hv. sjútvn. Ed. höfðu borizt um málið, frv. ekki borið saman við gildandi lög. En það kom fram, að hv. meiri hl. vildi afgreiða málið. Við, sem að áliti minni hl. stöndum, tókum það þá fram, að við værum ekki reiðubúnir til þess að afgreiða málið að svo stöddu. En þegar sýnt þótti síðari hluta dags í dag, að umr. ætti að halda áfram a.m.k., og líklegt sýndist, að stefnt væri að því að afgreiða málið a.m.k. í bili, þá ákváðum við að gefa út þetta minnihlutanál.

Í grg. fyrir frv., eins og það var flutt í Ed., segir, að frv. feli í sér nokkrar breytingar á skipun síldarútvegsnefndar og enn fremur séu í frv. nokkrar aðrar breytingar. Um þessar breytingar segir í grg., að telja verði rétt að gera þær og að þær séu um þau atriði í lögunum, sem séu löngu úrelt og samrýmist ekki framkvæmd þeirra. Einn af ræðumönnum hér í dag las þessa grg. í heilu lagi, og tók það ekki langan tíma, því að hún er mjög stutt. Í henni er engin grein gerð fyrir breytingum á einstökum gr. laganna og ekki rökstudd þau ummæli, sem höfð eru um þau atriði í lögunum, sem talin er ástæða til að breyta.

Ég vil leyfa mér að benda á, að þó að það hafi verið látið í veðri vaka af sumum, að ákvæðið um að fjölga mönnum í síldarútvegsnefnd um tvo væri í raun og veru eina breytingin á lögunum, þá er hér um fleiri breytingar að ræða, enda beinlínis fram tekið í grg., og að sjálfsögðu er skylt að upplýsa þetta. Ég vil nefna það t.d., að samkv. gildandi lögum hafa síldarútvegsmenn rétt til að tilnefna einn mann í síldarútvegsnefnd. Þetta ákvæði hefur verið framkvæmt þannig, að atvmrn. hefur látið gera skrá um þá aðila, sem gert hafa út skip á síld, og sú skrá hefur verið notuð sem kjörskrá við kosningu á þessum fulltrúa síldarútvegsmanna. Þannig hefur þetta gengið um langan tíma, — ég ætla allan þann tíma, sem lögin hafa verið í gildi, því að allan þann tíma hefur þetta ákvæði verið í lögunum, — og ég veit ekki annað en þessi framkvæmd hafi gengið sæmilega greiðlega. Nú er gert ráð fyrir því í frv., að þessi fulltrúi, sem hér er um að ræða, verði eftirleiðis tilnefndur af stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Vera má, að full rök séu fyrir því að breyta þessu á þennan hátt. En hér er þó a.m.k. um breytingu að ræða, sem ástæða er til þess að vekja athygli á, og það vil ég nú segja, að það er ekki alveg sama, hvort fulltrúi í n. er tilnefndur af þeim mönnum eingöngu, sem gera út skip á síld, eða hann er tilnefndur af L.Í.Ú. Í L.Í.Ú. er fjöldi útvegsmanna og annarra útgerðaraðila, sem gera ekki út skip á síld. Ég ætla, að tala þeirra skipa, sem gerð hafa verið út á síld undanfarin ár, hafi verið í kringum hálft þriðja hundrað, stundum nokkru færri, stundum heldur fleiri. En fiskiskipatalan er miklu hærri, eins og allir vita, sem kunnugir eru þessum málum, þannig að í L.Í.Ú. eru mjög margir, sem gera ekki út skip á síld að sjálfsögðu. Og mér er ekki kunnugt um, að innan L.Í.Ú. sé nein sérstök síldveiðideild. Innan sambandsins er sérstök deild fyrir togaraútgerð og önnur fyrir almenna bátaútgerð, en það er engin sérstök síldveiðimannadeild í landssambandinu, þannig að landssambandið hefur ekki aðstöðu til þess að leita til slíkrar deildar varðandi útnefninguna. Hér er sem sé um breytingu að ræða, sem hefur ekki verið mikið rætt um, en ég tel rétt að skýra frá og skýra nokkuð, hvað í henni felst.

Ég get líka nefnt það, að sú breyt. er í þessu frv., að í stað þess að í lögunum er gert ráð fyrir, að störf síldarútvegsnefndar taki til allrar útflutningssíldar, hvernig sem hún er verkuð, þá er í þessu frv. aðeins gert ráð fyrir, að síldarútvegsnefnd hafi afskipti af saltsíldinni og saltsíldarútflutningnum. Hér er líka um breytingu að ræða frá því, sem er ákveðið í lögunum.

