28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefði verið æskilegt, ef einhverjir af hæstv. ráðherrum væru í húsinu, að þeir væru viðstaddir, því að það er nauðsynlegt, hvernig sem um þetta mál fer, að þeir fylgist ofurlítið með því, sem er að gerast í sambandi við þetta mál.

Þetta frumvarp, sem hér liggur fyrir, var tekið til 2. umr. í Ed. á föstudag. Það var afgreitt þar umræðulaust við 3. umr. á laugardag. Það var tekið fyrir hér á mánudag til 1. umr. og fór umræðulaust til nefndar. Og nú, þegar komin er miðvikudagsnótt, þá sitjum við hér enn þá yfir 2. umr. þessa máls. Það er sjaldan, nema um allra þýðingarmestu stjórnarfrumvörp sé að ræða, að svona hraði er hafður á máli. Og ég verð að segja það, að mér sýnist hv. flm. þessa máls, hv. 4. þm. Vesturl., Jón Árnason, vera orðinn furðu voldugur maður hér í þingi, ef hann getur farið að knýja hér fram mál, en jafnvel sjálfur hæstv. fjmrh. varð að gefast upp við að knýja í gegn fyrir jólin í vetur mál, sem hann vildi knýja fram í gegnum þessa deild, samþykkt á ríkisreikningnum.

Hvað er það raunverulega, sem þarna er um að ræða, að þetta skuli vera sótt af svona ofurkappi? Áðan var notað það orð af einum hv. þm., að hér væri um eins konar innbrot í síldarútvegsnefnd að ræða, — og stundum höfum við verið að tala um innbrot í bankana í sambandi við aðrar aðferðir, — og mér sýnist næstum því það vera eitthvað af því taginu, sem hérna sé að gerast. Og ég held, að aðferðirnar, sem hafi verið notaðar til þess að fá þingmenn stjórnarliðsins inn á þetta mál, séu þannig, að þær beinlínis þurfi nokkurrar rannsóknar við. Hæstv. forsrh. var hér á fundinum áðan, og ég hefði gjarnan viljað, að hann hefði verið hér aftur nú. Hann upplýsti það nefnilega, að þetta mál byggðist á skoðanafrelsi innan Sjálfstfl. Ég hef satt að segja rannsakað þetta nokkuð, síðan hæstv. forsrh. gaf þessar yfirlýsingar, og vildi nú gjarnan, að einhver þm. eða starfsmanna þingsins kæmi þeim boðum til ráðh., að það væri mjög vel séð, að þeir litu hér inn. Ég er búinn ofurlítið að athuga þetta mál, og ég sé, að það er mjög fjarri lagi, að þetta sé rétt hjá hæstv. forsrh., þótt hann ætti nú að þekkja til í Sjálfstfl., þar sem hann er formaður. Ég hef þvert á móti orðið var við, að meðal þm. Sjálfstfl. og það í þessari deild eru þingmenn, sem eru á móti þessu frv., þannig að það byggist alls ekki á skoðanafrelsi í Sjálfstfl., heldur á skoðanakúgun í Sjálfstfl., að verið er að reyna að setja þetta mál í gegn. Og ég hef líka verið ofur lítið að reyna að grafast fyrir um, hvað það sé, sem þarna býr á bak við og hvernig standi á því, að menn, sem eru á móti þessu máli, skuli jafnvel láta hafa sig til þess að greiða atkv. með því, og mér sýnist það vera það, að úr þeim hópi síldarsaltenda í landinu, sem samkv. 4. gr. núgildandi laga mundu hafa rétt til þess, ef þeir hefðu yfirráð yfir 75% af síldarframleiðslunni, að mynda sérstakt félag, sem fengi umráð yfir þeim útflutningi, hafi verið hafðar uppi hótanir um myndun slíkra samtaka. Hins vegar held ég, að slíkar hótanir hafi ekkert raunverulegt vald á bak við sig. Ég held, að það séu ekki til neinir 75% síldarframleiðenda á landinu, sem mundu standa saman um slíkt. En ég hef orðið var við það hjá öðrum þm. en Sjálfstfl.-þm., að einhverjar slíkar hótanir virðast hafa áhrif á þá. Ég held þess vegna, að það sé fjarri lagi, að hér sé eitthvert skoðanafrelsi stjórnarflokkanna á ferðinni, hér sé þvert á móti á ferðinni skoðanakúgun innan stjórnarflokkanna og hótanir, sem þó ekki hafi við neitt raunverulegt vald að styðjast, þannig að það sé beinlínis verið að beygja þm., sem ýmist eru á móti þessu máli eða hafa engan áhuga fyrir því, til þess að fallast á þetta.

Svo eru gefnar rangar upplýsingar í sambandi við þetta mál. Því hefur verið haldið hér fram, að saltendur í landinu væru með þessu máli. Það er nú upplýst og liggur þegar fyrir og lá fyrir í Ed., að það er algerlega rangt. Enn fremur stendur í grg. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður að teljast óeðlilegt, að framleiðendur, sem eiga ef til vill mest undir framkvæmd nefndarinnar komið, hafi ekki aðstöðu til þess að taka virkan þátt í sölumeðferðinni og gæta hagsmuna sinna.“ Og enn fremur er sagt rétt á undan: „Með því fyrirkomulagi, sem nú er um skipun nefndarmanna, er það hending ein, sem ræður því, hvort nokkur síldarsaltandi á sæti í nefndinni.“

Nú er búið að upplýsa það í þessum umr. einmitt af manni, sem sjálfur situr sem varamaður og starfar sem varamaður í síldarútvegsnefnd, að það er hvorki meira né minna en yfirgnæfandi meiri hluti af öllum þeim, sem í síldarútvegsnefnd sitja, sem eru saltendur, þannig að sjálf rökin, sem færð eru fram í grg., sem lögð er fram í Ed., fyrir þessu máli, reynast alveg röng. Það er talað um, að það ráði því tilviljun ein, hvort það sé nokkur síldarsaltandi í nefndinni. En tilviljunin er bókstaflega sú, að það eru raunverulega 3 eða 4 af aðalmönnunum saltendur og 4 af varamönnunum, þannig að allt, sem flutt er fram sem aðalatriði í grg., reynist vera algerlega rangt. Það er satt að segja með ósvífnasta móti að leggja fram þingmannafrumvarp með greinargerð, sem síðan sýnir sig að styðjast við algerlega rangar upplýsingar. Ég verð að segja, að þegar þetta upplýsist nú við 2. umr. í þessari deild, að málin standi svona, þá ætti sannarlega að vera ástæða fyrir stjórnarliðið til þess að endurskoða sina afstöðu.

Í þessari sömu grg. er enn fremur látið á því bera, að þetta sé gert fyrst og fremst til þess að tryggja síldarsaltendum aðild að nefndinni. Það er ekki minnzt á, að það sé nein önnur breyting, sem þarna er. Hins vegar kemur það strax í ljós, að í 1. og 2. gr. er önnur breyting, sem er gerð frá núverandi lögum. Það er sú breyting, að nú á að vera einn maður kosinn af síldarútvegsmönnum eftir reglum, sem atvmrh. setur. Það eru sem sé síldveiðendurnir, sem hafa rétt til þess að kjósa einn mann. Þessi réttur er tekinn af þeim með þessu lagafrumvarpi, sem hér liggur fyrir, og yfirfærður til L.Í Ú. Hvernig stendur nú á því, að þetta skuli gert? L.Í.Ú. er atvinnurekendasamband í landinu, samband manna, sem bæði eru síldveiðendur og almennir þorskveiðendur, og það eru engar ákvarðanir þarna um, hvort eigi að kjósa með sérstakri atkvæðagreiðslu t.d. þeirra, sem hafa með síldveiði að gera, eða hvort jafnvel bara stjórnin eigi að útnefna þennan mann.

Og hvernig stendur nú á því, að hv. 4. þm. Vesturl., Jón Árnason, skuli alveg sérstaklega bera þetta fram og beita sér fyrir þessu? Ég er hræddur um, að hann og þm. Sjálfstfl. þykist hafa þarna alveg sérstakra hagsmuna að gæta, með almennum kosningum séu þeir engan veginn öruggir um að ráða þeim manni, sem þarna sé kosinn. Með því að LÍÚ-klíkan aftur á móti stjórni þessu, þá þykjast þeir náttúrlega geta ráðið þessu. Ég held þess vegna, að þarna sé um að ræða tilraun til þess að sölsa úr höndum síldarútvegsmanna vald, sem þeir hafa haft frá byrjun, og færa það í hendur stjórnar L.Í.Ú.