Enn fremur er sú breyting gerð á lögunum með þessu frv., að þar er eiginlega afnumin sú aðstaða, sem síldarútvegsnefnd er fengin í lögunum til þess að hafa eftirlit með sjálfum síldveiðunum og yfirlit um það, hve mörg skip séu á síldveiðum. Það má vel vera, að þetta ákvæði teljist ekki lengur nauðsynlegt og kannske eitt af því, sem flutningsmenn telja úrelt. En eigi að síður er hér um breyt. að ræða, og í fljótu bragði virðist manni ekki óeðlilegt, að síldarútvegsnefnd hafi a.m.k. yfirlit og nákvæma skýrslu um það á hverjum tíma, hvað mikill hluti af fiskiflotanum er á síldveiðum, hvort sem er á sumarsíldveiðum fyrir norðan og austan land eða síldveiðum hér syðra.

Ég drep á þessar breytingar, sem gert er ráð fyrir í frv., til þess að gera það skiljanlegt, að þetta frv. fjallar um ýmis atriði til breytinga, en ekki aðeins um eitt atriði, eins og stundum hefur mátt skilja á mönnum, sem um þetta ræða.

Við, sem stöndum að áliti minni hl., teljum það eðlilegasta meðferð þessa máls, að stofnað verði nú til endurskoðunar á lögunum um síldarútvegsnefnd. Við teljum það miklu vænlegra til góðs árangurs og líklegra til þess að skapa heppilegar og varanlegar umbætur á lögunum, að slík endurskoðun fari fram, auðvitað að tilhlutun ríkisstj. og í samráði við þá aðila, sem hér eiga einkum hlut að máli, heldur en að nú sé hrapað að því hér á næturfundi í hv. d. eftir mjög litla athugun að afgreiða sem lög þetta frv., sem flutt er af nokkrum þm. í hv. Ed. og ekki var í öndverðu gleggri grein gerð fyrir af þeirra hálfu en ég hef lýst. Sú grg., sem frv. fylgdi, ber sannarlega ekki vott um það, að nein endurskoðun hafi farið fram í þessu máli, enda þess raunar ekki að vænta, þar sem enginn opinber aðili hefur að þessu frv. staðið eða flutningi þess. Og ég verð að segja það, að mér finnst það beinlínis hlálegt, ef hv. þm. hugsa sér það að afgreiða nú slíkar breytingar á þessum lögum án þess svo mikið sem að ræða við þann aðila, sem hefur haft með framkvæmd laganna að gera í 26 ár. Ég held, að slíkt megi telja fádæmi í þingsögunni, að farið sé með mál á þennan hátt, ef verið er að breyta löggjöf, sem búin er að vera í gildi í marga áratugi og hefur verið undir umsjá einhverrar sérstakrar stofnunar allan tímann, að það sé ekki einu sinni rætt við þessa stofnun um fyrirhugaðar breytingar. Það mun að vísu vera svo, að síldarútvegsnefnd hafi á sínum tíma verið sent frv. til umsagnar frá sjútvn. Ed. ásamt ýmsum fleiri aðilum. Mér hefur verið tjáð það. En jafnframt hefur mér verið tjáð það, — og það hefur reyndar komið fram í ræðum manna, — að síldarútvegsnefnd hafi verið látin skilja það, henni hafi verið tjáð það beinlínis og það af sjálfum formanni sjútvn. Ed., — það hefur verið sagt ómótmælt, að ég ætla, hér í báðum deildum, — að það væri ekki líklegt, að þetta mál yrði afgreitt, og þá er það vitanlega mjög svo skiljanlegt, þó að síldarútvegsnefnd, sem er skipuð mönnum, sem sennilega eiga ekki allir heima á sama stað, hafi ekki gert sér mjög mikið ómak til þess eða fyrirhöfn að afgreiða þessa umsögn. Það mun líka vera svo, að þegar sjútvn. Ed. tók málið til afgreiðslu, höfðu ekki nema einir tveir af fimm eða sex aðilum, sem sent var frv. til umsagnar, svarað umsagnarbeiðnunum, og sýnir þetta raunar ásamt fleiru, að almennt var ekki gert ráð fyrir því, að málið yrði afgreitt.

Ég hef ekki í þessari ræðu eða í ræðu minni í dag gert að umræðuefni réttmæti þeirra breytinga, sem frv. fer fram á að gerðar verði, og mín orð ber ekki að skilja svo, að ég sé að lýsa yfir því, að ég mundi vera öllum þessum breytingum mótfallinn, þegar þær væru búnar að fá hæfilega meðferð. En ég álít og við minnihlutamenn í nefndinni, að meðferð málsins sé óheppileg og að það leiði ekki til neins góðs að ætla sér að breyta þýðingarmikilli löggjöf, sem staðið hefur um langan tíma, á þennan hátt, og það að knýja fram afgreiðslu nú undir þessum kringumstæðum, í stað þess að fallast á endurskoðun, sé að sækja mál meira af kappi en forsjá. En með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, og með tilvísun til nál. á þskj. 704 leggur minni hl. til, að málið sé nú afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 74 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“