Ég vil vekja athygli á því, hvers konar breytingar á með þessu móti að gera á þessu máli. Þegar þetta mál var upphaflega lagt fyrir á Alþingi 1934, var það lagt fyrir þannig, að það voru síldveiðendur, sem áttu að kjósa svo að segja alla mennina, það voru fyrst og fremst síldveiðendur, sem áttu að fá þennan rétt. Þessu var breytt nokkuð í meðferðinni. En sá aðili, sem átti ekki að fá nein áhrif þar, það voru síldarsaltendur. Það átti sem sé að setja þetta einmitt með tilliti til hagsmuna síldarútvegsmanna og til hagsmuna síldarsjómanna. Sá maður, sem alveg sérstaklega barðist þá fyrir þessu máli hér á Alþingi, var Finnur heitinn Jónsson, og af hálfu Alþýðuflokks- og Framsóknarflokksstjórnarinnar, stjórnar þeirra vinnandi stétta, eins og hún þá var kölluð, sem þá sat að völdum, var það hann fyrst og fremst, sem háði baráttuna fyrir þessu máli. Allt íhaldið á Alþingi stóð á móti þessu máli þá. Þess vegna var ég nú í dag að inna svo mjög eftir frelsissöngnum frá hálfu Sjálfstfl. og vildi fá hann hérna fram, að það sýndi sig, að frelsið í þessum málum hafði farið algerlega um koll á þriðja áratug aldarinnar, ekki aðeins í síldinni, heldur líka á öllum öðrum sviðum, einkaframtakið svokallaða varð gjaldþrota og fékk svo rothöggið í kreppunni 1930. Þess vegna var ég að lýsa eftir því í dag; einmitt sérstaklega við hæstv. forsrh., hvernig stæði nú á því, þegar þeir væru hér með brtt. við þetta gamla frv. og ætluðu að fara að umbylta því, að þeir kæmu ekki með allt sitt frelsi inn í þetta.

Einkaauðvaldið í þessu varð gjaldþrota, á áratugnum 1920–30, eins og einkaauðvald á fleiri sviðum, og síldarútvegsnefnd var sköpuð til þess að reyna að bjarga þjóðinni út úr þeim vandræðum, sem þá voru.

En hver er þróunin, sem nú er að gerast í þessu sambandi? Ríkisvaldið var þá notað sem það tæki, sem væri í höndum fólksins, til þess að ná þessu valdi og drepa þetta brask einkaatvinnurekendanna og tryggja, að þetta væri rekið í þjóðarþágu. Það var tilgangurinn með síldarútvegsnefnd, þegar hún var sett. Fyrir því var barizt, og fyrir því barðist Alþfl. hér á þingi þá líka, einmitt faðir núverandi formanns sjútvn. þessarar deildar, 5. þm. Vestf.

Hvað er aftur á móti það, sem nú er að gerast yfirleitt með þeim till., sem nú liggja fyrir til breytingar á þessu? Það, sem er að gerast, er það, að einkaauðvaldið vill fá að taka þetta ríkisvald í sínar hendur til þess að beita því í sína þágu. Því ríkisvaldi, sem alþýðan vildi beita fyrir tæpum 30 árum til þess að ná þessum völdum úr höndum einkabraskaranna og reka þetta að einhverju leyti fyrir almenning, á nú að beita til þess að gefa lítilli einokunarklíku valdið yfir ríkinu og valdið yfir ríkisvaldinu. Þetta er hættan, sem þarna er á ferð.

Hvað þýðir þetta meðal annars? Þetta þýðir það, að þegar saltendurnir eru komnir þarna inn í, þá eru það þeir samkv. 4. gr. laganna, sem eiga að löggilda sjálfa sig. Það eru þeir, sem eiga að löggilda síldarútflytjendurna og ákveða þeirra sölu. Og þegar saltendurnir væru orðnir 6 af 7 í þessari síldarútvegsnefnd, þá sér maður, hvernig er komið með misnotkun ríkisvaldsins, eða að minnsta kosti 5 af 7 í síldarútvegsnefnd. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði þar komið minni ræðu, þar sem ég sýndi fram á, að með þeirri breytingu, sem gerð er á 1. gr. frv., svo framarlega sem fulltrúum saltendanna er hleypt þarna inn í til viðbótar við þá 3–4, sem fyrir eru, þá verða það saltendurnir, sem eiga að löggilda sjálfa sig og ráða því sjálfir, hve margir séu saltendur á landinu, og hafði sýnt fram á, hvílík misnotkun þetta yrði á ríkisvaldinu, þegar búið væri að flytja svo að segja þetta ríkisvald í hendur saltendanna, fulltrúar ríkisvaldsins sjálfs, Alþingis, væru orðnir í minni hluta í þessari stjórn, en saltendurnir bókstaflega í yfirgnæfandi meiri hluta, og hvernig þetta væri algerlega í mótsetningu við allt það, sem var meiningin, þegar síldarútvegsnefnd upphaflega var sett.

Ég hafði furðað mig á því, hvernig aðalflm. þessa frv., hv. 4. þm. Vesturl., hafði haft aðstöðu til þess að knýja þetta mál svona fram. Ég hef áður deilt nokkuð á hann í sambandi við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þar sem hann mun vera líka í stjórn, og ég er ekki laus við grunsemdir um, að það, sem fyrir honum vakir með baráttunni fyrir þessu frv., sé að komast sjálfur að sem einn saltandinn í viðbót í stjórn síldarútvegsnefndar frá því saltendafélagi, sem yrði hér sunnanlands, og mér sýnist satt að segja alveg óþarfi, að vald ríkisins færist í hendur á einstökum bröskurum, ekki sízt þegar þetta eru kannske þar að auki menn, sem eru meira eða minna gjaldþrota. Og þá er það farið að verða nokkuð hættulegt vald, sem ríkið er farið að leggja í hendurnar á slíkum mönnum, þegar farið er að gera svona ráðstafanir eins og nú eru gerðar og lagt er til með þessu frv. Það var upplýst við umr. um þetta mál í Ed., að þessi sami hv. þm., 4. þm. Vesturl., sem er formaður sjútvn. Ed., hafi sagt við Gunnar Flóvenz skrifstofustjóra síldarútvegsnefndar í votta viðurvist, að hann áliti, að málið mundi ekki ná fram að ganga. Þeir höfðu verið að tala saman viðvíkjandi því, að málið hafði verið sent til umsagnar síldarútvegsnefndar, og hefði verið rætt um, hvort síldarútvegsnefnd mundi senda nokkra umsögn um málið. Það var borið á þennan þm. einmitt við umr. í Ed., að hann hefði sagt þetta, og hann reyndi ekki að bera það af sér. Ég segi þetta til þess, að það sé alveg ljóst, að við stjórnarandstæðingar, sem höfum barizt á móti þessu frv., vorum í góðri trú, þegar við álitum, að þetta frv. ætti ekki að ná fram að ganga á þessu þingi, það væri alls ekki meiningin. Við vorum þess vegna í góðri trú, þegar við meira að segja hleyptum því í gegn umræðulaust hér við 1. umr. þessa máls. Og ég verð að segja, að þegar svona aðferðir eru við hafðar, þá hlýtur maður að spyrja: Hvað er þarna á seyði, hvaða ráð er þarna verið að brugga?

Ég spurði svo nokkuð að því í dag, hvernig stæði um þá samninga, sem síldarútvegsnefnd hefði gert, hvernig stæði með samningana við Sovétríkin, hve miklu þeim hefði verið raunverulega heitið, hvort það hefðu komið fram kvartanir frá fulltrúum sovétstjórnarinnar hér í þessu sambandi og hvernig liti út með samningana, sem ætti að gera. Ég kom fram með þessar kröfur vegna þess, að ég hef orðið var við það, að það er mjög harðvítugur áróður fyrir að brjóta niður þessi viðskipti nú, ekki sízt í Morgunblaðinu, og ég álít, að það sé ekki nema eðlilegt, að við okkur, jafnt úr stjórnarandstöðunni sem aðra, sem höfum tekið þátt í því að reyna að byggja þessi viðskipti upp, sé rætt alvarlega, áður en ráðstafanir eru gerðar, sem breyta m.a. einmitt stjórninni á þeim fyrirtækjum ríkisins, eins og síldarútvegsnefnd, sem hafa höfuðábyrgðina í þessu máli. Þess vegna álít ég, að það hafi verið ákaflega mikil ógæfa, að þetta mál hefur verið sótt með því ofurkappi, sem gert hefur verið. Ég mun hins vegar ekki lengja mál mitt frekar um þetta mál. Ég hef sagt í ræðu, sem ég hélt í dag og aftur nú, höfuðatriðin í því, sem ég vildi vara við. En það vil ég vona, hvernig sem þessu máli reiðir af nú, að hæstv. ríkisstj. sýni það, að hún vilji hafa nokkru meira samstarf við stjórnarandstöðuna, þegar svona mál eru afgr., heldur en nú hefur verið gert.